Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Oregano kjúklingaréttur með perlukúskús


Þegar ég bjó í Svíþjóð verslaði ég alltaf í ICA matvöruversluninni. Ohh, hvað ég sakna þess, vöruúrvalið var svo mikið! Hér þarf maður alltaf að fara í nokkrar verslanir til að fá þær vörur sem mann vantar og margt fæst alls ekki. Ísland hefur þó lambakjötið og sérstaklega fiskinn fram yfir Svíþjóð. En aftur að ICA! Verslunin sendi vikulega viðskiptavinum sínum heim tímarit um mat. Þar var meðal annars dálkur þar sem nokkrar fjölskyldur prófuðu tvær uppskriftir og gáfu álit sitt á þeim. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska allskonar dóma, einkunnir og gagnrýni! 🙂 Ég myndi til dæmis aldrei fara á hótel eða veitingastað sem ekki fær góða gagnrýni og háa einkunn frá gestunum! Allavega, þessi þáttur í blaðinu var í uppáhaldi hjá mér, ég klippti samviskusamlega út allar uppskriftir sem féllu fjölskyldunum vel í geð og setti í uppskriftabókina mína. Ég held að þessi kjúklingauppskrift sé mín uppáhalds úr þessum hópi uppskrifta.

Það sem mér finnst ótrúlegast og best við þessa uppskrift er hvað það þarf fá hráefni til að skapa ljúfengan rétt. Svo er þetta líka fljótlagaður og einfaldur réttur.

Í upphaflegu uppskriftinni eru hvorki sveppir né gulrætur en ég bæti þeim við. Eins er mælt með í uppskriftinni að hafa ofnsteika kartöflubáta sem meðlæti en mér finnst mikið betra að hafa hrísgrjón eða kúskús, þá nýtist bragðgóða sósan mikið betur. Hér notaði ég perlukúskús í fyrsta sinn (fæst í Hagkaup og í versluninni Tyrkneskur bazar). Það sló alveg í gegn, sérstaklega hjá krökkunum, ég mun nota það oftar. Það getur verið erfitt að fá ferskt oregano (bergmyntu). Ég kíki eiginlega alltaf eftir því í verslunarferðum og ef það er til, þá laga ég þennan rétt um kvöldið! Verið óhrædd að nota mikið af bergmyntunni, dragið laufin af stilknum og fínhakkið.

Uppskrift

  • 5 kjúklingabringur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 msk smjör og 1 msk. ólífuolía
  • 500 ml. matargerðarjómi
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • Nokkrar greinar af fersku Oregano (bergmyntu)
  • 1 1/2-2 msk. balsamic edik
  • Sveppir og gulrætur eftir smekk
  • Salt og pipar

Aðferð

  1. Skerið hverja kjúklingabringu á lengdina í þrjá bita. Hakkið hvítlaukinn smátt. Skerið sveppi og gulrætur í bita. Hakkið oregano smátt (dragið blöðin af stilknum), í upprunalega uppskriftinni er talað um 3 matskeiðar af fersku oregano en mér finnst gott að nota mikið meira af því.
  2. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar (ég krydda auðvitað líka með uppáhalds kjúklingakryddinu mínu, Best á allt frá Pottagöldrum!) og steikið upp úr smjörinu og ólífuolíunni þar til kjúklingurinn hefur náð smá lit. Bætið þá út í hvítlauk, sveppum og gulrótum og steikið í 2-3 mínútur í viðbót.
  3. Bætið út í rjóma, kjúklingakrafti, oregano og balsamic edik. Látið sjóða í 5-8 mínútur (undir loki ef þið eigið það til á pönnuna) eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til sósuna og bætið við salti, pipar eða jafnvel oregano kryddi við þörfum. Ef ég á ferska steinselju og/eða basiliku þá bæti ég því stundum í sósuna. Ef mér finnst of lítið af sósu drýgi ég hana með smá mjólk. Einnig er hægt að nota sósujafnara ef maður vill hafa sósuna þykkari.
  4. Berið fram með perlukúskús (eða hrísgrjónum) og salati eftir smekk.