Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Kjúklingabringur fylltar með döðlum, beikoni og fetaosti


IMG_1246

Ég tók í mig fyrir nokkru að mig langaði svo mikið í einhverskonar kjúklingarétt með döðlum og beikoni. Síðan þá hef ég prófað mig áfram með nokkrar útgáfur. Til dæmis pófaði ég að vefja slíkri fyllingu upp í úrbeinuðum kjúklingalærum ásamt fleiri tilraunum. Það var ekki fyrr en að mér datt í hug að bæta við fetaosti og lauki við blönduna og setja hana inn í vasa á kjúklingabringu að mér fannst rétturinn smella saman. Satt best að segja finnst mér þetta einn besti kjúklingaréttur sem ég hef fengið lengi og vona að ég sé ekki ein um það! 🙂 Mér finnst alveg nauðsynlegt að hafa sætkartöflumúsina og fetaosta- og hvítlaukssósuna með réttinum, það setur punktinn yfir i-ið.

IMG_1254

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði Rose Poultry)
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 200 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Djúpur vasi er skorinn í kjúklingabringurnar og þess gætt að þær séu ekki gataðar. Bringurnar eru svo kryddaðar með salti, pipar og chiliflögum. Fyrir þá sem vilja er hægt að snöggsteikja bringurnar, ca. 1 mínútu á hvorri hlið á þessum tímapunkti, til þess að þær fái steikingarhúð.

Beikon er steikt á pönnu og þegar það nálgast að verða stökkt er lauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3-4 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Helmingurinn af blöndunni er tekinn af pönnunni, skipt á milli kjúklingabringanna og vasarnir á þeim fylltir. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki og paprikukryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni hellt í botninn á eldföstu móti og kjúklingabringunum raðað ofan á. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með sætkartöflumús og fetaosta- og hvítlaukssósu.

Fetaosta- og hvítlaukssósa:

  • 70 g fetaosturinn (restin af fetaostakubbinum)
  • 1 dós sýrður rjómi 18% (180 g)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllum hráefnunum er blandað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél og smakkað til með salti og pipar.

IMG_1252IMG_1258

Teriyaki kjúklingur frá Eldum rétt


IMG_4312Enn ein helgin er liðin. Núna líður senn að fermingu hjá Vilhjálmi mínum og það er að mörgu að huga. Ég er enn ekki alveg búin að ákveða hvað ég mun bjóða upp á í fermingunni, núna er ég að einbeita mér að boðskortunum, fötunum og slíku.

Í gærkvöldi vorum við með matarboð og ég hægeldaði nautalund. Við gæddum okkur á afgöngunum núna í kvöld, kjötið var lungnamjúkt og gómsætt, alveg finnst mér nauðsynlegt að gæða mér á góðri nautasteik öðru hvoru! Teriyaki kjúklingur frá Eldum réttEldum rétt“ vikunni lauk hjá okkur fyrir helgi og ég þarf að huga að hversdagsmatnum aftur sjálf – lúxusinn er búinn! 🙂 Síðasti rétturinn í hjá Eldum rétt í síðustu viku var ofureinfaldur og ljúffengur Teriyaki kjúklingur. Það var sniðugt í uppskriftinni að hrísgrjónin voru steikt á pönnunni eftir að rétturinn var tekinn af henni. Þannig fengu þau gott bragð og skemmtilega áferð.

IMG_4321

Uppskrift f. 4: 

  • 700 g kjúklingalundir
  • olía
  • salt & pipar
  • 4 dl hrísgrjón
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í grófa strimla
  • 1 -2 paprikur, skornar í grófa strimla
  • 60 g strengjabaunir, skornar í tvennt
  • 2 laukar, skornir í grófa strimla
  • ca. 2,5 dl Teriyaki sósa

IMG_4309Hrísgrjón eru sett í pott ásamt 8 dl af vatni og smá salti bætt við. Soðið í 12-15 mínútur þar til nánast allt vatn er gufað upp. Þá eru hrísgrjónin tekin af hitanum og látin standa í 3-4 mínútur með lokinu á. Að lokum eru þau skoluð með köldu vatni og lögð til hliðar.

Grænmetið er steikt á pönnu, byrjað á gulrótunum í 1-2 mínútur og svo restinni af grænmetinu bætt út á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur þar til grænmetið fer að brúnast. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður. Þá er gert pláss á pönnunni (ef pannan er lítil er grænmetið tekið af á meðan) og kjúklingalundirnar steiktar þar til þær hafa brúnast á öllum hliðum. Að lokum er teriyaki sósunni bætt út á pönnuna með kjúklingnum og grænmetinu og látið krauma í 3-4 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.  Rétturinn er settur á fat en hrísgrjónunum bætt út á sömu pönnu (án þess að hún sé þvegin á milli) og þau steikt í 2-3 mínútur til viðbótar. Borið fram með því að setja hrísgrjónin á disk og teriyakikjúklinginn ofan á.

IMG_4320

Kjúklinga „stir fry“ með kasjúhnetum


Kjúklinga "stir fry" með kasjúhnetumEnn ein helgin flogin hjá. Ég ætla að gera svo mikið um helgar en ég held að ég sé alltaf að misreikna hversu langar þær eru í raun og veru. Ég afrekaði þó ýmislegt skemmtilegt þessa helgina. Hún byrjaði með frábærri vasaljósagöngu seinnipartinn á föstudag þar sem bekkjarfélagar Jóhönnu Ingu ásamt foreldrum fóru upp á Vatnsenda í myrkrinu með vasaljós og krakkarnir leituðu að földum endurskinsmerkjum, drukku heitt kakó og borðuðu piparkökur. Um kvöldið þjófstörtuðum við aðventunni með jólamynd. Við fjölskyldan höfum þá hefð að horfa saman á jólabíómynd á föstudagskvöldum yfir aðventuna.

Aldrei þessu vant var Elfar í helgarfríi og í gær fórum í miðbæinn með krakkana og upplifðum jólastemmninguna þar. Ég var mjög spennt að komast í ráðhúsið á bókamessuna og skoða allar nýju barnabækurnar fyrir bókasafnið mitt. Jóhanna Inga var ekkert lítið glöð að hitta þar fyrir Gunnar Helgason og fá hjá honum áritað eintak af Rangstæður í Reykjavík. Þó svo að hún hafi engan áhuga á fótbolta þá finnst henni þessar bækur frábærar og hún hefur hlustað á hljóðbókina af Aukaspyrnu á Akureyri örugglega meira en tíu sinnum! Um kvöldið fór ég með vinkonum út að borða á Vegamót og svo sáum við leiksýninguna Hús Bernhörðu Ölbu.  Í dag fórum við í notalegt kaffiboð til ömmu og afa þar sem við fengum pönnukökurnar hennar ömmu, mæli með þeim! Sem sagt, margt skemmtilegt brallað um helgina á milli hefðbundnu heimilisverkanna.

Helginni var lokið með sérlega góðum kjúklingarétti. Mér finnst voðalega gott að fá mér svona „stir fry“ rétti á asískum stöðum með kjúklingi, fullt af grænmeti og kasjúhnetum. Í kvöld ákvað ég að reyna að búa til eigin útgáfu af slíkum rétti og mér fannst takast afar vel til. Fjölskyldan var voðalega ánægð með þennan rétt og lofaði hann bak og fyrir. Enn og aftur sannast að það þarf ekki að vera flókið að búa til holla, einfalda og ljúffenga rétti. Ég mæli með því að þið prófið þessa uppskrift við fyrsta tækifæri! 🙂

Uppskrift f. ca. 4-5

  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði frystar frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 rauður chili, kjarnhreinsað og saxað smátt
  • 1 stór eða 2 litlir laukar, skornir í sneiðar
  • 1 meðalstór haus brokkolí, skorið í bita
  • 1 meðalstór haus blómkál, skorið í bita
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur, skornar í sneiðar
  • 150 g kasjúhnetur
  • 1.5 dl hoisinsósa
  • 1 tsk fiskisósa
  • 1.5 dl vatn
  • salt & pipar
  • chili flögur (má sleppa)

Kasjúhneturnar eru ristaðar á heitri og þurri pönnu þar til þær fá lit og þær lagðar til hliðar. Kjúklingur er skorinn í bita. Góð sletta af ólífuolíu er sett á pönnu og hitað. Þá er chili og hvítlauk bætt út á pönnuna í stutta stund. IMG_1520 Því næst er kjúklingnum bætt við og hann steiktur í 3-4 mínútur, saltað og piprað.

IMG_1529 Svo er öllu grænmetinu bætt út á pönnuna (olíu bætt við ef þarf) og steikt þar til grænmetið fer að mýkjast, hrært í reglulega. Þá er hoisinsósu, fiskisósu og vatni bætt út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur. Að lokum er ristuðu kasjúhnetunum bætt út í réttinn. IMG_1536Ef maður vill hafa réttinn sterkari er hægt að krydda hann aukalega með chiliflögum. Borið fram með hrísgrjónum eða núðlum. Njótið!

IMG_1553

Rósmarínkjúklingur með parmaskinku


Rósmarínkjúklingur með parmaskinku

Það er langt síðan að ég hef sett inn uppskrift að hefðbundum mat. Mikið hefur borið á eftirréttum og kökum hér á síðunni upp á síðkastið þannig að nú er komið að hollum og dásamlega góðum kjúklingarétti. Þó svo að ekki hafi borið mikið á kjúklingi hér á Eldhússögum undanfarnar vikur þá hef ég samt eldað kjúklingarétt hér um bil daglega í allt sumar. Ég hef grillað, steikt og bakað kjúkling – eldað meðal annars indverska, ítalska og asíska kjúklingarétti og gefið hugmyndafluginu lausan tauminn. Gert sama kjúklingaréttinn aftur og aftur, með smá tilfærslum, til þess að ná réttinum eins fullkomnum og völ er á. Það má með sanni segja að yngri börnin á heimilinu séu orðin leið á kjúklingi en við Elfar og stóru krakkarnir erum alltaf jafn hrifin, ég held að ég geti aldrei fengið leið á kjúklingi! Afraksturinn af þessu öllu mun birtast á öðrum vettvangi en á blogginu mínu seinna í haust og ég hlakka mikið til.

IMG_1733

Þessi kjúklingaréttur er ákaflega bragðmikill og góður. Maríneraður hvítlaukur sem er svo bakaður í ofni verður ákaflega bragðgóður og lyftir kjúklingnum upp á næsta bragðstig. Yngstu krakkarnir voru reyndar ekkert yfir sig hrifin en við fullorðna fólkið nutum þessa réttar til hins ýtrasta með glasi af góðu rauðvíni í hönd.

Uppskrift: 

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði 1 poka af frystum úrbeinuðum kjúklingalærum frá Rose Poultry)
  • 1 bréf parmaskinka
  • ca. 12 stykki marineruð hvítlauksrif í olíu (koma í krukku frá Paradiso)
  • 1 knippi ferskt rósmarín
  • 1 knippi fersk salvía
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 dl balsamedik
  • flögusalt (ég notaði rósmarín flögusalt frá Falkberg)
  • grófmalaður svartpipar

IMG_1709

 Ofn hitaður í 180 gráður. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti og pipar. Ein lítil grein af salvíu og ein lítil grein af rósmarín er lögð inn í hvert læri og lærið hálfvafið utan um kyddjurtirnar. Því næst er parmaskinku vafið utan um kjúklinginn. Kjúklingurinn eru lagður í eldfast mót. Þá er ólífuolíunni og balsamedik blandað saman. Ég notaði dálítið af olíunni sem hvítlaukurinn lá í á móti ólífuolíunni. Blöndunni er dreift yfir kjúklinginn og því næst er hvítlauknum dreift yfir. Hitað í ofni við 180 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.
IMG_1734
Athugið að þegar kjúklingsins er neytt þá eru kryddjurtirnar teknar frá.

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Kjúklingur í osta- og tómatsósu


IMG_8389Kjúklingur er eitt af mínum uppáhaldshráefnum. Það er svo ótrúlega margt gott hægt að gera úr kjúklingi. Um daginn bjó ég til þennan rétt, Cacciatore kjúklingarétt, sem við vorum öll svo hrifin af. Núna gerði ég aðra útfærslu af svipuðum rétti. Að þessu sinni var papriku bætt út í tómatsósuna ásamt fersku chili. Auk þess er í réttinum ostasósa sem fór ákaflega vel með heimatilbúnu tómatsósunni. Þetta er einfaldur og ljúffengur réttur.

Uppskrift:

  • 800 g kjúklingabringur
  • kjúklingakrydd
  • smjör og/eða olía til steikningar

Tómatsósa:

  • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
  • 3 msk tómatpúrra
  • ½ gul paprika eða 1 lítil
  • ½ rauð paprika eða 1 lítil
  • ½ rautt chili, ferskt
  • 3 hvítlauksrif
  • salt & pipar

Ostasósa:

  • 1 msk smjör
  • 1 msk hveiti
  • 3 dl mjólk
  • 50 g rifinn ostur (bragðmikill)
  • salt & pipar

Að auki:

  • 2 st skarlottulaukar, saxaðir fínt
  • 1-2 dl kasjúhnetur (má sleppa)
  • 30 g fersk basilika, söxuð gróft

IMG_8382

Ofninn stilltur á 225 gráður undir/yfir hita.

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi. Þá er hann snöggsteiktur á pönnu í stutta stund (ekki eldaður í gegn heldur bara látinn taka smá lit). Kjúklingurinn er svo settur í eldfast mót, pannan er ekki þvegin. Því næst er paprikan skorin í bita, chili er fræhreinsað og saxað auk þess sem hvítlaukurinn er saxaður. Allt er sett í matvinnsluvél ásamt tómötunum og keyrt í ca. 10 sekúndur. Þá er tómatsósunni hellt á pönnuna sem kjúklingurinn var steiktur á og henni leyft að malla á meðalhita í ca. 10 mínútur. Í lok tímans er 2/3 af basilikunni bætt út í tómatsósuna.

Á meðan tómatsósan mallar er ostasósan búin til. Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts. Osti bætt út í og allt hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með salti og pipar.

Þá er tómatsósunni hellt yfir kjúklingabitana og svo er ostasósunni hellt yfir tómatsósuna. Að lokum er skarlottulauknum og kasjúhnetunum dreift yfir réttinn. Hitað í ofni við 220 gráður í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Restinni af basilikunni dreift yfir réttinn og hann borinn fram með til dæmis hrísgrjónum, kúskúsi eða pasta og fersku salati.

IMG_8384