Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529