Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269

Límónu/chili kjúklingur með sætum kartöfluteningum og kóríander-kúskúsi


IMG_8586
Ég þarf að taka mig á í skipulaginu. Ég er með myndir og minningar af góðum réttum og kökum sem ég hef útbúið nýlega en ég finn ekki uppskriftirnar! Til dæmis fann ég eina góða kjúklingauppskrift á netinu um daginn, breytti henni heilmikið á meðan ég útbjó réttinn og fannst sjálfsagt að ég myndi hvaða breytingar ég gerði. Núna horfi ég á myndirnar, finn ekki upprunalegu uppskriftina (man ekki einu sinni á hvaða tungumáli hún var) og því síður man ég hvaða breytingar ég gerði! Ég var hins vegar sem betur fer svo forsjál að skrifa niður hvað ég gerði þegar ég eldaði þennan gómsæta kjúklingarétt. Eins og svo oft áður þá laumaði ég sætum kartöflum og kóríander í réttinn, það er bara svo gott! 🙂 Það er ekki óalgengt að fólk líki illa við kóríander, nokkuð sem mér finnst óskiljanlegt! Kóríander gerir flestan mat að hátíðarmat hjá mínum bragðlaukum. En fyrir anti-kóríander fólk þá get ég glatt þá hina sömu með að það verður ekkert afgerandi kóríanderbragð af kúskúsinu, bara gott bragð! Elfari til dæmis líkar ekkert sérlega vel við kóríander en fannst þó þessi réttur afar góður. Það er líka hægt að skipta kóríanderinu út fyrir aðra kryddjurt líkt og basiliku eða blaðasteinselju.
IMG_8575
Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla (ca. 300 g)
  • gott kjúklingakrydd
  • salt & pipar
  • 1 msk ólífuolía
  • 6 msk sojasósa
  • 4 msk sykur
  • 1/2 – 1 tsk chili krydd
  • 1 límóna (lime), safinn
  • börkurinn af 1 límónu, finrifinn
  • ferskur kóríander (má sleppa)

Kjúklingurinn er skorinn í bita og kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Sæta kartaflan er skræld og skorin í litla teninga Því næst er hvor tveggja steikt á pönnu í olíunni þar til kjúklingurinn er ekki bleikur lengur og sætu kartöflurnar hér um bil tilbúnar. Þá er kjúklingurinn og kartöflurnar veiddar af pönnunni og lagt til hliðar.
Sojasósu, sykri, chili, límónusafa og límónuberki er hrært saman þar til sykurinn leysist upp. Þá er blöndunni hellt í pott og suðan látin koma upp. Sósan látin malla í 3-4 mínútur þar til hún hefur soðið dálítið niður. Þá er kjúklingnum og sætu kartöflunum bætt út í sósuna og leyft að malla í sósunni í nokkrar mínútur, hrært á meðan til þess að sósan blandist vel við og gefi kjúkling og kartöflum góðan gljáa. Áður en rétturinn er borinn fram er gott að dreifa fersku kóríander yfir hann. Borið fram með kóríander-kúskúsi.

Kóríander-kúskús
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 250 g kúskús
  • 30 g ferskt kóríander, saxað
Til þess að útbúa kjúklingasoð er vatn og kjúklingakraftur sett í pott og suðan látin koma upp. Þá er kúskúsi bætt út og potturinn tekinn af hitanum. Látið standa í ca. 5 mínútur. Þá er kóríander blandað út í kúskúsið (hrært vel) og borið fram með kjúklingaréttinum.
IMG_8573

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Sesamkjúklingur með ristuðum kartöflum


SesamkjúklingurÉg veit ekki hvort nokkur hefur áhuga á hversdagslegri kjúklingauppskrift eftir snickerskökuna ógurlegu! 🙂 Sú kaka var svo vinsæl að aðsóknarmet var slegið á Eldhússögur í gær, 13 þúsund manns komu í heimsókn á einum degi sem er óraunverulega margt fólk! Ekki nóg með það heldur hefur uppskriftinni verið deilt svo mikið á Facebook að það sjást engar deilingatölur lengur, bara „1K+“! Ég hef aldrei komist upp í 1K áður fyrir neina uppskrift en það eru meira en 1000 deilingar. Sem betur fer stendur kakan undir þessum væntingum því góð var hún! Þó svo að þetta matarblogg sé fyrst og fremst fyrir sjálfa mig þá verð ég að viðurkenna að það er ákaflega gaman að bloggið nái til svona margra. Ég eflist við hvert „like“, deilingu, komment og hrós og það hvetur mig áfram til að gera enn betur í eldhúsinu. Takk fyrir stuðninginn ykkar kæru lesendur! 🙂

En uppskrift dagsins er ákaflega góður og einfaldur sesamkjúklingur og kartöflur sem allir í fjölskyldunni borðuðu með bestu lyst. Ég notaði rósapiparsósu með réttinum en eftir á hyggja þá held ég að fersk köld sósa hefði verið enn betri. Næst ætla ég að hafa þennan kjúkling með tzatziki sósu eða jafnvel gulrótar-tzatziki sósu sem væri örugglega eðalgóð með kjúklingnum.

Uppskrift:

  • 800 gr kjúklingabringur
  • 
1 egg, hrært
  • 
1 1/2 dl brauðmylsna
  • ca 100 g sesamfræ
  • salt & svartur grófmalaður pipar
  • 
smjör og eða ólífuolía

Brauðmylsnu, sesamfræum, salti og pipar er blandað saman. kjúklingabringurnar eru skornar í þrjá bita á lengdina. Hverjum bita er velt upp úr eggi fyrst og svo blöndunni með sesamfræjum og brauðmylsnu. Kjúklingabitarnir eru steiktir upp úr smjöri og/eða ólífuolíu á pönnu við meðalhita þar til þeir eru eldaðir í gegn. Bitunum er snúið reglulega.

IMG_8114

Ristaðar kartöflur:

  • kartöflur
  • brauðmylsna
  • ólífuolía
  • maldon salt

Kartöflurnar eru þvegnar vel og skornar í tvennt. Þeim er svo raðað á ofnplötu, penslaðar vel með ólífuolíu, dálítið af brauðmylsnu er dreift yfir þær ásamt salti. Bakaðar í ofni við 225 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

IMG_8124

Rósapiparsósa

  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 msk smjör
  • 1/2 msk rósapipar, mulinn
  • 400 ml kjúklingasoð
  • 2-3 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • salt & pipar
  • sósujafnari

Smjörið brætt í potti og laukurinn steiktur þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er restinni af hráefnunum bætt út. Suðan látin koma upp, sósujafnara bætt út og sósunni leyft að malla í ca. 10 mínútur. Sósan er sigtuð áður en hún er borin fram.

IMG_8123

Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti


Í dag birtist þessi uppskrift í helgarblaði Fréttablaðsins, Lífið. Það var ekki pláss til að setja inn myndir af þessum gómsæta rétti í blaðið þannig að ég ætla að setja inn uppskriftina og myndir hér á bloggið. Ég prófaði þetta lasagna í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum en er búin að elda það allavega þrisvar síðan! Krakkarnir eru sólgnir í þetta lasagna og okkur Elfari finnst það líka æðislegt. Ég eldaði það um daginn fyrir stórfjölskylduna, 16 manns, og öllum fannst það frábærlega gott. Meira að segja Bára Margrét litla frænka sem er þriggja ára borðaði skammt á við fullorðinn! 🙂 Það er einmitt svo skemmtileg hvað yngstu krökkunum finnst þetta gott en þau þykjast samt ekki borða spínat og fetaost! Ef ég á ferskt kóríander og/eða steinselju set ég dálítið af því líka út í tómatsósuna ásamt basilikunni, hún verður bara enn betri þannig. En ef maður á ekki matvinnsluvél eða töfrasprota er vel hægt að nota maukaða tómatsósu („passerade tomater“) í staðinn og fínsaxa bara basiliku út í. Uppskrift f. 5-6 

  •  900 gr kjúklingabringur, skornar í litla bita
  •  ólífuolía til steikingar
  •  salt og pipar
  •  1 rauðlaukur, saxaður smátt
  •  2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  •  2 dósir niðursoðnir tómatar
  •  1 box fersk basilika (miðað við boxin frá Náttúru sem eru 30 gr.)
  •  2 tsk þurrkuð basilika (krydd)
  • chili krydd (ég nota Chili explosion frá Santa Maria)
  •  150-200 gr ferskt spínat
  •  150-200 gr fetaostskubbur
  •  lasagnaplötur
  •  rifinn ostur

Ostasósa:

  • 40 gr smjör
  •  4 msk hveiti
  •  ca 5-6 dl mjólk
  •  2 dl rifinn ostur (líka mjög gott að nota rifinn piparost)
  •  múskat
  •  pipar

Bakarofn stilltur á 220 gráður. Tómötum í dós og ferskri basiliku blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til tómatsósan verður slétt og kekklaus. Kjúklingur steiktur upp úr olíu á pönnu og kryddaður með pipar og salti (athugið að fetaosturinn í uppskriftinni er fremur saltur). Rauðlauk og hvítlauk bætt út á pönnuna og steikt með kjúklingnum í nokkrar mínútur til viðbótar. Tómatsósunni er því næst hellt út á pönnuna og kryddað með basiliku kryddinu og chili kryddinu og smakkað til.

Ostasósa: smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við þar til sósan er hæfilega þykk, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar. Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti og því næst er lasagna plötum raðað yfir ostasósuna. Þá er kjúklingasósa sett yfir lasagnaplöturnar og ofan á hana er dreift spínati og að auki er muldum fetaosti stráð yfir. Þetta er gert í tvær eða þrjár umferðir, endað á ostasósu og loks er rifnum osti dreift yfir. Bakað við 220 gráður í ca. 20-25 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.