Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Límónukjúklingur með sætum kartöflum


IMG_8492

Ég er veik fyrir kjúklingi og ég er veik fyrir sætum kartöflum. Best finnst mér þegar þessi tvö hráefni eru tvinnuð saman! Þessi kjúklingaréttur með sætum kartöflum er ekki bara ljúffengur heldur líka einstaklega fjlótlegur og einfaldur að útbúa. Ég bjó þennan rétt til í fyrrakvöld en sjálf átti ég að vera mætt á námskeið hjá SAMFOK á kvöldmatartíma þannig að ég rétt náði að henda réttinum inn í ofn áður en ég rauk út. Ég vonaði innilega að fjölskyldan myndi ekki klára matinn! Mér varð að ósk minni og gat hitað mér upp afganginn í hádeginu daginn eftir, dásamlega gott! Ég skildi Elfar og Ósk eftir með það verkefni að taka myndir af matnum. Þau voru nú ekkert himinlifandi með það verkefni og voru áhyggjufull yfir því að ég myndi ekki vera sátt við myndirnar. Elfar tók verkið að sér, vandaði sig mikið við að raða matnum fallega á diskinn og tók þessar fínu myndir! Ég kannski fer að láta hann um myndartökuna öðru hvoru svo það sé ekki alltaf ég sem fæ kaldan mat vegna matar-myndartökunnar! 🙂

Uppskrift.

  • 1 kíló kjúklingabringur
  • 1 msk smjör
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd
  • 1 1/2 – 2 límónur (lime), safi og börkur
  • ca 500 g sætar kartöflur
  • 4 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskt engifer, fínrifið
  • 1/2 tsk cayenne pipar (meira fyrir þá sem vilja sterkari rétt)

IMG_8466

Ofninn stilltur á 225 gráður, undir- og yfirhita. Kjúklingabringurnar skornar í meðalstóra bita,  kryddaðar með salti, pipar og kjúklingakryddi. Kjúklingabitarnir eru því næst steiktir á pönnu upp úr smjöri þar til þeir hafa tekið dálítinn lit en eru ekki steiktir í gegn. Þá eru þeir lagðir í eldfast mót og límónusafanum hellt fyrir bitana. Sætu kartöflurnar eru afhýddar og rifnar með fremu grófu rifjárni. Börkurinn af límónunum er rifinn fínt og honum blandað saman við rifnu sætu kartöflurnar, rifið engifer, sýrðan rjóma og cayenne pipar auk salts. Sætu kartöflublöndunni er dreift yfir kjúklingabitana og rétturinn eldaður í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

IMG_8501

Kjúklingalasagna með spínati og fetaosti


Í dag birtist þessi uppskrift í helgarblaði Fréttablaðsins, Lífið. Það var ekki pláss til að setja inn myndir af þessum gómsæta rétti í blaðið þannig að ég ætla að setja inn uppskriftina og myndir hér á bloggið. Ég prófaði þetta lasagna í fyrsta sinn fyrir tveimur vikum en er búin að elda það allavega þrisvar síðan! Krakkarnir eru sólgnir í þetta lasagna og okkur Elfari finnst það líka æðislegt. Ég eldaði það um daginn fyrir stórfjölskylduna, 16 manns, og öllum fannst það frábærlega gott. Meira að segja Bára Margrét litla frænka sem er þriggja ára borðaði skammt á við fullorðinn! 🙂 Það er einmitt svo skemmtileg hvað yngstu krökkunum finnst þetta gott en þau þykjast samt ekki borða spínat og fetaost! Ef ég á ferskt kóríander og/eða steinselju set ég dálítið af því líka út í tómatsósuna ásamt basilikunni, hún verður bara enn betri þannig. En ef maður á ekki matvinnsluvél eða töfrasprota er vel hægt að nota maukaða tómatsósu („passerade tomater“) í staðinn og fínsaxa bara basiliku út í. Uppskrift f. 5-6 

  •  900 gr kjúklingabringur, skornar í litla bita
  •  ólífuolía til steikingar
  •  salt og pipar
  •  1 rauðlaukur, saxaður smátt
  •  2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  •  2 dósir niðursoðnir tómatar
  •  1 box fersk basilika (miðað við boxin frá Náttúru sem eru 30 gr.)
  •  2 tsk þurrkuð basilika (krydd)
  • chili krydd (ég nota Chili explosion frá Santa Maria)
  •  150-200 gr ferskt spínat
  •  150-200 gr fetaostskubbur
  •  lasagnaplötur
  •  rifinn ostur

Ostasósa:

  • 40 gr smjör
  •  4 msk hveiti
  •  ca 5-6 dl mjólk
  •  2 dl rifinn ostur (líka mjög gott að nota rifinn piparost)
  •  múskat
  •  pipar

Bakarofn stilltur á 220 gráður. Tómötum í dós og ferskri basiliku blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þar til tómatsósan verður slétt og kekklaus. Kjúklingur steiktur upp úr olíu á pönnu og kryddaður með pipar og salti (athugið að fetaosturinn í uppskriftinni er fremur saltur). Rauðlauk og hvítlauk bætt út á pönnuna og steikt með kjúklingnum í nokkrar mínútur til viðbótar. Tómatsósunni er því næst hellt út á pönnuna og kryddað með basiliku kryddinu og chili kryddinu og smakkað til.

Ostasósa: smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við þar til sósan er hæfilega þykk, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar. Fyrst er ostasósa sett á botninn á smurðu eldföstu móti og því næst er lasagna plötum raðað yfir ostasósuna. Þá er kjúklingasósa sett yfir lasagnaplöturnar og ofan á hana er dreift spínati og að auki er muldum fetaosti stráð yfir. Þetta er gert í tvær eða þrjár umferðir, endað á ostasósu og loks er rifnum osti dreift yfir. Bakað við 220 gráður í ca. 20-25 mínútur. Borið fram með góðu brauði og salati.