
Um daginn hitti ég frábæru vinkonur mínar í „sænska saumaklúbbnum“ – við erum reyndar alíslenskar en kynntumst hins vegar í Stokkhólmi. Ein þeirra var með lítið veski sem ég kolféll fyrir. Ég var ekki í rónni fyrr en ég eignaðist samskonar veski og það er ekki oft sem slíkt gerist, ég er nefnilega hvorki sérstaklega kaupglöð né tískumeðvituð! 🙂 Veskið er ekki bara ofboðslega fallegt heldur ákaflega praktískt. Það geymir, auk korta og peninga, Iphone símann. Samt er það einungis á stærð við lítið peningaveski. Ég settist sama kvöld við tölvuna og pantaði eitt slíkt veski frá Bandaríkjunum. Næstu daga vantaði mig tilfinnanlega mikið þetta veski, ég skildi hreinlega ekkert í því hvernig ég hafði komist af án þess fram að þessu! Skyndilega lá það í augum uppi að sameinað seðla- og símaveski var hverri konu lífsnauðsynlegt! Ég er svo lánsöm að eiga dásamlega vinkonu sem býr í Bandaríkjunum. Hún gat tekið á móti veskinu mínu og komið því til mín. Ég bíð reyndar alltaf eftir því að téð vinkona mín byrji að matarblogga sjálf, hún er nefnilega ekki bara einstaklega skemmtilegur penni heldur líka frábær kokkur. Henni hefur brugðið fyrir í blogginu mínu hér og hér. Í dag barst mér veskið mitt í hendur en það var ekki nóg með það, Ragga vinkona sendi mér frábær áhöld í eldhúsið, alltaf svo hugulsöm þessi elska! 🙂
Ég fékk þessa frábæru töng! Ef þið hafið ekki notað tangir enn í eldhúsinu þá eruð þið að missa af miklu, þær eru svo góð áhöld til að nota við steikingar. Ég átti bara eina töng fyrir sem var orðin léleg þannig að þessi var kærkomin viðbót.

Svo fékk ég þessa stórsniðugu könnu undir salatdressingu. Í henni er sveif sem blandar saman dressingunni. Það er allt svo sniðugt í henni Ameríkunni! 🙂 Takk elsku Ragga mín!

Hér er svo veskið mitt dásamlega! Ég var með smá valkvíða varðandi litinn. Kristín vinkona hafði keypt sér ofsalega fallegt kóralrautt veski, en það var uppselt. Mig langaði ekki í svart og var næstum því búin að kaupa mér fallega turkish blátt. En svo sá ég þetta silfurlitaða og fannst það æðislegt, passar við allt en er samt meira spennandi en svart.


En ef ég vík að uppskrift dagsins þá útbjó ég einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

Uppskrift:
- 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
- 2 paprikur, skornar í bita
- 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
- 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
- ca. 150 g sveppir, niðurskornir
- smjör til steikingar
- 3 msk karrí
- 1 msk paprikukrydd
- 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
- 2 dl sýrður rjómi
- 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
- 2 msk sojasósa
- salt & pipar
Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Líkar við:
Líka við Hleð...