Ofnbakaður kjúklingur í dijon- og basilíkusósu


IMG_1338

Einn helsti kosturinn við að matreiða kjúkling er hversu fjölbreytta rétti er hægt að gera úr honum. Ég prófaði að gera þennan rétt um daginn og fannst hann frábærlega góður. Dijon sinnep ásamt hvítlauki gefur svo góðan grunn í sósu og basilíka og sólþurrkaðir tómatar fara afar vel saman við kjúkling. Útkoman varð kjúklingaréttur sem mér fannst vera hnossgæti, endilega prófið! 🙂

IMG_1330

Uppskrift:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (ég notaði frá Rose Poultry)
  • ólífuolía til steikingar
  • 4-6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, blöðin söxuð smátt
  • 3-4 msk dijon sinnep
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • flögusalt og grófmalaður svartur pipar
  • rifinn ostur

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin snyrt ef með þarf og krydduð með salti og pipar. Ólífuolía og olía frá sólþurrkuðu tómötunum sett á pönnu og kjúklingurinn steiktur í stutta stund eða þar til hann hefur tekið smá lit. Þá er hann settur í eldfast mót og sólþurrkuðum tómötunum dreift yfir ásamt grófsaxaðri basilíku. Sýrðum rjóma, rjóma, dijon sinnepi, hvítlauki, salti og pipar blandað saman í skál og hellt yfir kjúklinginn. Að lokum er rifnum osti dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskús ásamt salati.

IMG_1334IMG_1340

Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni


IMG_8668Síðastliðnum dögum, eiginlega vikum, hef ég eytt fyrir framan tölvuna við að finna hús á leigu í Toskana á Ítalíu. Minn elskulegi eiginmaður á stórafmæli í júní og við ákváðum að vera ekki með neina veislu af því tilefni, heldur fara með börnin okkar fjögur og tengdadóttur til Toskana og láta þar með gamlan Ítalíu-draum rætast. Það er óhætt að segja að ég taki svona skiplagningu fyrir sumarfrí af mikilli festu og alvöru. Mér finnst mjög mikilvægt að velja rétta húsið fyrir fjölskylduna og ég held að ég geti fullyrt að eftir þessa leitartörn sé ég farin að þekkja Toskana eins og handarbakið á mér og öll þau ótal hús sem þar eru í boði! 🙂 Mér finnst „örfá“ *hóst, hóst* atriði afar mikilvæg: Að húsið hafi nægilega mörg svefnherbergi þannig að allir fái sitt eigið athvarf: Að það sé sundlaug. Að húsið sé hlýlegt að innan (sum hús í Toskana eru aðeins of „rustic“ að innan fyrir minn smekk) og með góðri aðstöðu í eldhúsinu. Að það sé góð aðstaða í garðinum með nægilega mörgum og góðum húsgögnum (nenni ekki að sitja á lélegum plaststólum eða að sólbekkirnir dugi ekki fyrir alla). Að það sé pizzu-eldofn úti, ekki skilyrði en svo sannarlega kostur. Að það sé dásamlegt útsýni frá húsinu. Að eigendurnir leggi greinilega rækt við húsið, garð og gesti sína. Það var ekki ósjaldan sem ég sá dóma gesta um hús þar sem þeir lýstu frábærum húseigendum sem færðu þeim ólífuolíu, grænmeti og ávexti úr garði sínum og jafnvel voru með kennslu í ítalskri matargerð – hljómar svo dásamlega! Síðast en ekki síst þarf allt þetta að vera á viðráðanlegu verði en leiguverð á húsum í Toskana eru ótrúlega misjöfn. Til að gera langa sögu stutta og eftir leit á netinu sem jafngildir örugglega hátt í vinnuviku þá erum við að fara að baka pizzur í þessum dásamlega eldofni í sumar:

10868226_355078474663195_398201459447046442_n

Svamla í þessari sundlaug á daginn:

c5og sitjum hér með drykk í hönd og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Toskana á kvöldin:

483318_141976005973444_1940797105_n

Maður minn hvað það verður mikið borðað af góðum ítalskum mat og honum skolað niður með ljúffengum vínum úr nærliggjandi héruðum! 🙂

En að uppskrift dagsins. Ég gerði svo góðan kjúklingarétt í vikunni sem mig langar að halda til haga hér á síðunni. Í þessum rétti er bæði rjómi og feitur sýrður rjómi og ég veit að það eru margir sem forðast slíkt í matargerð, vilja nota matreiðslurjóma eða aðrar fitulitlar mjólkurvörur. Ég er hins vegar inn á sömu línu og Læknirinn í eldhúsinu. Þetta skrifar hann frábærri matreiðslubók sem kom út fyrir jólin þegar hann skýrir út af hverju hann notar smjör og rjóma í eldamennskunni: „Samband milli fitu og sjúkdóma er með öllu ósannað og meint tengsli eru úr lausu lofti gripin. Fita orsakar ekki offitu, sykursýki, háþrýsting eða hjarta- og æðasjúkdóma. Því fer meira að segja fjarri. Og mettuð fita er líka hættulaus. Þessi þráhyggja um að fita, mettuð sem ómettuð, orsaki sjúkdóma hefur sennilega þvert á móti átt stóran þátt í því að orskaka þann stórkostlega faraldur offitu og sykursýki sem nú blasir við. Með því að fjarlægja fitu úr matnum tökum við burtu það sem gefur honum góða bragðið og fyllinguna. Í stað fitunnar setjum við svo ýmislegt sem við ættum að borða sem minnst af, eins og sykur og allskonar sykurafleiður, auk ótal gerviefna sem betra væri að vera laus við!“ Amen! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja

IMG_8664

Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_8672

 

Beikonvafin kjúklingalæri fyllt með mozzarella og basiliku


Beikonvafinn mozzarella og basiliku kjúklingur Það þarf vart annað en að lesa nafnið á þessari uppskrift til þess að vita að hún sé góðgæti! Kjúklingaréttir sem í er mozzarella og fersk basilika geta hreinlega ekki klikkað og þegar beikon hefur bæst í hópinn þá er dýrðin innsigluð! Einföld og bragðgóð sósan kórónar þennan dásemdar kjúklingarétt. Það er svo þægilegt og auðvelt að setja fyllingu í úrbeinuð kjúklingalæri enda tekur örskamma stund að útbúa þennan rétt fyrir ofninn.

IMG_6685

 Uppskrift f. 4

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • maldon salt
  • grófmalaður svartur pipar
  • 2 tsk þurrkuð basilika
  • 120 g mozzarella ostur (kúlan í bláu pokunum)
  • ca 15 g fersk basilika
  • 7 sneiðar beikon eða sem samsvarar fjölda kjúklingalæra
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 100 g Philadelphia hreinn rjómaostur
  • 1 dl vatn
  • 2 1/2 msk sojasósa

IMG_6675IMG_6679

Ofninn er stilltur á 225 gráður við undir- og yfirhita. Kjúklingalærin eru afþýdd og krydduð með salti, pipar og basiliku kryddi. Mozzarella osturinn er skorin í jafn margar sneiðar og kjúklingalærin segja til um. Ein sneið af mozzarella osti ásamt blöðum af basiliku eftir smekk eru lögð inn í hvert læri. Þeim er svo lokað með því að vefja beikonsneið utan um lærið. Þau eru því næst sett í eldfast mót með samskeitin niður. Sýrðum rjóma, rjómaosti, vatni og soyjasósu er hrært saman og hellt í formið. Bakað í ofni við 225 gráður í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn og beikonið hefur tekið góðan lit. Borið fram með hrísgrjónum eða kúskúsi og fersku salati.

IMG_6690Green gate matarstell frá Cup Company.

Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósu


Kjúklingasnitsel með parmesan- og dijonsósuÉg og yngstu börnin erum búin að vera veik síðan um helgina. Við fengum leiðindaflensu með hita, höfuðverk, beinverkjum og tilheyrandi. Í kvöld dröslaðist ég samt í eldhúsið og eldaði afskaplega einfaldan kjúklingarétt sem öllum í fjölskyldunni þykir ákaflega góður. Meira að segja veiki hluti fjöskyldunnar tók rösklega til matar síns þrátt fyrir heilsuleysið. Rétturinn sem ég gerði er einfölduð útgáfa af Cordon bleu kjúklingi. Eins og flestir vita þá er það einskonar snitsel þar sem kjúklingabringum er vafið utan um ost og skinku. Þeim er því næst velt upp úr raspi og þær svo djúpsteiktar eða bakaðar í ofni. Oftast nær er kjúlingurinn flattur út eða það er skorin vasi inn í bringurnar og hann fylltur með skinku og osti. Ég gerði afar einfalda útgáfu af réttinum sem er ofsalega fljótleg en mér finnst alveg jafngóð og þessi sem er tímafrekari. Sósan er æðislega góð og passar svo vel með kjúklingasnitselinu.

Uppskrift:

    • 5 þykkar kjúklingabringur
    • salt & pipar
    • ca. 20 sneiðar silkiskorin soðin skinka
    • ca. 15 – 20 ostsneiðar
    • 50 g smjör
    • 140 g brauðteningar

Ofn hitaður í 180 gráður. Eldfast mót smurt að innan. Kjúklingabringurnar skornar í tvennt langsum, þess gætt að hver bitarnir verði jafnþykkir, þannig að úr verði 10 bitar. Kjúklingurinn er saltaður og pipraður og raðað í eldfasta mótið. Hver bringa er þakin með skinku og þá osti.

IMG_3881IMG_3883 Brauðteningarnir eru muldir í matvinnsluvél, smjörið brætt og blandað saman við. Brauðmylsnunni er að lokum dreift yfir kjúklinginn. Sett í ofn í um það bil 30 mínútur við 180 gráður eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með parmesan- og dijonsósu.

IMG_3898

Sósa:
  • 3 msk smjör
  • 3 msk hveiti
  • ca. 5-600 ml mjólk
  • 1.5 tsk kjúklingakraftur
  • 1/2 tsk salt
  • 1.5 msk dijon sinnep
  • 75 g ferskur parmesan ostur, rifinn

Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Því næst er mjólkinni hellt rólega saman við og hrært án afláts. Kjúklingakrafti, salti, sinnepi og rifnum parmesan osti er bætt út í. Látið malla við vægan hita þar til osturinn er bráðnaður, hrært í á meðan. Ef sósan er of þunn er hún látin malla lengur, ef hún er of þykk þá er hún þynnt með meiri mjólk.

IMG_3889

Kjúklingapottréttur með karrí


Kjúklingapottréttur með karrí

Ég útbjó einfaldan en ákaflega góðan kjúklingarétt í gær sem mig langar að deila með ykkur. Kjúklingur í karrísósu klikkar jú aldrei en hér er sojasósu og appelsínusafa bætt við sem gefur sósunni einstaklega gott bragð.

IMG_0323

Uppskrift:

  • 600 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 2 paprikur, skornar í bita
  • 1-2 gulir laukar, skorinn í þunnar sneiðar
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • ca. 150 g sveppir, niðurskornir
  • smjör til steikingar
  • 3 msk karrí
  • 1 msk paprikukrydd
  • 4 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 2 msk ferskur appelsínusafi (ég notaði safa úr appelsínu)
  • 2 msk sojasósa
  • salt & pipar

Kjúklingurinn er skorin í bita og steiktur upp úr smjöri á pönnu þar til að kjúklingurinn er steiktur á öllum hliðum. Papriku, lauk, sveppum, hvítlauk, karrí og paprikukryddi er bætt út á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur til viðbótar. Þá er rjóma, sýrðum rjóma, appelsínusafa, sojasósu, pipar og salti (sojasósan er sölt, farið varlega með saltið) bætt út í. Látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

IMG_0327

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu


Kjúklingur með beikoni og sveppum í estragonsósu

„Mamma, hvað er í kvöldmatinn – er það kannski kjúklingur aftur?“ Þessi frasi hljómar oftar en ekki af vörum yngstu dóttur minnar. Henni finnst móðirin greinilega aðeins of hrifin af kjúklingi! Þó svo að henni sjálfri finnist kjúklingur ágætur þá vildi hún helst borða pasta með ostasósu í öll mál, kannski pizzu inn á milli! Reyndar þá finnst mér að blessað barnið hafi ekki mikla ástæðu til að kvarta. Ég hef sjaldan sama kjúklingaréttinn tvisvar og ein ástæða þess að kjúklingur verður oft fyrir valinu er einmitt sú að henni finnst fiskur afskaplega vondur. Sjálf myndi ég vilja hafa fisk nokkrum sinnum í viku en þar sem yngstu börnin fá fisk tvisvar í viku í skólanum þá fellur ekki vel í kramið að hafa fisk oft í viku heima við. Mér leiðist ægilega mikið að elda mat sem krakkarnir borða ekki og ég reyni því oftast að sníða matinn að þeirra smekk líka.

Kjúklingauppskriftir sem eru fljótlegar, með fáum hráefnum og einfaldar að útbúa eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kjúklingauppskrift er ein af þeim. Allir í fjölskyldunni voru stórhrifnir, meira að segja Jóhanna Inga, minn harðasti gagnrýnandi! 🙂 Sósan er dásamlega góð og að sama skapi einföld. Esdragon (fáfnisgras) er kryddjurt sem hefur áberandi bragð, þó ekki sterkt. Helst þekkjum við það sem kryddið sem notað er í bearnaisesósu en það er mikið notað í franskri matargerð. Í þessari uppskrift notaði ég þurrkað estragon,  það er í kryddformi, en það eru örugglega ákaflega gott að nota kryddjurtina ferska í staðinn. Þessi réttur smellpassar við LKL- mataræðið, það þarf bara að sleppa kúskúsinu sem ég bar það fram með.

IMG_9674Einföld, fá en afar góð hráefni.

Uppskrift:

  • 4 kjúklingabringur, skornar langsum í tvo hluta IMG_9677
  • 200 g beikon, skorið í bita
  • 250 sveppir, skornir í sneiðar
  • smjör eða olía til steikingar
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • 2-3 tsk estragon krydd
  • 2 hvítlauksrif, söxuð smátt eða pressuð
  • pipar og salt (varlega með saltið þvi fetaosturinn og beikonið er salt)
  • 5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • ca. 120 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu – svo er snilld að nýta restina af fetaostinum í þessa uppskrift! )

IMG_9682

Ofninn er stilltur á 225 gráður. Beikon steikt á pönnu þar til það hefur tekið góðan lit, þá er sveppunum bætt út á pönnuna ásamt nautakraftinum og steikt í nokkrar mínútur eða þar til beikonið er fremur stökkt og sveppirnir hafa náð góðri steikingarhúð. Í blálokin er hvítlauknum bætt við á pönnuna og hann steiktur með í örskamma stund. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna ásamt kryddinu, sósan látin malla í nokkrar mínútur. Á meðan eru kjúklingabringurnar skornar langsum í tvo hluta og þeim raðað í eldfast mót. Sósunni í hellt yfir kjúklinginn og fetaosturinn mulinn yfir. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og salati.

IMG_9691

Parmesan- og kryddjurtakjúklingur


Parmesan- og kryddjurtakjúklingur

Mér finnst svo dásamlegt að maí sé runninn upp. Maí og júní eru langbestu mánuðirnir á Íslandi með allri birtunni og gróðrinum sem fer að vakna úr dvala. Ég hlakka mikið til að hefja matjurtaræktunina mína en undanfarin ár hef ég ræktað allskonar salöt, gulrætur, kryddjurtir og fleira.

Einn af mínum uppáhalds kjúklingaréttunum hér á síðunni er ítalski parmesan kjúklingurinn. Ég ákvað að útfæra réttinn á nýjan hátt. Þessi útgáfa er aðeins tímafrekari en ítalski parmesan kjúklingurinn, en sá réttur er nú líka einstaklega fljótlegur. Ég hafði hugsað mér að nota kjúklingalundir því það er fljótlegt að steikja þær en fann þær hvergi. Ég endaði á því að nota kjúklingabringur sem ég skar í þrennt. Rétturinn kom rosalega vel út og er dásamlega ljúffengur. Parmesan ostur, rifinn ostur, ítölsk tómatsósa, brauðteningar og basilika – þetta eru hráefni sem geta bara ekki klikkað með kjúklingi!

IMG_9491

Uppskrift:

  • 1200 g kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • 100 g rifinn parmesan ostur
  • ca 2 dl rifinn mozzarella ostur
  • 1 poki brauðteningar með osti og lauk (142 gr)
  • ca 20 g fersk basilika, söxuð smátt
  • ca 20 g fersk steinselja, söxuð smátt
  • salt & pipar
  • 2 egg, pískuð saman með gaffli
  • ítölsk tómatsósa með basilku, ca. 6-700 g ((ég notaði sósu frá Franseco Rinaldi sem fæst í Krónunni)
  • smjör til steikingar

IMG_9461

Ofn hitaður í 200 gráður. Ef notaðar eru kjúklingabringur þá eru þær skornar í þrennt á lengdina. Eggin eru pískuð saman í skál. Brauðteningarnir eru muldir smátt í matvinnsluvél og þeim blandað saman við 1 dl af parmesan ostinum, basilikuna, steinseljuna, salt og pipar. Þá er kjúklingnum velt upp úr eggjablöndunni, síðan brauðteningablöndunni. Því næst er kjúklingurinn steiktur upp úr smjöri á pönnu, á öllum hliðum, við meðalháan hita þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er kjúklingnum raðað í eldfast mót, tómatsósunni helt yfir kjúklinginn og þá er restinni af parmesan ostinum dreift yfir sósuna ásamt rifna mozzarella ostinum. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Síðustu mínúturnar stillti ég á grill til þess að osturinn myndi brúnast vel.

IMG_9460

IMG_9464IMG_9469IMG_9479IMG_9483IMG_9490

Kjúklingur í papriku- og chilisósu


IMG_9280

Þá er kosningahelgin liðin. Frá því að við fluttum til Íslands fyrir bráðum fimm árum hafa verið ansi margar kosningar hér á landi. Þó svo að ég hafi ekki mikinn áhuga á stjórnmálum þá er nú alltaf dálítil stemmning að kjósa. Annars áttum við afar notalega helgi. Elfar var í fríi en það er langt síðan hann hefur átt fríhelgi. Á föstudagskvöldið áttum við góða kvöldstund með bræðrum mínum tveimur og mágkonum, fengum góðan mat og spiluðum fram eftir nóttu. Á laugardaginn kom pabbi til okkar í mat þar sem hann var grasekkill um helgina. Ég bjó þá til nýjan kjúklingarétt sem sló í gegn hjá öllum í fjölskyldunni. Sósan er hrikalega góð og bragðmikil. Ég átti sætar kartöflur sem mig langaði til að prófa að grilla. Þær voru rosalega góðar svona grillaðar þó svo að þær passi örugglega enn betur með til dæmis grillkjöti. Ég ætlaði líka að hafa hrísgrjón með réttinum en hreinlega gleymdi að  sjóða þau. Næst ætla ég að muna eftir grjónunum til þess að nýta góðu sósuna í kjúklingaréttinum sem allra best. Ég er ekki enn búin að finna rafhlöðuna í stóru myndavélina mína og er því enn að notast við litlu myndavélina. Þó svo að hún sé svo sem ágæt til síns brúks þá er ég alveg handlama án stóru myndavélarinnar og sé ekkert annað í stöðunni en að kaupa nýja rafhlöðu strax á morgun! Látið því ekki myndirnar fæla ykkur frá, þessi kjúklingaréttur er ákaflega góður þrátt fyrir að myndirnar séu ekki fleiri eða betri en raun ber vitni! 🙂

Uppskrift:

  • 700-800 gr kjúklingabringur
  • smjör og/eða olía til steikingar
  • 1 stór rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítið rautt chili, fræhreinsað og saxað smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3 dl rjómi eða matargerðarrjómi
  • Philadelphia ostur með papriku
  • 1 kjúklingateningur
  • gott kjúklingakrydd (ég notaði steikarkrydd með papriku, chili og hvítlauksblöndu)
  • salt & pipar
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 0.5 dl steinselja, söxuð

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur kryddaður með kjúklingakryddi, salti og pipar. Paprika, laukur, hvítlaukur og chili steikt upp úr smjöri og/eða olíu á pönnu þar til allt hefur mýkst vel. Þá er því hellt í eldfast mót. Þá er smjöri eða olíu bætt á pönnuna og kjúklingabringurnar eru steiktar á öllum hliðum í stutta stund þar til þær hafa náð góðri steikingarhúð. Svo eru þær veiddar af pönnunni og lagðar ofan á grænmetið í eldfasta mótinu.

Því næst er rjómanum hellt á pönnuna ásamt Philadelphia ostinum, sambal oelek chilimauki og kjúklingakraftinum. Þetta látið malla í stutta stund þar til osturinn hefur bráðnað. Þá er steinseljunni bætt út og rjómasósunni síðan hellt yfir kjúklinginn. Bakað í ofni í 20-30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

IMG_9269