Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni


IMG_8668Síðastliðnum dögum, eiginlega vikum, hef ég eytt fyrir framan tölvuna við að finna hús á leigu í Toskana á Ítalíu. Minn elskulegi eiginmaður á stórafmæli í júní og við ákváðum að vera ekki með neina veislu af því tilefni, heldur fara með börnin okkar fjögur og tengdadóttur til Toskana og láta þar með gamlan Ítalíu-draum rætast. Það er óhætt að segja að ég taki svona skiplagningu fyrir sumarfrí af mikilli festu og alvöru. Mér finnst mjög mikilvægt að velja rétta húsið fyrir fjölskylduna og ég held að ég geti fullyrt að eftir þessa leitartörn sé ég farin að þekkja Toskana eins og handarbakið á mér og öll þau ótal hús sem þar eru í boði! 🙂 Mér finnst „örfá“ *hóst, hóst* atriði afar mikilvæg: Að húsið hafi nægilega mörg svefnherbergi þannig að allir fái sitt eigið athvarf: Að það sé sundlaug. Að húsið sé hlýlegt að innan (sum hús í Toskana eru aðeins of „rustic“ að innan fyrir minn smekk) og með góðri aðstöðu í eldhúsinu. Að það sé góð aðstaða í garðinum með nægilega mörgum og góðum húsgögnum (nenni ekki að sitja á lélegum plaststólum eða að sólbekkirnir dugi ekki fyrir alla). Að það sé pizzu-eldofn úti, ekki skilyrði en svo sannarlega kostur. Að það sé dásamlegt útsýni frá húsinu. Að eigendurnir leggi greinilega rækt við húsið, garð og gesti sína. Það var ekki ósjaldan sem ég sá dóma gesta um hús þar sem þeir lýstu frábærum húseigendum sem færðu þeim ólífuolíu, grænmeti og ávexti úr garði sínum og jafnvel voru með kennslu í ítalskri matargerð – hljómar svo dásamlega! Síðast en ekki síst þarf allt þetta að vera á viðráðanlegu verði en leiguverð á húsum í Toskana eru ótrúlega misjöfn. Til að gera langa sögu stutta og eftir leit á netinu sem jafngildir örugglega hátt í vinnuviku þá erum við að fara að baka pizzur í þessum dásamlega eldofni í sumar:

10868226_355078474663195_398201459447046442_n

Svamla í þessari sundlaug á daginn:

c5og sitjum hér með drykk í hönd og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Toskana á kvöldin:

483318_141976005973444_1940797105_n

Maður minn hvað það verður mikið borðað af góðum ítalskum mat og honum skolað niður með ljúffengum vínum úr nærliggjandi héruðum! 🙂

En að uppskrift dagsins. Ég gerði svo góðan kjúklingarétt í vikunni sem mig langar að halda til haga hér á síðunni. Í þessum rétti er bæði rjómi og feitur sýrður rjómi og ég veit að það eru margir sem forðast slíkt í matargerð, vilja nota matreiðslurjóma eða aðrar fitulitlar mjólkurvörur. Ég er hins vegar inn á sömu línu og Læknirinn í eldhúsinu. Þetta skrifar hann frábærri matreiðslubók sem kom út fyrir jólin þegar hann skýrir út af hverju hann notar smjör og rjóma í eldamennskunni: „Samband milli fitu og sjúkdóma er með öllu ósannað og meint tengsli eru úr lausu lofti gripin. Fita orsakar ekki offitu, sykursýki, háþrýsting eða hjarta- og æðasjúkdóma. Því fer meira að segja fjarri. Og mettuð fita er líka hættulaus. Þessi þráhyggja um að fita, mettuð sem ómettuð, orsaki sjúkdóma hefur sennilega þvert á móti átt stóran þátt í því að orskaka þann stórkostlega faraldur offitu og sykursýki sem nú blasir við. Með því að fjarlægja fitu úr matnum tökum við burtu það sem gefur honum góða bragðið og fyllinguna. Í stað fitunnar setjum við svo ýmislegt sem við ættum að borða sem minnst af, eins og sykur og allskonar sykurafleiður, auk ótal gerviefna sem betra væri að vera laus við!“ Amen! 🙂

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja

IMG_8664

Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_8672

 

15 hugrenningar um “Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni

    • Ég skoðaði afar margar leigusalasíður. Margar eru með umboð fyrir sömu húsin (yfirleitt eru húsin í einkaeigu vínbænda sem búa sjálfir í nágrenninu). Ég skoðaði mest hjá http://www.tripadvisor.com og endaði á því að panta í gegnum þá síðu. Þar er bæði þægilegt að leita, mjög mörg hús á lista og örugg síða að panta í gegnum. En það eru ótal margar síður í boði. Það nægir að slá inn í Google „houses in Tuscany for rent“ eða eitthvað álíka til að sjá það. Ég sló oft inn nafni á einhverju ákveðnu húsi í google til að finna fleiri síður með sama hús og sjá þá fleiri/aðrar myndir, fleiri dóma og bera saman verð á milli bókunarsíða.
      Á Tripadvisor er sniðugt að setja inn leitarmöguleika, þ.e. þrengja leitina með því að haka við það sem maður setur sem kröfur (maður velur fyrst Toscany og „Vacation Rentals“ og skoðar síðan eitt Province í einu). Ég t.d. hakaði við að það væri „privat pool“, netsamband og 5 eða fleiri herbergi auk þess sem ég setti hámarksverð sem við vorum tilbúin að greiða. Svo lét ég leitarniðurstöðurnar koma fram í þeirri röð að þau hús sem fengu bestu dómana frá gestunum komu fyrst. Ég skoðaði vel hvað gestir höfðu skrifað um húsin, það er oft besta hjálpin. Ég útilokaði hús þar sem sundlaugarnar voru nokkuð langt frá húsinu, útsýnið virtist ekki vera mikið, eldhúsið var of frumstætt og allskonar önnur „smáatriði“ sem mér fannst mikilvæg.
      Húsið sem við enduðum á að bóka er í Arezzo í Toscana. Það er dálítið upp í fjöllunum, nálægt litlu þorpi sem heitir Poppi. Ég skoðaði afar mörg hús og þetta hús uppfyllti allar kröfur okkar (þ.e. innan þess budgets sem við settum okkur – vissulega er hægt að fá önnur frábær hús en þá þarf að borga um það bil 1 milljón, jafnvel margar milljónir, fyrir tvær vikur og það var ekki í boði fyrir okkur). Við verðum átta manns og þetta hús mun rýma okkur vel, er með 5 svefnherbergjum. Það er dálítið afskekkt og kannski aðeins lengra frá Róm en ég hafði planað fyrst (við fljúgum til Rómar og ætlum að vera þar í nokkrar nætur líka) en mér fannst kostirnir vega upp á móti því. Eins fannst okkur bara dálítið kósý að húsið væri dálítið afskekkt hátt upp í fjalli með krókóttum sveitaveg sem leiddi að því. Á móti fær maður mikinn frið, frábært útsýni og leigusala sem er greinilega mjög natinn og umhugað um leigjendur sína (samkvæmt ummælum fyrri gesta). Öll þjónusta er í bænum Poppi og það tekur ca. 15 mínútur að keyra þangað. Hér er húsið: http://www.tripadvisor.com/VacationRentalReview-g887276-d2119035-La_Casina-Poppi_Province_of_Arezzo_Tuscany.html

      p.s. ég spáði mikið í þetta með loftkælingu. Það er ekki oft loftkæling í boði og hún kostar þá oft mikið extra. Ég komst að því að þegar maður gistir í gömlu húsi í Toscana er oft hugsað fyrir þessari kælingu á annan hátt. Veggirnir eru mjög þykkir og einangra hitann frá húsinu og steinn á gólfi sem helst kaldur. Það eru hlerar fyrir gluggum sem gott er að loka á daginn til að húsið hitni ekki. Eins er oft mjög hátt til lofts og húsin eru oft hátt í fjöllum, þannig að á kvöldin næst áætis gustur sem kælir niður húsin. Það er því ekki eins nauðsynlegt að hafa loftkælingu og maður gæti haldið.

  1. Spennandi…prófa kjúklingaréttinn fljótlega. Má maður fá upplýsingar um húsið og leigusala ?

  2. Þessi réttur var virkilega góður en einhverra hluta vegna full saltur. Minnka mögulega sojasósuna eða nota minna af beikoni næst. Af því að það verður örugglega næst 🙂

  3. Thessi kjuklingarettur bregst ekki, alltaf jafn godur eins og annad fra ther 😀

    Thetta er storkostlega fallegt hus sem ad thu valdir og umhverfid, eg minn eini. Thetta verdur frabaert fri hja ykkur. Thetta heitir ad lata drauma sina raetast! Til hamingju 😀

  4. Guðdómlegur kjúklingaréttur – þrátt fyrir að vera án chilimauks og soyjasósu. Hef prófað, eða a.m.k stuðst við, nokkrar kjúklingauppskriftir frá þér og þær eru allar svo góðar. Stundum fer það eftir efnum og ísskápnum hvort allt er til í viðkomandi rétt. Takk og góða ferð til Ítalíu!

  5. Fórum í mat til mömmu í þennan rétt og var hann alveg rosalega góður allir svo ánægðir 🙂

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.