Kjúklingur með basiliku/klettasalatspestói og mozzarella


IMG_6187Í gærmorgun var seinni hluti myndartökunnar sem ég pantaði hjá Lalla ljósmyndara. Í apríl tók hann frábærar myndir af fermingardrengnum okkar og í gær var komið að því að taka myndir af stúdínunni. Elfar og Alexander skutust úr vinnunni og Lalli byrjaði á því að taka nokkrar fjölskyldumyndir af okkur öllum saman. Við vorum mjög heppin því að ákkurat á þessum tímapunkti stytti upp og það sást meira að segja til sólar. Myndirnar voru allar teknar úti, mér finnst útimyndir alltaf koma langbest út. Ég er spennt að fá allar þessar ljósmyndir og er þegar byrjuð á því að vinna að nýjum myndavegg á heimilinu.

Í fyrrakvöld fékk ég hugmynd að kjúklingarétti sem ég ákvað að framkvæma. Ég var svo sem ekkert að finna upp hjólið, heimatilbúið pestó, pastasósa og mozzarella – það þarf nú mikið til þess að útkoman klikki þegar þessi hráefni koma saman. En ég verð samt að segja að útkoman varð enn betri en ég bjóst við, þetta er hrikalega góður réttur sem ég hvet ykkur til að prófa! Heimatilbúið pestó er svo svakalega gott og hérna blandaði ég saman basiliku og klettasalati sem mér finnst gera pestóið að extra miklu lostæti. Það er vissulega hægt að nota tilbúið pestó en heimatilbúið er fljótgert og þúsundfalt betra. Ég notaði kjúklingalundirnar frá Rose Poultry og þær eru svo rosalega meyrar og mjúkar! Ég vann kjúklingabækling fyrir Innnes sem flytur þennan kjúkling inn og eftir að hafa prófað kjúklinginn frá þeim þá nota ég satt að segja varla annan kjúkling, mér finnst hann langbragðbestur og ofsalega meyr. Kannski setja sumir fyrir sig að kjúklingurinn sé frosinn en mér finnst það ekkert mál. Ég tók ég kjúklingalundirnar (fékk þær í versluninni Iceland) út úr frystinum skömmu áður en ég byrjaði að elda, tók mesta frostið úr þeim við lágan hita í örbylgjuofninum (þannig að kjötið byrji samt ekki að eldast), lundirnar þiðnuðu á örskömmum tíma og voru bókstaflega mjúkar eins og smjör í réttinum! Varðandi kjúklingabæklinginn þá er hann að finna rafrænt hér, auk þess er hann í flestum matvöruverslunum (þó ekki Nettó). Ef þið hafið ekki fundið bæklinginn enn og viljið frekar prentað eintak í stað rafræns, hafið þá samband við mig í gegnum netfangið mitt eða í gegnum skilaboð á Facebook.

Uppskrift f. ca. 3:

  • 700 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • salt og pipar
  • ca. 200 ml (hálf krukka) pastasósa frá Hunt’s með hvítlauk og kryddjurtum – garlic & herbs (kemur í 396 ml glerkrukkum)
  • 1 mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum, 125 g)

Pestó (líka hægt að flýta fyrir og nota 1 krukku af pestói frá Jamie Oliver):

  • 50 g klettasalat
  • ca. 1 box fersk basilika (30 g)
  • 1 dl graskersfræ (líka hægt að nota furuhnetur eða kasjúhnetur)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 – 1½ dl ólífuolía
  • 2 dl parmesan ostur, rifinn
  • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður og pestóið búið til: Basilikan (allra grófustu stönglarnir ekki notaðir), klettasalat og hvítlaukur er saxað gróft. Graskersfræin eru þurrristuð á pönnu. Öllu blandað saman í skál ásamt parmesan ostinum og mixað í blender eða með töfrasprota. Ólífuolíunni blandað út í mjórri bunu þar til pestóið er orðið hæfilega þykkt. Smakkað til með salti og pipar. IMG_6174 Kjúklingurinn er kryddaður með salti og pipar og lagður í eldfast mót. Því næst er pestóinu dreift jafnt yfir kjúklinginn og þá pastasósunni. Mozzarellaosturinn er skorinn í þunnar sneiðar og þær lagðar yfir pastasósuna. Bakað í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Borið fram með góðu salati, gjarnan klettasalati og kokteiltómötum og góðu brauði. Ég bar líka fram með réttinum ofnbakaðar kartöflur og sætkartöflur með ítalskri kryddblöndu en giska á að pasta, kúskús eða hrísgrjón fari jafnvel betur með réttinum. IMG_6176IMG_6178IMG_6183

Kjúklingapasta með pestó


Ég kaupi voða sjaldan orðið tilbúið pestó í krukkum, mér finnst heimatilbúið pestó svo mikið betra. En svo fékk ég líka eiginlega nóg af krukkupestói á tímabili, mér fannst það ofnotað hráefni, bæði af mér sjálfri og öðrum. Þessi réttur hefur því verið í ónáðinni hjá mér í nokkur ár. En á tímibili var þetta uppáhaldsréttur allra í fjölskyldunni og sá réttur sem hvað oftast var eldaður ef gesti bar að garði. Undanfarið hef ég hins vegar verið að hugsa um þennan rétt og í gærkvöldi hleypti ég honum inn úr kuldanum og lét verða af því að elda hann aftur eftir nokkra ára hlé! Þegar ilmurinn af matnum tók að berast um húsið kviknuðu minningar um Stokkhólm, þar sem við bjuggum þegar ég eldaði þennan rétt hvað oftast. Og þegar maturinn var snæddur rifjaðist upp fyrir mér af hverju þessi réttur var í svona miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta er ákaflega bragðgóður réttur, hann hugnast bæði börnum og fullorðnum og svo er hann einfaldur að matreiða. Ég nota yfirleitt tvenns konar pestó þó það sé bara gert ráð fyrir einni tegund í uppskriftinni. Að þessu sinni notaði ég pestó frá Jamie Oliver, ,,Italian herbs“ annars vegar og ,,chili & garlic“ hins vegar. Rétturinn varð sterkur fyrir vikið og okkur fullorðna fólkinu fannst það afar gott. En þetta var fullsterkt fyrir yngri krakkana þannig að næst ætla ég að nota grænt pestó og svo papriku- eða tómapestó eins og ég var vön að nota. En það er líka hægt að nota bara eina tegund af pestó eins og í raun er gert ráð fyrir í upprunalegu uppskriftinni.

Uppskrift:

Kjúklingur:

  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 3-4 msk. gott pestó (ég blanda yfirleitt grænu og svo papriku eða tómatpestó)
  • 2-4 hvítlausksrif
  • nokkrir stönglar ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað
  • 1 ½ msk hvítvíns eða sítrónuedik
  • 1 kjúklingatengingur leystur upp í 3 dl af vatni
  • 4 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið pestó í botninn á eldföstu móti. Saxið hvítlauk smátt og dreifið yfir pestóið. Skerið bringurnar í tvennt og leggið í mótið (Ég hef þær í heilu, finnst þær verða meira djúsí þannig en þá þarf líka að hafa þær aðeins lengur í ofninum en gefið er upp).

Blandið saman ediki og kjúklingasoði og hellið yfir kjúklinginn. Dreypið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Vökvinn á að ná u.þ.b. upp að miðjum bringum, þannig soðnar kjötið að neðan og bakast að ofan.

Bakið í 15 mínútur, takið út og hrærið í soðinu. Leggið svo álpappír eða lok yfir mótið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

Berið fram með pestópasta:

Uppskrift:

  • 250 gr. saxaðir sveppir
  • 1-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 msk. gott pestó
  • 6 msk ólífuolía
  • 500 gr. tagliatelle
  • parmesan ostur

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Steikið sveppi á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir fá góða steikingarhúð. Lækkið hitann á pönnunni, bætið hvítlauk og pestó út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur. Blandið pasta saman við pestósveppina. Gott er að strá ferskum rifnum parmesan osti yfir.

Borið fram með salati og/eða brauði.