Ég kaupi voða sjaldan orðið tilbúið pestó í krukkum, mér finnst heimatilbúið pestó svo mikið betra. En svo fékk ég líka eiginlega nóg af krukkupestói á tímabili, mér fannst það ofnotað hráefni, bæði af mér sjálfri og öðrum. Þessi réttur hefur því verið í ónáðinni hjá mér í nokkur ár. En á tímibili var þetta uppáhaldsréttur allra í fjölskyldunni og sá réttur sem hvað oftast var eldaður ef gesti bar að garði. Undanfarið hef ég hins vegar verið að hugsa um þennan rétt og í gærkvöldi hleypti ég honum inn úr kuldanum og lét verða af því að elda hann aftur eftir nokkra ára hlé! Þegar ilmurinn af matnum tók að berast um húsið kviknuðu minningar um Stokkhólm, þar sem við bjuggum þegar ég eldaði þennan rétt hvað oftast. Og þegar maturinn var snæddur rifjaðist upp fyrir mér af hverju þessi réttur var í svona miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta er ákaflega bragðgóður réttur, hann hugnast bæði börnum og fullorðnum og svo er hann einfaldur að matreiða. Ég nota yfirleitt tvenns konar pestó þó það sé bara gert ráð fyrir einni tegund í uppskriftinni. Að þessu sinni notaði ég pestó frá Jamie Oliver, ,,Italian herbs“ annars vegar og ,,chili & garlic“ hins vegar. Rétturinn varð sterkur fyrir vikið og okkur fullorðna fólkinu fannst það afar gott. En þetta var fullsterkt fyrir yngri krakkana þannig að næst ætla ég að nota grænt pestó og svo papriku- eða tómapestó eins og ég var vön að nota. En það er líka hægt að nota bara eina tegund af pestó eins og í raun er gert ráð fyrir í upprunalegu uppskriftinni.
Uppskrift:
Kjúklingur:
- 800 gr. kjúklingabringur
- 3-4 msk. gott pestó (ég blanda yfirleitt grænu og svo papriku eða tómatpestó)
- 2-4 hvítlausksrif
- nokkrir stönglar ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað
- 1 ½ msk hvítvíns eða sítrónuedik
- 1 kjúklingatengingur leystur upp í 3 dl af vatni
- 4 msk ólífuolía
- salt og pipar
Hitið ofninn í 180°C og smyrjið pestó í botninn á eldföstu móti. Saxið hvítlauk smátt og dreifið yfir pestóið. Skerið bringurnar í tvennt og leggið í mótið (Ég hef þær í heilu, finnst þær verða meira djúsí þannig en þá þarf líka að hafa þær aðeins lengur í ofninum en gefið er upp).
Blandið saman ediki og kjúklingasoði og hellið yfir kjúklinginn. Dreypið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Vökvinn á að ná u.þ.b. upp að miðjum bringum, þannig soðnar kjötið að neðan og bakast að ofan.
Bakið í 15 mínútur, takið út og hrærið í soðinu. Leggið svo álpappír eða lok yfir mótið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.
Berið fram með pestópasta:
Uppskrift:
- 250 gr. saxaðir sveppir
- 1-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
- 2 msk. gott pestó
- 6 msk ólífuolía
- 500 gr. tagliatelle
- parmesan ostur
Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Steikið sveppi á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir fá góða steikingarhúð. Lækkið hitann á pönnunni, bætið hvítlauk og pestó út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur. Blandið pasta saman við pestósveppina. Gott er að strá ferskum rifnum parmesan osti yfir.
Borið fram með salati og/eða brauði.
æ ég gaf þessu óvart einhverjar stjörnur
en ég er að elda þennan núna 🙂 Takk Dröfn fyrir þessa dásamlegu síðu
Takk fyrir! 🙂 Það verður gaman að heyra hvernig ykkur líkaði rétturinn!
okkur fannst hann öllum mjög góður – verður pottþétt aftur á boðstólnum 🙂
Sæl Dröfn. Freyja, vinkona Óskar, innleiddi þennan rétt á heimilið og margar fleiri frábærar uppskriftir frá þér. Mjög góður réttur sem reglulega er beðið um og afgangurinn er frábær í nesti í Versló. Kærar þakkir fyrir góðar og aðgengilegar uppskriftir 🙂 Bestu kveðjur, Erla mamma Freyju
En hvað það er gaman að heyra Erla! Frábært að ykkur líki uppskriftirnar, vonandi getið þið nýtt ykkur meira af síðunni. Bestu kveðjur til þín, Freyju og fjölskyldunnar héðan úr Kleifarselinu! 🙂
Eldaði þennan rétt í kvöld, sem sló í gegn hjá matvandri unglingsdóttur minni:) Hann var svo góður að við ætluðum aldrei að geta hætt að borða hann. Takk fyrir að deila með okkur flottum uppskriftum, ég er búin að elda mikið af þessum vef og hingað til hefur engin uppskrift klikkað:)
Mikið gleðja svona kveðjur mig Unnur Helga! 🙂 Ekkert eins gaman eins og þegar matvönd börn taka hraustlega til matar síns. 🙂 Vonandi heldur þú áfram að finna uppskriftir hér sem ykkur líka. Með bestu kveðjum, Dröfn