Hugsa sér að það sé þegar kominn september! Börnin eru komin á kaf í skólann, íþróttir, tónlistaskólann og allt sem því fylgir. Ég er að vinna að meistararitgerðinni minni sem er 30 einingar (jafngildir heilli önn) sem fjallar um rafbækur og rafbókavæðingu á Íslandi, ásamt því að vinna hlutastarf í rannsóknarverkefni á Landspítalanum. Auk þess er ég að reyna að vera dugleg að mæta í ræktina og skokka, það geri ég eingöngu til að geta borðað meiri mat! Eftir á að hyggja hefði verið snjallt af mér að reyna að tengja efni meistararitgerðar minnar þessum bloggskrifum. Ég hefði örugglega getað tengt bloggið við námið mitt á einhvern hátt þar sem að ég er í upplýsingafræði sem er afar vítt svið. Þá hefði ég allavega afsökun fyrir því að ritgerðaskrifin endi oft þannig að ég sé að skoða uppskriftir á netinu! 😉
En uppskrift dagsins er einkar ljúffengur eftirréttur sem er bæði fljótlegur og auðveldur. Þetta er líka efttirréttur sem hentar vel að bera fram fyrir marga. Ekki hræðast áfengið í réttinum. Ég er lítið fyrir eftirrétti með miklu líkjörsbragði og notaði því bara rúmlega eina matskeið af líkjörnum, það gaf afar milt og gott bragð. Ég átti ekki Bailey’s en notaði Grand Marnier í staðinn sem kom vel út.
Í upprunalegu uppskriftinni voru mælieiningarnar í bollum sem mér finnst alveg óþolandi! Ég meina, veit einhver hver þessi bolli er? Er það kaffibolli, tebolli, espressobolli…?? Og þá hvaða stærð? Ég er löngu hætt að nenna að engjast um yfir þessu vandamáli, sérstaklega eftir að ég braut uppáhaldsbollann minn við það að mæla hveiti eitt sinn (sem sannaði það að bollar eiga bara alls ekki heima í hveitidöllum!) Núna skoða ég alltaf töflur þar sem bollum er breytt yfir í grömm en það er auðvitað mjög misjafnt eftir hráefninu hversu mörg grömm eru í bolla. Þið þurfið því ekki að hárreyta ykkur yfir þessu vandamáli þar sem að ég gef mælieiningarnar upp í óvéfengjanlegum grömmum! 🙂
Uppskrift f. 4
- 300 gr döðlur, skornar í litla bita
- 100 gr. suðusúkkulaði, saxað
- 2 græn epli, flysjuð og skorin í bita
- Bailey’s líkjör
Saxið döðlur, súkkulaði og epli í meðalstóra bita og setjið í skál. Hellið Bailey’s líkjörnum yfir og látið standa í kæli í um það bil 1 klukkustund.
Karamellusósa:
- 200 gr sykur
- 50 gr smjör
- 2 1/2 dl rjómi
Bræðið sykur og smjör saman á pönnu við fremur háan hita. Hellið rjómanum saman við og hrærið þar til að sósan þykknar.
Hellið karamellusósunni yfir ávextina. Berið fram með þeyttum rjóma eða ís.
Ummm…. mig langar í svona 🙂
Bolli er yfirleitt 250 ml. Það er viðmiðið sem ég nota og hefur gengið ágætlega!
Jú einmitt, en það er samt aðeins misjafnt eftir hráefni.
sykur = 200 gr
púðursykur = 220 gr
sigtað hveiti = 125 gr
soðin hrísgrjón = 175 gr
smjör = 227 gr
síróp = 322 gr
rúsínur = 165 g
… og svo framvegis. Allavega aðeins of ónákvæmt fyrir minn smekk að segja bara ,,bolli“! 🙂
Ég á mæliglas sem er 1 bolli eða 2,5 dl. Líf mitt einfaldaðist til muna eftir að ég eignaðist þennan ágæta bolla!
Já Þórdís, það er reyndar ágætis lausn! 🙂
Bolli eða ekki bolli….who cares….þessi réttur var rugl góður…!
Þetta eru girnilegar uppskriftir hjá þér.
Er þessi eftirréttur ekki bakaður?
Kveðja,
Þóra
Takk fyrir það Þóra! 🙂 Nei, þessi réttur er ekki bakaður. Heitri karamellusósunni er hellt yfir blönduna með eplum, súkkulaði og döðlum sem hafa staðið í kæli í klukkustund áður. Gott er að leyfa réttinum að standa í smástund í karamellusósunni áður en hann er borinn fram.
Mér lýst svo vel á þessa uppskrift. Hvað er þetta fyrir marga, heldurðu?
kv. Sólveig
Ég á nú voða erfitt með að meta magn á mann en myndi skjóta á sex manns! 🙂
Bakvísun: Vinsælustu eftirréttirnir | Eldhússögur
Sæl, ég á ekki Bailey’s líkjör og tími ekki að kaupa hann þar sem hann er lítið notaður hér, hvað get ég notað í staðinn ég á td. púrtvín og grand mariner 🙂
Grand virkar fínt! 🙂
Eru þetta þurrkaðar döðlur? Hversu mikið af lìkjörnum à að nota? 🙂
Já, þurrkaðar döðlur. Magnið af líkjörnum fer svolítið eftir smekk hvers og eins en þú getur miðað við 1-2 msk! 🙂