Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Spaghettí með tómatsósu, mozzarella, klettasalati og parmaskinku


IMG_7666Í gærkvöldi nennti ég alls ekki að standa lengi í eldhúsinu. Það var orðið áliðið þegar ég byrjaði að elda og ég vildi búa til eitthvað fljótlegt. Á svona stundum getur verið freistandi að  sleppa jafnvel eldamennskunni og kaupa eitthvað tilbúið. Það er hins vegar tvennt sem stoppar mig af. Annars vegar er það kostnaðurinn. Við erum sex manna fjölskylda, þar af borða allir á við fullorðna nema yngsta skottið kannski, þá er tilbúinn matur afar dýr. Hins vegar er það að úrvalið. Mér finnst eiginlega enginn tilbúinn matur nógu góður eða vandaður. Það væri kannski einna helst Saffran en við höfum prófað mat þaðan í nokkur skipti. Ég verð reyndar að viðurkenna að það er einn skyndibiti sem mér finnst æðislegur og ég laumast einstaka sinnum í við hátíðleg tækifæri. Það er steikarborgarinn frá Búllunni! 🙂 Vá hvað hann er góður svo ekki sé talað um með bearnaise sósunni þeirra! En svo ég víki að gærkvöldinu. Ég stóð sem sagt í eldhúsinu og nennti varla að elda. Ég ákvað samt að búa til spaghettírétt sem stóð á borðinu 15 mínútum seinna og maður minn hvað hann var góður! Enn og aftur undrast maður yfir því hvað hægt er að gera góðan mat úr einföldum hráefnum og á stuttum tíma. Við hjónin dreyptum á dálitlu hvítvíni með réttinum sem gerði máltíðina að sannkölluðum hátíðarmat. Ósk sagði þennan rétt slá við öllum pastaréttum á þeim veitingastöðum sem hún hafði snætt á. Það má því með sanni segja að fjölskyldan hafi verið ánægð með matinn og þessi réttur verður klárlega eldaður reglulega héðan í frá.

Uppskrift:

  • 600 g spaghettí
  • 2 kúlur mozzarella ostur (samtals 240 g), skorinn í litla bita
  • 75 g klettasalat
  • ca. 30 g parmesan ostur, rifinn
  • parmaskinka

IMG_7650 Tómatsósa:

Ath. það er hægt að nota tilbúna góða pastasósu og bæta þá bara út í hana tómötum, svörtum ólífum, kryddum og ferskri basiliku samkvæmt uppskriftinni hér að neðan.

  • 1/2-1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía
  • 1.5 dl hvítvín (má sleppa)
  • 1.5 dl vatn
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar með basiliku og oregano frá Hunts (411 g)
  • timjan
  • pipar og salt
  • 30 g basilika (1 box frá Náttúru), söxuð smátt
  • svartar ólífur
  • 250 g vel þroskaðir kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða venjulegir tómatar, skornir smátt)

Best er að byrja á tómatsósunni. Laukur og hvítlaukur er steiktur upp úr ólífuolíu þar til hann verður mjúkur án þess að taka lit. Þá er tómötum, vatni og víni bætt út í ásamt timjan og smá hluta af basilikunni. Látið malla í 10-15 mínútur en undir lokin er sósan smökkuð til með salti, pipar, og meira timjan ef vill auk þess sem restinni af basilikunni er bætt út í ásamt kokteiltómötum og svörtum ólífum. Spaghettí er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Því er svo blandað saman (passið að hafa pastað og pastasósuna sjóðheitt því þannig bráðnar mozzarella osturinn og parmesan osturinn svo vel) við tómatsósuna, mozzarellaostinn, helminginn af rifna parmesan ostinum og klettasalatið. Borið fram með parmaskinku og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði. IMG_7659

Kjúklingapasta með grillaðri paprikusósu


IMG_9476Þessa vikuna hef ég verið á endasprettinum í ritgerðinni minni og trúi því varla að ég hafi loksins verið að senda frá mér 33 þúsund orða meistararitgerð í prófarkalestur, ótrúlegt að þessari lotu sé að ljúka! *klappa sjálfri mér á öxlina* 😉 Ég hef því varla stigið inn í eldhús síðastliðna daga (ekki nema til þess að sækja mér koffein!) og því síður verið að undirbúa jólin. Ekki seinna vænna en að bretta upp ermarnar núna og fara í jólaundirbúning! Ég hlakka eiginlega mest til að taka húsið í gegn en það hefur verið verulega vanrækt síðustu þrjá mánuðina í þessari ritgerðavinnu!

Hann Vilhjálmur minn kom heim með svo frábæra skál sem hann bjó til í smíði í skólanum. Hún er svo dásamlega sæt að ég verð eiginlega að setja inn mynd af henni hér, þetta er uppáhaldsskálin mín núna!

IMG_6413Ég rakst á uppskrift í myndasafninu mínu frá því fyrr í haust sem ég var ekki enn búin að setja inn á bloggið. Þetta er voða góður pastaréttur með grillaðri papriku. Það er með ólíkindum hvað paprika breytist ef hún er grilluð, hún verður svo sæt og góð og frábær í sósur til dæmis. Þeir sem ekki nenna að standa í því að grilla paprikurnar (það er samt lítið mál!) geta keypt tilbúnar grillaðar paprikur i krukku. Ég var með brauð með pastaréttinum sem var afar einfalt og mjög fljótlegt að gera. Ég setti  saman í matvinnsluvél einn mozzarellaost, þrjá litla tómata, ferska basiliku, ólífuolíu, salt og pipar. Ég keyrði matvinnsluvélina stutt þannig að hráefnin maukuðust ekki saman heldur fóru í litla bita. Ég setti blönduna ofan á snittubrauð og hitaði i ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur.

IMG_9488Ofsalega gott og einfalt! En hér kemur pastauppskriftin.

Uppskrift:

  • 4-5 rauðar paprikur (ég notaði reyndar blandaða liti í þetta sinn en rauðar eru bestar)
  • 3 msk furuhnetur
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 lítill gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaði smátt
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 2-3 kjúklingabringur
  • chilikrydd
  • salt
  • fersk steinselja
  • rifinn parmesan ostur
  • 500 gr pasta

IMG_9479Paprikur grillaðar á útigrilli eða í ofni á háum hita og þeim snúið reglulega. Þegar þær eru alveg orðnar svartar eru þær settar í lokaðan poka í smá stund til að jafna sig. Því næst er svarta grillhúðin tekin af, paprikurnar skornar í sundur og kjarninn fjarlægður.
Furuhnetur léttristaðar á pönnu. Furuhnetur og paprika maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota

Pasta soðið eftir leiðbeiningum

Kjúklingur skorin í bita, kryddaður með góðu kjúklingakryddi og steiktur á pönnu. Einnig er hægt að grilla hann í heilu á grilli og skera hann svo í bita.

Ólífuolíu hellt í stóran pott, laukur og hvítlaukur steiktur við miðlungshita þar til mjúkt, þá er paprikumaukinu bætt við út í pottinn, saltað vel og kryddað með chilikryddi eftir smekk. Því næst er rjómanum hrært út í. Sósan smökkuð til og krydduð eftir smekk. Þá er pasta og kjúklingabitunum bætt út í og öllu blandað saman. Borið fram með ferskri steinselju og rifnum parmesan osti.

IMG_9492

Kjúklingapasta með pestó


Ég kaupi voða sjaldan orðið tilbúið pestó í krukkum, mér finnst heimatilbúið pestó svo mikið betra. En svo fékk ég líka eiginlega nóg af krukkupestói á tímabili, mér fannst það ofnotað hráefni, bæði af mér sjálfri og öðrum. Þessi réttur hefur því verið í ónáðinni hjá mér í nokkur ár. En á tímibili var þetta uppáhaldsréttur allra í fjölskyldunni og sá réttur sem hvað oftast var eldaður ef gesti bar að garði. Undanfarið hef ég hins vegar verið að hugsa um þennan rétt og í gærkvöldi hleypti ég honum inn úr kuldanum og lét verða af því að elda hann aftur eftir nokkra ára hlé! Þegar ilmurinn af matnum tók að berast um húsið kviknuðu minningar um Stokkhólm, þar sem við bjuggum þegar ég eldaði þennan rétt hvað oftast. Og þegar maturinn var snæddur rifjaðist upp fyrir mér af hverju þessi réttur var í svona miklu uppáhaldi hjá okkur. Þetta er ákaflega bragðgóður réttur, hann hugnast bæði börnum og fullorðnum og svo er hann einfaldur að matreiða. Ég nota yfirleitt tvenns konar pestó þó það sé bara gert ráð fyrir einni tegund í uppskriftinni. Að þessu sinni notaði ég pestó frá Jamie Oliver, ,,Italian herbs“ annars vegar og ,,chili & garlic“ hins vegar. Rétturinn varð sterkur fyrir vikið og okkur fullorðna fólkinu fannst það afar gott. En þetta var fullsterkt fyrir yngri krakkana þannig að næst ætla ég að nota grænt pestó og svo papriku- eða tómapestó eins og ég var vön að nota. En það er líka hægt að nota bara eina tegund af pestó eins og í raun er gert ráð fyrir í upprunalegu uppskriftinni.

Uppskrift:

Kjúklingur:

  • 800 gr. kjúklingabringur
  • 3-4 msk. gott pestó (ég blanda yfirleitt grænu og svo papriku eða tómatpestó)
  • 2-4 hvítlausksrif
  • nokkrir stönglar ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað
  • 1 ½ msk hvítvíns eða sítrónuedik
  • 1 kjúklingatengingur leystur upp í 3 dl af vatni
  • 4 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið pestó í botninn á eldföstu móti. Saxið hvítlauk smátt og dreifið yfir pestóið. Skerið bringurnar í tvennt og leggið í mótið (Ég hef þær í heilu, finnst þær verða meira djúsí þannig en þá þarf líka að hafa þær aðeins lengur í ofninum en gefið er upp).

Blandið saman ediki og kjúklingasoði og hellið yfir kjúklinginn. Dreypið ólífuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Vökvinn á að ná u.þ.b. upp að miðjum bringum, þannig soðnar kjötið að neðan og bakast að ofan.

Bakið í 15 mínútur, takið út og hrærið í soðinu. Leggið svo álpappír eða lok yfir mótið og bakið í 10-15 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.

Berið fram með pestópasta:

Uppskrift:

  • 250 gr. saxaðir sveppir
  • 1-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 msk. gott pestó
  • 6 msk ólífuolía
  • 500 gr. tagliatelle
  • parmesan ostur

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Steikið sveppi á pönnu upp úr ólífuolíunni þar til þeir fá góða steikingarhúð. Lækkið hitann á pönnunni, bætið hvítlauk og pestó út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur. Blandið pasta saman við pestósveppina. Gott er að strá ferskum rifnum parmesan osti yfir.

Borið fram með salati og/eða brauði.