Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

  • 500 g tagliatelle pasta
  • 500 g kjúklingabringur
  • 2 tsk cajun krydd
  • 1 msk olía
  • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
  • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
  • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
  • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
  • 80 g mjólk
  • 1 msk hveiti
  • 3 msk rjómaostur
  • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni


Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því  á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!

Uppskrift f. 5

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
  • 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
  • 300 gr rjómaostur
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 msk mango chutney
  • pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.