Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!
Uppskrift f. 5
- 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
- 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
- 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
- 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
- 300 gr rjómaostur
- 2 dósir sýrður rjómi
- 1-2 dl mjólk
- 1 msk kjúklingakraftur
- 3 msk mango chutney
- pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
- 500 gr pasta
Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.
Verð að prófa þessa uppskrift fljótlega. Ég hefði nú alveg mætt á foreldrafundinn ef að ég hefði vitað að það yrðu svona fína veitingar;) Takk fyrir skemmtilega síðu og frábærar uppskriftir!
Var með þennan pastarétt í kvöld, ofsalega góður og allir alsælir, sérstaklega yngsti fjölskyldumeðlimurinn sem borðaði þrjá diska 😉
Gaman að heyra það Rebekka mín! 🙂
Bakvísun: uppskriftir | ghafdis
Bakvísun: KjA?klingapasta A� rjA?maostasA?su meA� beikoni | Hun.is