Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti


IMG_5280

Ég er ein af mörgum sem hef beðið með óþreyju eftir að Costco opnaði. Fram að þessu þá hef ég saknað ótal hráefna í matargerð. Sum þessara hráefna hafa verið í boði í sérverslunum hér á landi en þá sjaldnast á verði sem býður upp á hversdagsnotkun. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með Costco ferðina mína (… ok, hef reyndar farið þrisvar á einni viku! 🙂 ). Fyrir utan ákaflega hagstætt verð þá er svo ómetanlegt að fá hráefni af þeim gæðastaðli sem boðið er upp á í Costco. Dæmi um það er meðal annars ferskur buffalo mozzarella ostur, beint frá Ítalíu, sem á ekkert skylt við þennan íslenska. Ótrúlega sætir og ljúffengir kirsuberjatómatar á kvisti, ferskt pasta, ferskur fetaostur, grísk jógúrt, geitaostur, parmesan ostur, parmaskinka, fersk og hrein áleggsskinka ásamt ótal öðru, allt á viðráðanlegu og góðu verði svo ekki sé talað um grænmetið, ávextina, berin, ólífuolíuna, hneturnar og svo margt fleira. Gæðin á kjötinu eru líka frábær, nautahakkið er t.d. eins og beint frá býli, slík eru gæðin.

Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂 Ég ætla að setja inn þessar uppskriftir sem ég talaði um hér að ofan en fyrst langar mig að gefa ykkur hugmyndir um hvernig hægt sé að nýta ýmisskonar hráefni sem fæst í Costco. Ég tók eftir því í ferðum mínum til Costco að það eru ekki alltaf til sömu vörurnar á milli daga. Til dæmis fann ég skinkuna í fyrstu ferðinni en hef ekki séð hana aftur. Ég er viss um að það er enn verið að stilla af vöruúrval og vörukaup en hins vegar þá gengur Costco líka dálítið út á það að kaupa inn það sem er ferskt/hagstætt hverju sinni og það gildir því að kaupa alltaf strax það sem maður hefur augastað á því það er alls ekkert víst að fá þá vöru í næstu innkaupaferð.

Ferskur maís er svo dásamlega góður. Meðlæti sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni er þetta maíssalsa þar sem ferskur maís er í aðalhlutverki. Þessi ferski og góði maís kostar 990 kr og er upplagður í þessa uppskrift.

maís

Ég ákvað að prófa þessar rækjur þar sem að við munum halda upp á útskrift elstu dótturinnar úr lögfræði núna í júní. Þetta eru mjög góðar rækjur sem sóma sér vel á veisluborðið.

rækjur

Tempura rækjurnar (kostuðu 1859 kr) voru enn betri, alveg rosalega góðar, mæli sannarlega með þeim.
tempura

IMG_5266

Svo ég haldi aðeins áfram í tilbúna matnum þá kom þessi indverski matarbakki (kr. 1599) mjög á óvart. Þetta eru grænmetisréttir, alveg rosalega góðir. Það fylgdi bragðsterk sósa með en ég gerði líka raita jógúrt sósu með matnum sem gerði þetta enn betra. Þessir bitar geta verið sniðugir á smáréttahlaðborð sem valkostir fyrir grænmetisætur.

indverskt

Talandi um jógúrt sósu. Ég hoppaði hæð mína þegar ég sá grísku jógúrtina í Costco! Alvöru gríska jógúrt og það sem enn betra var, heilt kíló á rúmar 600 kr! Þessi jógúrt er svo mjúk og góð, dásamleg í ýmsar sósur en líka ofboðslega góð með ferskum ávöxtum, berjum, múslí og jafnvel dálitlu hunangi. Já og í guðanna bænum, kaupið þessa með 10% fitu, ekki 0% prósent! 🙂

Hér eru nokkrar uppskriftir að góðum jógúrtsósum:

Jógúrtsósa með fetaosti

Gulrótar-tzatziki sósa

Tzatziki-engifer sósa

Myntu jógúrtsósa

jógúrt

Eitt af því sem mér finnst óskiljanlegt hér heima er skinkan sem okkur er boðið upp á sem álegg. Ég get ekki hugsað mér að borða þessa hlaupkenndu og ógirnilegu skinku sem er til í hefðbundnum matvörubúðum en leyfi mér stundum að kaupa ekta skinku hjá Pylsumeistaranum. Í Costco fann ég hins vegar alvöru skinku, niðursneidda, alveg ljúffenga. Ekki skemmdi það fyrir að heil 900 grömm kosta bara 1699 kr – húrra! 🙂 Ég er líka spennt að geta notað svona gæðaskinku í heita brauðrétti, til dæmis þennan hér og einnig í þennan góða kjúklingarétt.

skinka

Ferski ítalski buffalo mozzarella osturinn er lostæti og ekkert líkur þeim mozzarella osti sem við höfum fengið að venjast hér heima. Í næstu færslu mun ég einmitt setja inn uppskrift að ljúffengu ítölsku salati með meðal annars þessum dásemdarosti. En þangað til mæli ég með að nota þennan hágæða mozzarella ost í uppáhalds ítalska kjúklingapastað okkar, þetta góða rúllutertubrauð eða i frábæru nautahakksrúlluna.

mozzarella

Tómatarnir eru himneskir! Litlu kirsuberjatómatarnir á kvisti eru svo sætir og góðir að þeir ættu að flokkast sem sælgæti! Þeir myndu sóma sér vel í þessum vinsæla kjúklingarétti og líka dásemdar kjúklingasalatinu sem krakkarnir mínir óska sér vikulega.

tomatartómatar

Þennan franska Brie eins kílóa Brie ost keypti ég fyrir partý hér heima og sem betur fer var smá afgangur sem ég naut með ferskum hindberjum úr Costco. Þvílíkt mjúkur og mildur ostur, sá besti sem ég hef fengið hér heima og æðislegt að geta keypt svona góðan og stóran ost á veisluborðið (kostar 2500 kr). Það væri heldur ekki amarlegt að bjóða upp á ostinn framreiddan á þennan hátt eða nota hann í þessa himnesku Brie-ostaböku.

ostur

Ég veit að sumir eru alls ekki hrifnir af geitaosti og sjálf borða ég hann ekki eintóman en þegar hann er hitaður eða bakaður verður hann alveg æðislegur í salöt, forrétti, sósur og fleira. T.d. er hægt að búa til ljúffengan forrétt með bökuðum, ferskum rauðbeðum, geitaosti, furuhnetum og hunangi … himneskt gott! Þið bara verðið að gefa geitaosti séns! 😉 Hingað til hefur verið hægt að kaupa örþunna sneið á þúsund kall en hér er eitt kíló á 2599 kr. – frábært! Hér er uppskrift að æðislega góðum laxi með geitaosti.

geitaostur

Girnilegt ítalskt ”antipasto” sem gerir ostabakkann ómótstæðilegan! Eða hvernig væri að búa til þennan frábæra kjúklingarétt eða skella í ítalska brauðtertu? Ekki er verra að nota skinkuna sem þarna er að finna, ásamt ferska buffalo mozzarella ostinum sem ég fjalla um aðeins ofar, í einn af mínum uppáhaldsréttum, uppskrift er að finna hér.

álegg

Halloumi ostur er dásamlegur, hann minnir pínulítið á mozzarella ost en er þéttari og saltaðri. Það er ljúffengt að marínera hann eða bara krydda og síðan grilla hann eða steikja, hann er æðislegur út í salatið! Svo ekki sé talað um að vefja hann beikoni og grilla, uppskrift hér.

halloumi

Risarækjurnar finnst mér himneskt góðar og ég er stöðugt með löngun í þetta salat. Það eru til nokkrar tegundir af risarækjum í Costco. Í Costco keypti ég líka niðursneitt mangó sem var alveg fullkomið og smellpassar í risarækju-salatið. Ég mæli líka með avókadóinu í netinu sem fæst í Costco. Það eru risastórt og að mig minnir eru þau sex saman í neti. Þau virka mjög hörð en eftir tvo daga frammi á borði opnaði ég það mýksta og það var besta avókadó sem ég hef fengið! 🙂

rækjur2

Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn fyrst er af pastarétti sem var algjört lostæti! Þessi máltíð var fyrir fimm og kostaði nákvæmlega 3177 krónur samtals eða 635 krónur á mann sem mér finnst hlægilega lágt verð miðað við hversu dásamlega góður matur þetta var. Aspasinn er himneskt góður og þvílík lukka að geta núna keypt ferskan og frábæran aspas á svona góðu verði! Dómur fjölskyldunnar var að þetta væri réttur sem jafngilti bestu máltíð á ítölskum veitingarstað. 🙂 Sósan er eins og heimagerð, pastað frábært og súrdeigsbrauðið æðislega gott .. svo ekki sé talað um ferska aspasinn sem er sælgæti! Svona á þetta að vera, gæðahráefni á viðráðanlegu verði, takk Costco! 🙂

IMG_5271

Aspasinn (750 g) kostaði 990 kr.

Pastað (750 g) kostaði 779 kr.

Sósan (700 g) kostaði 649 kr.

Brauðið kostaði 111 kr. (það koma súrdeigsbrauð (baquette) 5 saman í pakka)

Annað hráefni átti ég fyrir

Uppskrift f. 5:

 • 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
 • 700 g Biffi Napoletana sósa
 • 750 g ferskur aspas
 • 80 g smjör
 • 50 g ólífuolía
 • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
 • Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
 • Sítrónusafi
 • Parmesan ostur
 • Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)

Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.

IMG_5273

Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.

IMG_5281

Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

 • 300 g tagliatelle
 • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
 • 150 g sveppir, sneiddir
 • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
 • 2 msk rautt pestó
 • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
 • 3 hvítlauksrif, pressuð
 • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
 • 30 g fersk basilika, söxuð
 • 1 msk þurrkað oregano
 • salt og pipar
 • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

 • 800 g tómatar
 • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
 • ca. 2/3 dl ólífuolía
 • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
 • grófmalaður svartur pipar
 • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
 • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
 • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
 • 1 dl rifinn parmesan ostur
 • 2-3 dl rjómi
 • 700 g kjúklingalundir
 • smjör og ólífuolía til steikingar
 • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
 • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini


IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

 • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
 • 1 gulur laukur, saxaður smátt
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 stór paprika skornar í bita
 • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
 • 1 msk ólífuolía
 • 1,5 l vatn
 • 3 teningar kjúklingakraftur
 • 2 msk tómatpúrra
 • salt & pipar
 • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
 • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
 • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
 • 30 g fersk basilika, söxuð
 • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720

Cajunkjúklingur með tagliatelle


Cajunkjúklingur með tagliatelle

Mér finnst ótrúlegt að páskarnir séu bráðum að bresta á – jólin voru jú í gær! Ég er með á dagskrá að taka niður jólaseríuna úr þvottahúsglugganum fyrir páska allavega! 🙂 Mér finnst svo dásamlegt að það sé orðið bjart á morgnana og að öðru hvoru koma sólríkir og hlýir dagar inn á milli snjókomunnar! Um helgina ætla ég að kaupa páskaliljur, páskagreinar og aðra vorboða til þess að gera heimilið vorlegt. Ég ætla jafnvel líka í Íkea og skoða nýju vörurnar, það er alltaf svo upplífgandi að sjá pastellitina detta inn á vorin í kertum, púðum og öðrum smávörum.

En ef ég sný mér að matargerðinni þá eldaði ég þennan pastarétt um daginn og hann kom virkilega á óvart. Hann er rosalega bragðgóður og djúsí þó það sé engin rjómi eða slíkt í honum. Fjölskyldan öll var virkilega ánægð með þennan rétt. Hann rífur dálítið í enda bæði í honum cajun krydd og chili (sem hægt er að sleppa) en samt er hann ekki of sterkur, yngstu krakkarnir borðuðu þennan rétt af bestu lyst. Kleifarselsfjölskyldan mælir með þessum!

Uppskrift:

 • 500 g tagliatelle pasta
 • 500 g kjúklingabringur
 • 2 tsk cajun krydd
 • 1 msk olía
 • 1 rauð paprika, skorin í þunna strimla
 • 1 gul paprika, skorin í þunna strimla
 • 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 250 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
 • 1/2 rauðlaukur, skorin í þunna strimla
 • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 2 stórir tómatar, skornir í teninga
 • 240 g kjúklingasoð (sjóðandi vatn + kjúklingakraftur)
 • 80 g mjólk
 • 1 msk hveiti
 • 3 msk rjómaostur
 • grófmalaður svartur pipar og salt

Grænmetið skorið samkvæmt leiðbeiningum. Mjólk, hveiti og rjómaosti er blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Kjúklingurinn er skorin í strimla og kryddaður vel með cajun-kryddinu og salti.
Pasta er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Á meðan er olía sett á pönnu og kjúklingur steiktur á pönnunni. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn er hann veiddur af pönnunni og látin bíða. Þá er bætt við dálítilli olíu á pönnuna og paprika, laukur, chili og hvítlaukur steikt í nokkrar mínútur. Því næst er sveppum og tómötum bætt út í og steikt í nokkrar mínútur í viðbót. Kryddað með salti og pipar. Að lokum er kjúklingasoðinu ásamt mjólkurblöndunni bætt út á pönnuna og látið malla á vægum hita í 2-3 mínútur. Þá er kjúklingurinn settur aftur á pönnuna. Öllu er svo blandað vel saman við sjóðandi heitt pasta. Ég bar fram réttinn með fersku kóríander og rifnum parmesan osti. Njótið!img_8457-1

Beikonpasta


IMG_7892

Við vorum svo ánægð með pastaréttinn sem ég eldaði um daginn að ég ákvað að endurtaka leikinn og prófa mig áfram með enn einfaldari pastarétt. Ég átti smá dreitil afgangs af rauðvíni sem mig langaði líka að koma út og það líka svona smellpassaði við þennan pastarétt. Kosturinn við pastarétti er að það er hægt að galdra fram ótrúlega góða slíka rétti úr fáum og einföldum hráefnum. Til dæmis lætur þessi hráefnalisti hér að neðan lítið yfir sér en úr honum varð þessi dýrindis pastaréttur. Ósk var meira að segja á því að þetta væri mögulega einn sá besti pastaréttur sem hún hefur smakkað! Það er reyndar ekki hægt að neita því að það er varla hægt að klúðra rétti sem í er hálft kíló af beikoni, sá réttur hlýtur alltaf að verða góður! 🙂

Uppskrift:

 • 500 g pasta
 • 500 g extra þykkt beikon (ég notaði frá Ali), skorið í bita
 • 3 tsk ólífuolía
 • 1 lítill rauðlaukur, saxaður smátt
 • 1-2 tsk chili krydd
 • 3-4 hvítlauksrif
 • 2 öskjur kokteiltómatar, skornir í tvennt (eða ca. 4-5 vel þroskaðir tómatar skornir í litla bita)
 • 2/3 dl rauðvín
 • fersk basilika (ég átti hana ekki til og notaði þurrkaða basiliku ásamt ferskri steinselju)
 • 1,5 dl parmesan ostur, rifinn
 • klettasalat
 • salt & pipar

IMG_7888

Pasta soðið eftir leiðbeiningum.
Beikon steikt þar til það er orðið dökkt og stökkt. Þá er það veitt upp úr pönnunni með gataspaða og lagt ofan á eldhúspappír til að láta mestu fituna renna af. Ca. 3/4 af fitunni af pönnunni hellt af og ólífuolíunni, lauk og chili bætt út á pönnuna. Laukurinn steiktur þar til hann er orðin mjúkur og glær. Þá er hvítlauknum bætt út í og hann steiktur í stutta stund. Því næst er tómötum ásamt basiliku bætt út í og sósan látin malla í ca. 5 mínútur. Að síðustu er rauðvíninu bætt út í, sósan látin ná suðu og er henni leyft að malla við meðalhita nokkrar mínútur. Sósan er smökkuð til með salti, pipar og fleiri kryddum ef með þarf. Að lokum sósunni blandað saman við rifinn parmesan ost, klettasalat, beikon og sjóðandi heitt pasta. Öllu blandað vel saman og borið fram með góðu brauði. Svona lagði Jóhanna Inga skemmtilega á borðið! 🙂

IMG_7894

Pastagratín með nautahakki og ostasósu


Ég var búin að finna spennandi uppskrift af pastagratíni með nautahakki sem mig langaði að prófa. Í gærkvöldi átti ég hakk og ákvað að prófa réttinn. En þá uppgötvaði ég að eiginlega ekkert annað var til sem þurfti í uppskriftina! Mér finnst alltaf dálítið spennandi að reyna að spinna úr hráefnum sem ég á til þannig að ég réðst í breyta réttinum í samræmi við þau hráefni sem ég fann í ísskápnum. Ég notaði til dæmis pepperoní í stað chorizo pylsu, bjó til rjómaostasósu í stað þess að nota sýrðan rjóma og gerði ýmsar aðrar breytingar. Þetta varð eiginlega eins og lasagna ,,with a twist“! Rétturinn kom mjög vel út, hann fékk hæstu einkunn hjá öllum í fjölsksyldunni. Ekki síst yngstu krökkunum, ég held að Vilhjálmur hafi fengið sér allavega þrisvar eða oftar á diskinn!

Uppskrift:

 • 400 gr pasta
 • 800 gr nautahakk
 • 1 lítill rauðlaukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 msk tómatpúrra
 • 1 dós niðursoðnir tómatar með basiliku
 • 1 teningur eða 1 msk nautakraftur
 • 1 bréf pepperóni
 • salt & pipar
 • heitt pizzukrydd eða annað gott krydd
 • rifinn ostur

Ostasósa: 

 • 40 gr smjör
 • 40 gr hveiti
 • ca 4-5 dl mjólk
 • 100 gr rjómaostur
 • 1-2 dl rifinn ostur
 • múskat
 • salt og pipar

Ofn hitaður í 200 gráður. Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Laukur saxaður smátt ásamt hvítlauk og hvor tveggja steikt á pönnu upp úr olíu. Því næst er hakkinu bætt á pönnuna og það steikt. Pepperóni er skorið niður í bita og því bætt út á pönnuna ásamt nautakrafti, niðursoðnum tómötum og tómatpúrru bætt út í. Kjjötsósan krydduð eftir smekk (mér finnst gott að krydda hana vel!) og hún svo látin malla á vægum hita, á meðan er ostasósan útbúin.

Ostasósa: Smjör brætt í potti og hveiti hrært saman við. Síðan er mjólkinni hellt rólega saman við, hrært án afláts á meðan. Rifnum osti og rjómaosti bætt út í, hrært saman á vægum hita þar til að osturinn er bráðnaður. Kryddað með múskati, salti og pipar.

Ostasósan sett á botninn á eldföstu móti, því næst er pasta dreift yfir, þá kjötsósunni og svo koll af kolli. Endað á kjötsósu og ostasósu (pastað verður hart ef það lendir efst) og þá er rifnum osti dreift yfir og rétturinn bakaður í ofni við 200 gráður í ca. 15-20 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað.

Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni


Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því  á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!

Uppskrift f. 5

 • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
 • 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
 • 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
 • 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
 • 300 gr rjómaostur
 • 2 dósir sýrður rjómi
 • 1-2 dl mjólk
 • 1 msk kjúklingakraftur
 • 3 msk mango chutney
 • pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
 • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.