Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti


IMG_5280

Ég er ein af mörgum sem hef beðið með óþreyju eftir að Costco opnaði. Fram að þessu þá hef ég saknað ótal hráefna í matargerð. Sum þessara hráefna hafa verið í boði í sérverslunum hér á landi en þá sjaldnast á verði sem býður upp á hversdagsnotkun. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með Costco ferðina mína (… ok, hef reyndar farið þrisvar á einni viku! 🙂 ). Fyrir utan ákaflega hagstætt verð þá er svo ómetanlegt að fá hráefni af þeim gæðastaðli sem boðið er upp á í Costco. Dæmi um það er meðal annars ferskur buffalo mozzarella ostur, beint frá Ítalíu, sem á ekkert skylt við þennan íslenska. Ótrúlega sætir og ljúffengir kirsuberjatómatar á kvisti, ferskt pasta, ferskur fetaostur, grísk jógúrt, geitaostur, parmesan ostur, parmaskinka, fersk og hrein áleggsskinka ásamt ótal öðru, allt á viðráðanlegu og góðu verði svo ekki sé talað um grænmetið, ávextina, berin, ólífuolíuna, hneturnar og svo margt fleira. Gæðin á kjötinu eru líka frábær, nautahakkið er t.d. eins og beint frá býli, slík eru gæðin.

Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂 Ég ætla að setja inn þessar uppskriftir sem ég talaði um hér að ofan en fyrst langar mig að gefa ykkur hugmyndir um hvernig hægt sé að nýta ýmisskonar hráefni sem fæst í Costco. Ég tók eftir því í ferðum mínum til Costco að það eru ekki alltaf til sömu vörurnar á milli daga. Til dæmis fann ég skinkuna í fyrstu ferðinni en hef ekki séð hana aftur. Ég er viss um að það er enn verið að stilla af vöruúrval og vörukaup en hins vegar þá gengur Costco líka dálítið út á það að kaupa inn það sem er ferskt/hagstætt hverju sinni og það gildir því að kaupa alltaf strax það sem maður hefur augastað á því það er alls ekkert víst að fá þá vöru í næstu innkaupaferð.

Ferskur maís er svo dásamlega góður. Meðlæti sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni er þetta maíssalsa þar sem ferskur maís er í aðalhlutverki. Þessi ferski og góði maís kostar 990 kr og er upplagður í þessa uppskrift.

maís

Ég ákvað að prófa þessar rækjur þar sem að við munum halda upp á útskrift elstu dótturinnar úr lögfræði núna í júní. Þetta eru mjög góðar rækjur sem sóma sér vel á veisluborðið.

rækjur

Tempura rækjurnar (kostuðu 1859 kr) voru enn betri, alveg rosalega góðar, mæli sannarlega með þeim.
tempura

IMG_5266

Svo ég haldi aðeins áfram í tilbúna matnum þá kom þessi indverski matarbakki (kr. 1599) mjög á óvart. Þetta eru grænmetisréttir, alveg rosalega góðir. Það fylgdi bragðsterk sósa með en ég gerði líka raita jógúrt sósu með matnum sem gerði þetta enn betra. Þessir bitar geta verið sniðugir á smáréttahlaðborð sem valkostir fyrir grænmetisætur.

indverskt

Talandi um jógúrt sósu. Ég hoppaði hæð mína þegar ég sá grísku jógúrtina í Costco! Alvöru gríska jógúrt og það sem enn betra var, heilt kíló á rúmar 600 kr! Þessi jógúrt er svo mjúk og góð, dásamleg í ýmsar sósur en líka ofboðslega góð með ferskum ávöxtum, berjum, múslí og jafnvel dálitlu hunangi. Já og í guðanna bænum, kaupið þessa með 10% fitu, ekki 0% prósent! 🙂

Hér eru nokkrar uppskriftir að góðum jógúrtsósum:

Jógúrtsósa með fetaosti

Gulrótar-tzatziki sósa

Tzatziki-engifer sósa

Myntu jógúrtsósa

jógúrt

Eitt af því sem mér finnst óskiljanlegt hér heima er skinkan sem okkur er boðið upp á sem álegg. Ég get ekki hugsað mér að borða þessa hlaupkenndu og ógirnilegu skinku sem er til í hefðbundnum matvörubúðum en leyfi mér stundum að kaupa ekta skinku hjá Pylsumeistaranum. Í Costco fann ég hins vegar alvöru skinku, niðursneidda, alveg ljúffenga. Ekki skemmdi það fyrir að heil 900 grömm kosta bara 1699 kr – húrra! 🙂 Ég er líka spennt að geta notað svona gæðaskinku í heita brauðrétti, til dæmis þennan hér og einnig í þennan góða kjúklingarétt.

skinka

Ferski ítalski buffalo mozzarella osturinn er lostæti og ekkert líkur þeim mozzarella osti sem við höfum fengið að venjast hér heima. Í næstu færslu mun ég einmitt setja inn uppskrift að ljúffengu ítölsku salati með meðal annars þessum dásemdarosti. En þangað til mæli ég með að nota þennan hágæða mozzarella ost í uppáhalds ítalska kjúklingapastað okkar, þetta góða rúllutertubrauð eða i frábæru nautahakksrúlluna.

mozzarella

Tómatarnir eru himneskir! Litlu kirsuberjatómatarnir á kvisti eru svo sætir og góðir að þeir ættu að flokkast sem sælgæti! Þeir myndu sóma sér vel í þessum vinsæla kjúklingarétti og líka dásemdar kjúklingasalatinu sem krakkarnir mínir óska sér vikulega.

tomatartómatar

Þennan franska Brie eins kílóa Brie ost keypti ég fyrir partý hér heima og sem betur fer var smá afgangur sem ég naut með ferskum hindberjum úr Costco. Þvílíkt mjúkur og mildur ostur, sá besti sem ég hef fengið hér heima og æðislegt að geta keypt svona góðan og stóran ost á veisluborðið (kostar 2500 kr). Það væri heldur ekki amarlegt að bjóða upp á ostinn framreiddan á þennan hátt eða nota hann í þessa himnesku Brie-ostaböku.

ostur

Ég veit að sumir eru alls ekki hrifnir af geitaosti og sjálf borða ég hann ekki eintóman en þegar hann er hitaður eða bakaður verður hann alveg æðislegur í salöt, forrétti, sósur og fleira. T.d. er hægt að búa til ljúffengan forrétt með bökuðum, ferskum rauðbeðum, geitaosti, furuhnetum og hunangi … himneskt gott! Þið bara verðið að gefa geitaosti séns! 😉 Hingað til hefur verið hægt að kaupa örþunna sneið á þúsund kall en hér er eitt kíló á 2599 kr. – frábært! Hér er uppskrift að æðislega góðum laxi með geitaosti.

geitaostur

Girnilegt ítalskt ”antipasto” sem gerir ostabakkann ómótstæðilegan! Eða hvernig væri að búa til þennan frábæra kjúklingarétt eða skella í ítalska brauðtertu? Ekki er verra að nota skinkuna sem þarna er að finna, ásamt ferska buffalo mozzarella ostinum sem ég fjalla um aðeins ofar, í einn af mínum uppáhaldsréttum, uppskrift er að finna hér.

álegg

Halloumi ostur er dásamlegur, hann minnir pínulítið á mozzarella ost en er þéttari og saltaðri. Það er ljúffengt að marínera hann eða bara krydda og síðan grilla hann eða steikja, hann er æðislegur út í salatið! Svo ekki sé talað um að vefja hann beikoni og grilla, uppskrift hér.

halloumi

Risarækjurnar finnst mér himneskt góðar og ég er stöðugt með löngun í þetta salat. Það eru til nokkrar tegundir af risarækjum í Costco. Í Costco keypti ég líka niðursneitt mangó sem var alveg fullkomið og smellpassar í risarækju-salatið. Ég mæli líka með avókadóinu í netinu sem fæst í Costco. Það eru risastórt og að mig minnir eru þau sex saman í neti. Þau virka mjög hörð en eftir tvo daga frammi á borði opnaði ég það mýksta og það var besta avókadó sem ég hef fengið! 🙂

rækjur2

Uppskriftin sem ég ætla að setja hér inn fyrst er af pastarétti sem var algjört lostæti! Þessi máltíð var fyrir fimm og kostaði nákvæmlega 3177 krónur samtals eða 635 krónur á mann sem mér finnst hlægilega lágt verð miðað við hversu dásamlega góður matur þetta var. Aspasinn er himneskt góður og þvílík lukka að geta núna keypt ferskan og frábæran aspas á svona góðu verði! Dómur fjölskyldunnar var að þetta væri réttur sem jafngilti bestu máltíð á ítölskum veitingarstað. 🙂 Sósan er eins og heimagerð, pastað frábært og súrdeigsbrauðið æðislega gott .. svo ekki sé talað um ferska aspasinn sem er sælgæti! Svona á þetta að vera, gæðahráefni á viðráðanlegu verði, takk Costco! 🙂

IMG_5271

Aspasinn (750 g) kostaði 990 kr.

Pastað (750 g) kostaði 779 kr.

Sósan (700 g) kostaði 649 kr.

Brauðið kostaði 111 kr. (það koma súrdeigsbrauð (baquette) 5 saman í pakka)

Annað hráefni átti ég fyrir

Uppskrift f. 5:

 • 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
 • 700 g Biffi Napoletana sósa
 • 750 g ferskur aspas
 • 80 g smjör
 • 50 g ólífuolía
 • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
 • Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
 • Sítrónusafi
 • Parmesan ostur
 • Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)

Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.

IMG_5273

Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.

IMG_5281

5 hugrenningar um “Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti

 1. Geggjað flott færsla min kæra nú held ég eg verði að fá mér Costco kort

 2. Takk fyrir þessar upplýsingar um Costco og ekki síst fyrir þínar frábæru uppskriftir sem ég nota oft.

 3. Flott uppskrift. Ég skellti mér í Costco til að versla í þessa máltíð og skoða vöruúrvalið en fann hvergi þetta pasta. Er það geymt í kæli?

  • Já, ég fór einmitt áðan og ætlaði að kaupa meira en það var uppselt. Þegar ég keypti það um daginn þá var það við endann á ostakælinum. Aspasinn var líka búinn, eins brauðið! Eina sem var til var sósan og parmesan osturinn! 🙂 Ég vona bara að Costco fari að bera vörurnar hraðar ofan í okkur! 😉

 4. Bakvísun: Skyr parfait og útskriftarveisla | Eldhússögur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.