Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂
Uppskrift f. 5:
- 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
- 700 g Biffi Napoletana sósa
- 750 g ferskur aspas
- 80 g smjör
- 50 g ólífuolía
- 1-2 hvítlauksrif, pressuð
- Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
- Sítrónusafi
- Parmesan ostur
- Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)
Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.
Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.