Costco kjúklingasalat

Tilvitnun


Ekki láta hráefnin í þessari uppskrift fæla ykkur frá! Við erum ekki vön kjúkling úr dós, margir eru lítið hrifnir af selleríi og þurrkuð trönuber eru ný fyrir okkur. Hins vegar verður þessi blanda geggjuð, ég lofa! Costco úttektin mín heldur sem sagt áfram og að þessu sinni með hjálp vinkonu sem býr í Bandaríkjunum og þekkir vörurnar í Costco vel en öll þessi hráefni fást í Costco – þetta er þó ekki kostuð færsla! 🙂

Það var nú dálítið skondið hvernig vinkonu minni áskotnaðist uppskriftin að þessu gómsæta kjúklingasalati. Það er selt i veitingasölunni í líkamsræktarstöðinni sem hún sækir (eigum við ekki að slá því föstu að þetta hljóti því að vera voðalega hollt salat?! 😉 ). Svo þegar bensínkostnaðu hennar, vegna akstur á líkamsræktarstöðina, var orðinn of hár miðað við þyngdartap (en í ágætu sambandi við þyngdaraukinguna!) þá sá hún sig tilneydda til að verða sér út um þessa uppskrift. Sá vandi var hins vegar fyrir höndum að þetta var vinsælasta uppskrift staðarins og háleynileg. Vinkona mín gerði sér lítið fyrir og vingaðist við konuna sem starfaði við þrif á staðnum, þær pukruðust úti í horni með viðskiptin og uppskriftin rataði þannig til vinkonu minnar .. og nú ykkar! 🙂
Ég var dálítið efins þegar ég prófaði þessa uppskrift í fyrsta sinn og ákvað að nota vinnufélaga Elfars sem tilraunadýr. Hann fór með salatið á morgunverðarborðið í vinnunni og mér skilst að salatið hafi slegið rækilega í gegn og margir viljað uppskrift. Ég var líka með þetta salat í afmælisveislu pabba í gær og þar var sama sagan, ykkur ætti því að vera algjörlega óhætt að prófa! 🙂


Þetta er hrikalega gott salat og skemmtileg tibreyting frá túnfisk- og rækjusalatinu. Mér fannst dálítið skrítið fyrst að vera nota kjúkling úr dós en áferðin minnir mikið á túnfisk í dós. Þurrkuðu trönuberin gefa skemmtilega sætt bragð og það er líka gott að nota þau út í allskyns annarskonar salöt.

Það er gott að smakka sig dálítið áfram með magn hráefnis í uppskriftina en hér eru hlutföllin sem ég nota.

Uppskrift:

  • 250 ml majónes (ég notaði Hellmans)
  • 25-30 g sykur
  • 1 msk edik (helst eplaedik en annarskonar ljóst edik er í lagi)
  • salt og pipar
  • 1 dós kjúklingur – 345 g (rifinn niður fínt)
  • 1-2 sellerístangir, saxaðar mjög fínt
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður mjög fínt
  • ca. 60 g þurrkuð trönuber (Craisins – dried cranberries)
  • 50 g valhnetur, saxaðar (má sleppa)

Majónes, sykur og edik hrært saman og kryddað með salti og pipar.
Kjúklingur er rifinn niður smátt (gott að vera í einnota hönskum og gera það í höndunum) og smátt söxuðu sellerí, smátt söxuðum rauðlauk og þurrkuðum trönuberjum ásamt valhnetum (ég hef sleppt þeim) er blandað saman út í majónesið. Borið fram með kexi, hrökkbrauði eða góðu brauði.

Ravioli í ítalskri tómatsósu og ferskur aspas með parmesan osti


IMG_5280

Í vikunni sem leið bauð ég upp á þrjá kvöldverði sem hafa allir það sammerkt að vera ótrúlega einfaldir í matreiðslu, óvenju ódýrir og byggðir á gæðahráefni sem ég verslaði í Costco. Þetta voru svo góðir málsverðir að við fjölskyldan höfum ekki getað hætt að tala um þá! Ég þarf vart að taka fram að þetta loftal mitt er ekki styrkt af Costco enda líklega ekki til það fyrirtæki hér á landi sem er svona vel auglýst án þess að hafa auglýst nokkurn skapaðan hlut sjálft! 🙂

IMG_5271

Uppskrift f. 5:

  • 750 Ravioli með ricotta og spínati (kemur í 3 x 250g pakkningum)
  • 700 g Biffi Napoletana sósa
  • 750 g ferskur aspas
  • 80 g smjör
  • 50 g ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • Maldon salt & grófmalaður svartur pipar
  • Sítrónusafi
  • Parmesan ostur
  • Gott brauð (ég notaði þetta súrdeigsbrauð: Menissez baquette)

Ofn hitaður í 180 gráður á blæstri. Aspasinn lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír. Smjörið og ólífuolían brædd saman í potti, pressuðum hvítlauk bætt út í og hellt yfir aspasinn. Saltað og piprað. Parmesan ostur rifinn yfir apasinn. Sett í ofn í ca. 12-14 mínútur eða þar til aspasinn er passlega eldaður (þess gætt að hann brenni ekki). Um leið og aspasinn kemur út úr ofninum er parmesan osti dreift yfir ásamt örlitlum sítrónusafa.

IMG_5273

Á meðan aspasinn er í ofninum er pastað soðið eftir leiðbeiningum og sósan hituð. Borið strax fram með aspasinum, parmesan osti og góðu brauði. Gott er að krydda með grófmöluðum svörtu pipar eftir smekk.

IMG_5281