Mozzarella- og tómatasalat með pestósósu og parmaskinku


IMG_5965

Hingað til hef ég ekki mikið verið að bjóða fjölskyldunni upp á einfalt salat í kvöldmatinn nema í því sé kjúklingur eða eitthvað annað bitastætt. Ég hef einhvern veginn tekið því sem gefnu að börnin yrðu ekki hrifin og  jafnframt hef ég haldið að eingöngu salat væri ekki nægileg kvöldmáltíð. Nú hefur viðhorf mitt gjörbreyst því þetta salat er orðið ein af vinsælustu máltíðunum heimilisins! Salatið lætur mjög lítið yfir sér en galdurinn við það eru vönduð og góð hráefni. Það þýðir til dæmis ekkert að nota íslenska mozzarella ostinn eða óspennandi tómata í þetta salat ef það á að vera gott. Lykilhráefnin er alvöru buffalo mozzarella osturinn sem fæst í Costco ásamt sætu og ljúffengu kokteiltómötunum sem eru á kvisti.

 

Buffalo mozzarella osturinn er stinnur að utan en mjúkur innan í og það er auðvelt að taka hann í sundur með fingrunum, algjört hnossgæti! Fólkið mitt er líka mjög hrifið af pestó sósunni sem fæst í Costco og hún smellpassar með þessu salati.

IMG_5962

Sem sagt, til þess að gera hið fullkomna salat sem ég veit að slær í gegn þá kaupi ég í Costco: buffalo mozzarella, litla kvisttómata, avókadó (þessi í netinu í Costco eru rosalega góð og stór), míní paprikur og pestó sósu. Ég bæti svo við góðu grænu blönduðu káli og oftar en ekki er ég líka með parmaskinku sem gerir salatið enn matarmeira og gúrmei!

IMG_5973

Hérna bætti ég jafnframt við granateplakjörnum sem var óskaplega gott! Sjálf set ég oft líka ótæpilegt magn af fersku kóríander út á salatið mitt en það eru víst ekki allir jafn hrifnir af kóríander og ég!

IMG_5268

Það er misskilningur hjá mörgum að til að salat verði gott þá þurfi að setja svo mörg hráefni í salatið eða að með því setja allt sem manni þykir gott í salat þá verði það sjálfkrafa gott. Mín skoðun er að hið fullkomna salat séu fá, en jafnframt mjög góð, hráefni og allt þarf að smella saman eins og hönd í hanska! Þetta salat uppfyllir algjörlega þau skilyrði og ég hvet ykkur til að prófa!

IMG_5972

Það er ekki verra að bera salatið fram með nýbakaða súrdeigsbrauðinu sem fæst í Costco!
sous_at_accueil

 

Já og nóta bene, þetta er ekki styrkt færsla af Costco, ég er bara hrifin af vönduðu hráefni! 🙂

Uppskrift:

  • ca. 120 g blandað salat (t.d. ruccola, spínat, rauðkálsblöð …)
  • 5-6 míní paprikur í blönduðum lit (fást í Costco), skornar í sneiðar
  • 1 stórt avókadó, skorið í bita (mæli með þessum í netunum í Costco)
  • 2 kúlur buffalo mozzarella (fæst í Costco), tættar í sundur með fingrunum
  • ca. 300 g kokteiltómatar á kvisti (úr Costco), skornir í tvennt
  • 100 g parmaskinka
  • Pestó sósa (ég mæli með Belazu Italian basil pestó úr Costco)

Salatið er sett á botninn á breiðum disk, þá er paprikunnni bætt út á salatið, því næst avókadó, svo mozzarella og tómötum. Að lokum er parmaskinkan skorin niður og dreift yfir salatið ásamt pestósósu. Borið fram með góðu brauði, t.d. steinofnsbökuðu súrdeigsbrauði. 

IMG_5267

Costco kjúklingasalat

Tilvitnun


Ekki láta hráefnin í þessari uppskrift fæla ykkur frá! Við erum ekki vön kjúkling úr dós, margir eru lítið hrifnir af selleríi og þurrkuð trönuber eru ný fyrir okkur. Hins vegar verður þessi blanda geggjuð, ég lofa! Costco úttektin mín heldur sem sagt áfram og að þessu sinni með hjálp vinkonu sem býr í Bandaríkjunum og þekkir vörurnar í Costco vel en öll þessi hráefni fást í Costco – þetta er þó ekki kostuð færsla! 🙂

Það var nú dálítið skondið hvernig vinkonu minni áskotnaðist uppskriftin að þessu gómsæta kjúklingasalati. Það er selt i veitingasölunni í líkamsræktarstöðinni sem hún sækir (eigum við ekki að slá því föstu að þetta hljóti því að vera voðalega hollt salat?! 😉 ). Svo þegar bensínkostnaðu hennar, vegna akstur á líkamsræktarstöðina, var orðinn of hár miðað við þyngdartap (en í ágætu sambandi við þyngdaraukinguna!) þá sá hún sig tilneydda til að verða sér út um þessa uppskrift. Sá vandi var hins vegar fyrir höndum að þetta var vinsælasta uppskrift staðarins og háleynileg. Vinkona mín gerði sér lítið fyrir og vingaðist við konuna sem starfaði við þrif á staðnum, þær pukruðust úti í horni með viðskiptin og uppskriftin rataði þannig til vinkonu minnar .. og nú ykkar! 🙂
Ég var dálítið efins þegar ég prófaði þessa uppskrift í fyrsta sinn og ákvað að nota vinnufélaga Elfars sem tilraunadýr. Hann fór með salatið á morgunverðarborðið í vinnunni og mér skilst að salatið hafi slegið rækilega í gegn og margir viljað uppskrift. Ég var líka með þetta salat í afmælisveislu pabba í gær og þar var sama sagan, ykkur ætti því að vera algjörlega óhætt að prófa! 🙂


Þetta er hrikalega gott salat og skemmtileg tibreyting frá túnfisk- og rækjusalatinu. Mér fannst dálítið skrítið fyrst að vera nota kjúkling úr dós en áferðin minnir mikið á túnfisk í dós. Þurrkuðu trönuberin gefa skemmtilega sætt bragð og það er líka gott að nota þau út í allskyns annarskonar salöt.

Það er gott að smakka sig dálítið áfram með magn hráefnis í uppskriftina en hér eru hlutföllin sem ég nota.

Uppskrift:

  • 250 ml majónes (ég notaði Hellmans)
  • 25-30 g sykur
  • 1 msk edik (helst eplaedik en annarskonar ljóst edik er í lagi)
  • salt og pipar
  • 1 dós kjúklingur – 345 g (rifinn niður fínt)
  • 1-2 sellerístangir, saxaðar mjög fínt
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður mjög fínt
  • ca. 60 g þurrkuð trönuber (Craisins – dried cranberries)
  • 50 g valhnetur, saxaðar (má sleppa)

Majónes, sykur og edik hrært saman og kryddað með salti og pipar.
Kjúklingur er rifinn niður smátt (gott að vera í einnota hönskum og gera það í höndunum) og smátt söxuðu sellerí, smátt söxuðum rauðlauk og þurrkuðum trönuberjum ásamt valhnetum (ég hef sleppt þeim) er blandað saman út í majónesið. Borið fram með kexi, hrökkbrauði eða góðu brauði.

Salat með lambalundum, sætum kartöflum, fetaosti og ofnbökuðum tómötum


IMG_6105IMG_6066

Þessi réttur hentar fullkomlega fyrir t.d. saumaklúbba eða aðrar slíkar samkomur þegar mann langar að bjóða upp á góða en einfalda rétti. Góð salöt geta verið svo hrikalega góð og í þessu salati er gjörsamlega allt sem mér þykir best, sætar kartöflur, gott lambakjöt, kasjúhnetur, avókadó, smjörsteiktir hvítlaukssveppir og margt annað gómsætt.

Uppskrift f. 4:

Marinering:

  • 600 g lambalundir eða lambafillé
  • 1 límóna (lime), safi og fínrifið hýði
  • 1.5 dl ólífuolía
  • 2 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • ca 15 g flatblaða steinselja
  • 2 vorlaukar, saxaðir smátt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 rauður chili, saxaður smátt
  • 1 msk rifið engifer

Hráefnunum fyrir marineringuna er blandað saman og helmingur hennar lögð til hliðar. Lambakjötið er lagt í merineringu í hinn helminginn í minnst 1 klukkustund. Þá er kjötið grillað eða steikt á pönnu eftir smekk. Því næst er það lagt undir álpappír í minnst 10 mínútur og að lokum skorið niður í sneiðar.

IMG_6078

Salat:

  • 500 g sæt kartafla
  • 1 rauð paprika
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • ólífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 250 g sveppir
  • ca. 20 g smjör
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 200 g spínat
  • 2 avókadó
  • 1 krukka fetaostur í kryddolíu (250 g)
  • ca. 100 g kasjúhnetur

Ofn hitaður í 200 gráður við blástur. Kirsuberjatómatar skornir í tvennt og þeir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír með skornu hliðina upp. Ólífuolíu, salti, pipar og örlítið af chiliflögum dreift yfir tómatana. Paprika skorin í bita og sætar kartöflur skornar í bita, sett saman í ofnskúffu eða í stórt eldfast mót og velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Kokteiltómatarnir ásamt sætu kartöflunum og paprikunni er hitað inni í ofni í um það bil 30 mínútur. Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjöri, í lok steikingar er pressuðum hvítlauksrifum bætt út á pönnuna og kryddað með salti og pipar. Kasjúhnetur eru saxaðar gróft og ristaðar á þurri pönnu. Avókadó skorið í bita. Þegar sætu kartöflurnar og paprikan ásamt kokteiltómötunum er tilbúið, er öllu blandað saman við lambakjötið, sveppina, avókadó, fetaost (gjarnan dálítið af olíunni), spínat og ristuðu kasjúhneturna. Restin af marineringunni sem var geymd, er dreift yfir salatið.

IMG_6090

Salat með sesamkjúklingi


Salat með sesamkjúklingi

Ég tók mér ekki bara frí frá blogginu í gær heldur eldamennskunni líka þar sem að ég átti afmæli. Eiginmaðurinn ákvað að það væri kominn tími til að hann eldaði fyrir mig! 🙂 Hann grillaði líka þessa dýrindis steik með gómsætu meðlæti. Maturinn var eiginlega hættulega góður hjá honum og líkurnar á því að hann verð sendur oftar í eldhúsið stórjukust eftir gærdaginn!

Það var svo margt skemmtilegt um að vera um síðustu helgi. Auk þess sem við hjónin fórum á Hótel Glym þá fórum við líka í stóra og glæsilega fertugsafmælisveislu hjá einni vinkonu minni úr saumaklúbbnum. Á sunnudagskvöldinu hélt ég svo saumaklúbb til þess að við stelpurnar gætum nú gert upp skemmtunina kvöldið áður! 🙂 Ég hafði fengið óskir um að hafa Snickerskökuna, að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk. Að auki bjó ég til kjúklingasalat og þessar bruschetta snittur nema að þessu sinni skipti ég út mozzarella fyrir gullost og basiliku fyrir kóríander og steinselju. Kjúklingasalatið var samanblanda af hinu og þessu og var afskaplega ljúffengt. Að minnsta kosti þorðu stelpurnar ekki að segja neitt annað við mig þessar elskur! Mér fannst dressingin einstaklega góð og mun klárlega nýta þá uppskrift fyrir fleiri salöt. Magnið af hráefninu í kjúklingasalatið og hlutfallið á milli þeirra fer eftir smekk.

IMG_9295

Uppskrift:

  • kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • kjúklingakrydd
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • maple síróp
  • sesamfræ
  • spínat
  • klettasalat
  • grænt salat
  • kokteiltómatar, skornir til helminga
  • avókadó, skorið í bita
  • mangó, skorið í bita
  • jarðarber, skorin í bita
  • nachos flögur, muldar gróft
  • beikon
  • fetaostur með olíu en olían síuð frá

IMG_9289

Kjúklingabringur eru skornar í fremur litla bita og þeir kryddaðir með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Steikt á pönnu þar til kjúklingabitarnir hafa náð góðum lit. Þá er sírópi og sesamfræum bætt út á pönnuna, hrært vel saman við kjúklinginn, og látið krauma í dálitla stund (þar til enginn vökvi er eftir á pönnunni). Ég notaði 1 kíló af kjúklingabringum og ca. 1/2 dl af maple sírópi og 1/3 dl af sesamfræum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann látin til hliðar og leyft að kólna.

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til bitarnir verða stökkir. Þá er öllum hráefnunum blandað saman og salatdressingunni dreift yfir salatið.

IMG_9291

Salatdressing:

  • 1/2 dl olífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 cm ferskur engifer, rifinn fínt
  • nokkrar greinar fersk steinselja, söxuð fínt
  • ca 1 msk sesamfræ
  • maldon salt
  • 1/2 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur grænmetiskraftur

Öllum hráefnunum blandað vel saman og dressingunni dreift yfir salatið.

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðarberjum


IMG_9146Ég var búin að vera með yfirlýsingar um að páskamaturinn hjá okkur yrði kalkúnn eða mögulega lambakjöt. Þessar fyrirætlanir breyttust allar þegar ég fékk allt girnilega nautakjötið frá Mýranauti. Ég glímdi við dálítinn valkvíða þar sem um svo marga girnilega nautakjötsbita var að ræða en á endanum ákvað ég að hafa roastbeef. Með því bar ég fram heimagerða bearnaise sósu (og brúna fyrir gikkina!), kartöflugratín og spínatsalat með jarðaberjum, fetaosti og ristuðum valhnetum. Jimundur minn hvað þetta var gott! Kjötið var dásamlega meyrt og safaríkt og meðlætið fullkomið með kjötinu. Kartöflugratínið er algjör snilld því það er svo fljótlegt og hrikalega bragðgott. Með því að sjóða kartöfluskífurnar fyrst í rjómaleginum þá þurfa þær bara örstutta stund í ofninum. Þannig gat ég ofnbakað kartöflugratínið á meðan kjötið jafnaði sig eftir ofnsteikinguna. Ég geri ekki kartöflugratín á annan hátt eftir að ég uppgötvaði þessa aðferð.

IMG_9137

Ég steikti fyrst kjötið á pönnu við háan hita og eldaði það svo við lágan hita inni í ofni. Ég sá að meistari Nanna Rögnvaldar skrifaði um daginn að það væri mýta að hægt væri að loka kjöti með því að steikja það á pönnu, nokkuð sem mér fannst mjög áhugavert að lesa. Þetta sagði hún:

,,Þetta kalla mjög margir að ,,loka” kjötinu og telja að með því að byrja á að snöggbrúna það sé verið á einhvern hátt að þétta yfirborðið svo safinn leki síður úr kjötinu. Eins og við þetta myndist einhvers konar vatnsheld hella eða hjúpur kringum kjötið …

Sem er náttúrlega alrangt.

Maður lokar ekki nokkrum sköpuðum hlut með því að brúna yfirborðið. Safinn lekur alveg jafnört úr kjötinu út á pönnuna eftir sem áður. Ef ekki örar. Þetta hefur verið margsannað með tilraunum þar sem tvö nákvæmlega eins kjötstykki eru matreidd, annað brúnað fyrst, hitt ekki, og þau síðan elduð á sama hátt þar til sama kjarnhita er náð. Síðan eru þau vigtuð til að kanna hvort hefur tapað meiri safa. Í hverri tilrauninni af annarri hefur það komið á daginn að stykkið sem var ,,lokað” tapaði jafnmiklum eða meiri safa en hitt.

Samt tekst ekki að kveða þessa mýtu niður (ég er búin að vera að tuða um þetta í fimmtán ár að minnsta kosti) og flestir, jafnt húsmæður sem frægir kokkar, halda áfram að tala um að ,,loka kjötinu”.

En á maður þá nokkuð að vera að brúna? Jú reyndar. Því að þótt brúnunin loki ekki nokkrum sköpuðum hlut, þá gerir hún annað: hún bætir bragðið. Sykrurnar og amínósýrurnar á yfirborði kjötsins bráðna saman í hitanum (sem þarf að vera yfir 150°C) og yfirborðið brúnast eða ,,karamelliserast” og við það myndast þetta unaðslega bragð sem fæstir vildu missa af. Og kjötið verður líka fallegra og girnilegra fyrir vikið.“

Þar hafið þið það, meistarinn hefur talað! 🙂 Hér með leggja Eldhússögur sitt af mörkum við að kveða niður mýtuna um að hægt sé að „loka kjöti“!

04146Með þessu gómsæta kjöti mælir vínþjónninn Sævar Már Sveinsson með  ítalska rauðvíninu Tommasi Le Pruneé Merlot. 

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Skógarber, bláber, jörð, lyng, hýði.

IMG_9126

Uppskrift:

  • ca 2 kíló nauta innra læri
  • olía
  • smjör og olía til steikingar
  • maldonsalt
  • ferskmalaður svartur pipar

Kjötið er tekið úr kæli og látið ná stofuhita. Ofninn er hitaður í 120 gráður, undir- og yfirhita. Þá er það nuddað með olíu og kryddað mjög vel með maldonsalti og ferskmöluðum svörtum pipar. Kjötið er steikt á pönnu upp úr blöndu af smjöri og olíu við háan hita á öllum hliðum í stutta stund. Þá er kjötið lagt í eldfast mót og kjöthitamæli stungið í þykkasta hluta kjötsins. Kjötið er steikt í ofni við 120 gráður þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð um það bil 55 gráðum. Kjötið hjá mér var 2 kíló og það tók 2 klukkutíma á 120 gráðum að ná þessum kjarnhita. Þá er kjötið tekið út og látið jafna sig í 15-20 mínútur undir álpappír. Mjög mikilvægt er að leyfa kjötinu að jafna sig eftir ofnsteikinguna, ef það er skorið of snemma þá missir það safann.

IMG_9134

Bernaise sósa:

  • 4 eggjarauður
  • 250 gr. smjör
  • 1 msk.  Bernaise Essence
  • Fáfnisgras (franskt estragon –kryddjurt), söxuð smátt
  • salt og pipar

Eggjarauðurnar eru þeyttar ásamt Bernaise essence. Sumir þeyta þær yfir heitu vatnsbaði. Smjör brætt, þegar hitastigið er þannig að maður rétt nær að dýfa fingrinum í það er því hellt varlega í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytt í stöðugt á meðan (mikilvægt! – helst að fá einhvern annan til að hella) með písk. Að lokum er estragoni bætt við. Sósan smökkuð til og krydduð með smá salti og pipar ef þarf. Það má ekki hita upp sósuna aftur eftir að eggjarauðum og smjöri hefur verið blandað saman, þá skilur hún sig. Bearnaise sósan er því ekki heit þegar hún er borin fram, bara volg og má jafnvel vera köld. En fyrir þá sem vilja heita sósu er hægt að hita hana upp varlega yfir vatnsbaði.

IMG_9148

Spínatsalat með jarðaberjum:

  • spínat
  • jarðarber, skorin í bita
  • fetaostur í olíu
  • ristaðar valhnetur

Spínatið er lagt á disk. Jarðarberjunum er svo dreift ofan á spínatið ásamt fetaostinum (smá olía með). Því næst eru valhneturnar saxaðar gróft og þær þurrristaðar á pönnu á eftirfarandi hátt. Panna hituð og valhneturnar ristaðar á pönnunni við fremur háan hita í nokkrar mínútur þar til þær hafa náð góðri ristun, hrært í þeim stöðugt á meðan til þess að þær brenni ekki. Þegar hneturnar hafa kólnað dálítið er þeim að lokum dreift yfir salatið.

IMG_8856

Kartöflugratín f. 8-10

  • ca 1,5 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 grænmetisteningur
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi hellt í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 10-15 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið þá kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður ca. 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

IMG_9156

Djúpsteiktir kjúklingaleggir með súrsætri sósu og heimagerðu hrásalati


IMG_8640

Við fjölskyldan fórum fyrr í kvöld út í norðurljósaskoðun í fimbulkulda. Himinn var einstaklega fallegur í kvöld, við keyrðum aðeins út fyrir borgina horfðum á frábæra norðurljósasýningu og stjörnubjartan himinn. Yngstu krakkarnir voru afar hrifin, sérstaklega Jóhanna Inga sem er mjög hrifnæm, hún var uppnumin yfir þessu litla kvöldævintýri. Ég er nú engin myndasnillingur en við reyndum að festa á filmu brot af ljósasýningunni. Það er samt ekki hægt að taka almennilega mynd af norðurljósum nema með betri græjum, myndavélastatív og slíku.

IMG_8677

Að allt öðru, þegar ég útskrifaðist um daginn fékk ég margar fallegar og góðar gjafir. Ég fékk nokkrar góðar bækur sem pössuðu mínum bókasmekk einstaklega vel, mínir nánustu þekkja mig greinilega! 🙂 Kannski er það skrítin blanda en ég hef gaman af sögulegum skáldsögum, ævisögum og uppskriftabókum. Ég fékk eina góða uppskriftabók sem ég hlakka til að prófa, Dagbók Elku og ástarljóð Páls Ólafssonar, Ég skal kveða um eina þig alla mína daga. Núna ég að lesa Dagbók Elku af áfergju, frábær bók sem veitir einstaka innsýn í líf alþýðukonu í Reykjavík fyrir einni öld. Ég fékk líka ofsalega fallegan disk og diskakúpu, skreyttan með fallegri slaufu, með heimagerðu konfekti frá Hafliða Ragnarssyni. Frábær hugmynd af fallegri gjöf.

Útskrift7

Núna er allt konfektið löngu búið, mikið var það gott! Nú bíður diskurinn eftir eftir einhverju öðru gúmmelaði eða jafnvel einhverju fallegu páskaskrauti. Kannski fer ég að skoða heimilisblogg og leita mér að  páska-innblæstri! 🙂

IMG_8670

Takk Sólveig og Gabríela fyrir fallegu túlípanana í dag! 🙂

En svo ég víki að aðalatriðinu, mat! Síðan ég djúpsteikti fiskinn hennar Gwynnu um daginn hefur mig dagdreymt um að djúpsteikja eitthvað annað, það gekk nefnilega svo óskaplega vel að djúpsteikja fiskinn og hann var svo góður! Ég ákvað um helgina að djúpsteikja kjúklingaleggi. Ég var eitthvað að velkjast með hvað ég ætti að hafa með þessu og endaði á því að hafa hrísgrjón (soðin í kjúklingasoði), heimatilbúið hrásalat og súrsæta sósu í anda asískra veitingastaða. Þetta heppnaðist allt mjög vel og var voðalega gott. Ég skoðaði allskonar uppskriftir og blogg varðandi að djúpsteikja kjúkling. Nanna Rögnvaldar og Læknirinn í eldhúsinu hafa bæði djúpsteikt kjúkling. Ég fór aðra leið en þau, ég forsauð kjúklinginn svo það þyrfti ekki að djúpsteikja hann eins lengi. Þetta er aðferð sem er mikið notuð í amerískum kjúklinga uppskriftum. Það er líka mikilvægt að krydda kjúklinginn vel. Ég notaði mikið af Tabasco sósu, kjúklingum er velt upp úr sósunni sem er blandað við egg, kjúklingurinn verður ekkert sterkur en sósan gefur gott og mikið bragð. Það var mjög gott að sjóða hrísgrjónin upp úr kjúklingasoðinu og kryddi, það gaf þeim afar gott bragð. Hrásalatið er afar einfalt en ofsalega gott, ég er með grunnuppskrift af því hér en að þessu sinni bætti ég líka við gulrótum. Þegar ég djúpsteiki þá er ég alltaf með eldvarnarteppið við hliðina á mér tilbúið til notkunnar!

IMG_8642

Djúpsteiktur kjúklingur:

  • 16 kjúklingaleggir
  • salt & pipar
  • paprikukrydd
  • 2 kjúklingateningar
  • 2 egg
  • 80 ml vatn
  • ca 1/2 flaska Tabasco sósa
  • 300 g hveiti
  • 2 tsk pipar
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk hvítlaukskrydd
  • 2 tsk paprikukrydd
  • olía til djúpsteikingar  (ég notaði corn oil frá Wesson úr Kosti)

Vatn er sett í pott sem passar fyrir alla kjúklingaleggina, út í vatnið er blandað vel af salti, pipar og paprikukryddi auk þess sem kjúklingateningarnir eru leystir upp í vatninu. Suðan er látin koma upp og þá er leggjunum bætt út í pottinn og þeir soðnir í ca. 6 mínútur. Þá eru þeir veiddir upp úr pottinum (ekki hella soðvatninu!) og kældir snöggt undir köldu vatni. Soðvatnið er notað til þess að sjóða hrísgrjónin í. Olía er sett í djúpsteikingarpott eða í stóran, víðan pott, (ég notaði alla olíuna úr flöskunni) og hitað upp í ca. 190 gráður. Ef ekki er notaður hitamælir þá er hægt að prófa sig áfram með því að setja lítinn brauðbita ofan í olíuna. Ef hann verður gullinbrúnn fljótt og það „bubblar“ í kringum hann er olían tilbúin. Egg og vatn hrært saman auk Tabasco sósunnar. Í annarri skál er hveiti og kryddum blandað vel saman. Þegar olían er tilbúin er kjúklingaleggjum velt vel upp úr eggjablöndunni og svo hveitiblöndunni. Nokkrir leggir eru djúpsteiktir í einu, passa verður að hafa ekki of þröngt um þá, þess vegna er gott að nota víðan pott. Ég djúpsteikti kjúklingaleggina í ca. 6 mínútur, þá snéri ég leggjunum varlega við og steikti í 6 mínútur í viðbót. Þetta dugði hjá mér en maður verður að prófa sig áfram, skera í einn legg til að kanna hvort að hann er tilbúinn eftir þennan tíma. Kjúklingurinn er svo lagður á eldhúspappír eftir steikingu. Ef maður djúpsteikir kjúklingaleggina í mörgum hollum er hægt að hafa þá inni í ofni við ca. 100 gráður til að halda þeim heitum. Olíun er kæld, hellt aftur í flöskuna og hún geymd á köldum og dimmum stað, hana er hægt að nota nokkrum sinnum til djúpsteikingar.

IMG_8657

Súrsæt sósa

  •  1 tsk olía
  • 1 msk gulur laukur, saxaður smátt
  • 1 hvítlauksrif, saxað fínt
  • 1 ananas-hringur, skorinn smátt
  • ½ gulrót, skorin í litla teninga
  • 3 dl kjúklingakraftur
  • 1 dl sykur
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 3 tsk kartöflumjöl

Olían er hituð í potti og laukurinn steiktur ásamt hvítlauknum í smá stund án þess að hann taki lit þar til laukurinn verður mjúkur og glær. Þá er ananas og gulrótum bætt út í og steitk í stutta stund til viðbótar. Því næst er kjúklingakrafti hellt út í auk tómatpúrrunnar, sykri og hvítvínsedik. Þetta er látið malla í 5 mínútur. Þá er kartöflumjöli hrært út í dálítið vatn og blandað hægt og rólega út í sósuna og hrært í á meðan. Því næst er potturinn tekin af hellunni og sósan smökkuð til með meiri sykri ef þarf, ef hún er of þykk er hún þynnt með ananassafa og/eða vatni.

IMG_8645

Heimatilbúið hrásalat:

  • ca. 1/2 hvítkálshaus
  • 3 gulrætur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca 200-300 gr maukaður ananas í dós (án vökvans)
Hvítkálið og gulræturnar er fínsaxað í matvinnsluvél. Ananas og sýrðum rjóma bætt við og öllu hrært saman.
IMG_8648

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

  • grænt gott salat
  • klettasalat
  • spinat
  • rauð paprika, skorin í litla bita
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 avókadó skorið í bita
  • 1 mangó, skorið í bita
  • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

  • 400 g risarækjur
  • ca 1 msk ólífuolía
  • 1/2 límóna (lime), safinn
  • ½ tsk chiliduft
  • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
  • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
  • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Túnfisksalat með kotasælu og avókadó


IMG_7745Þó ég elski osta mikið þá sá ég í hendi mér að það væri kannski ekki gæfulegt að nota Gullost sem álegg í öll mál! Þetta túnfisksalat er sjúklega gott svo ekki sé minnst á hversu hollt það er. Ég skipti Gullostinum út með ánægju fyrir það – allavega í annað hvert mál! 🙂 Ég kaupi reglulega avókadó og bíð þolinmóð eftir því að þau verði passlega þroskuð. Hér skrifaði ég um hvernig hægt væri að flýta fyrir þroska þeirra (notabene þá er þetta kjúklingasalat æði!). Þegar avókadóið er passlega þroskað hræri ég í þetta salat, það tekur bara nokkrar mínútur, set það í vel þétt box inn í ísskáp og þá er alltaf hægt að næla sér í gómsætt álegg á brauðið eða hrökkbrauðið. Reyndar þá er „alltaf“ orðum aukið því salatið er ofurvinsælt að taka með sér í skóla og vinnu og stoppar stutt við á heimilinu! Best finnst mér að nota það á Minna mál hrökkbrauðið með osti og graskerafræjum

frettir_minnamal2 eða Finn Crisp hrökkbrauðið sem er miklu uppáhaldi hjá okkur Ósk.

UnknownUppskrift:

  • 1 dós túnfiskur í vatni
  • 1-2 lárperur (avókadó)
  • 1/2 lítill rauðlaukur
  • 1 stór dós kotasæla
  • ferskt kóríander
  • salt og pipar
  • 1/2 rautt chili (má sleppa)

Avókadó er skorið í fremur litla bita. Rauðlaukur saxaður mjög smátt. Kóríander saxað fremur smátt. Ef notaður er chili er hann fræhreinsaður og saxaður mjög smátt. Öllu blandað vel saman. Gott að setja á gróft hrökkbrauð með t.d. tómatsneiðum og/eða káli eða bara eitt og sér. Salatið geymist í boxi með vel þéttu loki í minnst 2-3 daga – það hefur eiginlega aldrei reynt á það hjá mér! 🙂

IMG_7739

Cesar salat


Cesar salatið er klassískt og hrikalega gott! Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og sagan segir að salatið hafi orðið til á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna árið 1924. Það var svo mikið að gera á veitingastaðnum hjá Cesari að hráefnin kláruðust og síðustu gestir kvöldsins fengu þetta salat sem hann gerði úr þeim hráefnum sem eftir voru í eldhúsinu.

Í dag er Cesar salatið til í ótal útgáfum. En upprunalega uppskriftin er með romansalati, brauðteningum, parmesan osti og dressingu. En svo er oft bætt við við kjúklingi, beikoni og einnig hefur ansjósum verið bætt í dressinguna nú á síðari tímum og mörgum finnst þær gefa ómissandi bragð.

Mér finnst mikilvægast að nota rétt salat og búa til brauðteningana sjálf, þeir verða svo ljúffengir að hægt er að borða þá eintóma! En auðvitað er líka hægt að kaupa þá tilbúna líka.

Þegar kemur að dressingunni er, eins og áður var sagt, mjög algengt að nota ansjósur. Ég hef ekki notað þær fyrr en í þetta sinn. Ég verð að viðurkenna að þessi litlu kvikindi eru ekki girnileg að sjá! Ég held að ég hafi notað aðeins of mikið af þeim því mér fannst ansjósu bragðið verða of yfirgnæfandi (ég minnkaði magnið í uppskriftinni hér að neðan). Svo fannst mér þær svo ólystugar í útliti að ég held að það hafi haft áhrif á upplifununni á dressingunni! En ansjósur fást í t.d. Hagkaup, þær eru í kæli hjá síldinni og kavíarnum (í litlum pakkninum eins og niðursoðnar sardínur). Cesar salat er auðvelt að búa til og einstaklega ljúffengt!

Uppskrift:

  • kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • romansalat (ég fann það ekki í Hagkaup og keypti íssalat sem er þykkt og stökkt og kom því vel út), rifið niður gróft
  • parmesan ostur, rifinn gróft t.d. með ostaskera eða grófu hliðinni á rifjárni
  • beikon, steikt þar til það verður stökkt, skorið í bita
  • brauðteningar
  • salatdressing

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

Kjúklingabringur:

Kjúklingabringur eru kryddaðar með salti, pipar og jafnvel kjúklingakryddi (ég notaði Best á allt) og grillaðar á útigrilli eða snöggsteiktar á pönnu og svo settar í ofn þar til þær eru eldaðar í gegn. Þegar bringurnar hafa jafnað sig eftir eldun eru þær sneiddar niður.

Salatdressing:

  • 1.5 dl góð ólívuolía
  • 1 fersk eggjarauða
  • 2-3 ansjósur (má sleppa)
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir mjög smátt
  • 1 msk Worchestershire-sósa
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 sítróna, safinn pressaður
  • 2 tsk hvítvínsedik (má sleppa)
  • salt og pipar

Öll hráefni, fyrir utan ólífuolíu, eru sett í matvinnsluvél eða mixer. Ólífuoíunni er hellt út í með mjórri bunu á meðan hrært er. Dressingin verður þá þykk og góð.

Salatið er sett í skál og dressingunni bætt saman við. Brauðteningum og rifna parmesan ostinum er bætt saman við og loks er kjúklingi og beikoni dreift yfir.

Salat með lambafille og piparrótarsósu


Nú eru loksins allir í fjölskyldunni komnir heim eftir ævintýri sumarsins. Alexander var í löngu og skemmtilegu ferðalagi um Japan en Ósk var á Krít og í Stokkhólmi. Báðum systkinunum langaði í eitthvað sérstaklega gott í kvöldmatinn eftir langa fjarveru. Mest langaði Alexander í gott kjöt enda búinn að lifa á hrísgrjónum, sushi og innmat (Japanir eru víst voða hrifnir af lifrum, hjörtum, görnum, nýrum og öðru slíku góðgæti!) síðastliðinn mánuð. Ég er búin að hugsa lengi um að gera einhvern góðan rétt úr lambalundum eða lambafille og nú var komið gott tækifæri til að láta verða úr því. Ég dró fram nokkur ,,Bestu uppskriftir Gestgjafans“ blöð en þau eru í uppáhaldi hjá mér! Til dæmis nota ég blaðið frá 2003 afar mikið, þar eru margar mjög góðar uppskriftir. Þessa uppskrift fann ég hins vegar í blaðinu frá 2009.

Að vanda fylgdi ég nú ekki uppskriftinni út í ystu æsar. Ég notaði minna af balsamik edik og olíu en uppgefið var og útbjó í staðinn piparrótarsósu til að bera fram með réttinum. Hér í fjölskyldunni eru sósur flokkaðar með drykkjarföngum og því ekkert sérstaklega vinsælt að bera fram kjöt án vænnar sósuslettu! Ég notaði líka ristaðar kasjúhnetur í stað furuhneta en ég er eiginlega alveg hætt að nota furuhnetur. Ég hef nefnilega tvisvar lent í ,,pine mouth syndrome“ sem er afar hvimleitt að lenda í. Það lýsir sér þannig að einum degi eftir að hafa borðað furuhnetur finnur maður málkennt, vont bragð í munni af öllum mat, drykk og meira að segja tannkreminu! Þetta getur varað í allt að fjórar vikur. Ég lagðist í rannsóknarvinnu um þetta vandamál og komst að því að það er algengt. Það er ekki enn búið að finna ástæðuna en samkvæmt rannsóknum matvælastofnun Svíþjóðar virðist þetta tengjast uppskerubresti á furuhnetum í Asíu. Þá fóru ræktendur að notast við aðra tegund af furuhnetum sem geta haft þessi áhrif. Ég vil ekki taka áhættuna að lenda í þessu aftur og nota því varla furuhnetur lengur! Ég breytti tvennu til viðbótar í uppskriftinni, ég notaði klettasalat til viðbótar við spínatið og lambasalatið. Að auki notaði ég grillaðar paprikur frá Sacla í stað bakaðra tómata. Þetta heppnaðist býsna vel og öllum fannst rétturinn ljúffengur!

Uppskrift f. 3-4

  • 2 lambafille eða lambaprime
  • 2 msk olía
  • salt og pipar

Penslið lambið með olíunni. Grillið á útigrilli ca. 5-7 mínútur á hvorri hlið. Mikilvægt er að fylgjast vel með kjötinu þannig að það verði ekki ofgrillað. Það þarf einnig að hafa í huga að kjötið heldur áfram að steikjast í eigin hita eftir að það er tekið af grillinu. Þegar kjötið er tekið af grillinu er það saltað og piprað og leyft að jafna sig áður en það er skorið. Eldun í ofni: Hitið ofninn í 175 gráður. Penslið lambið með olíunni og steikið á pönnu þar til það er brúnað á öllum hliðum. Setjið í ofninn í 10 mínútur. Saltið og piprið.

  • 2 eggaldin
  • 2-3 msk olía
  • 1 tsk salt
  • 200 gr lambasalat
  • 150 gr ferskt spínat
  • 1 krukka bakaðir tómatar frá Sacla (Oven Rosted Tomatoes) eða grilluð paprika (Char-Grilled Capsicum)
  • 2-3 msk furuhnetur, ristaðar (eða kasjúhnetur)
  • 2-3 msk basilika, smátt söxuð
  • 6 msk góð ólifuolía
  • 2 msk hindberja- eða balsamedik

Skerið eggaldin í ca 2 cm þykkar sneiðar og steikið í olíunni eða grillið þar til þær eru vel brúnaðar, saltið. Leggið lambasalat og spínat á fat. Skerið eggaldin í minni bita og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið þar ofan á. Dreifið tómötum (eða papriku), furuhnetum og basiliku yfir. Blandið saman olíu og hindberjaediki og dreifið yfir salatið. Saltið og piprið með nýmöldum pipar.

Í piparrótarsósuna er notað piparrótarmauk. Það er yfirleitt að finna hjá kryddunum í verslunum og lítur svona út:

Piparrótarsósa: 

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 msk majónes
  • 1 pakki piparrótarmauk
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt