Salat með sesamkjúklingi


Salat með sesamkjúklingi

Ég tók mér ekki bara frí frá blogginu í gær heldur eldamennskunni líka þar sem að ég átti afmæli. Eiginmaðurinn ákvað að það væri kominn tími til að hann eldaði fyrir mig! 🙂 Hann grillaði líka þessa dýrindis steik með gómsætu meðlæti. Maturinn var eiginlega hættulega góður hjá honum og líkurnar á því að hann verð sendur oftar í eldhúsið stórjukust eftir gærdaginn!

Það var svo margt skemmtilegt um að vera um síðustu helgi. Auk þess sem við hjónin fórum á Hótel Glym þá fórum við líka í stóra og glæsilega fertugsafmælisveislu hjá einni vinkonu minni úr saumaklúbbnum. Á sunnudagskvöldinu hélt ég svo saumaklúbb til þess að við stelpurnar gætum nú gert upp skemmtunina kvöldið áður! 🙂 Ég hafði fengið óskir um að hafa Snickerskökuna, að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk. Að auki bjó ég til kjúklingasalat og þessar bruschetta snittur nema að þessu sinni skipti ég út mozzarella fyrir gullost og basiliku fyrir kóríander og steinselju. Kjúklingasalatið var samanblanda af hinu og þessu og var afskaplega ljúffengt. Að minnsta kosti þorðu stelpurnar ekki að segja neitt annað við mig þessar elskur! Mér fannst dressingin einstaklega góð og mun klárlega nýta þá uppskrift fyrir fleiri salöt. Magnið af hráefninu í kjúklingasalatið og hlutfallið á milli þeirra fer eftir smekk.

IMG_9295

Uppskrift:

  • kjúklingabringur
  • salt & pipar
  • kjúklingakrydd
  • olía og/eða smjör til steikingar
  • maple síróp
  • sesamfræ
  • spínat
  • klettasalat
  • grænt salat
  • kokteiltómatar, skornir til helminga
  • avókadó, skorið í bita
  • mangó, skorið í bita
  • jarðarber, skorin í bita
  • nachos flögur, muldar gróft
  • beikon
  • fetaostur með olíu en olían síuð frá

IMG_9289

Kjúklingabringur eru skornar í fremur litla bita og þeir kryddaðir með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Steikt á pönnu þar til kjúklingabitarnir hafa náð góðum lit. Þá er sírópi og sesamfræum bætt út á pönnuna, hrært vel saman við kjúklinginn, og látið krauma í dálitla stund (þar til enginn vökvi er eftir á pönnunni). Ég notaði 1 kíló af kjúklingabringum og ca. 1/2 dl af maple sírópi og 1/3 dl af sesamfræum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann látin til hliðar og leyft að kólna.

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til bitarnir verða stökkir. Þá er öllum hráefnunum blandað saman og salatdressingunni dreift yfir salatið.

IMG_9291

Salatdressing:

  • 1/2 dl olífuolía
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1-2 cm ferskur engifer, rifinn fínt
  • nokkrar greinar fersk steinselja, söxuð fínt
  • ca 1 msk sesamfræ
  • maldon salt
  • 1/2 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur grænmetiskraftur

Öllum hráefnunum blandað vel saman og dressingunni dreift yfir salatið.

Cesar salat


Cesar salatið er klassískt og hrikalega gott! Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og sagan segir að salatið hafi orðið til á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna árið 1924. Það var svo mikið að gera á veitingastaðnum hjá Cesari að hráefnin kláruðust og síðustu gestir kvöldsins fengu þetta salat sem hann gerði úr þeim hráefnum sem eftir voru í eldhúsinu.

Í dag er Cesar salatið til í ótal útgáfum. En upprunalega uppskriftin er með romansalati, brauðteningum, parmesan osti og dressingu. En svo er oft bætt við við kjúklingi, beikoni og einnig hefur ansjósum verið bætt í dressinguna nú á síðari tímum og mörgum finnst þær gefa ómissandi bragð.

Mér finnst mikilvægast að nota rétt salat og búa til brauðteningana sjálf, þeir verða svo ljúffengir að hægt er að borða þá eintóma! En auðvitað er líka hægt að kaupa þá tilbúna líka.

Þegar kemur að dressingunni er, eins og áður var sagt, mjög algengt að nota ansjósur. Ég hef ekki notað þær fyrr en í þetta sinn. Ég verð að viðurkenna að þessi litlu kvikindi eru ekki girnileg að sjá! Ég held að ég hafi notað aðeins of mikið af þeim því mér fannst ansjósu bragðið verða of yfirgnæfandi (ég minnkaði magnið í uppskriftinni hér að neðan). Svo fannst mér þær svo ólystugar í útliti að ég held að það hafi haft áhrif á upplifununni á dressingunni! En ansjósur fást í t.d. Hagkaup, þær eru í kæli hjá síldinni og kavíarnum (í litlum pakkninum eins og niðursoðnar sardínur). Cesar salat er auðvelt að búa til og einstaklega ljúffengt!

Uppskrift:

  • kjúklingabringur eða kjúklingalundir
  • romansalat (ég fann það ekki í Hagkaup og keypti íssalat sem er þykkt og stökkt og kom því vel út), rifið niður gróft
  • parmesan ostur, rifinn gróft t.d. með ostaskera eða grófu hliðinni á rifjárni
  • beikon, steikt þar til það verður stökkt, skorið í bita
  • brauðteningar
  • salatdressing

Brauðteningar:

Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja.  Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).

Kjúklingabringur:

Kjúklingabringur eru kryddaðar með salti, pipar og jafnvel kjúklingakryddi (ég notaði Best á allt) og grillaðar á útigrilli eða snöggsteiktar á pönnu og svo settar í ofn þar til þær eru eldaðar í gegn. Þegar bringurnar hafa jafnað sig eftir eldun eru þær sneiddar niður.

Salatdressing:

  • 1.5 dl góð ólívuolía
  • 1 fersk eggjarauða
  • 2-3 ansjósur (má sleppa)
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir mjög smátt
  • 1 msk Worchestershire-sósa
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 sítróna, safinn pressaður
  • 2 tsk hvítvínsedik (má sleppa)
  • salt og pipar

Öll hráefni, fyrir utan ólífuolíu, eru sett í matvinnsluvél eða mixer. Ólífuoíunni er hellt út í með mjórri bunu á meðan hrært er. Dressingin verður þá þykk og góð.

Salatið er sett í skál og dressingunni bætt saman við. Brauðteningum og rifna parmesan ostinum er bætt saman við og loks er kjúklingi og beikoni dreift yfir.

Gómsætt kjúklingasalat


Þetta kjúklingasalat hefur slegið í gegn hjá fjölskyldunni. Það er óvenjulegt að því leyti að þegar dressingin er undirbúin leggst fnykur yfir heimilið í stað ljúffengs ilms en það er þegar balsamedik og sykur er soðið niður í síróp. Ekki er nóg með það heldur er dressingin brún og býsna ógirnileg í útliti – en dæmið ekki af lyktinni og útlitinu! Þegar dressingunni er blandað við salatið verður það nefnilega afar gómsætt. Í upphaflegu uppskriftinni er meira af majónesi en ég hef minnkað magnið, hver þarf á auka majónesi að halda?! 🙂 Ég hef líka bætt við nokkrum af uppáhalds hráefnum mínum í uppskriftina, mangó, avókadó og mozzarella. Reyndar er auðveldara að vinna í lottói en að fá samtímis mangó og avókadó sem er hvor tveggja fullkomlega þroskað! Það er hins vegar til mjög gott ráð til að hraða þroska þeirra. Setjið bæði mangó og avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða þroskuðum banönum og geymið á hlýjum stað. Epli og bananar gefa frá sér etýlen gas sem hraðar mjög fyrir þroska bæði avókadó og mangó

Uppskrift f. 5

  • 5 kjúklingabringur vel kryddaðar með ,,Best á allt“ frá Pottagöldrum eða með öðru góðu kjúklingakryddi).
  • 1 stórt beikonbréf (ca. 200 g)
  • ¼-1/2 rauðlaukur
  • 1 fetaostskrukka – olían ekki notuð (krukkan er 325 g með olíu)
  • 1 mangó
  • 1 avokado
  • 1 askja kirsuberjatómatar (ca. 250 g)
  • 1 kúla mozzarella ostur (125 g)
  • blandað salat (salat, spínat, ruccola), nota mikið af því!
  • karamelliseraðar pekanhnetur eftir smekk (má sleppa)

Dressing

  • 100 ml majónes
  • 200 ml sýrður rjómi
  • 75 ml balsamik edik
  • 40 ml sykur

Aðferð:

  • Kryddið kjúklingabringur vel með ,,Best á allt” og grillið eða hitið í ofni, skerið í bita.
  • Steikið beikonið þar til það er stökkt, kælið og myljið í bita.
  • Skerið laukinn smátt
  • Skerið mangó, kokteiltómata, mozzarella og avókadó í bita
  • Blandið öllu saman við salat og fetaost

Dressing:

  • Blandið saman sýrðum rjóma og majónesi, saltið og piprið
  • Setjið edikið og sykurinn í lítinn pott og látið sjóða þar til þykknar örlítið, í ca. 3 mínútur. Kælið (þegar blandan kólnar þykknar hún, látið hana bíða passlega lengi þannig hún verði ekki alltof þykk) og blandið síðan smátt og smátt saman við sýrða rjómann/majónesið.

Blandið dressingunni saman við salatið og dreifið yfir karamelliseruðum pecanhnetum. Berið fram með góðu brauði.

Ég myndi ekki sleppa karamelliseruðu pekanhnetunum, þær eru sjúklega góðar og það auðvelt að útbúa þær:

  • 1/2 dl. púðursykur
  • 1 tsk síróp
  • 1 tsk smjör
  • 1 1/2 dl pekanhnetur

Setjið púðursykur, síróp og smjör á pönnu og stillið á fremur háan hita þar til það koma loftbólur í karamelluna. Setjið þá hneturnar út í og hrærið vel þar til þær eru þaktar karamellu, haldið hitanum háum án þess þó að hneturnar brenni og hrærið stöðugt í til að halda hnetunum aðskildum. Haldið áfram að hræra í 5-7 mínútur þar til hneturnar eru orðnar gullinbrúnar og ristaðar. Setjið hneturnar á bökunarpappír (ég tók eina í einu með eldhústöng) og kælið.