Gómsætt kjúklingasalat


Þetta kjúklingasalat hefur slegið í gegn hjá fjölskyldunni. Það er óvenjulegt að því leyti að þegar dressingin er undirbúin leggst fnykur yfir heimilið í stað ljúffengs ilms en það er þegar balsamedik og sykur er soðið niður í síróp. Ekki er nóg með það heldur er dressingin brún og býsna ógirnileg í útliti – en dæmið ekki af lyktinni og útlitinu! Þegar dressingunni er blandað við salatið verður það nefnilega afar gómsætt. Í upphaflegu uppskriftinni er meira af majónesi en ég hef minnkað magnið, hver þarf á auka majónesi að halda?! 🙂 Ég hef líka bætt við nokkrum af uppáhalds hráefnum mínum í uppskriftina, mangó, avókadó og mozzarella. Reyndar er auðveldara að vinna í lottói en að fá samtímis mangó og avókadó sem er hvor tveggja fullkomlega þroskað! Það er hins vegar til mjög gott ráð til að hraða þroska þeirra. Setjið bæði mangó og avókadó í lokaðan bréfpoka með eplum og/eða þroskuðum banönum og geymið á hlýjum stað. Epli og bananar gefa frá sér etýlen gas sem hraðar mjög fyrir þroska bæði avókadó og mangó

Uppskrift f. 5

 • 5 kjúklingabringur vel kryddaðar með ,,Best á allt“ frá Pottagöldrum eða með öðru góðu kjúklingakryddi).
 • 1 stórt beikonbréf (ca. 200 g)
 • ¼-1/2 rauðlaukur
 • 1 fetaostskrukka – olían ekki notuð (krukkan er 325 g með olíu)
 • 1 mangó
 • 1 avokado
 • 1 askja kirsuberjatómatar (ca. 250 g)
 • 1 kúla mozzarella ostur (125 g)
 • blandað salat (salat, spínat, ruccola), nota mikið af því!
 • karamelliseraðar pekanhnetur eftir smekk (má sleppa)

Dressing

 • 100 ml majónes
 • 200 ml sýrður rjómi
 • 75 ml balsamik edik
 • 40 ml sykur

Aðferð:

 • Kryddið kjúklingabringur vel með ,,Best á allt” og grillið eða hitið í ofni, skerið í bita.
 • Steikið beikonið þar til það er stökkt, kælið og myljið í bita.
 • Skerið laukinn smátt
 • Skerið mangó, kokteiltómata, mozzarella og avókadó í bita
 • Blandið öllu saman við salat og fetaost

Dressing:

 • Blandið saman sýrðum rjóma og majónesi, saltið og piprið
 • Setjið edikið og sykurinn í lítinn pott og látið sjóða þar til þykknar örlítið, í ca. 3 mínútur. Kælið (þegar blandan kólnar þykknar hún, látið hana bíða passlega lengi þannig hún verði ekki alltof þykk) og blandið síðan smátt og smátt saman við sýrða rjómann/majónesið.

Blandið dressingunni saman við salatið og dreifið yfir karamelliseruðum pecanhnetum. Berið fram með góðu brauði.

Ég myndi ekki sleppa karamelliseruðu pekanhnetunum, þær eru sjúklega góðar og það auðvelt að útbúa þær:

 • 1/2 dl. púðursykur
 • 1 tsk síróp
 • 1 tsk smjör
 • 1 1/2 dl pekanhnetur

Setjið púðursykur, síróp og smjör á pönnu og stillið á fremur háan hita þar til það koma loftbólur í karamelluna. Setjið þá hneturnar út í og hrærið vel þar til þær eru þaktar karamellu, haldið hitanum háum án þess þó að hneturnar brenni og hrærið stöðugt í til að halda hnetunum aðskildum. Haldið áfram að hræra í 5-7 mínútur þar til hneturnar eru orðnar gullinbrúnar og ristaðar. Setjið hneturnar á bökunarpappír (ég tók eina í einu með eldhústöng) og kælið.