Cesar salatið er klassískt og hrikalega gott! Sá sem á heiðurinn af salatinu var Bandaríkjamaðurinn Cesar Cardini, sem var af ítalsk-mexíkóskum uppruna. Hann átti heima í San Diego en vann á veitingastað í Tijuana, Mexíkómegin við landamærin og sagan segir að salatið hafi orðið til á þjóðarhátíðardegi Bandaríkjanna árið 1924. Það var svo mikið að gera á veitingastaðnum hjá Cesari að hráefnin kláruðust og síðustu gestir kvöldsins fengu þetta salat sem hann gerði úr þeim hráefnum sem eftir voru í eldhúsinu.
Í dag er Cesar salatið til í ótal útgáfum. En upprunalega uppskriftin er með romansalati, brauðteningum, parmesan osti og dressingu. En svo er oft bætt við við kjúklingi, beikoni og einnig hefur ansjósum verið bætt í dressinguna nú á síðari tímum og mörgum finnst þær gefa ómissandi bragð.
Mér finnst mikilvægast að nota rétt salat og búa til brauðteningana sjálf, þeir verða svo ljúffengir að hægt er að borða þá eintóma! En auðvitað er líka hægt að kaupa þá tilbúna líka.
Þegar kemur að dressingunni er, eins og áður var sagt, mjög algengt að nota ansjósur. Ég hef ekki notað þær fyrr en í þetta sinn. Ég verð að viðurkenna að þessi litlu kvikindi eru ekki girnileg að sjá! Ég held að ég hafi notað aðeins of mikið af þeim því mér fannst ansjósu bragðið verða of yfirgnæfandi (ég minnkaði magnið í uppskriftinni hér að neðan). Svo fannst mér þær svo ólystugar í útliti að ég held að það hafi haft áhrif á upplifununni á dressingunni! En ansjósur fást í t.d. Hagkaup, þær eru í kæli hjá síldinni og kavíarnum (í litlum pakkninum eins og niðursoðnar sardínur). Cesar salat er auðvelt að búa til og einstaklega ljúffengt!
Uppskrift:
- kjúklingabringur eða kjúklingalundir
- romansalat (ég fann það ekki í Hagkaup og keypti íssalat sem er þykkt og stökkt og kom því vel út), rifið niður gróft
- parmesan ostur, rifinn gróft t.d. með ostaskera eða grófu hliðinni á rifjárni
- beikon, steikt þar til það verður stökkt, skorið í bita
- brauðteningar
- salatdressing
Brauðteningar:
Hitið ofn í 200 gráður. 10 sneiðar af góðu franskbrauði (helst allavega dagsgamalt) skornar í teninga og velt upp úr blöndu af ca. 2 dl af góðri ólífuolíu, 3-4 rifnum eða fínsöxuðum hvítlauksgeirum og maldonsalti. Það er hægt að bæta við 1/2 tsk af basilku og timjan fyrir þá sem vilja. Brauðteningunum er raðað á ofnplötu, klæddri bökunarpappír og þeir bakaðir við 200 gráður þar til teningarnir eru passlega stökkir og dökkir (ca. 20 mínútur).
Kjúklingabringur:
Kjúklingabringur eru kryddaðar með salti, pipar og jafnvel kjúklingakryddi (ég notaði Best á allt) og grillaðar á útigrilli eða snöggsteiktar á pönnu og svo settar í ofn þar til þær eru eldaðar í gegn. Þegar bringurnar hafa jafnað sig eftir eldun eru þær sneiddar niður.
Salatdressing:
- 1.5 dl góð ólívuolía
- 1 fersk eggjarauða
- 2-3 ansjósur (má sleppa)
- 3 hvítlauksgeirar, pressaðir eða saxaðir mjög smátt
- 1 msk Worchestershire-sósa
- 2 msk Dijon sinnep
- 1 sítróna, safinn pressaður
- 2 tsk hvítvínsedik (má sleppa)
- salt og pipar
Öll hráefni, fyrir utan ólífuolíu, eru sett í matvinnsluvél eða mixer. Ólífuoíunni er hellt út í með mjórri bunu á meðan hrært er. Dressingin verður þá þykk og góð.
Salatið er sett í skál og dressingunni bætt saman við. Brauðteningum og rifna parmesan ostinum er bætt saman við og loks er kjúklingi og beikoni dreift yfir.