Salat með sesamkjúklingi


Salat með sesamkjúklingi

Ég tók mér ekki bara frí frá blogginu í gær heldur eldamennskunni líka þar sem að ég átti afmæli. Eiginmaðurinn ákvað að það væri kominn tími til að hann eldaði fyrir mig! 🙂 Hann grillaði líka þessa dýrindis steik með gómsætu meðlæti. Maturinn var eiginlega hættulega góður hjá honum og líkurnar á því að hann verð sendur oftar í eldhúsið stórjukust eftir gærdaginn!

Það var svo margt skemmtilegt um að vera um síðustu helgi. Auk þess sem við hjónin fórum á Hótel Glym þá fórum við líka í stóra og glæsilega fertugsafmælisveislu hjá einni vinkonu minni úr saumaklúbbnum. Á sunnudagskvöldinu hélt ég svo saumaklúbb til þess að við stelpurnar gætum nú gert upp skemmtunina kvöldið áður! 🙂 Ég hafði fengið óskir um að hafa Snickerskökuna, að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk. Að auki bjó ég til kjúklingasalat og þessar bruschetta snittur nema að þessu sinni skipti ég út mozzarella fyrir gullost og basiliku fyrir kóríander og steinselju. Kjúklingasalatið var samanblanda af hinu og þessu og var afskaplega ljúffengt. Að minnsta kosti þorðu stelpurnar ekki að segja neitt annað við mig þessar elskur! Mér fannst dressingin einstaklega góð og mun klárlega nýta þá uppskrift fyrir fleiri salöt. Magnið af hráefninu í kjúklingasalatið og hlutfallið á milli þeirra fer eftir smekk.

IMG_9295

Uppskrift:

 • kjúklingabringur
 • salt & pipar
 • kjúklingakrydd
 • olía og/eða smjör til steikingar
 • maple síróp
 • sesamfræ
 • spínat
 • klettasalat
 • grænt salat
 • kokteiltómatar, skornir til helminga
 • avókadó, skorið í bita
 • mangó, skorið í bita
 • jarðarber, skorin í bita
 • nachos flögur, muldar gróft
 • beikon
 • fetaostur með olíu en olían síuð frá

IMG_9289

Kjúklingabringur eru skornar í fremur litla bita og þeir kryddaðir með salti, pipar og góðu kjúklingakryddi. Steikt á pönnu þar til kjúklingabitarnir hafa náð góðum lit. Þá er sírópi og sesamfræum bætt út á pönnuna, hrært vel saman við kjúklinginn, og látið krauma í dálitla stund (þar til enginn vökvi er eftir á pönnunni). Ég notaði 1 kíló af kjúklingabringum og ca. 1/2 dl af maple sírópi og 1/3 dl af sesamfræum. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn er hann látin til hliðar og leyft að kólna.

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til bitarnir verða stökkir. Þá er öllum hráefnunum blandað saman og salatdressingunni dreift yfir salatið.

IMG_9291

Salatdressing:

 • 1/2 dl olífuolía
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1-2 cm ferskur engifer, rifinn fínt
 • nokkrar greinar fersk steinselja, söxuð fínt
 • ca 1 msk sesamfræ
 • maldon salt
 • 1/2 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur grænmetiskraftur

Öllum hráefnunum blandað vel saman og dressingunni dreift yfir salatið.