Þá er helgin liðin jafn fljótt og venjulega. Mér tókst að „af-jóla“ heimilið um helgina en eins og það er alltaf gaman að setja upp allt jólaskrautið í desember þá er ákveðin léttir líka þegar það fer – einhverskonar nýtt upphaf sem hæfir nýju ári. Við fjölskyldan settum okkur líka nýtt markmið, það er að stilla klukkuna á hverjum í degi í 15-20 mínútur og á þeim tíma eiga allir að vera eins og Speedy Gonzales og laga til í húsinu, þ.e. setja hluti sem ekki eru á sínum stað, á sinn stað! Frábært markmið sem við þverbrutum strax í dag, fyrsta daginn! Einhvern veginn er það þannig að allir eru alltaf svo uppteknir og við erum sjaldnast öll heima á sama tíma. Elfar er til dæmis búinn að vera á vakt alla helgina og kemur ekki heim fyrr en seint í kvöld og krakkarnir uppteknir með vinum sínum. Batnandi fólki er þó best að lifa og við reynum við þetta á morgun aftur! 🙂
Í dag fór ég með tvö yngstu börnin á frábært leikrit sem ég verð að mæla með við ykkur. Við fórum á Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu. Ég bjóst svo sem ekki við miklu af tveimur 15 ára strákum en maður minn hvað þeir voru fyndnir og skemmtilegir – við skellihlógum allan tímann! Við krakkarnir mælum sannarlega með þessu leikriti fyrir alla foreldra og krakka frá ca. 8-10 ára og upp úr.
En að uppskrift dagsins. Við vorum hjá foreldrum mínum á gamlárskvöld og snæddum þar kalkún. Ég hins vegar sá um forréttinn og eftirréttinn. Í forrétt var ég með andabringur með karamelliseruðum perum og klettasalati. Ég hef satt best að segja afar sjaldan eldað andabringur og ég vildi alls ekki klúðra gamlárskvöldsmatnum. Ég fór því í umfangsmikla upplýsingaleit um eldun á andabringum. Þetta er það sem ég komst að.
Að elda andabringur:
1. Bringurnar þurfa að standa við stofuhita í minnst tvo tíma áður en þær eru eldaðar svo kjötið hafi náð stofuhita.
2. Það þarf að rista í fitulagið á bringunum til að það losni um fituna við steikingu. Það er annaðhvort bara hægt að rista í fitulagið skáhalt eða þannig að það myndist tíglar. Það þarf að gæta þess að skera ekki ofan í kjötið.
3: Bringurnar eru því næst kryddaðar vel með flögusalti, því nuddað vel ofan í skurðsárin. Ég skoðaði ótal myndbönd á netinu og þar sem stjörnum prýddir kokkar elduðu andabringur. Sumir þeirra vildu ekki nota pipar því þeir sögðu hann brenna á pönnunni á meðan aðrir bæði söltuðu og pipruðu.
4. Því næst eru andabringurnar steiktar. Flestir kokkar mæla með því að byrja með pönnuna kalda til þess að það losni sem best um fituna. Það þarf alls ekki að nota olíu eða smjör því það kemur svo mikil fita úr fitulaginu á öndinni. Bringurnar eru því settar á kalda pönnu og stillt á rúmlegan meðalhita. Bringurnar eru steiktar með fitulagið niður í um það bil 8-10 mínútur eða þar til fitan er bráðnuð úr fitulaginu og eftir er stökk pura.
Tíminn sem gefin er upp fyrir steikinguna á fitulaginu er afar misjafn og hér þarf dálítið að meta tímann sjálfur. Flestir mæla með því að hella reglulega af fitunni sem myndast á pönnunni. Ég gerði það því mér fannst lógískt að þannig yrði fitulagið stökkara.
Samkvæmt myndböndum og leiðbeiningu sem ég skoðaði snéru sumir stjörnukokkar bringunum við á pönnunni og steiktu á þeirri hlið í mismargar mínútur á meðan aðrir slepptu því. Mér fannst passa vel að fá smá steikingarhúð á kjöthliðina og snéri því bringunum við og steikti á kjöthliðinni í ca. 1 mínútu.
5. Það er hægt að ljúka steikingunni á andabringunum á pönnunni en oftast er það gert í ofni. Það eru misjafnar leiðbeiningar varðandi hitann á ofninum, allt frá lágum hita, ca. 130-140 gráður upp í 200 gráður og þá tíminn misjafn samkvæmt því. Ég ákvað að stilla ofninn á 200 gráður undir og yfirhita og setti bringurnar inn í um það bil 8 mínútur. Annað hvort eru bringurnar settar inn á pönnunni sem þær voru steiktar á (ef pannan þolir ofn) eða settar í eldfast mót (sem þarf þá að vera orðið heitt). Það er misjafnt hvort að kokkarnir setja inn andabringurnar með fituhliðina upp eða niður. Mér fannst flestir setja bringurnar inn með fituhliðina niður og gerði það því.
6. Þegar bringurnar eru teknar úr ofninum er mjög mikilvægt að leyfa þeim að hvíla áður en þær eru skornar. Þær þurfa að hvíla í allavega 8-10 mínútur og ég setti álpappír lauslega yfir þær á meðan. Því næst eru bringurnar skornar niður skáhalt og fremur þunnt. Á þessum tímapunkti á kjötið að vera vel bleikt í miðjunni, þannig nýtur það sín best.
Eftir þessar umfangsmiklu leiðbeiningar lítur út fyrir að það sé afar flókið að elda andabringur en það er það alls ekki! Það eru bara svo margir sem mikla fyrir sér slíka eldun, þess vegna er gott að vera með nákvæmar leiðbeiningar innan handar. Mér fannst mjög auðvelt og fljótlegt að elda bringurnar og þær urðu lungnamjúkar og dæmalaust ljúffengar eftir ofangreinda meðferð. Ég notaði þær í forrétt og þá er gott að miða við 70-100 grömm á mann.
Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með Arthur Metz Riesling hvítvíninu frá Alsace í Frakklandi með þessum forrétti. Það er fölgult með mildum meðalsætum tónum og keim af sítrónum og greip.
Uppskrift f. 4:
- 400 g andabringa (sjá leiðbeiningar um eldun hér að ofan)
- 3 perur
- ólífuolía og smjör til steikingar
- 1 1/2 msk + 2 tsk hunang
- 1 poki klettasalat (75 g)
- 60 ml balsamik edik
- 60 ml hvítvín
2 perur eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar i bita. Þriðja peran er kjarnhreinsuð og skorin í bita með hýðinu á og blandað saman við klettasalatið. Hinar perurnar tvær eru steiktar á pönnu í ólífuolíu, góðri klípu af smjöri bætt við. Þegar perurnar hafa myndað smá steikingarhúð er 1 1/2 msk hunangi bætt við og perurnar steiktar áfram þar til þær byrja að brúnast. Perubitarnir eru því næst settir í skál.
Þá er hvítvíni bætt út á pönnuna ásamt balsamik ediki og 2 tsk af hunangi. Þetta er látið sjóða niður um helming (tekur ca 15-20 mínútur). Karamelliseruðu perunum er því næst blandað saman við balsamik-blönduna. Perurnar eru að lokum veiddar af pönnunni og blandað saman við klettasalatið og fersku perurnar. Sósan sem verður afgangs er dreift yfir salatið og/eða borin fram með saltinu.
Salatinu er svo skipt á fjóra forrétta diska og andabringusneiðunum raðað ofan á.