Andabringur með karamelliseruðum perum og klettasalati


AndabringurÞá er helgin liðin jafn fljótt og venjulega. Mér tókst að „af-jóla“ heimilið um helgina en eins og það er alltaf gaman að setja upp allt jólaskrautið í desember þá er ákveðin léttir líka þegar það fer – einhverskonar nýtt upphaf sem hæfir nýju ári. Við fjölskyldan settum okkur líka nýtt markmið, það er að stilla klukkuna á hverjum í degi í 15-20 mínútur og á þeim tíma eiga allir að vera eins og Speedy Gonzales og laga til í húsinu, þ.e. setja hluti sem ekki eru á sínum stað, á sinn stað! Frábært markmið sem við þverbrutum strax í dag, fyrsta daginn! Einhvern veginn er það þannig að allir eru alltaf svo uppteknir og við erum sjaldnast öll heima á sama tíma. Elfar er til dæmis búinn að vera á vakt alla helgina og kemur ekki heim fyrr en seint í kvöld og krakkarnir uppteknir með vinum sínum. Batnandi fólki er þó best að lifa og við reynum við þetta á morgun aftur! 🙂

Í dag fór ég með tvö yngstu börnin á frábært leikrit sem ég verð að mæla með við ykkur. Við fórum á Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu. Ég bjóst svo sem ekki við miklu af tveimur 15 ára strákum en maður minn hvað þeir voru fyndnir og skemmtilegir – við skellihlógum allan tímann! Við krakkarnir mælum sannarlega með þessu leikriti fyrir alla foreldra og krakka frá  ca. 8-10 ára og upp úr.

En að uppskrift dagsins. Við vorum hjá foreldrum mínum á gamlárskvöld og snæddum þar kalkún. Ég hins vegar sá um forréttinn og eftirréttinn. Í forrétt var ég með andabringur með karamelliseruðum perum og klettasalati.IMG_2742 Ég hef satt best að segja afar sjaldan eldað andabringur og ég vildi alls ekki klúðra gamlárskvöldsmatnum. Ég fór því í umfangsmikla upplýsingaleit um eldun á andabringum. Þetta er það sem ég komst að.

Að elda andabringur:

1. Bringurnar þurfa að standa við stofuhita í minnst tvo tíma áður en þær eru eldaðar svo kjötið hafi náð stofuhita.

2. Það þarf að rista í fitulagið á bringunum til að það losni um fituna við steikingu. Það er annaðhvort bara hægt að rista í fitulagið skáhalt eða þannig að það myndist tíglar. Það þarf að gæta þess að skera ekki ofan í kjötið.

3: Bringurnar eru því næst kryddaðar vel með flögusalti, því nuddað vel ofan í skurðsárin. Ég skoðaði ótal myndbönd á netinu og þar sem stjörnum prýddir kokkar elduðu andabringur. Sumir þeirra vildu ekki nota pipar því þeir sögðu hann brenna á pönnunni á meðan aðrir bæði söltuðu og pipruðu.

4. Því næst eru andabringurnar steiktar. Flestir kokkar mæla með því að byrja með pönnuna kalda til þess að það losni sem best um fituna. Það þarf alls ekki að nota olíu eða smjör því það kemur svo mikil fita úr fitulaginu á öndinni. Bringurnar eru því settar á kalda pönnu og stillt á rúmlegan meðalhita. Bringurnar eru steiktar með fitulagið niður í um það bil 8-10 mínútur eða þar til fitan er bráðnuð úr fitulaginu og eftir er stökk pura.

IMG_2707Tíminn sem gefin er upp fyrir steikinguna á fitulaginu er afar misjafn og hér þarf dálítið að meta tímann sjálfur. Flestir mæla með því að hella reglulega af fitunni sem myndast á pönnunni. Ég gerði það því mér fannst lógískt að þannig yrði fitulagið stökkara. IMG_2709Samkvæmt myndböndum og leiðbeiningu sem ég skoðaði snéru sumir stjörnukokkar bringunum við á pönnunni og steiktu á þeirri hlið í mismargar mínútur á meðan aðrir slepptu því. Mér fannst passa vel að fá smá steikingarhúð á kjöthliðina og snéri því bringunum við og steikti á kjöthliðinni í ca. 1 mínútu.

5. Það er hægt að ljúka steikingunni á andabringunum á pönnunni en oftast er það gert í ofni. Það eru misjafnar leiðbeiningar varðandi hitann á ofninum, allt frá lágum hita, ca. 130-140 gráður upp í 200 gráður og þá tíminn misjafn samkvæmt því. Ég ákvað að stilla ofninn á 200 gráður undir og yfirhita og setti bringurnar inn í um það bil 8 mínútur. Annað hvort eru bringurnar settar inn á pönnunni sem þær voru steiktar á (ef pannan þolir ofn) eða settar í eldfast mót (sem þarf þá að vera orðið heitt). Það er misjafnt hvort að kokkarnir setja inn andabringurnar með fituhliðina upp eða niður. Mér fannst flestir setja bringurnar inn með fituhliðina niður og gerði það því.

6. Þegar bringurnar eru teknar úr ofninum er mjög mikilvægt að leyfa þeim að hvíla áður en þær eru skornar. Þær þurfa að hvíla í allavega 8-10 mínútur og ég setti álpappír lauslega yfir þær á meðan. Því næst eru bringurnar skornar niður skáhalt og fremur þunnt. Á þessum tímapunkti á kjötið að vera vel bleikt í miðjunni, þannig nýtur það sín best.

IMG_2722

Eftir þessar umfangsmiklu leiðbeiningar lítur út fyrir að það sé afar flókið að elda andabringur en það er það alls ekki! Það eru bara svo margir sem mikla fyrir sér slíka eldun, þess vegna er gott að vera með nákvæmar leiðbeiningar innan handar. Mér fannst mjög auðvelt og fljótlegt að elda bringurnar og þær urðu lungnamjúkar og dæmalaust ljúffengar eftir ofangreinda meðferð. Ég notaði þær í forrétt og þá er gott að miða við 70-100 grömm á mann.

112-2825-1

 

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með Arthur Metz Riesling hvítvíninu frá Alsace í Frakklandi með þessum forrétti. Það er fölgult með mildum meðalsætum tónum og keim af sítrónum og greip.

 

Uppskrift f. 4:

 • 400 g andabringa (sjá leiðbeiningar um eldun hér að ofan)
 • 3 perur
 • ólífuolía og smjör til steikingar
 • 1 1/2 msk + 2 tsk hunang
 • 1 poki klettasalat (75 g)
 • 60 ml balsamik edik
 • 60 ml hvítvín

2 perur eru afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar i bita. Þriðja peran er kjarnhreinsuð og skorin í bita með hýðinu á og blandað saman við klettasalatið. Hinar perurnar tvær eru steiktar á pönnu í ólífuolíu, góðri klípu af smjöri bætt við. Þegar perurnar hafa myndað smá steikingarhúð er 1 1/2 msk hunangi bætt við og perurnar steiktar áfram þar til þær byrja að brúnast. Perubitarnir eru því næst settir í skál.

IMG_2703

Þá er hvítvíni bætt út á pönnuna ásamt balsamik ediki og 2 tsk af hunangi. Þetta er látið sjóða niður um helming (tekur ca 15-20 mínútur). Karamelliseruðu perunum er því næst blandað saman við balsamik-blönduna. IMG_2705Perurnar eru að lokum veiddar af pönnunni og blandað saman við klettasalatið og fersku perurnar. Sósan sem verður afgangs er dreift yfir salatið og/eða borin fram með saltinu.IMG_2712Salatinu er svo skipt á fjóra forrétta diska og andabringusneiðunum raðað ofan á.

IMG_2743

Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

 • 100 g laxaflak
 • 1 stk. hvítlauksgeiri
 • 2msk Maldon sjávarsalt
 • hluti úr ferskum ananas
 • 2-3 msk. sýrður rjómi
 • 1stk skarlottulaukur
 • ferskur pipar úr millu
 • 2 msk. ólífuolía
 • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

 • 800 g nautahakka
 • salt & pipar
 • olífuolía
 • 1-2 rauður chili
 • 2 hvítlauksrif
 • 5 cm biti af fersku engifer
 • 3 vorlaukar
 • 1 msk sesamolía
 • 1 msk púðursykur
 • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
 • hýði af 1 límónu (lime)
 • safi frá ½ límónu
 • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
 • 1 tsk púðursykur
 • 1 tsk sojasósa
 • safi frá ½ límónu (lime)
 • ½ chili, saxað
 • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
 • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
 • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum


Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Í gærkvöldi horfðum við á sænsku úrslitakeppnina í Eurovision. Svíar taka Eurovision sannarlega alla leið. Það eru haldnar margar undankeppnir sem enda svo í rosalega stórri aðalkeppni. Það er heldur ekki nóg með að þeir hafi símakosningu heldur láta þeir dómnefndir í öðrum Evrópulöndum líka gefa lögunum stig sem gildir helming á móti símakosningunni. Að þessu sinni var ekkert lag sem greip okkur sérstaklega, ekki eins og Euphoria í fyrra. Yngstu börnin fengu að velja kvöldmatinn sem var snæddur yfir keppninni. Valið kom mér ekkert á óvart en það var Dominos pizza. Við Elfar erum hins vegar ekkert hrifin af slíkum pizzum og ég ákvað að búa til eitthvað annað gott handa okkur. Ég átti bæði fullkomlega þroskað avókadó og mangó, það er ekki hægt að láta svoleiðis girnileg hráefni framhjá sér fara. Þegar ég svipaðist um úti í Krónu eftir einhverju sem gæti sameinast þessu gúmmelaði rak ég augun í frosnar risarækjur. Þegar við bjuggum í Stokkhólmi notaði ég oft risarækjur í matargerð en þá gat ég keypt eins kílóa poka á þúsund krónur! Hér eru risarækjur miklu dýrari. Þessar risarækjur í Krónunni voru reyndar á þokkalegu verði, ég keypti 400 grömm á rúmlega 800 krónur. Ég útbjó einfalt risarækjusalat sem var hrikalega gott. Ég hélt að það yrði af því afgangur en við hjónin einfaldlega skófluðum því öllu í okkur, nammi namm! Þetta er eitthvað sem ég mun endurtaka, þetta salat væri til dæmis frábært sem forréttur.

Uppskrift: 

 • grænt gott salat
 • klettasalat
 • spinat
 • rauð paprika, skorin í litla bita
 • ferskt kóríander, saxað gróft
 • 2 avókadó skorið í bita
 • 1 mangó, skorið í bita
 • pistasíuhnetur

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Rækjurnar:

 • 400 g risarækjur
 • ca 1 msk ólífuolía
 • 1/2 límóna (lime), safinn
 • ½ tsk chiliduft
 • ½ tsk hvítlauksduft (eða 1-2 hvítlauksrif, pressuð)
 • ½ tsk grófmalaður svartur pipar
 • salt

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Salat, klettasalat og spínat sett í skál. Avókadó, mangó, kóríander og papriku dreift yfir.

Olían hituð á pönnu. Rækjum, límónusafa og kryddum bætt á pönnuna. Rækjurnar eru steiktar á meðalhita þar til þær hafa náð góðum lit og erum eldaðar í gegn, það tekur ca. 4-5 mínútur. Þá eru rækjurnar veiddar upp úr og leyft að kólna dálítið. Því næst eru pistasíurnar settar út á pönnuna (sem er enn með kryddinu á). Pistasíurnar eru ristaðar þar til þær hafa tekið góðan lit, hrært vel í þeim allan tímann. Þetta tekur u.þ.b. 2-3 mínútur.

Að lokum er pistasíunum og rækjunum dreift yfir salatið. Það er hægt að bera salatið fram með salatdressingu en mér fannst best að hafa það án dressingu. Rækjurnar gefa svo gott og mikið bragð auk þess sem mangóið gefur vökva.

Risarækjusalat með mangó, avókadó og pistasíuhnetum

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

 • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
 • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

 • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
 • tómatar, skornir í sneiðar
 • basilikublöð
 • salt og svartur grófmalaður pipar
 • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
 • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

 • parmaskinka
 • brie ostur eða annar góður mygluostur,
 • chilisulta
 • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

 • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
 • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
 • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
 • klettasalat
 • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri


Um síðustu helgi þegar við vorum með kalkúnaveisluna buðum við upp á stóran og girnilegan humar í forrétt. Humar er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar maður er með svona eðalgott hráefni í höndunum eins og þessi humar var, þá er mikilvægt að leyfa honum að njóta sín sem best. Mér finnst humar njóta sín best þegar hann er baðaður í gómsætu hvítlaukssmjöri! Til þess að auðvelda gestunum að borða humarinn og líka til að hann líti fallega út á disk, losuðum við hann úr skelinni og lögðum upp á bakið. Þetta er dálítið pill og þolinmæðisvinna. Ég sá auðvitað í hendi mér að slíkt hentaði skurðlækninum mínum vel og hann var settur í það verk! 🙂 Auðvitað leysti hann það verk prýðisvel úr hendi eins og sést á myndunum. Það er lítið mál að búa til hvítlaukssmjörið. Síðan þarf bara að passa að baka humarinn passlega mikið, alls ekki of mikið. Þá er maður komin með ljúffengan forrétt sem fátt slær við. Að sjálfsögðu er líka hægt að hafa svona humar í aðalrétt líka. Þá er um að gera að bera hann fram með nóg af brauði til þess að dýfa í sósuna góðu sem kemur af humrinum. Það er passlegt að bera fram þrjá humra á mann í forrétt en allavega fimm til sex á mann í aðalrétt, jafnvel meira. Uppskriftina fékk ég frá Fiskikónginum.

Hvítlaukssmjör:
 • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
 • 1 búnt steinselja
 • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvílaukana sem koma í heilu.
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 1 msk maldonsalt
 • reykt paprikuduft á hnífsoddi
 • svartur pipar úr kvörn
Allt sett saman í matvinnsluvél.
Humar:
 • 2 kg humar, helst stór eða millistór
 • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
 • 1.5 dl hvítvín
 • 1.5 dl rjómi
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.
00514Með humrinum mælir Sævar vínþjónn með því að drukkið sé spænska freyðivínið Codorniu Clasico Semi Sec. Það er ljósgult, með meðalfyllingu og hálfsætt. Freyðivínið er ferskt með mjúkan ávöxt, epli og léttristaðan steinefnakeim.

Sashimi með avókadó og mangó í ponzusósu


Jamm, enn og aftur, avókadó og mangó! Þetta eru aðalpersónurnar í eldhússögunum mínum eins oft og ég mögulega kem þeim að! Og með þeim aukapersónum sem eru í þessum rétti … ég segi bara eins og Ósk dóttir mín ,,það hamingja í munninum á mér!“ 🙂 Þessi forréttur er hreinasta hnossgæti, það tekur enga stund að útbúa hann og að auki er hann afar fallegur á diski. Ég keypti lax í fiskbúð Hólmgeirs og frysti hann yfir nóttu eins og gera á við lax sem bera á fram hráan. Ég tók hann út að morgni og setti í ísskáp. Þá var hægt að skera hann niður seinnipartinn. Sósan sem er með réttinum er svo ljúffeng. Þetta er svokölluð ponzusósa en það kalla Japanir sósur sem gerðar eru úr sojasósu og safa úr sítrusávöxtum. Þeir nota Ponzusósuna meðal annars með sashimi og tataki (mjög létt grillað kjöt eða fiskur) Það er svo lítið mál að búa þennan rétt till, það þarf bara að skera laxinn fremur þunnt ásamt avókadóinu og mangóinu. Hræra síðan saman í sósuna og voilà! Dásemdar forréttur er tilbúinn!

Við snæddum þennan rétt um helgina með vinum okkar, Hildi og Alla ásamt börnum. Við skipulögðum svo brilliant matarboð, ég sá um að elda matinn og kom með hann heim til þeirra! Mér finnst svo gaman að elda en hundleiðinlegt að þrífa og laga til. Því miður er ég ekki nógu afslöppuð týpa, ég verð því alltaf að hafa allt spikk og span ef von er á heimsókn. Það gerir það að verkum að ég get sinnt matargerðinni minna en ég vildi. Núna gat ég hins vegar dúllað mér eingöngu í eldhúsinu en Hildur og Alli sáu um hina hliðina! Góð skipting fannst okkur öllum! 🙂

Uppskrift f. 4

400 gr lax
1 mangó (vel þroskað)
1 avókadó
1,5 dl safi úr límónum (lime), ca. 3-4 stykki
1 dl sojasósa
1/4 – 1/2 rautt chili
2 msk kóríander
2 msk vorlaukur
2 tsk sykur
Ristuð sesamfræ

Aðferð

Byrjað er að útbúa ponzusósuna. Límónusafinn er kreistur úr límónunum og blandað við sojasósuna. Vorlaukur, chili (kjarnhreinsað) og kóríander saxað mjög fínt og bætt við sojasósuna. Sykrað eftir smekk. Sósan geymd í ísskáp.
Lax, mangó og avókadó skorið í þunnar sneiðar og raðað fallega á disk. Sojasósunni og ristuðum sesamfræum dreift yfir. Skreytt með nokkrum þunnum chilisneiðum og kóríanderblöðum.

Sushi salat


Ég hef verið á leiðinni að búa til ægilega gott sushi salat og setja inn á bloggið. Ég fékk þessa uppskrift í fyrra, fannst salatið svo gott að ég ofnotaði það næstum því á stuttum tíma! Mér finnst nefnilega sushi rosalega gott en hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega sushigerð enn, ég hef bara skoðað myndbönd á netinu og gert einföldustu bitana. En svo uppgötvaði ég þetta salat við urðum alveg vitlaus í það enda auðveld leið til að njóta fágaðs sushi á villtan evrópskan hátt! 🙂 Sérstaklega voru elstu krakkarnir hrifnir af þessu salati og ég sem sagt gerði það oft á tímabili. En núna er langt um liðið og ég var á leiðinni að búa til þetta salat þegar það vildi svo vel til að Halla Dóra vinkona mín bauð okkur upp á þetta gómsæta salat í forrétt í frábæru matarboði hjá Heiðu og Halldóri í Stokkhólmi. Í raun ættu Heiða og Brynja að fá sínar eigin færslur líka með dásemdar aðalrétt og eftirréttum (í fleirtölu!) sem þær sáu um! En gestabloggari dagsins er listakokkurinn doktor Halla Dóra!

Halla Dóra sleppti noriblöðunum í salatinu að þessu sinni en það eru ekki allir hrifnir af þeim. Svo minnir Halla á að þegar fiskur er notaður hrár, eins og laxinn í þessu tilfelli, þarf að frysta hann áður við -20 gráður í minnst sólarhring.

Uppskrift:

 • 500 g sushi hrísgrjón
 • 75 ml hrísgrjónaedik + 3 msk
 • 4 msk sykur
 • 1-2 msk sesamfræ (ristuð)
 • 3 msk grænmetis olía
 • 4-5 vorlaukar skornir fínt
 • 5 gulrætur skornar fínt
 • 1 gúrka kjarnhreinsuð og skorin í litla bita
 • 1 avocado skorið í litla bita
 • 300 g ferskur lax skorin í fínar sneiðar, líka hægt að nota túnfisk
 • 4 nori blöð klippt í ræmur eða ferninga
 • sultaður engifer
 • soya sósa
 • wasabi

Hrísgrjón soðin, tekin til hliðar og edik, sykur og salt soðið saman, látið “bráðna” saman og sett yfir volg grjónin. Grænmetið skorið og sett saman við grjónin. Þrjár matskeiðar af edik og olía sett út í og að lokum fiskurinn, sesamfræin og nori-blöðin. Halla dreifði sesamfræunum yfir salatið í lokin sem kom vel út.

Wasabi, soya sósa og sultað engifer borið fram með salatinu.

Brieostabaka með mango chutney


Eitt kvöldið í vikunni fengum við góða gesti í kvöldkaffi. Ég vildi bjóða upp á osta en langaði í tilbreytingu frá venjulegum ostabakka. Ég fór að hugsa um þegar góðir ostar eru bakaðir í ofni með mango chutney og kasjúhnetum og datt í hug hvort að það væri ekki hægt að gera meira úr því, einhverskonar böku. Ég fór á netið og fann ekkert á íslenskum vefsíðum. En þegar ég fór að skoða sænskar vefsíður kom í ljós að ég var ekkert að finna upp hjólið! Það voru til nokkrar útgáfur af bökum með brie og mango chutney enda eru Svíar mikið fyrir allskonar bökur. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og týndi saman það mér leist vel á úr hverri uppskrift og útkoman var þessi baka sem var afar ljúffeng. Það er hægt bera fram með bökunni parmaskinku sem er örugglega afar gott en þar sem gestirnir okkar eru grænmetisætur þá gerði ég það ekki. Þessa böku er líka hægt að bera fram sem forrétt. Þá er hægt að setja bökusneið og salat á forréttadiska.

Uppskrift

Botn:

 • 3 dl hveiti
 • 125 gr smjör (kalt, skorið niður í litla bita)
 • 1 msk kalt vatn
 • 1/2 dl sólblómafræ (má sleppa)

Fylling:

 • 400g brie ostur (ég notaði einn brie ost og einn gullost)
 • U.þ.b. 1.5 dl mango chutney
 • 3 egg
 • 2 1/2 dl rjómi (má nota matargerðarjóma)
 • salt og pipar
Hveiti og smjör sett í matvinnsluvél þar til það verður að deigi. Vatni bætt við og hrært í smástund í viðbót. Sólblómafræjum bætt við í lokin, gott að láta þau ekki myljast of mikið niður. Deginu þrýst niður á botninn í  bökuformi og upp með hliðunum, kælt í 30 mínútur. Botninn bakaður við 225 gráður í 10 mínútur. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað ofan á botninn. Helmingurinn af mango chutney smurt ofan á ostinn (ég mældi ekki magnið af mango chutneyið, smurði því bara vel á!). Eggjum, rjóma, salt og pipar pískað saman. Helmingnum af eggjahrærunni helt ofan á bökufyllinguna. Afgangnum af brie osti raðað yfir ásamt mango chutney og að lokum er restinni af eggjablöndunni hellt yfir. Lækkið ofnin niður í 200 gráður og bakið í 30-40 mínútur eða þar til bakan er tilbúin. Setjið álpappír yfir bökuna ef hún dökknar of mikið.

Balsamedik-síróp
 • 2 dl balsamedik
 • 1 msk hunang
 • 1 hvítlauksrif

Hráefninu blandað saman í lítinn pott og látið krauma þar til blandan hefur soðið niður um helming og hefur þykknað. Hvítlauksrifið fjarlægt, blandan kæld, hellt yfir bökuna.

Rækjur (eða humar) með klettasalatspestó


,,Grænar rækjur“ eru uppáhaldsmaturinn hennar Jóhönnu Ingu! Þetta eru rækjur með heimatilbúnu klettasalatspestói. Í raun er humar í uppskriftinni og mér finnst uppskriftin auðvitað best með humar eða jafnvel með risarækjum. Þá ber ég réttinn fram sem forrétt með ristuðu brauði. En hversdags er hægt að nota rækjur í réttinn og hafa hann þá sem aðalrétt.

Humar / rækjur með klettasalatspestói

 • 600 g humarhalar skelflettir (eða rækjur)
 • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 msk steinselja, smátt söxuð
 • 2 msk olífuolía
 • 1/3 -1/2 poki ferskt spínat

Kryddið humarinn með hvítlauk, steinselju, salti, pipar og steikið í olíu á vel heitri pönnu í eina mínútu. Bætið þá við spínatinu og klettasalatpestóinu (sjá uppskrift að neðan) á pönnuna og blandið vel saman (hafið bara örstutt á pönnunni, ca. 1-2 mín).

Klettasalatpestó 

 • 2/3 poki klettasalat
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 2 msk. furuhnetur eða kasjúhnetur
 • 2 msk. parmesan ostur, ferskur
 • 1 msk ljóst balsamedik
 • 1 msk sykur
 • 1/2 dl ólífuolía
 • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

 

Berið strax fram t.d. með hrísgrjónum, salati og brauði.