Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

  • 100 g laxaflak
  • 1 stk. hvítlauksgeiri
  • 2msk Maldon sjávarsalt
  • hluti úr ferskum ananas
  • 2-3 msk. sýrður rjómi
  • 1stk skarlottulaukur
  • ferskur pipar úr millu
  • 2 msk. ólífuolía
  • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Sashimi með avókadó og mangó í ponzusósu


Jamm, enn og aftur, avókadó og mangó! Þetta eru aðalpersónurnar í eldhússögunum mínum eins oft og ég mögulega kem þeim að! Og með þeim aukapersónum sem eru í þessum rétti … ég segi bara eins og Ósk dóttir mín ,,það hamingja í munninum á mér!“ 🙂 Þessi forréttur er hreinasta hnossgæti, það tekur enga stund að útbúa hann og að auki er hann afar fallegur á diski. Ég keypti lax í fiskbúð Hólmgeirs og frysti hann yfir nóttu eins og gera á við lax sem bera á fram hráan. Ég tók hann út að morgni og setti í ísskáp. Þá var hægt að skera hann niður seinnipartinn. Sósan sem er með réttinum er svo ljúffeng. Þetta er svokölluð ponzusósa en það kalla Japanir sósur sem gerðar eru úr sojasósu og safa úr sítrusávöxtum. Þeir nota Ponzusósuna meðal annars með sashimi og tataki (mjög létt grillað kjöt eða fiskur) Það er svo lítið mál að búa þennan rétt till, það þarf bara að skera laxinn fremur þunnt ásamt avókadóinu og mangóinu. Hræra síðan saman í sósuna og voilà! Dásemdar forréttur er tilbúinn!

Við snæddum þennan rétt um helgina með vinum okkar, Hildi og Alla ásamt börnum. Við skipulögðum svo brilliant matarboð, ég sá um að elda matinn og kom með hann heim til þeirra! Mér finnst svo gaman að elda en hundleiðinlegt að þrífa og laga til. Því miður er ég ekki nógu afslöppuð týpa, ég verð því alltaf að hafa allt spikk og span ef von er á heimsókn. Það gerir það að verkum að ég get sinnt matargerðinni minna en ég vildi. Núna gat ég hins vegar dúllað mér eingöngu í eldhúsinu en Hildur og Alli sáu um hina hliðina! Góð skipting fannst okkur öllum! 🙂

Uppskrift f. 4

400 gr lax
1 mangó (vel þroskað)
1 avókadó
1,5 dl safi úr límónum (lime), ca. 3-4 stykki
1 dl sojasósa
1/4 – 1/2 rautt chili
2 msk kóríander
2 msk vorlaukur
2 tsk sykur
Ristuð sesamfræ

Aðferð

Byrjað er að útbúa ponzusósuna. Límónusafinn er kreistur úr límónunum og blandað við sojasósuna. Vorlaukur, chili (kjarnhreinsað) og kóríander saxað mjög fínt og bætt við sojasósuna. Sykrað eftir smekk. Sósan geymd í ísskáp.
Lax, mangó og avókadó skorið í þunnar sneiðar og raðað fallega á disk. Sojasósunni og ristuðum sesamfræum dreift yfir. Skreytt með nokkrum þunnum chilisneiðum og kóríanderblöðum.