Jamm, enn og aftur, avókadó og mangó! Þetta eru aðalpersónurnar í eldhússögunum mínum eins oft og ég mögulega kem þeim að! Og með þeim aukapersónum sem eru í þessum rétti … ég segi bara eins og Ósk dóttir mín ,,það hamingja í munninum á mér!“ 🙂 Þessi forréttur er hreinasta hnossgæti, það tekur enga stund að útbúa hann og að auki er hann afar fallegur á diski. Ég keypti lax í fiskbúð Hólmgeirs og frysti hann yfir nóttu eins og gera á við lax sem bera á fram hráan. Ég tók hann út að morgni og setti í ísskáp. Þá var hægt að skera hann niður seinnipartinn. Sósan sem er með réttinum er svo ljúffeng. Þetta er svokölluð ponzusósa en það kalla Japanir sósur sem gerðar eru úr sojasósu og safa úr sítrusávöxtum. Þeir nota Ponzusósuna meðal annars með sashimi og tataki (mjög létt grillað kjöt eða fiskur) Það er svo lítið mál að búa þennan rétt till, það þarf bara að skera laxinn fremur þunnt ásamt avókadóinu og mangóinu. Hræra síðan saman í sósuna og voilà! Dásemdar forréttur er tilbúinn!
Við snæddum þennan rétt um helgina með vinum okkar, Hildi og Alla ásamt börnum. Við skipulögðum svo brilliant matarboð, ég sá um að elda matinn og kom með hann heim til þeirra! Mér finnst svo gaman að elda en hundleiðinlegt að þrífa og laga til. Því miður er ég ekki nógu afslöppuð týpa, ég verð því alltaf að hafa allt spikk og span ef von er á heimsókn. Það gerir það að verkum að ég get sinnt matargerðinni minna en ég vildi. Núna gat ég hins vegar dúllað mér eingöngu í eldhúsinu en Hildur og Alli sáu um hina hliðina! Góð skipting fannst okkur öllum! 🙂
Uppskrift f. 4
400 gr lax
1 mangó (vel þroskað)
1 avókadó
1,5 dl safi úr límónum (lime), ca. 3-4 stykki
1 dl sojasósa
1/4 – 1/2 rautt chili
2 msk kóríander
2 msk vorlaukur
2 tsk sykur
Ristuð sesamfræ
Aðferð
Byrjað er að útbúa ponzusósuna. Límónusafinn er kreistur úr límónunum og blandað við sojasósuna. Vorlaukur, chili (kjarnhreinsað) og kóríander saxað mjög fínt og bætt við sojasósuna. Sykrað eftir smekk. Sósan geymd í ísskáp.
Lax, mangó og avókadó skorið í þunnar sneiðar og raðað fallega á disk. Sojasósunni og ristuðum sesamfræum dreift yfir. Skreytt með nokkrum þunnum chilisneiðum og kóríanderblöðum.