Sashimi með avókadó og mangó í ponzusósu


Jamm, enn og aftur, avókadó og mangó! Þetta eru aðalpersónurnar í eldhússögunum mínum eins oft og ég mögulega kem þeim að! Og með þeim aukapersónum sem eru í þessum rétti … ég segi bara eins og Ósk dóttir mín ,,það hamingja í munninum á mér!“ 🙂 Þessi forréttur er hreinasta hnossgæti, það tekur enga stund að útbúa hann og að auki er hann afar fallegur á diski. Ég keypti lax í fiskbúð Hólmgeirs og frysti hann yfir nóttu eins og gera á við lax sem bera á fram hráan. Ég tók hann út að morgni og setti í ísskáp. Þá var hægt að skera hann niður seinnipartinn. Sósan sem er með réttinum er svo ljúffeng. Þetta er svokölluð ponzusósa en það kalla Japanir sósur sem gerðar eru úr sojasósu og safa úr sítrusávöxtum. Þeir nota Ponzusósuna meðal annars með sashimi og tataki (mjög létt grillað kjöt eða fiskur) Það er svo lítið mál að búa þennan rétt till, það þarf bara að skera laxinn fremur þunnt ásamt avókadóinu og mangóinu. Hræra síðan saman í sósuna og voilà! Dásemdar forréttur er tilbúinn!

Við snæddum þennan rétt um helgina með vinum okkar, Hildi og Alla ásamt börnum. Við skipulögðum svo brilliant matarboð, ég sá um að elda matinn og kom með hann heim til þeirra! Mér finnst svo gaman að elda en hundleiðinlegt að þrífa og laga til. Því miður er ég ekki nógu afslöppuð týpa, ég verð því alltaf að hafa allt spikk og span ef von er á heimsókn. Það gerir það að verkum að ég get sinnt matargerðinni minna en ég vildi. Núna gat ég hins vegar dúllað mér eingöngu í eldhúsinu en Hildur og Alli sáu um hina hliðina! Góð skipting fannst okkur öllum! 🙂

Uppskrift f. 4

400 gr lax
1 mangó (vel þroskað)
1 avókadó
1,5 dl safi úr límónum (lime), ca. 3-4 stykki
1 dl sojasósa
1/4 – 1/2 rautt chili
2 msk kóríander
2 msk vorlaukur
2 tsk sykur
Ristuð sesamfræ

Aðferð

Byrjað er að útbúa ponzusósuna. Límónusafinn er kreistur úr límónunum og blandað við sojasósuna. Vorlaukur, chili (kjarnhreinsað) og kóríander saxað mjög fínt og bætt við sojasósuna. Sykrað eftir smekk. Sósan geymd í ísskáp.
Lax, mangó og avókadó skorið í þunnar sneiðar og raðað fallega á disk. Sojasósunni og ristuðum sesamfræum dreift yfir. Skreytt með nokkrum þunnum chilisneiðum og kóríanderblöðum.

Sushi salat


Ég hef verið á leiðinni að búa til ægilega gott sushi salat og setja inn á bloggið. Ég fékk þessa uppskrift í fyrra, fannst salatið svo gott að ég ofnotaði það næstum því á stuttum tíma! Mér finnst nefnilega sushi rosalega gott en hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega sushigerð enn, ég hef bara skoðað myndbönd á netinu og gert einföldustu bitana. En svo uppgötvaði ég þetta salat við urðum alveg vitlaus í það enda auðveld leið til að njóta fágaðs sushi á villtan evrópskan hátt! 🙂 Sérstaklega voru elstu krakkarnir hrifnir af þessu salati og ég sem sagt gerði það oft á tímabili. En núna er langt um liðið og ég var á leiðinni að búa til þetta salat þegar það vildi svo vel til að Halla Dóra vinkona mín bauð okkur upp á þetta gómsæta salat í forrétt í frábæru matarboði hjá Heiðu og Halldóri í Stokkhólmi. Í raun ættu Heiða og Brynja að fá sínar eigin færslur líka með dásemdar aðalrétt og eftirréttum (í fleirtölu!) sem þær sáu um! En gestabloggari dagsins er listakokkurinn doktor Halla Dóra!

Halla Dóra sleppti noriblöðunum í salatinu að þessu sinni en það eru ekki allir hrifnir af þeim. Svo minnir Halla á að þegar fiskur er notaður hrár, eins og laxinn í þessu tilfelli, þarf að frysta hann áður við -20 gráður í minnst sólarhring.

Uppskrift:

 • 500 g sushi hrísgrjón
 • 75 ml hrísgrjónaedik + 3 msk
 • 4 msk sykur
 • 1-2 msk sesamfræ (ristuð)
 • 3 msk grænmetis olía
 • 4-5 vorlaukar skornir fínt
 • 5 gulrætur skornar fínt
 • 1 gúrka kjarnhreinsuð og skorin í litla bita
 • 1 avocado skorið í litla bita
 • 300 g ferskur lax skorin í fínar sneiðar, líka hægt að nota túnfisk
 • 4 nori blöð klippt í ræmur eða ferninga
 • sultaður engifer
 • soya sósa
 • wasabi

Hrísgrjón soðin, tekin til hliðar og edik, sykur og salt soðið saman, látið “bráðna” saman og sett yfir volg grjónin. Grænmetið skorið og sett saman við grjónin. Þrjár matskeiðar af edik og olía sett út í og að lokum fiskurinn, sesamfræin og nori-blöðin. Halla dreifði sesamfræunum yfir salatið í lokin sem kom vel út.

Wasabi, soya sósa og sultað engifer borið fram með salatinu.