Sushi salat


Ég hef verið á leiðinni að búa til ægilega gott sushi salat og setja inn á bloggið. Ég fékk þessa uppskrift í fyrra, fannst salatið svo gott að ég ofnotaði það næstum því á stuttum tíma! Mér finnst nefnilega sushi rosalega gott en hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega sushigerð enn, ég hef bara skoðað myndbönd á netinu og gert einföldustu bitana. En svo uppgötvaði ég þetta salat við urðum alveg vitlaus í það enda auðveld leið til að njóta fágaðs sushi á villtan evrópskan hátt! 🙂 Sérstaklega voru elstu krakkarnir hrifnir af þessu salati og ég sem sagt gerði það oft á tímabili. En núna er langt um liðið og ég var á leiðinni að búa til þetta salat þegar það vildi svo vel til að Halla Dóra vinkona mín bauð okkur upp á þetta gómsæta salat í forrétt í frábæru matarboði hjá Heiðu og Halldóri í Stokkhólmi. Í raun ættu Heiða og Brynja að fá sínar eigin færslur líka með dásemdar aðalrétt og eftirréttum (í fleirtölu!) sem þær sáu um! En gestabloggari dagsins er listakokkurinn doktor Halla Dóra!

Halla Dóra sleppti noriblöðunum í salatinu að þessu sinni en það eru ekki allir hrifnir af þeim. Svo minnir Halla á að þegar fiskur er notaður hrár, eins og laxinn í þessu tilfelli, þarf að frysta hann áður við -20 gráður í minnst sólarhring.

Uppskrift:

 • 500 g sushi hrísgrjón
 • 75 ml hrísgrjónaedik + 3 msk
 • 4 msk sykur
 • 1-2 msk sesamfræ (ristuð)
 • 3 msk grænmetis olía
 • 4-5 vorlaukar skornir fínt
 • 5 gulrætur skornar fínt
 • 1 gúrka kjarnhreinsuð og skorin í litla bita
 • 1 avocado skorið í litla bita
 • 300 g ferskur lax skorin í fínar sneiðar, líka hægt að nota túnfisk
 • 4 nori blöð klippt í ræmur eða ferninga
 • sultaður engifer
 • soya sósa
 • wasabi

Hrísgrjón soðin, tekin til hliðar og edik, sykur og salt soðið saman, látið “bráðna” saman og sett yfir volg grjónin. Grænmetið skorið og sett saman við grjónin. Þrjár matskeiðar af edik og olía sett út í og að lokum fiskurinn, sesamfræin og nori-blöðin. Halla dreifði sesamfræunum yfir salatið í lokin sem kom vel út.

Wasabi, soya sósa og sultað engifer borið fram með salatinu.