Laxa tartar á ananas með kóríander


Laxa tartar á ananas með kóríander

Um helgina steig ég út fyrir þægindarammann þegar ég féllst á að elda mat fyrir 40 manna árshátíð starfsmanna Heilsuborgar. Ég hef enga reynslu af slíku, ég elda venjulega bara hérna heima hjá mér. Það er í mesta lagi að ég eldi fyrir stórfjölskylduna, það getur slagað upp í 20 manns. Ég hugsaði sem svo að þetta væri bara eins og að elda fyrir tvöfalda stórfjölskylduna! Þar sem ég þjáist af fullkomnunaráráttu þá dreymdi mig auðvitað aðfaranótt árshátíðardagsins að ég væri mætt á árshátíðina, ætlaði að bera matinn á borðið en uppgötvaði að ég ætti eftir að búa hann til, laxinn meira að segja enn í frystinum! 🙂 Sem betur fer lenti ég nú ekki í slíkum hremmingum, þetta gekk allt vonum framar. Þema árshátíðarinnar var New york og matseðillinn samanstóð af þremur tegundum af pinnamat í forrétt. Það voru litlar mozzarella ostakúlur, kokteiltómatar og fersk basilika sem ég þræddi upp á litla bambuspinna og dreifði svo yfir það ólífuolíu, maldon salti og ferskmöluðum svörtum pipar.

IMG_9339

Ég var líka með bruchetta sem ég er með uppskrift af hér.

IMG_9335

Svo var ég með laxa tartar á ananas með kóríander sem ég gef uppskrift af hér að neðan. Í aðalrétt var lungnamjúk grilluð nautalund frá Kjötkompaníinu í Hafnarfirði. Með henni var kartöflugratín, ferskt salat, steikt ferskt grænmeti, bearnaise sósa og sveppasósa.

IMG_9322Kartöflugratín í framleiðslu

Í eftirrétt var volg brownies með heitri karamellusósu, þeyttum rjóma og jarðaberjum. Ég var afar ánægð með hversu vel þetta gekk allt og að mér tókst að reikna rétt magn af öllu, það var eiginlega það sem ég hafði mestar áhyggjur af, að eitthvað af réttunum myndi klárast áður en allir næðu að fá sér. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, magnið passaði mjög vel nema að ég átti nokkuð marga lítra af sveppasósu afgangs! Það eru kannski ekki allir sem flokka sósu með drykkjarföngum eins og á okkar heimili, síst af öllu starfsfólk heilsuræktarstöðvar! 🙂 Ég var býsna ánægð með viðtökurnar, margir höfðu á orði að maturinn hefði alveg slegið út matinn sem þau fengu á Lækjarbrekku í fyrra. Eins fékk ég beiðni um að elda fyrir 150 manna afmælisveislu og 150 manna brúðkaup hins vegar, það hlýtur að vera góðs viti! Ég er hins vegar ekki á leiðinni út í þennan bransa – að elda fyrir áttfalda stórfjölskyldu er aðeins of mikið fyrir mig! 🙂 Eins og ég sagði þá er ég líka með alltof mikla fullkomnunaráráttu fyrir þennan bransa, ef einhverjum einum gesti myndi ekki líka maturinn þá væri það nóg til þess að ég myndi missa svefn í margar vikur yfir því! 😉

IMG_9324

En hérna kemur uppskriftin af laxa tartar á ananas. Uppskriftin er fengin úr bókinni Landliðsréttir Hagkaupa. Mér finnst þetta sjúklega góður réttur, kannski er hann ekki fyrir alla þar sem að í honum er hrár lax. Ég held að þessi réttur myndi falla þeim vel að geði sem eru hrifnir af sushi.

Uppskrift, gefur ca. 10-14 bita

  • 100 g laxaflak
  • 1 stk. hvítlauksgeiri
  • 2msk Maldon sjávarsalt
  • hluti úr ferskum ananas
  • 2-3 msk. sýrður rjómi
  • 1stk skarlottulaukur
  • ferskur pipar úr millu
  • 2 msk. ólífuolía
  • ½ búnt ferskur kóríander

Roð- og beinhreinsið laxflakið og skerið í litla teninga. Afhýðið og pressið hvítlauk, fínt saxið skarlottulaukinn, setjið saman við ólífuolíuna, og blandið við laxa teningana, kryddið með salti og pipar.

Framreiðið ofan á ferskan ananas sem búið er að skera í fallega bita, skreytið með sýrðum rjóma og kóríander laufum. Ég prófaði mig áfram með ananasinn, mér fannst of yfirgnæfandi að hafa mjög þykkar ananasbita og hafði því þá fremur þunna.

IMG_9334

Chili-hakk í salatvefju


IMG_9033

Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂

IMG_8845IMG_8850

Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.

IMG_9036

Uppskrift:

  • 800 g nautahakka
  • salt & pipar
  • olífuolía
  • 1-2 rauður chili
  • 2 hvítlauksrif
  • 5 cm biti af fersku engifer
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk sesamolía
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
  • hýði af 1 límónu (lime)
  • safi frá ½ límónu
  • hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Hakkið steikt á pönnu upp úr ólífuolíunni, saltað og piprað vel. Steikt á fremur háum hita til þess að hakkið nái góðum lit. Þegar hakkið er steikt í gegn er því hellt í sigti þannig að öll fita renni af því.
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
IMG_9016
Sósa:
  • 1 tsk púðursykur
  • 1 tsk sojasósa
  • safi frá ½ límónu (lime)
  • ½ chili, saxað
  • 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
  • 1 msk ólífuolía

Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.

IMG_9025

Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku


IMG_8860

Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂

Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!

Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.

IMG_8939

Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning

IMG_8927

Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.

IMG_8933

Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.

IMG_8898IMG_8913

Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂

IMG_8907

Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.

IMG_8917IMG_8919

Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.

Uppskrift:

  • 1 snittubrauð
  • 2 hvítlauksrif
  • ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
  •  fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
  • 1 kúla Mozzarella ostur
  • salt og pipar
  • ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn

Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.

Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

IMG_8855

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

  • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

  • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
  • tómatar, skornir í sneiðar
  • basilikublöð
  • salt og svartur grófmalaður pipar
  • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
  • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

  • parmaskinka
  • brie ostur eða annar góður mygluostur,
  • chilisulta
  • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

  • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
  • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
  • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
  • klettasalat
  • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371

Osta-quesadillur með chili og súperhollt salsa – óvænt ástarsamband!


Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá einum skemmtilegasta klúbb landsins þó víða væri leitað! Þar flæddi heilsueflandi hormón, endorfín, allt kvöldið! Samkvæmt rannsókn breska tannlæknafélagsins gefur hlátur jafn mikla ánægju og það að borða 2.000 súkkulaðistykki! Sé það satt þá var jafngildum mörg þúsund súkkulaðistykkja sporðrennt í gærkvöldi! 🙂 Auk þess komu þessar gæðakonur með ýmiskonar gúmmelaði í klúbbinn. Sá skemmtilegi atburður gerðist á hlaðborðinu að það upphófst óvænt ástarsamband milli réttanna sem við Ragnhildur komum með! Hún Ragga, sem hæglega gæti haldið úti girnilegu matarbloggi (hvet hana til þess hér með!),  býr í Bandaríkjunum. Þegar hún er hér á landi þá kynnir hún okkur oft fyrir ýmsum girnilegum bandarískum vörum eða réttum. Til dæmis kynnti hún okkur eitt sinn fyrir sjúklega góðu og hollu snakki, Multigrain, sem er gert úr hörfræjum, sólblómafræjum og brúnum hrísgrjónum. Það fæst stundum í Kosti. Berið það fram með ofboðslega góðri ídýfu:

  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 2 dl sweet chilisósa

Blandað saman og borið fram með Multigrain snakkinu.

Í gærkvöldi kom Ragga með feyki gott og hollt salsa sem hún bar fram með þessum mexíkósku skálum, Tostios Scoops (einungis 7% fita) sem fást oft í Kosti og Hagkaup. Salsasósan er súperholl og var einstaklega góð í þessum skálum. Ég hins vegar bjó til heitar Quesadillur með chili, fetaosti og mozzarellaosti. Fyrir mistök setti ein okkar salsað hennar Röggu á quesadillurnar mínar og viti menn, þetta passaði eins og flís við rass (sem er kannski ósmekkleg samlíking þegar um mat er að ræða en á samt svo vel við 😉 )! Þarna var því kominn nýr og girnilegur partýréttur: ,,Osta-quesadillur með chili og súperhollu salsa“!

Súper hollt salsa, uppskrift:

  • 1 stór dós kotasæla
  • 8 tómatar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1/2 lime
  • ferskt kóríander, saxað fremur smátt
  • 1 rautt chili, saxað smátt
  • salt og pipar

Skerið tómatana í helminga og hreinsið úr þeim aldinkjötið, það er ekki notað. Skerið skelina af tómötunum smátt. Kotasælu, tómötum, chili, lauk og kóríander blandað saman. Smakkað til með limesafa, salti og pipar. Salsað látið brjóta sig í ísskáp í 15-30 mínútur áður en það er borið fram.

Osta-quesadillur með chili:

  • 2 rauð chili
  • 200 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 100 gr fetaostur
  • 12-16 grænar ólífur, steinlausar (ég átti þær ekki til og notaði í staðinn 1 avókadó)
  • 2-3 msk ferskt kóríander, saxað
  • 8 hveititortillur
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2 – 1 tsk paprikuduft

Hitið ofninn í 200 gráður. Fræhreinsið og saxið chili-aldinin og setjið þau í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum (eða avókadó) og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda bökunarplötu, skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á (ég notaði orginal wrap tortillas frá Santa María, þær eru það stórar að ég varð að nota tvær bökunarplötur). Blandið saman ólífuolíu og paprikudufti og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í um 5 mínútur. Fjarlægið þá álpappírinn og bakið áfram í um 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru að byrja að taka lit á brúnunum. Takið þær þá út og skerið þær í fjóra til átta geira hverja. Berið þær fram heitar eða volgar, t.d. sem léttan aðalrétt með salati, á hlaðborð eða sem partýrétt. Og gjarnan með súperholla salsanu hennar frú Röggu Bree sem eldar bara á háhæluðum! 🙂