Ég er býsna spennt yfir þeirri matargerð sem bíður mín næstu vikurnar. Ég pantaði nefnilega 1/4 af nautaskrokk beint frá býli. Ég hef gert það áður og það er svo mikill munur á gæðum kjötsins, sérstaklega nautahakkinu, miðað við það sem er keypt hjá stórmörkuðunum. Ég pantaði kjöt frá Mýranauti. Þeir eru með svo góða þjónustu. Í fyrsta lagi er hægt að biðja um að þau geri hamborgara úr hluta af nautahakkinu gegn mjög vægri greiðslu. Í öðru lagi er hægt að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni, sem annars nýtist kannski ekki sérlega vel. Í þriðja lagi þá er hægt að panta hakkið og gúllasið í þeim stærðarpakkningum sem maður óskar. Og í fjórða lagi er kjötið keyrt beint heim til manns! Ég fékk kjötið heim rétt fyrir páska og þar leyndust afar girnilegir bitar, nautalund, sirloin steik, ribeye, entrecote og fleira. Ég held að kalkúninn á páskadag sé mögulega að víkja fyrir gómsætri nautasteik! 🙂
Ég prófaði nautahakkið strax í dag, það var afar ljúffengt. Ég gerði nokkurs konar smárétt eða tapasrétt sem var mjög bragðgóður, skemmtilegt að útbúa og enn skemmtilegra að borða. Frábær og fljótlegur smáréttur með köldum bjór eða sniðugur réttur á hlaðborð. Eins gæti þetta verið góður réttur til að bera fram með fleiri mexíkóskum smáréttum. Ég ákvað að búa til guacamole með þessum rétti, mér fannst það voða gott með, eins bar ég fram með þessu nachos fyrir þá sem vildu dálítið af kolvetnum! 😉 Salatið fæst í Hagkaup, mér finnst það ómissandi með þessum rétti en það er líka hægt að nota venjulegar tortillakökur.
Uppskrift:
- 800 g nautahakka
- salt & pipar
- olífuolía
- 1-2 rauður chili
- 2 hvítlauksrif
- 5 cm biti af fersku engifer
- 3 vorlaukar
- 1 msk sesamolía
- 1 msk púðursykur
- 1 tmsk fiskisósa (fish sauce)
- hýði af 1 límónu (lime)
- safi frá ½ límónu
- hjartasalat (fæst m.a. í Hagkaup)
Chili, hvítlaukur og engifer er fínsaxarð og steikt upp úr sesamolíunni. Þá er sykrinum bætt út á pönnuna og því næst er hakkinu bætt út í ásamt fiskisósunni, límónuhýðinu og límónusafanum. Vorlaukarnir eru saxaðir niður og þeim bætt út í lokin.
- 1 tsk púðursykur
- 1 tsk sojasósa
- safi frá ½ límónu (lime)
- ½ chili, saxað
- 1-2 tsk fiskisósa (fish sauce)
- ferskt kóríander eftir smekk, saxað (ég notaði 1/2 30 gramma box)
- 1 msk ólífuolía
Öllum hráefnunum er blandað vel saman. Hakkið er borið fram í hjartasalatsblöðunum og sósunni dreift yfir.
Svakalega girnilegt, þetta verð ég að prófa og sniðugt að nota svona salatblöð 🙂
Takk Helga! 🙂 Já, salatblöðin eru fersk og góð með þessum rétti!
Bakvísun: Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum | Eldhússögur
Bakvísun: Innbökuð nautalund Wellington | Eldhúsperlur
Gordon Ramsey