Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂
Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!
Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.
Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning
Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.
Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.
Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂
Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.
Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.
Uppskrift:
- 1 snittubrauð
- 2 hvítlauksrif
- ólífuolía
- 1 msk balsamic edik
- 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
- fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
- 1 kúla Mozzarella ostur
- salt og pipar
- ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn
Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.
Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.
En páskalegt og fínt hjá þér! Gleðilega páska 🙂
Takk Kolla! 🙂 Gleðilega páska!
Bakvísun: Salat með sesamkjúklingi | Eldhússögur
Bakvísun: Laxa tartar á ananas með kóríander | Eldhússögur
Hvað er hægt að gera bruchetturnar með miklum fyrirvara? 🙂
Sæl Rannveig! Þessar eru bestar heitar. Hins vegar þá er auðvelt að búa þær til með fyrirvara. Ég hef stundum ristað brauðið í ofninum kvöldið áður, látið það kólna og pakkað því vel inn í plastfilmu eða poka. Svo hef ég sett á það daginn eftir. Gumsið sem sett er ofan á brauðið er alveg hægt að gera til dæmis að morgni þó það sé ekki sett á brauðið fyrr en að kvöldi. Þannig er hægt að hafa allt tilbúið, skella bara gumsinu á brauðið rétt áður en það fer aftur inn í ofn og bera það svo fram heitt. Gangi þér vel! 🙂
Prófaði þessa í gær, mjög góðar 🙂
Takk fyrir að skrifa kveðju Sigga! 🙂
Bakvísun: Skyr parfait og útskriftarveisla | Eldhússögur