Snittur með lambafille og sætkartöflumús


Snittur með sætkartöflumús og lambafilleUm síðustu helgi skrifaði ég um útskriftarveislu Óskar. Í veislunni prófaði ég nokkra nýja smárétti og þessi uppskrift af ljúffengum snittum með lambakjöti og sætkartöflumús var einn af þeim. Uppskriftin var í sama Gestgjafa blaði og uppskriftin af vorrúllunum og kemur frá Happi. Ég prófaði líka að setja grillaða kjúklingabringu á snittuna og það var ákaflega gott, það er því auðvelt að skipta út lambakjötinu fyrir kjúkling ef maður kýs það heldur. Ég breytti upphaflegu uppskriftinni dálítið og skrifa hana hér inn breytta.

IMG_5856

Uppskrift, ca. 20 snittur

  • 200 g lambafille
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cummin
  • chill explosion krydd
  • maldon salt
  • gófmalaður svartur pipar

Olía, cummin og chili-krydd hrært saman og lambakjötinu velt upp úr blöndunni. Kjötið grillað í nokkrar mínútur á útigrilli þar til það er steikt eftir smekk (mér finns best að hafa það vel rautt í miðjunni). Í lok eldunartímans er kryddað með salti og pipar. Kjötið er látið jafna sig eftir grillun í minnst 10 mínútur og því næst skorið í mjög þunnar sneiðar.

Sætkartöflumús:

  • 1 meðalstór sæt kartafla, skorin í fremur litla bita
  • 3 msk philadelphia rjómaostur
  • chili explosion krydd
  • ca. 1/2-1 tsk rósmarín
  • salt & pipar

Sæta kartaflan eru afhýdd og skorin í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við rjómaost og krydd í potti við lágan hita.

Hindberjasósa:

  • 2 dl frosin hindber
  • agave síróp, eftir smekk
  • maldon salt, eftir smekk

Hindberin afþýdd og sett í blandara, smakkað til með agave sírópi og örlítið af salti. Ef með þarf er hægt að þynna með vatni.

Brauð:

  • 1 snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Skraut og samsetning:

  • ristaðar furuhnetur
  • ferskt spínat, saxað gróft
  • fersk bláber

IMG_5665

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Þegar brauðin eru orðin köld er sett vel af sætkartöflumús á hverja sneið. Því næst er grófsaxað spínat sett ofan á karöflumúsina, þá lambakjötssneið og að lokum er hindberjasósunni dreypt yfir. Skreytt með ristuðum furuhnetum og ferskum bláberjum. Athugið að hægt er að setja saman snittuna með smá fyrirvara en best er að setja hindberjasósuna á rétt áður en snitturnar eru bornar fram. IMG_5853 IMG_5857

 

 

Bruschetta með mozzarella, tómötum og basiliku


IMG_8860

Gleðilega páska kæru lesendur! Skírdagur var ljúfur hjá okkur fjölskyldunni. Við reyndum að njóta dagsins út í hið ýtrasta þar sem að þetta er eini frídagur Elfars yfir páskana. Hann verður á vakt frá og með morgundeginum fram á annan í páskum. Þá fer hann í viku vinnuferð til Stokkhólms. Allir sváfu vel út og því næst var farið í páskaeggjainnkaup. Það tók dálítinn tíma því það er um svo mörg páskaegg að velja. Jóhanna Inga var í stökustu vandræðum því hana langaði í hefðbundið Nóa og Siríus egg en sætasti páskaunginn var á Rís páskaegginu. Þetta var mikil klemma sem tók langan tíma að greiða úr! 🙂

Við fórum svo í bíó á The Croods og skemmtum okkur konunglega, mjög skemmtileg mynd. Kvöldmaturinn var ljúffengi karríkjúklingurinn með sætum kartöflum. Ég var með saumaklúbb í gær og bauð upp á þennan rétt. Að vanda elda ég fyrir heilan her. Það var því einföld eldamennskan þegar við komum heim úr bíóinu, rétturinn bara hitaður upp fyrir okkur fjögur en elstu krakkarnir eru í útlöndum. Ég held svei mér þá að rétturinn sé jafnvel enn betri daginn eftir!

Heimilið er komið í einfaldan páskabúning. Það er nú ekkert auðvelt að finna fallegt páskaskraut en mér finnst páskaliljur, túlípanar og perluliljur (eða heita þær perlu-hyasintur?) svo falleg blóm og nota þau til þess að fá páska- og vortilfinningu inn á heimilið.

IMG_8939

Diskurinn á stofuborðinu kominn í páskabúning

IMG_8927

Það er svo notalegt svona snemmvors að geta notið dagsbirtunnar lengi en samt geta kveikt á kertum á kvöldin.

IMG_8933

Túlípanar eru mín uppáhaldsblóm. Það eru til nokkur góð ráð til að láta túlípana standa lengi. Í fyrsta lagi læt ég þá standa í vasanum í vatni, í plastinu sem þau koma í, í nokkra klukkutíma. Það gerir það að verkum að þeir standa svona þráðbeinir. Svo passa ég að hafa ekki mikið vatn en bæti köldu vatni á þá reglulega og set stundum klaka út í vatnið, þá standa þeir lengur.

IMG_8898IMG_8913

Páskaliljur eru ómissandi og sæt/ljótu páskaungarnir fá að kúldrast í vasa! 🙂

IMG_8907

Páskagrenið er alveg ómissandi um páskana.

IMG_8917IMG_8919

Í gærkvöldi í saumaklúbbnum var ég með einfaldan bragðauka fyrir matinn, bruchetta með mozzarella, tómötum og basiliku. Þessar snittur eru einfaldar að útbúa en afar gómsætar.

Uppskrift:

  • 1 snittubrauð
  • 2 hvítlauksrif
  • ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 askja kokteiltómatar eða 3-4 tómatar
  •  fersk basilika eftir smekk (ég notaði ca. 1/3 af 30 gramma boxi)
  • 1 kúla Mozzarella ostur
  • salt og pipar
  • ca. 1/2 dl parmesan ostur, rifinn

Bakarofn stilltur á 200 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 200 gráður í nokkrar mínútur þar til þau hafa tekið smá lit. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna á meðan tómatablandan er útbúin.

Tómatarnir skornir í litla bita, basilikan söxuð, mozzarella kúlan skorinn í bita og hvítlaukurinn pressaður. Þessu síðan öllu blandað í skál ásamt ediki, rifnum parmesan osti, salti og pipar. Blandan er sett ofan á brauðin og þau sett inn í ofn við 200 gráður í ca. 8-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.

IMG_8855

Brauðsnittur (bruschetta)


IMG_7384Síðastliðið föstudagskvöld var Ósk með 19 ára afmælispartý og langaði að bjóða upp á léttar veitingar. Þennan sama dag var ég að skila meistararitgerðinni minni og fara í atvinnuviðtal. Að auki var ég lítið sofin eftir mikla törn og húsið á hvolfi. Ég hafði satt best að segja engan tíma til að hugsa um þessar veitingar fyrr en einum og hálfum tíma áður en fyrstu gestirnir komu í hús, það er að segja, þá fór ég út í búð! 😉 Ég hafði þó í undirmeðvitundinni hugsað allan daginn um hvað ég ætti að hafa og var komin að niðurstöðu þegar út í búð var komið. Þannig er mál með vexti að fyrir ári síðan var brúðkaup æskuvinkonu minnar og ég gerði nokkur hundruð brauðsnittur eða bruschetta fyrir brúðkaupsveisluna. Mér finnst brauðsnittur bæði afskaplega hentugar sem partýmatur því þær eru fallegar á borði, krefjast hvorki áhalda né diska og eru saðsamar en síðast en ekki síst eru þær hrikalega góðar. Fyrir brúðkaupsveisluna lagðist ég í uppskriftaleit að bestu brauðsnittunum. Ég átti fremur erfitt með að finna brauðsnittur sem mér líkaði en eftir að hafa stúderað netið og uppskriftabækur auk þess að hafa gert allskonar tilraunir sjálf komst ég niður á þrennskonar tegundir sem mér fannst góðar. Í rauninni er ég að skrifa færslu núna sem ég var svo ákaft að leita að í fyrra en fann hvergi á bloggum né á uppskriftasíðum! 🙂

IMG_7382

Ég gerði svipaðar brauðsnittur fyrir partýið hjá Ósk og ég hafði gert fyrir brúðkaupsveisluna í fyrra. En að þessu sinni hafði ég bara tæpan klukkutíma til að búa til 70 snittur þannig að það var langt frá því að ég dúllaði jafn mikið við brauðsnitturnar nú og ég gerði þá! Eiginlega má segja að þær hafi verið svolítið „rustic“ í útliti því ég var eins og Speedy Gonzales í eldhúsinu og hafði engan tíma til að nostra við snitturnar. 🙂 Ég hefði frekar viljað setja inn myndirnar af brúðkaupssnittunum en það var fyrir tíma bloggsins þegar ég lagði ekki í vana minn að mynda allan mat! Þessar snittur verða því að duga.

IMG_7375

Uppskrift:

  • ljóst langt snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Bruschetta með pestó, mozzarella, tómötum og basiliku

  • litlar mozzarellakúlur, skornar í tvennt
  • tómatar, skornir í sneiðar
  • basilikublöð
  • salt og svartur grófmalaður pipar
  • pestó með kóríander og kasjúhnetur (eða basilikupestó) frá Jamie Oliver
  • skreytt með til dæmis: svörtum ólífum sneiddum í litla báta, jarðaber skorin í litlar sneiðar, niðurskorin vínber.

IMG_7373

Brauðið smurt með pestó, því næst er sett vel af basiliku (láta hana þekja brauðið), þá kemur góð tómatsneið, því næst tveir helmingar af mozzarella. Í lokin er stráð örlítið af grófmöluðum svörtum pipar yfir (jafnvel salti, passa samt vel að hafa það ekki of mikið). Brauðsnittan er svo skreytt með t.d. litlum hluta úr svartri ólífu eða lítilli sneið af jarðaberi eða vínberi.

Bruschetta með parmaskinku, brie og chilisultu.

  • parmaskinka
  • brie ostur eða annar góður mygluostur,
  • chilisulta
  • skreytt með til dæmis: jarðaber eða vínber sneidd í litlar sneiðar, lítið klettasalatsblað eða blaðasteinselja.

IMG_7369

Ein parmaskinka skorin í þrjár sneiðar. Sneiðin brotin saman til að hún passi nokkurnvegin á brauðsneiðina, þá er góð sneið af brie-osti lögð ofan. Svo er kemur chilisulta og skreytt með t.d. jarðaberi, vínberi og smá grænu eins og klettasalatsblaði.

Bruchetta með pestó, grilluðum kjúklingabringum, klettasalati og sultuðum rauðlauk

  • gott pestó, ég notaði walnut & red pepper pestó frá Jamie Oliver, mæli líka með chili & garlic pestóinu hans.
  • kjúklingabringur með kjúklingakryddi
  • sultaður rauðlaukur (fæst tilbúinn í krukkum)
  • klettasalat
  • skreytt með t.d lítilli sneið af jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju

IMG_7372

Kjúklingabringur kryddaðar með góðu kjúklingakryddi og grillaðar á útigrilli (eða bakaðar í ofni). Þegar þær eru tilbúnar og hafa fengið að standa til að jafna sig eru þær sneiddar niður í hæfilega þykkar sneiðar. Hver brauðsneið er smurð með pestói, því næst er lagt dálítið af klettasalati ofan á, þá kemur sneiðin af kjúklingabringunni og loks kemur sultaði rauðlaukurinn. Hér notaði ég ekki sultaðan rauðlauk, gleymdi honum hreinlega í stressinu en ég mæli virkilega með því að nota hann, passlega mikið samt. Skreytt með jarðaberi, vínberi eða blaðasteinselju.

IMG_7371