Tillögur að páskamáltíðum


páskaNúna er páskarnir að ganga í garð. Ég held mikið upp á páskana, yndislega birtan komin aftur, vor í loftinu og gott, kvaðalaust frí. Það eina sem maður þarf að gera er að borða góðan mat og mikið súkkulaði, dásemdin ein! 🙂

Hér eru tillögur að góðum aðalréttum fyrir páskana. Svo vill til að þetta er hér um bil allt hægeldað kjöt. Það er nú ekki nein tilviljun því þannig verður kjötið svo afskapalega meyrt og gott. Eins höfum við nægan tíma um páskana til að leyfa matnum að malla hægt. Hér er svo hægt að finna uppskriftir að kartöflum á 10 vegu. Svo er ekki úr vegi að skrolla niður þennan lista og finna þar einhverja góða eftirrétti til að njóta um páskana! Gleðilega páska!

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli.

IMG_0954

Hægeldað lambalæri

IMG_7414

Hægelduð nautalund

img_7387

Kalkúnn

IMG_0796

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa

þorskur

Hægeldað kálfa ribeye með rauðvínssveppasósu

ofnbakaðar1

Hægeldaður lambahryggur í jólaöli


Hægeldaður lambahryggur í jólaöliÞegar ég var barn þá skildi ég ekkert í því að lambalæri og lambahryggur væri álitið sunnudagsmatur því mér fannst það alls ekki gott. Núna finnst mér lambakjöt einn sá besti matur sem ég fæ og lambahryggur er orðinn einn af mínum uppáhaldsréttum. Mér finnst best að hægelda hrygginn og hef gaman að prófa mig áfram með mismunandi sósur. Að þessu sinni notaði ég það sem hendi var næst og hægeldaði hrygginn í jólaöli. Það kom frábærlega vel út og gerði sósuna svo góða. Í stað þess að nota jólaöl er líka hægt að nota pilsner.

Með hryggnum steikti ég ferskt grænmeti. Með því að steikja grænmetið upp úr smjöri og nota grænmetiskraft, sem gefur seltu og krydd, þá verður það algjört sælgæti. Ég prófaði líka að steikja gulrætur upp úr brúnuðu smjöri og maukaði þær síðan, dásamlega gott. Að auki var ég með ofnbakaðar kartöflur og sætarkartöflur sem meðlæti. Mér finnst mjög gott að bræða saman smjör og ólífuolíu í potti og hella yfir kartöflurnar ásamt góðu kryddi áður en þær fara inn í ofn, það gefur svo góða áferð og bragð.

IMG_0946 Þessi máltíð var svo góð að þetta verður nýársmaturinn hjá okkur að þessu sinni, ekki slæmt að byrja nýtt og spennandi ár á slíkum herramannsmat! 🙂

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 6:

  • 1 lambahryggur (3 kíló)
  • 400 ml jólaöl – ég notaði tilbúna blöndu af Malti og Appelsíni (eða pilsner)
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • ca. 1 msk hunangs-dijon sinnep
  • kryddið „Bezt á lambið“
  • 2-3 dl rjómi
  • ca. 2 msk hveiti
  • ca. 1/2 -1 msk sojasósa
  • ca. 1/2 msk rifsberjahlaup
  • 1-2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sósujafnari + sósulitur við þörfum

IMG_0936

Ofninn er hitaður í 100 gráður við undir og yfirhita. Lambahryggurinn er snyrtur ef með þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hnífsoddi stungið hér og þar í hrygginn og 10-12 hvítlauksrifum stungið ofan í raufarnar. Þá er hryggurinn smurður með þunnu lagi af dijonsinnepi og því næst kryddaður vel með kryddinu „Bezt á hrygginn“. Nú er hryggurinn settur ofan í ofnpott og jólaölinu hellt ofan í pottinn. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 4 – 5 tíma (fer eftir þykkt hryggsins og hversu mikið steiktan maður kýs að hafa hann). Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 65-70 gráður, við 65 gráður er kjötið enn fremur bleikt. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin. IMG_0942

Sósa: Vökvinn er sigtaður ofan í pott og látinn standa í smástund á kaldri hellu þannig að fitan fljóti upp á yfirborðið. Þá er hún veidd af og pískuð saman við hveiti með gaffli þar til smjörbollan verður passlega þykk. Suðan er látin koma upp á soðinu og smjörbollunni bætt út í og hrært vel á meðan. Því næst er rjómanum bætt út í og sósan smökkuð til með sojasósu, rifsberjahlaupi, nautakrafti og kryddum. Ef sósan er of þunn er notaður sósujafnari og sósan dekkt við þörfum með sósulit.

IMG_0965

Smjörsteikt grænmeti: 

  • 1 brokkolíhaus, skorinn í bita
  • 250 g sveppir, skornir í beta
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 lítill rauðlaukur, skorin í sneiðar
  • 2-3 msk smjör
  • 1-2 tsk grænmetiskraftur (ég notaði frá Oscars)
  • salt og pipar

Smjörið er brætt á pönnu og grænmetið steikt í nokkrar mínútur þar til það er hæfilega eldað. Kryddað með grænmetiskrafti, salti og pipar.

IMG_0939

Gulrótarmauk í brúnuðu smjöri:

  • 300 g gulrætur
  • 80 g smjör
  • salt og pipar

IMG_0941

Gulræturnar eru skornar í bita. Smjörið er brætt í potti og gulræturnar látnar malla í smjörinu í um það bil 15 mínútur við meðalhita og hrært öðru hvoru í pottinum. Þegar smjörið hefur brúnast og gulræturnar orðnar dökkar eru þær maukaðar og kryddaðar með salti og pipar.
IMG_0957

Sævar Már vínþjónn mælir með rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessari máltíð. Lýsingin á víninu er eftirfarandi: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.rioja

 

Salat með lambalundum, sætum kartöflum, fetaosti og ofnbökuðum tómötum


IMG_6105IMG_6066

Þessi réttur hentar fullkomlega fyrir t.d. saumaklúbba eða aðrar slíkar samkomur þegar mann langar að bjóða upp á góða en einfalda rétti. Góð salöt geta verið svo hrikalega góð og í þessu salati er gjörsamlega allt sem mér þykir best, sætar kartöflur, gott lambakjöt, kasjúhnetur, avókadó, smjörsteiktir hvítlaukssveppir og margt annað gómsætt.

Uppskrift f. 4:

Marinering:

  • 600 g lambalundir eða lambafillé
  • 1 límóna (lime), safi og fínrifið hýði
  • 1.5 dl ólífuolía
  • 2 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • ca 15 g flatblaða steinselja
  • 2 vorlaukar, saxaðir smátt
  • 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð smátt
  • 1 rauður chili, saxaður smátt
  • 1 msk rifið engifer

Hráefnunum fyrir marineringuna er blandað saman og helmingur hennar lögð til hliðar. Lambakjötið er lagt í merineringu í hinn helminginn í minnst 1 klukkustund. Þá er kjötið grillað eða steikt á pönnu eftir smekk. Því næst er það lagt undir álpappír í minnst 10 mínútur og að lokum skorið niður í sneiðar.

IMG_6078

Salat:

  • 500 g sæt kartafla
  • 1 rauð paprika
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • ólífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 250 g sveppir
  • ca. 20 g smjör
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 200 g spínat
  • 2 avókadó
  • 1 krukka fetaostur í kryddolíu (250 g)
  • ca. 100 g kasjúhnetur

Ofn hitaður í 200 gráður við blástur. Kirsuberjatómatar skornir í tvennt og þeir lagðir á ofnplötu klædda bökunarpappír með skornu hliðina upp. Ólífuolíu, salti, pipar og örlítið af chiliflögum dreift yfir tómatana. Paprika skorin í bita og sætar kartöflur skornar í bita, sett saman í ofnskúffu eða í stórt eldfast mót og velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Kokteiltómatarnir ásamt sætu kartöflunum og paprikunni er hitað inni í ofni í um það bil 30 mínútur. Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjöri, í lok steikingar er pressuðum hvítlauksrifum bætt út á pönnuna og kryddað með salti og pipar. Kasjúhnetur eru saxaðar gróft og ristaðar á þurri pönnu. Avókadó skorið í bita. Þegar sætu kartöflurnar og paprikan ásamt kokteiltómötunum er tilbúið, er öllu blandað saman við lambakjötið, sveppina, avókadó, fetaost (gjarnan dálítið af olíunni), spínat og ristuðu kasjúhneturna. Restin af marineringunni sem var geymd, er dreift yfir salatið.

IMG_6090

Lambapottréttur með karrí og sætum kartöflum


IMG_0711

Þegar karrí, sætar kartöflur og kóríander koma saman þá finnst mér kominn fullkominn grunnur að góðri máltíð. Ég hef sagt frá því áður að ég bý svo vel að búa nálægt Þinni verslun sem er með kjötborð, frábær lúxus að hafa auðveldan aðgang að fersku kjöti. Um daginn sá ég svo girnilegt lambagúllas í kjötborðinu og úr varð þessi ljúffengi réttur. Mér finnst ótrúlega þægilegt að búa til pottrétti sem elda sig hér um bil sjálfir. Það sama er ekki hægt að segja um naan brauðið að þessu sinni. Ég ákvað að grilla það á útigrillinu og kveikti á grillinu. Þegar ég fór út á pall tveimur mínútum seinna sá ég að mælirinn á grillinu var í botni og þegar ég opnaði lokið stóð grillið í ljósum logum, það dældi inn of miklu gasi. Ég gafst upp á að reyna að laga það og kveikti á bakarofninum en aldrei þessu vatn sló alltaf út rafmagninu við þær tilraunir. Naan brauðið var því á endanum bakað á steikarpönnu og lukkaðist betur en ég hefði haldið. Lambapottrétturinn rann hins vegar afar ljúflega ofan í allt heimilisfólkið. Elfar var einmitt rétt í þessu að gægjast yfir öxlina á mér á skjáinn og sagði: „…ummm, þessi var svo góður“! 🙂

IMG_0718 Uppskrift:

  • 1 meðalstór laukur, saxaður smátt
  • 1 msk ólífuolía + msk smjör
  • ca. 50 g massaman curry paste
  • 700 g lambagúllas
  • 500 g sætar kartöflur, skornar í bita
  • 400 g blómkál, skorið í bita
  • 250 ml kjúklingasoð
  • 1 dós Hunts tómatar í dós með hvítlauk (411 g)
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander (hægt að nota flatblaða steinselju í staðinn)

Olía og smjör hituð og laukurinn steiktur þar til hann verður mjúkur. Þá er lambagúllasi bætt út í pottinn og steikt þar til kjötið hefur náð góðum lit. Því næst er karrí-maukinu bætt út í og steikt með kjötinu í 1-2 mínútur. Gott er að smakka sig áfram með maukið því það getur verið missterkt eftir framleiðendum. Þá er tómötum og kjúklingakrafti bætt út í, kryddað við þörfum, allt látið ná suðu og látið malla undir loki í um það bil 20 mínútur, hrært í pottinum öðru hvoru. Þá er sætum kartöflum og blómkáli bætt út í og látið malla í um það bil 15 mínútur til viðbótar eða þar til sætu kartöflurnar og blómkálið er soðið í gegn. Ferskt kóríander dreift yfir eða borið fram með réttinum ásamt hrísgrjónum, sýrðum rjóma eða grískri jógúrt og naan brauði.

IMG_0726

Lambaborgarar


LambaborgararUm helgina kom umfjöllun á mbl.is varðandi markaðssetningu á lambakjöti og þar var sérstaklega tekið fyrir hversu hrifnir matarbloggarar virðast vera af kjúklingi á kostnað lambakjöts. Málinu til stuðnings voru uppskriftir taldar á matarbloggum og þar kom í ljós  að lambakjötsuppskriftir voru býsna fáar miðað við kjúklingauppskriftir. Ég er einn þeirra matarbloggara sem er „sek“ um að vera með fáar lambakjötsuppskriftir á síðunni minni. Í kjölfarið fór ég að hugleiða hvers vegna svo væri.

Ég er eiginlega handviss um að sú staðreynd, að hér á blogginu mínu séu kjúklingauppskriftir í meirihluta en fáar lambakjötsuppskriftir, endurspegli hversdagslegan raunveruleika margra barnafjölskyldna hér á landi. Gott lambakjöt er dýrt, kostar ca. 3-5 þúsund krónur kílóið (læri, prime, file og slíkt) – fyrir mér eru þetta kjöt sparimatur, eiginlega í flokki með nautakjöti. Aðrir ódýrar bitar sem boðið er upp á er t.d. súpukjöt og oftast annað lambaköt á beini. Mér finnst grillað eða hægeldað lambakjöt best, það er tímafrekt og tilheyrir frekar helgarmatargerðinni á mínu heimili. Þegar keypt er lambakjöt á beini þá þarf líka oft að vinna það meira (skera frá beini) eða elda það lengur, hvort tveggja er tímafrekt og tímafrek eldamennska virkar engan veginn í miðri viku fyrir venjulegar barnafjölskyldur. Stór þáttur í lambakjötsmálinu er einnig að yngstu börnunum mínum finnst lambakjöt alls ekki gott. Það er mjög algengt að börnum finnst lambakjötið of fitumikið og bragðsterkt en sem betur fer lagast þetta oftast með aldrinum. Annar stór þáttur í þessu er að í hefðbundnum matvöruverslunum er lítið úrval af góðu lambakjöti. Til þess að kaupa gott lambakjöt þarf helst að fara í kjötverslun eða matvöruverslun með kjötborði, það krefst tíma og fyrirhafnar sem fæstar fjölskyldur hafa í miðri viku.

Að þessu öllu sögðu þá býð ég að sjálfsögðu upp á gómsæta lambakjötsuppskrift í dag!

IMG_8216

Minnug þess, í öllum þessum lambakjötspælingum, að stundum hef ég getað keypt ferskt lambahakk í Þinni verslun (sem ég er svo heppin að hafa í hverfinu og þar er gott kjötborð), kom ég þar við í dag. Lánið lék við mig og ég fékk gott lambahakk úr kjötborðinu (einungis 990 kr kílóið!) og gat því búið til lambaborgarana sem eg hef hugsað um lengi. Ég notaði hamborgarapressu sem gefur 200 gramma borgara, ég mæli með slíkri græju. Þó svo að yngsta barnið hafi ekki látið plata sig til þess að borða lambakjöt þótt það hafi verið dulbúið sem hamborgrari þá ætla ég sannarlega að vera duglegri að nota lambahakkið, það er æðislega gott og ekki spillir hversu ódýrt það er. Þessir borgarar sem sagt slóu í gegn hjá öllum í fjölskyldunni nema þessari yngstu! 🙂

Uppskrift (5 x 200 gramma borgarar):

  • 1 kíló lambahakk
  • 120 g fetaostur (ekki í olíu heldur kubbur)
  • ca. 30 g kóríander og/eða flatblaða steinselja, saxað.
  • 1 sítróna – hýðið fínrifið
  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð fínt
  • gott salt og ferskmalaður svartur pipar

 

IMG_8206

Fetaostur mulinn í skál. Kryddjurtum, rifnu sítrónuhýði, ólífuolíu og hvítlauki blandað saman við og kryddað með salti og pipar. Látið standa í nokkrar mínútur. Þá er blöndunni blandað saman við lambahakkið og hamborgarar mótaðir. Gott er að nota hamborgarapressu. Grillað eða steikt á pönnu við meðalhita þar til borgararnir eru hæfilega steiktir. Borið fram með salatblöðum, tómötum, rauðlauk ásamt fetaostasósu með avókadó

IMG_8211

Fetaostasósa með avókadó:

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 130 fetaostur (kubbur, ekki í olíu)
  • 1 þroskað avókadó
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota.IMG_8218

IMG_8224

Snittur með lambafille og sætkartöflumús


Snittur með sætkartöflumús og lambafilleUm síðustu helgi skrifaði ég um útskriftarveislu Óskar. Í veislunni prófaði ég nokkra nýja smárétti og þessi uppskrift af ljúffengum snittum með lambakjöti og sætkartöflumús var einn af þeim. Uppskriftin var í sama Gestgjafa blaði og uppskriftin af vorrúllunum og kemur frá Happi. Ég prófaði líka að setja grillaða kjúklingabringu á snittuna og það var ákaflega gott, það er því auðvelt að skipta út lambakjötinu fyrir kjúkling ef maður kýs það heldur. Ég breytti upphaflegu uppskriftinni dálítið og skrifa hana hér inn breytta.

IMG_5856

Uppskrift, ca. 20 snittur

  • 200 g lambafille
  • 2 msk olía
  • 1 tsk cummin
  • chill explosion krydd
  • maldon salt
  • gófmalaður svartur pipar

Olía, cummin og chili-krydd hrært saman og lambakjötinu velt upp úr blöndunni. Kjötið grillað í nokkrar mínútur á útigrilli þar til það er steikt eftir smekk (mér finns best að hafa það vel rautt í miðjunni). Í lok eldunartímans er kryddað með salti og pipar. Kjötið er látið jafna sig eftir grillun í minnst 10 mínútur og því næst skorið í mjög þunnar sneiðar.

Sætkartöflumús:

  • 1 meðalstór sæt kartafla, skorin í fremur litla bita
  • 3 msk philadelphia rjómaostur
  • chili explosion krydd
  • ca. 1/2-1 tsk rósmarín
  • salt & pipar

Sæta kartaflan eru afhýdd og skorin í bita. Bitarnir eru því næst soðnir í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru soðnar í gegn. Þá eru þær stappaðar saman við rjómaost og krydd í potti við lágan hita.

Hindberjasósa:

  • 2 dl frosin hindber
  • agave síróp, eftir smekk
  • maldon salt, eftir smekk

Hindberin afþýdd og sett í blandara, smakkað til með agave sírópi og örlítið af salti. Ef með þarf er hægt að þynna með vatni.

Brauð:

  • 1 snittubrauð (eitt snittubrauð gefur ca. 20 snittur, stærðin fer þó svolítið eftir því hvar brauðið er keypt.)
  • ólífuolía

Skraut og samsetning:

  • ristaðar furuhnetur
  • ferskt spínat, saxað gróft
  • fersk bláber

IMG_5665

Bakarofn stilltur á 220 gráður, undir- og yfirhita. Brauðin eru sneidd í mátulega þykkar sneiðar, dálítið á ská þannig að sneiðarnar verði stærri. Sneiðunum er raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír og hver og ein sneið pensluð með ólífuolíu. Brauðin bökuð við 220 gráður í nokkrar mínútur þar til þau eru orðin passlega gullinbrún. Þá eru þau tekin út og leyft að kólna.

Þegar brauðin eru orðin köld er sett vel af sætkartöflumús á hverja sneið. Því næst er grófsaxað spínat sett ofan á karöflumúsina, þá lambakjötssneið og að lokum er hindberjasósunni dreypt yfir. Skreytt með ristuðum furuhnetum og ferskum bláberjum. Athugið að hægt er að setja saman snittuna með smá fyrirvara en best er að setja hindberjasósuna á rétt áður en snitturnar eru bornar fram. IMG_5853 IMG_5857

 

 

Tíu tillögur af páskamat


páskar1

Núna er páskarnir að bresta á og margir líklega farnir að huga að páskamatnum. Mér finnst páskarnir dásamleg hátíð, laus við kröfur og hefðir. Jólin geta verið svo mislöng, í versta falli bara tveir dagar. Páskarnir eru hins vegar alltaf fimm frábærir frídagar. Það fylgja páskunum engar kvaðir um miklar skreytingar, uppsetningu á útiseríum, jólatrjám og slíku, hvað þá gjafakaup og bakstur. Páskarnir skreyta sig að mestu sjálfir með vorsólinni og Krókusum sem gægjast upp úr moldinni. Glaðlegir páskaungar, heiðgular páskaliljur og túlípanar hér og þar í húsinu ásamt skreyttum páskagreinum að sjálfsögðu … voilà … páskaskreytingarnar eru í höfn! Ekki er verra að þetta er lögboðin „borða mikið súkkulaði“ hátíð, hvernig er ekki hægt að elska slíka hátíð?! 🙂

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Við höfum komið upp tveimur páskahefðum. Önnur er kannski svolítið skrítin en hún er sú að við opnum páskaeggin á föstudeginum langa. Okkur fannst svo leiðinlegt að opna ekki páskaeggin fyrr en á páskadag, næst síðasta frídaginn, í stað þess að geta notið þeirra yfir alla páskana. Við ákváðum því að breyta bara hefðinni! Hin hefðin er sú að ég hef páskamatinn í hádeginu á páskadag. Það er eitthvað svo hátíðlegt að borða páskamatinn í hádeginu með páskamessuna í útvarpinu og hækkandi vorsól á lofti fyrir utan gluggann. Það er engin regla hjá mér hvað ég hef í matinn á páskadag. Undanfarin ár hef ég þó haft kalkún, hann er svo góður og svo er ekki síðra að eiga afgang af honum á annan í páskum. Ég hef líka oft haft ýmisskonar lambakjöt og jafnvel grillað nautakjöt en það er þó sjaldgæfara. Í ár verður stórfjölskyldan í mat hjá foreldrum mínum á laugardeginum og við fáum lambakjöt, ég hallast því að því að hafa kalkún á páskadag. Mér finnst líka ofsalega gott að borða góðan fiskrétt á páskunum til þess að vega upp á móti kjötinu. Ég mun örugglega velja einn ljúffengan fiskrétt af listanum hér að neðan og elda hann á föstudaginn langa.

Hér eru tillögur af gómsætum páskamat (í engri sérstakri röð):

IMG_0796

Kalkúnn með brúnuðum kartöflum, sætkartöflumús, gljáðum gulrótum, waldorfsalati, rósakáli með beikoni og himneskri sósu

 

IMG_7407

Hægeldað lambalæri með kartöflum, rjómasósu, grænmeti og sætum kartöflum

 

Roas beef

Roastbeef með bearnaise sósu, kartöflugratíni og spínatsalati með jarðaberjum

 

IMG_7549

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti

 

IMG_2352

Grillað lambafille með Hasselback kartöflum, grilluðu grænmeti og sveppasósu

 

Hamborgarhryggur

Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

 

IMG_2678

Grillað nautaribeye með heimagerðri bearnaise sósu og chilikartöflum með papriku

 

IMG_1941

Grilluð sirloin nautasteik með piparsósu

 

IMG_4237

Límónumarineruð laxaspjót með mangó- og avókadósalsa

 

IMG_8244

Ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu

 

IMG_0755

Ofnbakaður humar með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri

Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti


IMG_7549Á meðan ég sat yfir ritgerðinni minni þá dagdreymdi mig um ýmiss verkefni hér heima fyrir sem mig langaði svo mikið meira að gera en að sitja og skrifa alla daga. Ég dundaði mér við að búa til „to do“ lista yfir öll þessi geysispennandi verkefni. Efst á þeim lista var að fara í gegnum alla fataskápa heimilisins. Ég get staðfest það hér með að þetta verkefni var mun meira spennandi í dagdraumum mínum en í veruleikanum! Ofarlega á lista var líka endurskipulag á barnaherbergjunum. Ég hef því undanfarið verið að selja gamlar hillur og slíkt sem henta ekki lengur þar sem að krakkarnir hafa elst, dótinu fækkað og það breyst. Í kjölfarið hafa ófáar ferðir verið farnar í Íkea undanfarið. Ósk fékk líka dálitla yfirhalningu á sínu herbergi og um helgina fann ég þetta fallega stafrófs-sængurver sem var punkturinn yfir i-ið í herberginu hennar. Það er úr nýrri, tímabundinni línu hjá Íkea, Fjälltåg, margt skemmtilegt í þeirri línu hjá þeim.

Fjalltag

En að uppskrift dagsins. Á sunnudaginn fyrir rúmri viku var ég með þetta gómsæta hægeldaða lambalæri. Það var svo gott að ég ákvað að endurtaka leikinn að hluta til með því að hægelda lambahrygg í gær. Ekki var það síðra en lærið! Að þessu sinni var ég með rauðvín í ofnpottinum sem gaf góðan grunn í sósuna.

IMG_7540

Uppskrift, lambahryggur fyrir ca. 4-5:

  • 1 lambahryggur (2 kíló)
  • 2 dl rauðvín
  • 1 laukur, afhýddur og skorinn í stóra bita
  • 1 hvítlaukur (ég notaði solo hvítlauk), afhýddur og skorinn í báta
  • 4 tómatar, skornir í tvennt
  • 5 lárviðarlauf
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • gott krydd, t.d. rósmarín (ég notaði Best á allt frá pottagöldrum)

Ofninn er hitaður í 100 gráður. Hryggurinn er snyrtur ef þarf, skolaður og þerraður. Því næst er hann, nuddaður með ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Rauðvíni er hellt í ofnpottinn og hryggurinn settur ofan í ásamt, lauk, hvítlauk, tómötum og lárviðarlaufum. Því næst er kryddað yfir allt með rósmarín eða Best á allt. Lokið er sett á ofnpottinn og hryggurinn eldaður við 100 gráður í ca 5 tíma fyrir 2 kílóa hrygg. Best er að nota kjöthitamæli og stinga honum þar sem vöðvinn er þykkastur. Hryggurinn er tilbúinn þegar hitinn er komin í ca. 62-65 gráður. Þegar ca. 10 mínútur eru eftir af tímanum er ofnpotturinn tekinn út úr ofninum, vökvanum hellt af í skál. Ofninn er hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Hryggurinn er settur aftur ofan í ofnpottinn án loks og hann hitaður í ofninum í ca. 6-8 mínútur (áfram á grillstillingu og sama hita) eða þar til puran verður dökkbrún – fylgist vel með hryggnum. Þá er hryggurinn tekinn út og leyft að jafna sig áður en hann er skorinn niður. Á meðan þessu stendur er sósan útbúin.

IMG_7561

Sósa:

  • vökvinn úr ofnpottinum
  • 1 tsk nautakraftur
  • 1 tsk sojasósa
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 tsk hunang
  • salt og pipar
  • sósujafnari

Vökvinn úr ofnpottinum er sigtaður og tær vökvinn settur í pott. Mesta fitan er veidd ofan af vökvanum. Suðan látin koma upp og vökvinn látinn malla kröfuglega í ca. 10-15 mínútur eða þar til hann hefur soðið niður um allavega 1/3. Þá er restinni af hráefnunum bætt út og suðan látin koma aftur upp, sósan látin malla þar til hún er hæfilega þykk. Þá er sósan smökkuð til með kryddum.
riojaSævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með spænska rauðvíninu Campo Viejo Gran Reserva með þessum rétti og svona er því lýst: Dökkkirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, miðlungs tannín. Skógarber, plóma, krydd, jörð, eik.

Hunangsgljáð grænmeti:

  • 6-8 gulrætur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1/2 ferskur brokkolí-haus, skorin í bita
  • 150 gr sveppir, skornir í bita
  • 1 paprika, skorin í bita
  • smjör eða olía til steikingar
  • grænmeti frá steikarpottinum
  • 1 msk hunang
  • 1/2 tsk nautakraftur
  • salt og pipar
  • sesamfræ

Vatn sett í pott og suðan látin koma upp. Gulrætur og brokkolí sett út í vatnið og látið sjóða í örfáar mínútur þar til það er hálfsoðið. Sveppir steikir á pönnu upp úr smjöri/olíu og nautakrafti, ásamt papriku. Þá er hálfsoðna brokkolíinu og gulrótunum bætt út á pönnuna ásamt lauknum og tómötunum úr steikarpottinum. Hunangi bætt út í og kryddað örlítið með salti og pipar auk þess sem sesamfræum er stráð yfir. Grænmetinu leyft að malla í nokkrar mínútur við meðalhita.

IMG_7542

Hægeldað lambalæri


IMG_7414Í gær var ég með hægeldað lambalæri í sunnudagsmatinn. Það var dásamlega meyrt og gott, hreinlega bráðnaði í munni! Að auki var fyrirhöfnin næstum engin. Ég setti lærið ásamt kartöflum og grænmeti í steikarpott á hádegi. Því næst fórum við  fjölskyldan Íkea og skelltum okkur í sund á meðan maturinn mallaði á lágum hita í ofninum. Ósk var reyndar heima, ég hefði líklega verið hálfstressuð að skilja matinn eftir í ofninum annars. En mikið var gott að koma heim svangur úr sundi rétt fyrir matmálstíma og taka tilbúinn út úr ofninum þennan dásamlegan mat með engri fyrirhöfn! Það eina sem ég þurfti að gera var að búa til sósu og salat. Við kláruðum hér um bil heilt læri sem var 2.7 kíló! Reyndar kom Inga frænka til okkur í mat (hún er nú samt matgrönn! 😉 ). En það sem kom mest á óvart var að Jóhanna borðaði kjöt og sósu eins og enginn væri morgundagurinn! Hún sem venjulega borðar ekki lambakjöt, fékk sér fjórum eða fimm sinnum á diskinn, henni fannst kjötið svo gott! Það kom mér líka á óvart að grænmetið sem ég setti með lærinu í steikarpottinn var alveg mátulega eldað, ég hélt að það yrði ofeldað eftir allan þennan tíma í vökva í ofninum. En bæði kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar og góðar. Þetta er frábær og einföld aðferð til þess að fá lungamjúkt og gott lambalæri, mæli með því! 🙂

IMG_7403

Uppskrift:

  • 1 lambalæri, ca. 3 kíló
  • ólífuolía
  • lambakjötskrydd
  • salt og pipar
  • 2 sætar kartöflur
  • 12 kartöflur
  • 6 gulrætur
  • 1 paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
  • piparkorn
  • 600 ml vatn

Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

IMG_7407

Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.

Sósa:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

  • 40 g smjör
  • 40 g hveiti
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk sojasósa
  • sósulitur
  • salt og pipar

Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

00135Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir eindregið með spænska rauðvíninu Campo Viejo Reserva með lambalærinu.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, krydd, vanilla.

IMG_7416

Hangikjöt með kartöfluuppstúf


 

IMG_2612Við höfum átt yndisleg jól. Elfar var á vakt helgina 22. og 23. desember og vann þá bæði dag og nótt en á móti fékk hann frí yfir jólin sem var dásamlegt þar sem hann hefur verið að vinna síðastliðin tvö ár yfir jólin. Á aðfangadagskvöld kom stórfjölskyldan að vanda til okkar og þá eldaði ég hamborgarhrygg. Ég var búin að setja inn uppskriftina af hryggnum fyrir jól en er núna búin að uppfæra þá færslu með nýjum myndum. Á jóladag fórum við að venju til foreldra minna í brunch þar sem í boði er meðal annars gómsætt hreindýrapaté, fjallagrasapaté, síld, skinkuhorn, grafið hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, reyktur lax, grafin lax með tilheyrandi sósum, sultum og fleiru. Þetta er eiginlega sá jólamatur sem mér finnst bestur. Á jóladag er ég venjulega með hangikjöt um kvöldið. Það voru hinsvegar allir svo saddir eftir brunchið að það endaði á því að öll fjölskyldan kúrði saman í sófanum fram eftir kvöldi og horfði á bíómyndir milli þess sem að það var nartað í afgang af hamborgarhrygg og jólagraut auk þess sem borðað var konfekt og meira konfekt! 🙂

Jólin heima hjá okkur

IMG_6651

Recently Updated20Við leggjum mikið upp úr því að hafa jólatréð okkar barnslega ævintýralegt. Við erum ekki mikið fyrir eitthvað svona stílhreint hvítt/silfrað skraut eitthvað! 🙂 Ég hef safnað í gegnum tíðina jólatréskrauti sem börnunum finnst fallegt og spennandi, svolítið svona eins og umhverfið í Grinch bíómyndinni! 🙂 Elfar setur 700 marglitar perur í jólatréð, hann vefur hverja einustu grein á trénu með seríu! Það tekur því alltaf eina kvöldstund að setja ljósin á og svo er tréð skreytt daginn eftir. Ég leitaði í mörg ár af gullstjörnu á toppinn og varð hoppandi glöð þegar ég fann eina slíka í Svíþjóð rétt áður en við fluttum heim, mér finnst einhvernvegin að það eigi að vera gullstjarna á toppnum á jólatrjám! Ég var á Pinterest um daginn sem er óþrjótandi uppspretta allskyns hugmynda. Þar sá ég svona skáp svipaðan þeim sem við eigum, skreytan á svona einfaldan hátt sem mér fannst svo fallegt. Ég hermdi því eftir og þetta varð útkoman.

Recently Updated19

Recently Updated21Fyrst ég er kominn í þennan gír þá verð ég að setja inn mynd af arninum okkar líka sem er kominn í einfaldan jólabúning með ómissandi híasentuskreytingu sem pabbi útbýr fyrir okkur fyrir hver jól. Nú mætti halda að þetta væri orðið einhverskonar heimilisblogg, ég ætla að skvera inn uppskriftinni sem titillinn á þessari bloggfærslu lofaði! 🙂 Ég eldaði sem sagt jóladags hangikjötið á annan í jólum í ár. IMG_2619Líkt og með hamborgarhrygginn elda ég hangikjötið í ofni. Ég las mér til um að það væri besta leiðin til að elda saltað kjöt og það þrælvirkar fyrir hamborgarahrygginn, hann verður svo lungnamjúkur og meyr. Ég keypti úrbeinað hangikjötslæri sem var 1.2 kíló. Ég vafði því inn í álpappír og stakk í það kjöthitamæli. Ég setti það á grind með ofnskúffu undir (það getur lekið úr því) í ofn sem er búið að hita í 130 gráður. Ég eldaði hangikjötið þar til kjarnhitinn var búinn að ná 65 gráðum, það tók næstum því 3 klukkutíma. Hangikjötið varð afskaplega meyrt og bragðgott við þessa meðhöndlun.

Hangikjöt í ofni

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með ítalska rauðvíninu Mezzacorona Merlot með hangikjötinu. Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, mild tannín. Rauð ber, laufkrydd.

IMG_2599

Að sjálfsögðu var hefðbundið meðlæti, grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, kartöfluuppstúfur, laufabrauð, drukkið jólaöl með og hlustað á jólajazz! 🙂

IMG_2595

Segið þið annars hangikjöt með uppstúfi eða uppstúf? Hvor tveggja er rétt að segja í þágufalli, ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst eðlilegra að nota, ég var eitthvað að vandræðast með hvað ég ætti að skrifa í fyrirsögninni. En svona geri ég allavega kartöfluuppstúf:

Uppskrift:

  • 1 kíló kartöflur
  • 130 g smjör
  • 8 msk hveiti
  • ca 1 líter mjólk
  • 1 msk sykur
  • salt og pipar
  • hnífsoddur af múskat

Kartöflur soðnar, afhýddar og skornar í bita ef þær eru mjög stórar. Smjörið brætt í potti, hveitinu hrært út í og látið malla í 1-2 mínútur við vægan hita. Bakað upp með mjólkinni, kryddað með múskati, salti og pipar og sykri síðan bætt út í. Kartöflurnar látnar út í og látið malla í 5 mínútur við meðalhita.IMG_2624