Hangikjöt með kartöfluuppstúf


 

IMG_2612Við höfum átt yndisleg jól. Elfar var á vakt helgina 22. og 23. desember og vann þá bæði dag og nótt en á móti fékk hann frí yfir jólin sem var dásamlegt þar sem hann hefur verið að vinna síðastliðin tvö ár yfir jólin. Á aðfangadagskvöld kom stórfjölskyldan að vanda til okkar og þá eldaði ég hamborgarhrygg. Ég var búin að setja inn uppskriftina af hryggnum fyrir jól en er núna búin að uppfæra þá færslu með nýjum myndum. Á jóladag fórum við að venju til foreldra minna í brunch þar sem í boði er meðal annars gómsætt hreindýrapaté, fjallagrasapaté, síld, skinkuhorn, grafið hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, reyktur lax, grafin lax með tilheyrandi sósum, sultum og fleiru. Þetta er eiginlega sá jólamatur sem mér finnst bestur. Á jóladag er ég venjulega með hangikjöt um kvöldið. Það voru hinsvegar allir svo saddir eftir brunchið að það endaði á því að öll fjölskyldan kúrði saman í sófanum fram eftir kvöldi og horfði á bíómyndir milli þess sem að það var nartað í afgang af hamborgarhrygg og jólagraut auk þess sem borðað var konfekt og meira konfekt! 🙂

Jólin heima hjá okkur

IMG_6651

Recently Updated20Við leggjum mikið upp úr því að hafa jólatréð okkar barnslega ævintýralegt. Við erum ekki mikið fyrir eitthvað svona stílhreint hvítt/silfrað skraut eitthvað! 🙂 Ég hef safnað í gegnum tíðina jólatréskrauti sem börnunum finnst fallegt og spennandi, svolítið svona eins og umhverfið í Grinch bíómyndinni! 🙂 Elfar setur 700 marglitar perur í jólatréð, hann vefur hverja einustu grein á trénu með seríu! Það tekur því alltaf eina kvöldstund að setja ljósin á og svo er tréð skreytt daginn eftir. Ég leitaði í mörg ár af gullstjörnu á toppinn og varð hoppandi glöð þegar ég fann eina slíka í Svíþjóð rétt áður en við fluttum heim, mér finnst einhvernvegin að það eigi að vera gullstjarna á toppnum á jólatrjám! Ég var á Pinterest um daginn sem er óþrjótandi uppspretta allskyns hugmynda. Þar sá ég svona skáp svipaðan þeim sem við eigum, skreytan á svona einfaldan hátt sem mér fannst svo fallegt. Ég hermdi því eftir og þetta varð útkoman.

Recently Updated19

Recently Updated21Fyrst ég er kominn í þennan gír þá verð ég að setja inn mynd af arninum okkar líka sem er kominn í einfaldan jólabúning með ómissandi híasentuskreytingu sem pabbi útbýr fyrir okkur fyrir hver jól. Nú mætti halda að þetta væri orðið einhverskonar heimilisblogg, ég ætla að skvera inn uppskriftinni sem titillinn á þessari bloggfærslu lofaði! 🙂 Ég eldaði sem sagt jóladags hangikjötið á annan í jólum í ár. IMG_2619Líkt og með hamborgarhrygginn elda ég hangikjötið í ofni. Ég las mér til um að það væri besta leiðin til að elda saltað kjöt og það þrælvirkar fyrir hamborgarahrygginn, hann verður svo lungnamjúkur og meyr. Ég keypti úrbeinað hangikjötslæri sem var 1.2 kíló. Ég vafði því inn í álpappír og stakk í það kjöthitamæli. Ég setti það á grind með ofnskúffu undir (það getur lekið úr því) í ofn sem er búið að hita í 130 gráður. Ég eldaði hangikjötið þar til kjarnhitinn var búinn að ná 65 gráðum, það tók næstum því 3 klukkutíma. Hangikjötið varð afskaplega meyrt og bragðgott við þessa meðhöndlun.

Hangikjöt í ofni

Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með ítalska rauðvíninu Mezzacorona Merlot með hangikjötinu. Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, mild tannín. Rauð ber, laufkrydd.

IMG_2599

Að sjálfsögðu var hefðbundið meðlæti, grænar Ora baunir, heimalagað rauðkál, kartöfluuppstúfur, laufabrauð, drukkið jólaöl með og hlustað á jólajazz! 🙂

IMG_2595

Segið þið annars hangikjöt með uppstúfi eða uppstúf? Hvor tveggja er rétt að segja í þágufalli, ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst eðlilegra að nota, ég var eitthvað að vandræðast með hvað ég ætti að skrifa í fyrirsögninni. En svona geri ég allavega kartöfluuppstúf:

Uppskrift:

  • 1 kíló kartöflur
  • 130 g smjör
  • 8 msk hveiti
  • ca 1 líter mjólk
  • 1 msk sykur
  • salt og pipar
  • hnífsoddur af múskat

Kartöflur soðnar, afhýddar og skornar í bita ef þær eru mjög stórar. Smjörið brætt í potti, hveitinu hrært út í og látið malla í 1-2 mínútur við vægan hita. Bakað upp með mjólkinni, kryddað með múskati, salti og pipar og sykri síðan bætt út í. Kartöflurnar látnar út í og látið malla í 5 mínútur við meðalhita.IMG_2624

12 hugrenningar um “Hangikjöt með kartöfluuppstúf

    • Gott að ykkur líkaði hamborgarhryggurinn. Já, ég átti digital kjöthitamæli sem bilaði, þeir eru mjög þægilegir, ég þarf líka að splæsa í einn nýjan! 🙂

  1. Hefurðu prófað að elda hangikjötslærið heilt með beini það hef ég gert í 25 ár ca. 🙂 og má ekki
    breyta neinu.Birkireykt frá SS hentar mjög vel og alls ekki elda of lengi.

  2. Hangikjöt með kartöfluppstúf og nota svipaða uppskrift og þú notar með sama meðlæti að viðbættri rófustöppu. Nota afgangana svo í tartalettur daginn eftir: Smátt skornum kartöflum og hangikjöti , baunum, söxuðum ananas(lítið) og vel af rifnum osti bætt í sósuna og látið í tartalettur. Bakað við 180°C þar til ostur er vel bráðinn og gullinn.
    Hef aldrei prófað að baka hangikjötið,prófa það örugglega næst.

    • Ég hef aldrei haft rófustöppu með hangikjötinu en mér finnst hún voðalega góð samt. Góð tartalettu uppskrift hjá þér, ég þarf að prófa hana! 🙂 Takk fyrir kveðjuna! 🙂

  3. Kærar þakkir fyrir uppskriftina! Uppstúfurinn mallar hér í potti á Flórída og þó að ég hafi nú ekki fundið alvöru hangikjöt hérna úti er ég með ágætis skinku sem að dugar – og alveg yndislegt að fá smá íslenskan fíling á hátiðina!

  4. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

  5. Bakvísun: Pizzabrauð | Eldhússögur

  6. Bakvísun: The beginner's travel guide to explore Iceland in 7 days - Pickyourtrail Blog

  7. Bakvísun: Nothing says Icelandic Christmas like | All About Iceland

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.