Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu


IMG_6528

Það er ekki seinna vænna en að setja inn uppskrift af jólamatnum! Stórfjölskyldan mín eyðir alltaf aðfangadagskvöldinu saman. Eftir að við fluttum til Íslands fyrir fjórum árum tók ég við aðfangadagskvöldi af mömmu en alla mína æsku vorum við hins vegar hjá ömmu og afa á aðfangadagskvöld. Þá voru oft rjúpur í jólamatinn, nokkuð sem ég komst aldrei upp á lagið að borða. En eftir að rjúpurnar urðu illfáanlegar hefur hamborgarhryggur verið jólamaturinn okkar. Ég hef skrifað hjá mér (eða réttara sagt sent sjálfri mér tölvupóst!) undanfarin ár hvaða uppskrift og aðferð mér hefur hugnast best hverju sinni og það er gott að geta komið þeim upplýsingum úr tölvupóstinum í heilsteypt innlegg hér á blogginu!

IMG_4416

Horft inn um gluggann í Kleifarselinu á aðfangadagskvöld.

IMG_4419

Eins og ég geri með afar margt þá lagðist ég í umfangsmikla heimildavinnu áður en ég tók við þessu veigamikla hlutverki að elda jólamatinn fyrir 12 manns! Ég komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið skrif og viðtöl við fjölmarga kokka og aðra eldhússnillinga að það á alls ekki að sjóða saltað kjöt í vatni. Þetta á við bæði um hamborgarhrygg og hangikjöt, ég elda því hvor tveggja í ofni og mér finnst kjötið verða mikið meyrara og betra þannig. Þegar hamborgarhryggurinn er steiktur í ofni getur hann verið aðeins saltari af því að saltið leysist ekki upp í soðvatni. Það á sérstaklega við um litla hryggi, kannski undir tveimur kílóum. Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur er gott að leggja hann í kalt vatn í 2-3 tíma fyrir eldun. Ég elda hamborgarhrygginn við lágan hita og þá þarf ekki að hafa hann í álpappír. Eins og ég hef skrifað hér áður er ég afar ginkeypt fyrir stjörnugjöfum, dómum og gagnrýni og ég fylgist því vel með á ári hverju hvaða hamborgarhryggir fá bestu einkunn. Kea og Ali hamborgarahryggirnir koma yfirleitt vel út í könnunum og ég nota annan hvorn þeirra.

IMG_4369

Varðandi magn þá hef ég skrifað hjá mér árlega hversu þunga hryggi ég kaupi, hversu margir borða og hvað verður eftir. Eftir að hafa reiknað þetta út þá komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þarf að kaupa 400 grömm á mann af hamborgarahrygg með beini. Þá er ég að miða við fullorðna sem borða og að það verði afgangur.

IMG_6507

Við erum mjög hefðbundin varðandi meðlæti með hamborgarhryggnum:

Uppskrift af gljáðum hamborgarhrygg:

  • Hamborgarhryggur á beini, ca. 400 gr. á mann miðað við að það verði afgangur
  • ananassneiðar

Sykurhjúpur (f. ca. 2-3 kílóa hrygg)

  • 2,5 dl púðursykur (í ár notaði ég muscovado sykur, það kom mjög vel út)
  • 1/2 dl vínedik eða cider edik
  • 1 dl tómatsósa
  • 1 dl rjómi
  • 1/2  dl Dijon sinnep

Til að koma í veg fyrir að hamborgarhryggurinn verði of saltur (þar sem að hann er ekki soðinn í vatni) þá er gott (ekki nauðsyn) að leggja hann í ískalt vatn í ca. 2 tíma fyrir eldun, sérstaklega á þetta við um litla hryggi.

Bræðið sykur og edik saman í þykkum potti (athugið það kemur sterk lykt þegar edik og sykur er soðið saman). Þegur sykurbráðin fer að þykkjast dálítið er sinnepi, tómatsósu og rjóma bætt saman við. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan verður þykk. Haldið 1 dl af hjúpnum til haga fyrir sósuna. Hryggurinn er lagður í kalt vatn í 2-3 tíma (fyrir þá sem hafa áhyggur af því að hann verði of saltur). Ofn hitaður í 150 gráður (undir/yfirhita). Hryggurinn er þerraður vel og smurður með gljáanum. Því næst er hann settur á ofngrind neðarlega í ofninn og ofnskúffa botnfyllt með vatni sett undir ofngrindina. Það þarf að fylgjast með því að það sé alltaf vatn í ofnskúffunni á meðan eldun stendur og bæta við vatni við þörfum. Best er að nota kjöthitamæli sem stungið er inn í miðjan hrygginn. Hryggurinn er eldaður í ofninum við 150 gráður þar til hann nær 65 gráða kjarnhita, það er um það bil 45-60 mínútur per kíló, fer mikið eftir því hvort hryggurinn er þykkur eða mjór. Athugið að þegar um það bil klukkustund er eftir af eldunartímanum er tími til að taka soð úr ofnskúffunni og byrja á sósunni því hún þarf að sjóða niður í minnst 1 klukkustund (miðað við tvöfalda sósuuppskrift).

Ég geri alltaf nóg af gljáa og pensla 2-3svar sinnum á meðan hryggurinn er í ofninum, það er gott að setja vel af gljáa og leyfa honum að leka aðeins ofan í soðið í ofnskúffunni. Í lokin er gott að hækka ofninn í ca. 220 gráður í 10-15 mínútur. Hryggnum leyft að jafna sig í allt að 10 mínútur eftir að hann kemur úr ofninum, áður en hann er skorinn. Hann þolir líka vel að bíða lengur ef sósan er ekki tilbúin. Hamborgarhryggurinn er borinn fram með ananassneiðum.

Kóksósa (ég áætla þetta magn fyrir ca 5 einstaklinga eða með einum hrygg)

  • 1 dl af sykurhjúpnum
  • 2 dl af soðinu
  • 2 dl Coca Cola
  • 2 dl rauðvín
  • 3-5 dl rjómi
  • sósujafnari ef með þarf

Setjið soðið, kókið, rauðvín og sykurhjúpinn í pott.  Látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið hana malla á meðal hita (þannig að hún „bubbli“) þar til hún hefur soðið niður um helming. Það er afar mikilvægt að sjóða niður sósuna, annars verður hún ekki góð! Ég lét hana malla á hitanum 5 af 9. Athugið að það tekur tíma að láta sósuna sjóða niður, ég tek því af soðinu og byrja á sósunni áður hamborgarhryggurinn er tilbúinn en ef vel á að vera þá tekur ca. klukkutíma að sjóða niður sósuna um helming (miðað við tvöfalda sósuuppskrift). Bætið þá rjóma saman við og látið malla áfram í 10-15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og bragðmikil. Ég nota vel af rjóma því grunnurinn af sósunni er svo bragðsterkur og góður að hún þolir vel slatta af rjóma. Gott er að nota sósujafnara ef sósan er of þunn.

19182Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir með rauðvíninu Casillero Del Diablo Carmenere Reserva frá Chile. Það er rúbínrautt. Lýsing: Þurrt, meðalfylling, þétt tannín, fersk sýra. Skógarber, paprika, tóbak, krydd.

Ég mæli líka með jólaöli með þessum hátíðarmat! 🙂

IMG_6531

69 hugrenningar um “Gljáður hamborgarhryggur með kóksósu

  1. Líst afar vel á þessa uppskrift, er líka með hamborgarahrygg í matinn. Hef líka alltaf verið með kóksósu og waldorf salat. Ætla einnig að vera með rósakál með sinnepssósu og pecanhnetum 🙂 Hvað hefur þú verið með í eftirrétt? Undanfarin ár hefur það verið Tobleronís hjá okkur, er einmitt að fara að búa hann til núna.

    • Við erum greinilega alveg á sömu nótunum Guðfinna! 🙂 Hjá mér er líka heimatilbúinn ís, oftast erum við með vanilluís annars vegar og svo einhverja nýja tegund hins vegar.

  2. Prófa þetta ,er búin að elda hamborgarahrygg frá Ali í 100 ár…Svo ég tek stóran séns á að breyta…:)En reyndar elda ég hangilæri yfirleitt í ofni svo þett ar svipað….Vil sleppa rauðvíni hvað ætti ég að mota í staðinn?

    • Úff Brynja, ég verð nú bara stressuð! 😉 Vonandi verðið þið sátt! 🙂 Ég myndi nota sterkt kjötsoð í stað rauðvínsins (svínakraftur+vatn) en ég segi þetta með fyrirvara, hef ekki prófað það sjálf.

      • Takk takk..
        Kannski ég skelli rauðvíninu bara í..;)

      • Já, sósur verða voða góðar með rauðvíni í! 🙂 En það er mikilvæg að láta hana sjóða niður um allavega helming eins og stendur í uppskriftinni, þá er maður kominn með góðan grunn í sósuna og allt áfengið gufað upp! 🙂

  3. Sæl
    Mér líst mjög vel á þessa uppskrift. Svo er bloggsíðan þín líka svo falleg.
    En segðu mér eitt. Þegar þú talar um soðið af hryggnum er það þá soðið úr ofnskúffunni með vatninu? Og annað. Hvernig berðu þig að við skurð á hryggnum. Skerðu kjötið frá beinunum og síðan í sneiðar? Þú hérð að hér spyr byrjandi 🙂

    • Þakka þér fyrir hrósið Sigríður! Já, ég er að meina soðið úr ofnskúffunni. Það þarf því að fylgjast með að það sé alltaf nægilegur vökvi í skúffunni á meðan eldunartímanum stendur þannig að soðið þorni ekki upp. Varðandi skurðinn þá sker ég (eða reyndar eiginmaðurinn!) fyrst niður með beinunum báðum megin og losa þannig allt kjötið frá í heilu, svo er það skorið niður í sneiðar. Gangi þér vel! 🙂

      • Kærar þakkir og gleðileg jól.
        Ég hlakka til að fylgjast með blogginu þínu á nýju ári 🙂

  4. Sæl
    Skemmtilegt og ákaflega girnilegt blogg hjá þér.
    Ætla að prufa þessa uppskrift annað kvöld.
    Er það ekki rétt skilið hjá mér að þú hefur grindina með kjötinu fyrir ofan vatnsborðið í ofnskúffunni?
    Eitthvað rauðvín sem þú mælir frekar með í sósuna?
    Bkv og gleðileg jól.

    • Þakka þér fyrir Ólafur! 🙂 Jú, það er rétt, grindin liggur ofan á ofnskúffunni og ég passa að það sé alltaf botnfylli af vatni í ofnskúffunni. Ég er engin vínsérfræðingur en notast við þau viðmið að elda ekki úr víni sem ég myndi ekki drekka og að nota sama vínið í sósuna og borið verður fram með matnum. Þannig er öruggt að vínið og maturinn falla að hvort öðru. Ef vínið er í dýrari kantinum er hægt að nota ódýrara vín í sósuna og setja smá lögg af dýrara víninu í lokin til að tengingin náist. Gangi þér vel og gleðileg jól! 🙂

      • Sæl aftur og gleðilega hátíð.
        Ég eldaði Hamborgarhrygg frá Nóatúni eftir galdraformúlunni þinni. Hryggurinn dúnmjúkur og safaríkur, hjúpurinn nammi og sósan FRÁBÆR.
        Allir í fjölskyldunni sammála um að þessi aðferð væri mun betri en fyrri aðferðri, og átu svo yfir sig því til staðfestingar.
        Hérmeð er ég kominn með hina fullkomnu hátíðaruppskrift af Hamborgarhrygg, þangað til þú stingur upp á einhverju nýju 😉
        Takk kærlega fyrir okkur, bið að heilsa Elvari.

      • Jii hvað ég er fegin að heyra þetta Óli! 🙂 Ég verð nú að viðurkenna að ég varð hálfstressuð þegar ég heyrði um svo marga sem ætluðu að breyta út af venjunni og nota þessa aðferð, það er nú ábyrgðaratriði að standa fyrir uppskriftinni af jólamatnum! 😉 Kærar þakkir fyrir að skrifa kveðju hérna í „kommentin“, það gleður og sérstaklega gaman að heyra að þið voruð svona sátt! Elfar biður að heilsa tilbaka! Gleðilega hátíð!

  5. Bakvísun: Hangikjöt með kartöfluuppstúf | Eldhússögur

  6. Hæhæ og takk fyrir frábært blogg. Er að fara að elda þetta í fyrsta skiptið og er í smá tremma fyrir fyrsta hátíðarboðinu mínu fyrir foreldra og tengdó. En með þinni hjálp held ég að ég meiki þetta. Eitt: Má ég elda tvo hryggi í einu…er með tvo litla… um tvö kg stykkið. Get ég þóst að það sé bara einn stór? Og mamma er æðislega æst í álpappírinn svo þetta þorni ekki. Þarf að sannfærana um að það þurfi ekki við hægeldun.

    • Hæ og takk fyrir það! 🙂 Jú, það er ekkert mál að hafa tvo í ofninum. Í þessari uppskrift var ég einmitt með tvo hryggi, 2.8 kíló hvorn, saman í ofninum (það tók þrjá tíma fyrir þá hryggi að eldast). Ertu með kjöthitamæli? Það er eiginlega nauðsynlegt, þá ertu alveg örugg með eldunartímann. Þá stingur þú mælinum í þann hrygg sem er mjögulega stærri eða þykkari og tekur hryggina út þegar mælirinn sýnir 65 gráður. Ég skil alveg að mamma þín sé æst í álpappírinn! 🙂 Ég hef bara eldað án hans síðastliðin tvö ár, ég taldi hann líka nauðsynlega fyrst,en trúðu mér, hryggurinn verður svo lungnamjúkur og safaríkur án álpappírs! 🙂 Ef þú ert með álpappír þá virkar gljáinn heldur ekki eins vel, án álpappírsins fær gljáinn að malla á hægum hita með hryggnum, brúnast svolítið og gefur gott bragð (gott að hækka vel undir lokin í ca. 10-15 mínútur til að ná gljáanum vel brúnuðum). En þú getur líka alveg eldað hryggina í álpappír, tekið hann af undir lokin og sett þá gljáan á. Svo gætir þú jafnvel prófað einn hrygg án álpappírs og einn með … þá getur mamma þín tekið hryggina út og kannað hvort virkar betur! 🙂 Gangi þér rosalega vel og endilega láttu vita hvernig gekk! 🙂

      • Æðislegt…já, þar sem ég má ekki fá þennan sykurhjúp hef ég bara sykurlausa hrygginn í álpappír og hinn ekki. 🙂 þannig að ef ég er með tvo hryggi, einn beinalaus og hinn án beina ætti ég að hafa þetta í 3 tíma á 150 gráðum? með eða án blásturs? (sorrrý er alveg klúless.)

      • Ég var með 150 gráður á undir og yfirhita. Ég var með tvo hryggi sem voru tæp 3 kíló og það tók næstum því þrjá tíma. Ef þínir hryggir eru tvö kíló ætti tíminn að vera nær tveimur tímum. En það er ekki hægt að segja það nákvæmlega fyrirfram þar sem að hryggir eru misþykkir. Þar kemur kjöthitamælirinn sterkur inn! 🙂 Það er hægt að fá einfalda, ódýra týpu af kjöthitamæli, mæli eindregið með því. Annars er maður svolítið að giska á hvenær hryggirnir eru tilbúinir. Það er aðeins meiri hætta á því að þessi án beins verði ekki eins safaríkur og sá sem er með beini, þess vegna er mikilvægt að elda hann ekki of lengi.

  7. Þetta er snilldaraðferð við suðuna elduðum hamborgarhrygg á aðfangadag og hann var einstaklega ljúffengur allir sammála um það. Gljáinn var einstaklega flottur sá besti sem ég hef gert hingað til,, takk fyrir þessa flottu síðu mín kæra og gleðilegt ár til ykkar í Kleifaselinu :=)

  8. Bakvísun: Fyrsta stórhátíðarboðið « Betan

  9. Hæ hæ
    Takk fyrir frábært blogg.
    Við prófuðum þessa uppskrift áðan en áttum hvorki rauðvín né edik en það gerði sko
    ekkert til. Allir sammála um að þetta hafi verið besti hamborgarhryggur sem við höfum smakkað um ævina.

  10. Bakvísun: Áramótin 2012 « Betan

  11. Takk kærlega fyrir mig. Þau sögðu að hryggurinn hefði verið rosalega góður en sósan hræddi sykursjúka mömmu mína og hún flikkaði eitthvað upp á hana með salti og mygluosti. 🙂 Takk fyrir að leiða mig í gegnum mína fyrstu stórhátíðarveislu. Þú ert æði 🙂

  12. Bakvísun: Tíu tillögur af páskamat | Eldhússögur

  13. Bakvísun: Eplakaka með saltaðri karamellusósu | Lúxusgrísirnir

  14. Hlakka til að prófa þessa uppskrift á aðfangadag – ein spurning : er hægt að nota e-h í staðin fyrir edikið í gljánn ??

    • Ég veit það hreinlega ekki Berglind. Mér finnst öll hráefnin mikilvæg í gljáanum og veit ekki hvað getur komið í staðinn fyrir edik. En hér í kommentunum var einhver sem sleppti edikinu og var mjög sátt við niðurstöðuna! 🙂 Ég þori samt ekki að mæla með neinu sem ég hef ekki prófað sjálf.

  15. Ekki málið – læt bara vaða í edikið 😉 Takk fyrir frábæra síðu og dásamlegar uppskriftir. Ótrúlega gott að hafa myndirnar við .

  16. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

  17. Sæl. Vil byrja á því að þakka þér enn og aftur fyrir frábæra síðu og frábærar uppskriftir. Er búin að elda marga rétti af síðunni þinni og allir eru dásamlega góðir, og næsti réttur af síðunni þinni sem ég ætla að elda er þessi dásamlegi jólamatur. En mig langaði að spyrja þig aðeins um gljáann, er hægt að nota hvítvínsedik? (á nefnilega svoleiðis til) og svo langaði mig líka til að spyrja þig hvort þú ættir ekki góða uppskrift af heimagerðu rauðkáli? Langar svo að prófa að gera svoleiðis með jólamatnum þetta árið 🙂

    • Takk fyrir fallega kveðju Kristjana, mikið gleður hún mig! 🙂 Varðandi edikið þá er hægt að nota vínedik eða eplaedik þannig að hvítvínsedik er í lagi.

      Rauðkálið sem við erum með á jólunum er þetta:

      1 miðlungsstór rauðkálshaus, kjarninn fjarlægður og kálið sneitt fínt.
      2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
      2/3 dl rauðvínsedik,
      1 dl sykur
      2/3 dl óblönduð sólberjasaft
      1/2 tsk salt
      1 msk smjör

      Látið allt saman í stóran pott og hitið rólega upp, látið sjóða við vægan hita í einn og hálfan til tvo tíma. Smakkið til þegar helmingur er liðinn af suðutíma, ef kálið er of súrt þá er sykri bætt við en ef það er of sætt þá þarf að bæta við aðeins meira af edik eða sólberjasaft. Nauðsynlegt er að smakka til kálið á þessum tímapunkti, þ.e. eftir hálfan suðutíma til þess að rauðkálið verði gott. Þegar suðu lokið er kálið sett í krukkur, leyft að kólna aðeins og svo sett ísskáp.

      • Takk æðislega fyrir, ætla að gera þessa uppskrift þá strax á morgun 🙂 Er farin að hlakka mikið til að borða jólamatinn! 🙂

      • Gaman að heyra! 🙂 Ef þú hefur aldrei soðið eigið rauðkál áður þá ætla ég að vara þig við lyktinni! Það kemur ekkert sértstaklega góð lykt þegar kálið er soðið niður (vegna ediksins) en bragðið er ljúffengt samt sem áður. 🙂 Já og svo gleymdi ég að skrifa að það þarf að hræra í pottinum öðru hvoru auðvitað. Gangi þér vel og gleðileg jól! 🙂

  18. Já er að fara að henda þessu í pottinn núna en var alveg undirbúin fyrir lyktinni 🙂 takk fyrir uppskriftina og gleðileg jól 😀

  19. Takk fyrir þessa góðu uppskrift ad hamborgarahryggnum, notaði hana i àr og hryggurinn var svo dàsamlega góður mjúkur og safaríkur 🙂 Hèr a bæ voru allir sammmàla að framveigis verður hann alltaf eldaður a þennan máta og sósan lika frábær..

  20. Sæl Dröfn og gleðileg jól.
    Ég tók ákvörðun um það á Þorláksmessu að fylgja uppskrifti þinni á eldun á hamborgarhryggnum og við urðum sko ekki fyrir vonbrigðum!!! Dásamlega mjúkur og safaríkur. Það var ákveðið að við skyldum ALDREI sjóða hrygginn aftur!;0) Sykurhjúpur og sósa voru tær snilld. Takk kærlega fyrir frábær ráð og uppskriftir, það má ekki vanmeta því góður matur getur svo sannarlega glatt hjartað og aukið jólagleðina:0) TAKK fyrir okkur.

  21. Nú koma árlegu athugasemdirnar þínar 🙂 En hvernig er það þegar maður setur gljáann á hrygginn og svo inn í ofn, má alveg drjúpa af honum í skúffuna með vatninu, eða á maður bara að vera temmilegur í gljáanum og setja lítið þannig að ekkert drjúpi af honum?

    • Hehe .. já, þetta er orðið árlegt! 🙂 Varðandi gljáann þá nota ég vel af honum því það er gott að fá hann með ofan í ofnskúffuna, þá verður soðið svo gott. Gangi þér vel og gleðileg jól! 🙂

  22. Sæl og takk fyrir hrikalega girnilega uppskrift 🙂

    Mér langar bara að spurja að einu, nú er ég vön að elda minn hrygg án þess að sjóða hann í eldföstu móti með loki á (svörtu pottunum), og þar fæ ég svo dásamlegt soð af hryggnum sem er aðalundirstaðan í minni sósu.

    Hvernig er það, ef að ég set vatn í ofnskúffuna undir hrygginn, kemur alveg nógu mikið kjötbragð af sósunni? 🙂 Ætti ekki að vera nóg að setja svona glært eldfast mót með vatni í beint undir kjotið?

    • Sæl Snjólaug og takk fyrir kveðjuna. Jú, það ætti alveg að vera nóg. Ég geri þessa uppskrifti venjulega tvöfalda, er með tvo hryggi, þess vegna finnst mér betra að vera með ofnskúffu.

  23. Sæl, er að spá með grænmetið sem þú ert með, er þetta frosið grænmeti og hvernig finnst þér best að elda það, sýðuru það bara, og eins með litlu kálhausanna sem þú ert með, er það soðið eða ?

    • Sæl Díana. Ofarlega í færslunni er listi yfir meðlætið og linkar á uppskriftir að því. Ég nota frosið grænmeti en litlu kálhausarnir eru rósakál og það er tengill á uppskriftina að því (Rósakál með beikoni og möndluflögum).

  24. Bakvísun: Pizzabrauð | Eldhússögur

  25. Sæl
    Árlega athugasemdin komin inn hehe 😉
    Ég er að bjóða mömmu og pabba, brósa og börnum í mat á morgun og vil því hafa það extra flott og er búin að skrifa uppskriftina þína niður og allt að verða ready nema eitt sem ég er að spá ì:
    eldunin a hryggnum hmm… set èg hrygginn á ofbngrind en ekki svarta pottinn eða eldfast mót?
    Og er þá vatn í skúffu fyrir neðan og gufar upp á hrygginn svona eins og að gufusjófa hálfpartin. Aðallega að spá snertir hryggurinn ekki vatnið eða?
    Kær jólakveðja
    Díana Ósk

    • Sæl Díana Ósk!
      Hryggurinn fer ekki í pott eða eldfast mót. Hann fer á grind og beint fyrir neðan rennir maður inn ofnskúffu með vatni þannig að vatnið nær ekki að snerta hrygginn, það er bara botnfylli af vatni í skúffunni.
      Gangi þér vel! 🙂

      • Takk fyrir skjót svör 😃
        Hlakka til að prófa á morgun 😄

  26. Sæl, er að gera hrygginn og kóksósuna
    í annað skiptið eftir þinni uppskrift. Þetta er algerlega bilað gott! Ég gerði kóksósuna um jólin í fyrra og tvisvar síðan þá og fólki finnst hún geggjuð…TAKK FYRIR OKKUR!

  27. Nú opna ég þessa uppskrift þriðja aðfangadaginn í röð – þá er kominn tími til að kvitta fyrir sig. Takk fyrir frábæra uppskrift og gleðileg jól.

  28. Hæ Dröfn. Prófaði í fyrsta sinn og örugglega ekki það síðasta þessa uppskrift. Hrikalega gott. Gerði allt eins og í uppskriftunum með kjötið, sósuna, rauðkálið og waldorfsalatið. Vakti stormandi lukku hjá gestunum og mér að sjálfsögðu. Var með litlu jólin heima hjá mér í kvöld þar sem sonurinn og hans fjölskylda verður í Þýskalandi yfir jólin eins og alltaf. Jólapakkar til þeirra frá Íslandi eru alltaf opnaðir þetta kvöld og við höfum allt eins og væri aðfangadagskvöld. Meira að segja eftirréttur með möndlu. Yndislegt fjölskyldukvöld 🙂

  29. Sæl, þú talar um að það taki klst að sjóða niður tvöfalda uppskrift af sósu. Tekur það þá hálftíma að sjóða niður einfalda uppskrift? Er uppskriftin hér að ofan ekki annars einföld?

    • Jú, ofureinföld! 🙂 Fylgdu bara fyrirmælum nákvæmlega og þá á ekkert að klikka! 🙂 Nei, ég myndi reikna með að það taki hátt í klukkutíma að sjóða niður þessa sósu fyrir þessa uppskrift sem ég gef upp hér (fyrir ca 5-6). Vissulega fer þetta samt eftir á hvaða hita maður er með, tíminn getur verið breytilegur. Best er að miða við magnið, hún þarf að sjóða niður um helming.

  30. Hvað gerir þú við ananasinn áður en þú berð hann fram, eldar þú hann eitthvað? Er þetta ferskur eða úr dós?

  31. Sæl, þessi uppskrift af kóksósunni og hamborgarhryggnum er í algeru uppáhaldi hjá okkur. Nú langar mig að elda líka léttreyktan lambahamborgarhrygg, myndirðu ekki nota bara sömu aðferð og með svínið?

  32. Langar að prufa þessa uppskrift en þyrfti að „sjóða“ hann um morguninn. Hvernig er best að gera það? Á ég að taka hann úr ofninum við ákveðinn kjarnhita eða slökkva á ofninum við ákveðinn hita og hafa hrygginn áfram inni. Eða hvernig myndir þú gera?

  33. Gleðilegt nýtt ár 😊
    Við höfum ekki jól núna án þess að gera þessa dýrinsmáltið á aðfangadagskvöld. Hamborgarahryggurinn, rauðkálið, kartöflurnar ,gljáinn og það ALLRA BESTA sósan😋😋😋😋. Það sem hún er góð hún er bara svo brjálæðislega góð fæ vatn í munninn að hugsa um hana bara góð með öllu.😊 Vorum með humarréttinn þinn með heimatilbúnu hvítlaukssmjöri með aðalréttinum og var einhver sem missti humarinn í kókssósuna en það kom ekki að sök því það var víst alveg geggjað 😂 takk enn og aftur fyrir allar uppskrftirnar þínar notum þær svo mikið 😊

  34. Fimmtu jólin sem ég notast við uppskriftirnar þínar! Klikkar ekki, allt svo dásamlega gott!
    Eina sem ég hrædd um að síðan leggist niður… Hef ekki lagt í það ennþá að kópíera allar uppskriftirnar yfir á eigin tölvu. Nota alltaf bara síðuna þína. Þú verður að láta vita ef þú hættir með siðuna!

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.