Þessa vikuna hef ég verið á endasprettinum í ritgerðinni minni og trúi því varla að ég hafi loksins verið að senda frá mér 33 þúsund orða meistararitgerð í prófarkalestur, ótrúlegt að þessari lotu sé að ljúka! *klappa sjálfri mér á öxlina* 😉 Ég hef því varla stigið inn í eldhús síðastliðna daga (ekki nema til þess að sækja mér koffein!) og því síður verið að undirbúa jólin. Ekki seinna vænna en að bretta upp ermarnar núna og fara í jólaundirbúning! Ég hlakka eiginlega mest til að taka húsið í gegn en það hefur verið verulega vanrækt síðustu þrjá mánuðina í þessari ritgerðavinnu!
Hann Vilhjálmur minn kom heim með svo frábæra skál sem hann bjó til í smíði í skólanum. Hún er svo dásamlega sæt að ég verð eiginlega að setja inn mynd af henni hér, þetta er uppáhaldsskálin mín núna!
Ég rakst á uppskrift í myndasafninu mínu frá því fyrr í haust sem ég var ekki enn búin að setja inn á bloggið. Þetta er voða góður pastaréttur með grillaðri papriku. Það er með ólíkindum hvað paprika breytist ef hún er grilluð, hún verður svo sæt og góð og frábær í sósur til dæmis. Þeir sem ekki nenna að standa í því að grilla paprikurnar (það er samt lítið mál!) geta keypt tilbúnar grillaðar paprikur i krukku. Ég var með brauð með pastaréttinum sem var afar einfalt og mjög fljótlegt að gera. Ég setti saman í matvinnsluvél einn mozzarellaost, þrjá litla tómata, ferska basiliku, ólífuolíu, salt og pipar. Ég keyrði matvinnsluvélina stutt þannig að hráefnin maukuðust ekki saman heldur fóru í litla bita. Ég setti blönduna ofan á snittubrauð og hitaði i ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur.
Ofsalega gott og einfalt! En hér kemur pastauppskriftin.
Uppskrift:
- 4-5 rauðar paprikur (ég notaði reyndar blandaða liti í þetta sinn en rauðar eru bestar)
- 3 msk furuhnetur
- 3 msk ólífuolía
- 1 lítill gulur laukur, saxaður smátt
- 3 hvítlauksgeirar, saxaði smátt
- 5 dl matreiðslurjómi
- 2-3 kjúklingabringur
- chilikrydd
- salt
- fersk steinselja
- rifinn parmesan ostur
- 500 gr pasta
Paprikur grillaðar á útigrilli eða í ofni á háum hita og þeim snúið reglulega. Þegar þær eru alveg orðnar svartar eru þær settar í lokaðan poka í smá stund til að jafna sig. Því næst er svarta grillhúðin tekin af, paprikurnar skornar í sundur og kjarninn fjarlægður.
Furuhnetur léttristaðar á pönnu. Furuhnetur og paprika maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota
Pasta soðið eftir leiðbeiningum
Kjúklingur skorin í bita, kryddaður með góðu kjúklingakryddi og steiktur á pönnu. Einnig er hægt að grilla hann í heilu á grilli og skera hann svo í bita.
Ólífuolíu hellt í stóran pott, laukur og hvítlaukur steiktur við miðlungshita þar til mjúkt, þá er paprikumaukinu bætt við út í pottinn, saltað vel og kryddað með chilikryddi eftir smekk. Því næst er rjómanum hrært út í. Sósan smökkuð til og krydduð eftir smekk. Þá er pasta og kjúklingabitunum bætt út í og öllu blandað saman. Borið fram með ferskri steinselju og rifnum parmesan osti.