Þessi helgi þaut hjá í jólaanda. Í gær voru skemmtilegir jólatónleikar hjá börnunum á vegum tónlistaskólans. Því næst fórum við á stjá til þess að kaupa jólatréð. Að vanda fundum við hið fullkomna tré eftir þónokkra leit!
Í dag fórum við fjölskyldan á jólaball. Síðastliðin 20 ár hefur móðurættin mín haldið ættarjólaball árlega sem að okkur, og allri ættinni að ég held, finnst ómissandi á aðventunni. Þarna koma saman um það bil 100 ættingjar, allt frá hvítvoðungum upp í ættarhöfðingja á níræðisaldri, sem dansa í kringum jólatré saman, gæða sér á veitingum, syngja og spjalla og að sjálfsögðu kemur jólasveinn með glaðning fyrir börnin. Hefðin er sú að allir koma með eitthvað á hlaðborðið. Mér finnst alltaf gott að fá mér eitthvað annað en sætt af svona hlaðborðum. Þess vegna ákvað ég að koma með eitthvað annað en sætmeti. Eða reyndar gerði ég hvor tveggja, ég gerði tvennskonar brauðrétti og svo bjó ég líka til Marsmolana góðu, en nú notaði ég súkkulaðið Picnic sem mér finnst svo gott, í því er karamella, hnetur og rúsínur.
Ég ætla að setja inn uppskriftina af öðrum brauðréttinum sem ég útbjó, það voru laxarúllur. En auk þess útbjó ég innbakaðan brieost með sultu í smjördeigi, ég set inn uppskriftana af þeim rétti við tækifæri. Ég fór ekki eftir neinni uppskrift við laxrúllurnar heldur setti saman það sem mér fannst gott og mér fannst þær koma vel út! 🙂
Uppskrift:
- 500-600 gr. reyktur lax
- 200 gr rjómaostur (ég nota Philadelphia)
- 1 dós 18% sýrður rjómi
- 1-2 msk piparrótamauk (er yfirleitt geymt hjá kryddunum)
- salt og pipar
- ferskt dill, saxað smátt
- 5 burritos pönnukökur
Rjómaosti, sýrðum rjóma og piparrótarmauki hrært saman. Bragðbætt með salti, pipar og fersku dilli. Kreminu er smurt fremur þykkt á burritos pönnukökurnar, reyktur lax sneiddur þunnt og raðað þar ofan á. Pönnukökunum rúllað þétt saman og pakkað þétt inn í plastfilmu. Rúllurnar geymdar í ísskáp í minnst hálftíma áður en þær eru skornar niður í hæfilegar þykkar sneiðar.
Ég ætla prófa þessar um jólin! Líst alveg svakalega vel á þær 🙂
var með þessar í afmæli dóttur minnar og þær voru mjög vinsælar, fullorðna fólkið og krakkarnir voru mjög hrifnir 🙂
Algjör snilld 🙂 takk,takk 🙂
Frábært að heyra það Ólína, takk fyrir góða kveðju! 🙂
bjó þessar til í skírnarveislu yngsta fjölskyldumeðlimsins – skifti þó piparrótinni út með wasabi og sleppti dillinu og þessar rúllur ruku út 🙂
Gaman að heyra það Freyja, takk fyrir kveðjuna! 🙂 Góð hugmynd að nota wasabi, það er svo gott!
Bakvísun: Fermingarveisla | Eldhússögur
Veistu hvernig kemur út að gera þessar deginum áður?
Það er í góðu lagi! 🙂
Hvað koma margir bitar úr þessari uppskrift? Er með 35 manna veislu og langar að vita hvort að ég þyrfti að stækka uppskriftina 🙂
Það koma um það bil 10-12 bitar úr hverri rúllu, fer eftir því hversu þykkt þú skerð (best að nota stórar tortillur) – en ég nota ekki endana. Þú getur því reiknað með allavega ca. 50 bitum úr þessari uppskrift.
Takk þá er ein uppskrift nóg 🙂
Lítur vel út 🙂 sá að það er hægt að gera rúllurnar daginn áður. Er betra að skera þær niður um leið eða geyma rúllurnar í ískápnum og skera niður sama dag og veilsan er? Verða rúllurnar ekki blautar þegar þær eru geymdar?
Ég geri þær oft daginn áður, pakka þeim heilum í álpappír eða plastfilmu og sker svo niður rétt áður en ég ber þær fram.
Má frysta rúllurnar
Ég myndi ekki gera það. Rjómaosturinn fær leiðinlega áferð við það.