Ítalskt kjúklingapasta með tómötum, basiliku og mozzarella


IMG_0099Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂

IMG_0105

Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.

Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.

Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.

11805737_10153085129167993_395685936_n

Uppskrift f. 4-5

  • 800 g tómatar
  • 5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
  • ca. 2/3 dl ólífuolía
  • saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
  • grófmalaður svartur pipar
  • gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
  • 30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
  • 120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • 2-3 dl rjómi
  • 700 g kjúklingalundir
  • smjör og ólífuolía til steikingar
  • 4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
  • IMG_0092IMG_0093

Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.

IMG_0103

Kjúklingapasta með grillaðri paprikusósu


IMG_9476Þessa vikuna hef ég verið á endasprettinum í ritgerðinni minni og trúi því varla að ég hafi loksins verið að senda frá mér 33 þúsund orða meistararitgerð í prófarkalestur, ótrúlegt að þessari lotu sé að ljúka! *klappa sjálfri mér á öxlina* 😉 Ég hef því varla stigið inn í eldhús síðastliðna daga (ekki nema til þess að sækja mér koffein!) og því síður verið að undirbúa jólin. Ekki seinna vænna en að bretta upp ermarnar núna og fara í jólaundirbúning! Ég hlakka eiginlega mest til að taka húsið í gegn en það hefur verið verulega vanrækt síðustu þrjá mánuðina í þessari ritgerðavinnu!

Hann Vilhjálmur minn kom heim með svo frábæra skál sem hann bjó til í smíði í skólanum. Hún er svo dásamlega sæt að ég verð eiginlega að setja inn mynd af henni hér, þetta er uppáhaldsskálin mín núna!

IMG_6413Ég rakst á uppskrift í myndasafninu mínu frá því fyrr í haust sem ég var ekki enn búin að setja inn á bloggið. Þetta er voða góður pastaréttur með grillaðri papriku. Það er með ólíkindum hvað paprika breytist ef hún er grilluð, hún verður svo sæt og góð og frábær í sósur til dæmis. Þeir sem ekki nenna að standa í því að grilla paprikurnar (það er samt lítið mál!) geta keypt tilbúnar grillaðar paprikur i krukku. Ég var með brauð með pastaréttinum sem var afar einfalt og mjög fljótlegt að gera. Ég setti  saman í matvinnsluvél einn mozzarellaost, þrjá litla tómata, ferska basiliku, ólífuolíu, salt og pipar. Ég keyrði matvinnsluvélina stutt þannig að hráefnin maukuðust ekki saman heldur fóru í litla bita. Ég setti blönduna ofan á snittubrauð og hitaði i ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur.

IMG_9488Ofsalega gott og einfalt! En hér kemur pastauppskriftin.

Uppskrift:

  • 4-5 rauðar paprikur (ég notaði reyndar blandaða liti í þetta sinn en rauðar eru bestar)
  • 3 msk furuhnetur
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 lítill gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaði smátt
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • 2-3 kjúklingabringur
  • chilikrydd
  • salt
  • fersk steinselja
  • rifinn parmesan ostur
  • 500 gr pasta

IMG_9479Paprikur grillaðar á útigrilli eða í ofni á háum hita og þeim snúið reglulega. Þegar þær eru alveg orðnar svartar eru þær settar í lokaðan poka í smá stund til að jafna sig. Því næst er svarta grillhúðin tekin af, paprikurnar skornar í sundur og kjarninn fjarlægður.
Furuhnetur léttristaðar á pönnu. Furuhnetur og paprika maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota

Pasta soðið eftir leiðbeiningum

Kjúklingur skorin í bita, kryddaður með góðu kjúklingakryddi og steiktur á pönnu. Einnig er hægt að grilla hann í heilu á grilli og skera hann svo í bita.

Ólífuolíu hellt í stóran pott, laukur og hvítlaukur steiktur við miðlungshita þar til mjúkt, þá er paprikumaukinu bætt við út í pottinn, saltað vel og kryddað með chilikryddi eftir smekk. Því næst er rjómanum hrært út í. Sósan smökkuð til og krydduð eftir smekk. Þá er pasta og kjúklingabitunum bætt út í og öllu blandað saman. Borið fram með ferskri steinselju og rifnum parmesan osti.

IMG_9492

Kjúklingapasta í rjómaostasósu með beikoni


Þessi pastaréttur er gómsætur og afar fljótlegur. Ég eldaði hann síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem mér lá á sökum þess að það var aðalfundur um kvöldið hjá foreldrafélaginu í Seljaskóla í og ég sit í þeirri stjórn. Ég hafði lofað að útbúa veitingar fyrir fundinn og bakaði hafraklatta auk þess að útbúa ávaxtabakka. Það þarf að nota öll ráð til að lokka fólk á svona fundi! 🙂 Á meðan hafraklattarnir voru í ofninum útbjó ég pastaréttinn og það tók mjög stuttan tíma. Mango chutney gerir flestar sósur góðar finnst mér. Hins vegar eru yngri krakkarnir alls ekki sammála því. Þau eru alls ekki hrifin af mango chutney, það er eitthvað við þetta sæta bragð verður af sósunum sem þeim hugnast illa. Ég ákvað því að vera voða sniðug og gefa þeim af réttinum áður en ég setti mango chutney út í. Frábært hugmynd og hefði þrælvirkað ef ég hefði síðan munað eftir því  á meðan ég eldaði! Auðvitað steingleymdi ég því. Jóhanna Inga sem var glorhungruð setti upp stóra skeifu þegar hún tók fyrsta bitann og endaði í fýlukasti yfir matnum meðan bróðir hennar, sem er bæði eldri og mun skapbetri, borðaði matinn og sagði svo kurteisislega að þetta væri mjög góður réttur fyrir utan mangóbragðið! Elstu krakkarnir hins vegar voru sólgin í þennan rétt og skildu ekkert í yngri systkinum sínum!

Uppskrift f. 5

  • 1 heilsteiktur tilbúinn kjúklingur
  • 1 stór pakki beikon (250 gr), skorið í bita
  • 1 appelsínugul paprika, skorin í bita
  • 1 púrrlaukur, sneiddur fremur smátt
  • 300 gr rjómaostur
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1-2 dl mjólk
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 3 msk mango chutney
  • pipar (salt ef þarf en beikonið saltar réttinn)
  • 500 gr pasta

Pasta soðið eftir leiðbeiningum. Kjötið hreinsað af kjúklingnum og skorið í bita. Beikonið steikt á pönnu. Þegar beikonið hefur tekið góðan lit er papriku og púrrlauk bætt á pönnuna og steikt í smá stund. Því næst er kjúklingnum bætt á pönnu og pipraður dálítið. Rjómaosti, sýrðum rjóma og mjólk bætt út í ásamt kjúklingakrafti. Því næst er mangó chutney bætt út í sósuna. Sósunni leyft að malla í stutta stund og svo er henni blandað saman við pastað. Borið fram með góðu brauði.