Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂
Uppskrift:
300 g tagliatelle
700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
150 g sveppir, sneiddir
smjör og/eða ólívuolía til steikingar
2 msk rautt pestó
1 tsk sambal oelek (chilimauk)
3 hvítlauksrif, pressuð
12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
30 g fersk basilika, söxuð
1 msk þurrkað oregano
salt og pipar
4-5 dl matreiðslurjómi
Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.
Ég er enn undir áhrifum Ítalíu og verð að setja hér inn uppskrift að þeim pastarétti sem ég gerði oftar en einu sinni á Ítalíu og hef haldið áfram að gera hér heima við mikinn fögnuð fjölskyldunnar. Ég held að ég geti með sanni sagt að þetta sé uppáhaldspastarétturinn okkar! 🙂
Eini pastarétturinn sem slær þessum mögulega við hér heima er ef ég nota parmaskinku í stað kjúklings, í anda við þennan rétt hér. Ég nota ferskt pasta og mér finnst mjög mikill munur á því og þessu þurrkaða. En ef þið kaupið þurrkað, reynið þá að kaupa pasta sem er með mynd af eggjum á pakkningunni því þá eru egg í því og það gefur mun betra bragð og áferð að mínu mati. Það er helst tagliatelle sem fæst með eggjum í.
Það er hægt að nota hvaða tegund af tómötum sem er í þessa uppskrift en mér finnst afar mikilvægt að geyma tómata við stofuhita, þeir verða svo mikið bragðbetri og bragðsterkari þannig. Kaldir tómatar úr ísskáp eru bæði harðir og bragðlitlir. Ég safna oft saman þeim tómötum sem eru búnir að standa lengi frammi hjá mér, eru á mörkunum með að vera slappir, og nota þá í pastasósuna.
Á sumrin er hægt að kaupa bústna og góða ferska basiliku í potti út í matvörubúð. Ég hef haft það að vana að umpotta þeim í stærri pott og hef þær úti í eldhúsglugga. Þar skvetti ég smá vatni á þær daglega og sný þeim reglulega (hliðin sem snýr að glugga vex hraðar) og undantekningalaust verða þær stórar og gjöfular yfir allt sumarið, ég mæli eindregið með því að þið prófið, lykilatriðið er að umpotta þeim í stærri pott og vökva reglulega.
Uppskrift f. 4-5
800 g tómatar
5 stór hvítlauksrif, pressuð eða skorin smátt
ca. 2/3 dl ólífuolía
saltflögur (ég mæli með Parmesan & Basil salt frá Nicolas Vahlé)
grófmalaður svartur pipar
gott pasta krydd (ég nota Pasta Rossa og chilikrydd frá Santa Maria)
30 – 40 g fersk basilika, söxuð fremur smátt
120 g litlar mozzarella kúlur (eða stór kúla, skorin í bita)
1 dl rifinn parmesan ostur
2-3 dl rjómi
700 g kjúklingalundir
smjör og ólífuolía til steikingar
4-500 g ferskt pasta, t.d. tagliatelle
Ofn hitaður í 220 gráður á grillstillingu. Tómatar skornir í fremur litla bita og settir í stórt eldfast mót. Pressuðum hvítlauk og ólífuolíu blandað saman við tómatana. Þá er kryddað vel með salti, pipar og öðru góðu kryddi, t.d. Pasta rossa og chili flögum. Formið sett inn í ofn og á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Kjúklingalundirnar eru kryddaðar vel með sama kryddi og tómatarnir og því næst steiktar á pönnu upp úr smjöri og ólífuolíu þar til þær ná góðri steikingarhúð en ekki eldaðar í gegn, þá er pannan tekin af hellunni. Þegar tómatarnir byrja að ná góðum lit er formið tekið úr ofninum og basiliku, mozzarella osti, parmesan osti og rjóma bætt út í ásamt kjúklingnum og feitinni af pönnunni. Öllu er blandað vel saman, gott er að nota gaffal og mauka tómatana svolítið. Ofninn er stilltur á 200 gráður við undir/yfirhita og formið sett aftur inn í ca. 10 mínútur, á meðan er pastað soðið. Þegar pastað er tilbúið er því blandað strax saman við pastasósuna og borið fram með ferskum, rifnum parmesan osti.