
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂
Uppskrift:
- 300 g tagliatelle
- 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
- 150 g sveppir, sneiddir
- smjör og/eða ólívuolía til steikingar
- 2 msk rautt pestó
- 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
- 3 hvítlauksrif, pressuð
- 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
- 30 g fersk basilika, söxuð
- 1 msk þurrkað oregano
- salt og pipar
- 4-5 dl matreiðslurjómi
Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.
Uuuuuummmmmm þessi var góður , smá sterkur en ekki of mikið, sólþurkkuðu tómatarnir, basilikan, pestóið ooohhh geggjuð blanda. 😋 Bættum vorlauk úrí sem var alveg að renna útá tíma og spellpassaði með, takk fyrir okkur 😊