Waldorfsalat


IMG_6816

Waldorfsalatið var fyrst búið til árið 1896 fyrir fjáröflunarball sem haldið var á Waldorfhótelinu í New York. Upprunalega var salatið með eplum, sellerí, vínberjum og valhnetum. Þessu var blandað saman við majónes sem hefur á síðari árum vikið fyrir sýrðum rjóma. Mér finnst langbest og ferskast að sleppa selleríi og bæta við ananas í staðinn.  Waldorf salat ómissandi með til dæmis kalkúni og hamborgarhrygg.

Uppskrift:

  • 3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
  • góður klasi af grænum, steinlausum grænum vínberjum, skorin í tvennt
  • 1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • þeyttur rjómi
  • valhnetur til skreytinga, má sleppa

Öllu blandað saman saman.

 

Hakkhleifur fylltur með beikoni, döðlum og fetaosti


img_4167

Síðastliðið sumar fór ég í fyrsta sinn í 17 sortir og smakkaði allskonar gúmmelaði bollakökur. Þar sem ég sat og naut hvers bita renndi ég augunum yfir afgreiðsluborðið og fannst hver kakan þar annarri girnilegri. Ég ákvað að leggja fljótt leið mína aftur í 17 sortir og prófa einhverja góða köku. Þegar við vorum með sænska gesti hjá okkur um daginn var aldeilis gott tilefni að bjóða upp á ljúffenga köku því svo vildi til að þau áttu brúðkaupsafmæli og fengu sama dag þær fréttir að þau væru orðin íbúðareigendur. Við skáluðum fyrst yfir góðum kvöldverði.

img_3825

Því næst reiddi ég fram þessa glæsilegu köku úr 17 sortum, súkklaðiköku með saltkaramellu og poprocks.

img_3829img_3831img_3859

Hrikalega góð kaka og sænsku gestirnir okkar áttu ekki orð yfir þessari dásemdarköku! 🙂

img_3836img_3844

Ég mæli með því að þið smakkið á þessum gómsætu hnallþórum hjá 17 sortum!

En ef ég vík þá að uppskrift dagsins. Mér finnst afar gaman að gera tilraunir með nautahakk og búa til eitthvað gott úr því. Mér finnst sömuleiðis voðalega gott að blanda saman fetaosti, döðlum og beikoni og nota það óspart tilraunum mínum. Hérna gerði ég tilraun með að blanda slíku gúmmelaði saman við nautahakk og útkoman kom skemmtilega á óvart. Öll fjölskyldan var sammála um að þessi tilraun hefði heppnast feykivel og ég mæli með því að þið prófið! 🙂

img_4188

Uppskrift:

  • 600-700 g nautahakk
  • ½ lítill laukur, fínhakkaður
  • 1 egg
  • ½ dl brauðmylsna
  • ½ dl mjólk
  • salt og pipar
  • annað krydd eftir smekk
  • 180 g beikon, skorið í bita
  • 1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt
  • 120 g döðlur, saxaðar fremur smátt
  • 180 g fetaostur (fetaostakubbur)
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 1 dós tómatar í dós (ca. 411 g)
  • 1 1/2 msk tómatmauk
  • 1 1/2 tsk paprikukrydd
  • chili krydd eða annað gott krydd

Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og bætt saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í ca. 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restinni af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í restina af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús eða hrísgrjónum og aioli sósu.

Einföld aioli sósa:

  • 1 dl majónes
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk sítrónusafi
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman og kælt vel áður en borið fram.

img_4219

 

Kjúklingapasta með pestó, sólþurrkuðum tómötum og basiliku


IMG_1150
Ég reyni af fremsta megni að vera nýtin og finnst það alltaf jafngóð tilfinning þegar mér tekst að nýta alla afganga. Um daginn gerði ég svo góða fyllta hakkrúllu með m.a. sólþurrkuðum tómötum sem ég átti afgang af ásamt pestói. Ég fann ýmislegt annað ísskápnum og útkoman var svo dásamlega ljúffengt kjúklingapasta. Einfalt og stórgott! 🙂

Uppskrift:

  • 300 g tagliatelle
  • 700 g kjúklingalundir, skorinn í bita (ég notaði Rose Poultry)
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • smjör og/eða ólívuolía til steikingar
  • 2 msk rautt pestó
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk)
  • 3 hvítlauksrif, pressuð
  • 12-15 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • 1 msk þurrkað oregano
  • salt og pipar
  • 4-5 dl matreiðslurjómi

Pastað er soðið eftir leiðbeiningum. Kjúklingurinn er kryddaður vel með salti og pipar og hann síðan steiktur á pönnu ásamt sveppunum. Þá er pestó og chilimauki bætt út á pönnuna. Því næst er hvítlauki, sólþurrkuðum tómötum, ferskri basiliku, oreagano og rjóma bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Þegar pastað er tilbúið er því blandað saman við sósuna og borið fram strax með góðu brauði.

IMG_1138

IMG_1146

Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
  • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
  • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Ananaskaka


IMG_1076

Ég bakaði þessa ananasköku í vikunni við mikla gleði fjölskyldunnar enda er hún afar mjúk, safarík og ljúffeng. Frábær kaka til að grípa til þegar mann langar að baka eitthvað einfalt, fljótlegt og gott.

IMG_1075

Uppskrift

  • 1 dós ananas (ca. 450 g)
  • 4 egg
  • 3 dl sykur
  • 1 msk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 100 g smjör, brætt
  • 1 dl mjólk
  • 1 dl safi frá ananasinum
  • 5 ½ dl hveiti
  • flórsykur til skrauts

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Anansinn skorinn í minni bita og settur í sigti þannig að safinn renni af, ananassafanum haldið til haga.  Egg og sykur hrært þar til létt og ljóst. Þá er lyftidufti, vanillusykri og hveiti bætt út í og hrært. Að lokum er smjöri, mjólk og ananassafa bætt út í og hrært saman þar deigið verður slétt. Form (ca. 25×38 cm ) smurt að innan og deginu hellt í formið. Ananasbitarnir eru kreistir létt þannig að mesti safinn renni úr þeim og þeim stungið ofan í deigið með jöfnu millibili. Bakað í ofni í 20-25 mínútur eða þar til kakan er bökuð í gegn. Kökunni leyft að kólna dálítið í forminu og flórsykri dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.

IMG_1072IMG_1086IMG_1087

 

Ofnbakaður lax með klettasalati og fetaosti


IMG_1130

Mér finnst fátt betra en ferskur lax og oftast er hann bestur þegar hann er útbúinn á sem einfaldasta máta. Þessi uppskrift er bæði fljótleg og einstaklega ljúffeng. Ég mæli með því að þið prófið! 🙂

Uppskrift f. 4

Lax

  • 800 g lax
  • 50 g klettasalat
  • 3 msk olífuolía
  • salt & pipar
  • chiliflögur
  • 150 g fetaostur (kubbur – ekki með olíu)
  • 8 kartöflur

Dillsósa:

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • ferskt dill (ca 15 g)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • salt & pipar

IMG_1105

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Kartöflur eru skornar í báta, velt upp úr salti og pipar, þær lagðar á annan helming ofnplötu (klædda bökunarpappír) og hún sett inn í ofn í um það bil 15 mínútur. Á meðan er laxinn er skorinn í 4 bita. Klettasalatið er saxað gróft og blandað saman við ólífuolíu, salt, pipar og chiliflögur. Þegar kartöflurnar eru teknar úr ofninum eru laxabitarnir lagðir á hinn helming ofnplötunnar. Klettasalatsblöndunni er dreift yfir laxabitana og því næst er fetaosturinn mulinn yfir. Ofnplatan er sett aftur inn í ofn í um það bil 15 mínútur eða þar til laxinn og kartöflurnar eru eldaðar í gegn. Borið fram með grænmeti (ég steikti sveppi, brokkolí og kokteiltómata upp úr hvítlaukssmjöri) og dillsósu.

Dillsósa: Dillið er saxað smátt og hrært saman sýrða rjómann ásamt hvítlauki og kryddi.

IMG_1125

 

Rúllutertubrauð með pestó og mozzarella


Rúllutertubrauð með pestói og mozzarellaÞegar ég var með afmæli um daginn langaði mig að breyta út af venjunni og hafa öðruvísi rúllutertubrauð. Ég var ekkert viss um að þetta yrði gott en svo fór að þessi rúllutertubrauð kláruðust fyrst af öllum réttunum. Mér finnst galdurinn liggja í að búa til sitt eigið pestó, það er svo ákaflega gott! En auðvitað er líka hægt að kaupa tilbúið pestó og nota það í staðinn. Eins og stundum þegar ég prófa einhvern nýjan rétt í veislum þá eru engin góð tækifæri til þess mynda afraksturinn en ég náði þó að smella einni mynd af sneið áður en allt kláraðist.

Uppskrift:

  • 1 rúllutertubrauð
  • ca. 140 g skinka (ég notaði reykta skinku frá Ali), skorin í bita
  • ca. 15 svartar ólífur, saxaðar gróft
  • 2 msk smátt saxaðaðir sólþurrkaðir tómatar (gott að nota dálítið af olíunni með)
  • 1 mozzarella ((kúlan í bláu pokunum, 120 g), skorin í bita
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • salt og pipar
  • rifinn ostur og/eða parmesan ostur ofan á brauðið
  • ca. 2 dl pestó – tilbúið eða heimagert.
  • Heimagert pestó:
  • 30 g fersk basilika
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 70 g kasjúhnetur (eða furuhnetur)
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • ca. 1.5-2 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Öllu blandað vel saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.pestó

Ofn hitaður í 180 gráður. Pestóinu er blandað saman við skinku, ólífur, sólþurrkaða tómata, mozzarella ost og rifinn parmesan ost. Smakkað til með salti og pipar. Rúllutertubrauðið er lagt á bökunarpappír. Blöndunni er því næst smurt á rúllutertubrauðið og því rúllað varlega upp með hjálp bökunarpappírsins, samskeytin látin snúa niður. Rúllan er þá færð á bökunarpappírnum yfir á ofnplötu. Rifnum osti og/eða rifnum parmesan osti dreift yfir rúlluna (ég notaði líka nokkrar sneiðar af mozzarella osti) og hún hituð í ofni í ca. 15 mínútur við 180 gráður eða þar til að rúllan er orðin heit í gegn og osturinn farinn að bráðna.

 

Ostakaka með eplum og karamellusósu


Ostakaka með eplum og karamellusósu

Við enduðum Bandaríkjaferðina okkar í Chicago og fórum þar oftar en einu sinni á Cheesecake Factory veitingastaðinn. Þar er hægt að fá afar góðan mat og ekki eru ostakökurnar af verri endunum. Ég smakkaði ákaflega góða eplaostaköku á Cheesecake, mér finnst amerískar bakaðar ostakökur hnossgæti og elska allt með eplum og kanil – það var því gefið að mér þætti þessi kaka góð! Síðan þá hef ég haft löngun í að búa til svipaða ostaköku og lét verða af því í dag. Ég held svei mér þá að þessi ljúffenga kaka slagi vel upp í þessa sem ég fékk á Cheesecake Factory! 🙂

IMG_7282

Uppskrift:

  • 190 g Kornax hveiti
  • 75 g púðursykur
  • 170 g smjör, kalt
  • 400 g Philadelphia rjómaostur (2 dósir)
  • 150 g sykur + 1.5 msk sykur
  • 2 stór egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 4-5 meðalstór græn epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í litla bita
  • 1 tsk kanill
  • 1/4 tsk negull
Mylsna:
  • 150 g púðursykur
  • 100 g Kornax hveiti
  • 70 g haframjöl
  • 100 g smjör, kalt
  • 1/2 tsk kanill
Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Bökunarform eða eldfast form, ca. 33×23 cm, er smurt að innan. Hveiti og púðursykur blandað saman í skál og kalt smjörið skorið í litla bita. Því er svo mulið saman við þurrefnin með höndunum þar til allt er vel blandað saman og orðið að „klumpi“. Blöndunni er þrýst jafnt yfir botninn á eldfasta mótinu og bakað í ofni við 180 gráður í ca. 15 mínútur. Á meðan er ostakökublandan útbúin.
Rjómaosturinn og 150 g af sykri er hrært saman í hrærivél þar til blandan verður slétt. Þá er eggjum, einu í senn, bætt út í ásamt vanillusykri. Þessari blöndu er því næst hellt yfir heitan botninn. Eplum, 1.5 msk sykri, kanil og negul er blandað saman og dreift jafnt yfir rjómaostablönduna.
Öllum hráefnunum fyrir mylsnuna er blandað saman í höndunum þar til hún minnir á haframjöl og er dreift yfir rjómaostablönduna. Bakað við 180 gráður í  30-40 mínútur eða þar til ostakakan er tilbúin. Ostakakan er látin kólna og því næst geymd í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, þar til að hún hefur stífnað vel. Þá er hún skorin í passlega stóra bita og borin fram með heitri karamellusósu.
IMG_7286
Karamellusósa:
  • 150 g karamellur (ég notaði Nóa karamellusprengur sem eru súkkulaðihúðaðar að þessu sinni en ég mæli með að nota hreinar ljósar Töggur)
  • 1 msk rjómi

Allt hitað í skál yfir vatnsbaði þar til karamellurnar hafa bráðnað og blandast vel saman við rjómann.

IMG_7283

Mexíkóskur kjúklingaréttur


Mexíkóskur kjúklingaréttur

Fyrir stuttu skrifaði ég langa bloggfærslu um fermingarveisluna sem við vorum með um páskana. Anna vinkona minnti mig á fleiri punkta sem ég hafði gleymt að skrifa um þannig að áður löng bloggfærsla er nú orðin enn lengri … hér er slóðin ef einhvern langar að lesa.

Um daginn eldaði ég þennan mexíkóska kjúklingarétt og mallaði eitthvað úr þeim hráefnum sem ég átti í ísskápnum. Ég hef ekki enn lært af reynslunni og tel mig alltaf muna hvað ég set í réttina án þess að skrifa það niður sem er auðvitað algjör vitleysa. Ég er varla staðinn upp frá matarborðinu þegar ég hef þegar steingleymt því öllu. Sem betur fer tók ég margar myndir af ferlinu að þessu sinni og gat því rifjað upp uppskriftina. Sem var eins gott! Þessi réttur sló nefnilega í gegn hér heima og við borðuðum öll óhóflega mikið af þessum rétti. Galdrahráefnið var ostur held ég, mikill ostur gerir þennan rétt ómótstæðilegan! 🙂 Þessi réttur verður sannarlega eldaður fljótt aftur hér á heimilinu.

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingabringur frá Rose Poultry, skornar í bita
  • 1 stór rauðlaukur, saxaður smátt
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 bréf burritokrydd
  • salt & pipar
  • hvítlaukskrydd
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós niðursoðnir tómatar (gott að hafa þá bragðbætta með t.d. chili)
  • 200 g Philadelphia rjómaostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • ca. 200 g salsa sósa
  • 6 stórar tortillur
  • 2 pokar rifinn ostur
  • borið fram með guacamole, sýrðum rjóma og salati

IMG_5464

Ofn hitaður í 200 gráður. Kjúklingur og laukur er steiktur á pönnu þar til kjúklingurinn hefur tekið lit, þá er kryddað með hvítlaukskryddi, burritokryddi og salti og pipar ásamt kjúklingakrafti. Því næst er tómötum í dós bætt út á pönnuna og leyft að malla í nokkrar mínútur. Á meðan er philadelphia rjómaostur og sýrður rjómi settur í pott og brætt við vægan hita og sett svo til hliðar. Nú er kjúklingurinn veiddur af pönnunni og skipt á milli tortillanna (gott að nota gataspaða og skilja eftir mesta vökvann á pönnunni). Því næst er rifna ostinum úr öðrum pokanum dreift yfir kjúklinginn. Þá er tortillunum rúllað upp og þeim raðað í eldfast mót. Salsa sósunni er nú bætt út á pönnuna og leyft að malla í stutta stund og þannig blandað saman við sósuna sem var skilin eftir á pönnunni. Kryddað eftir smekk ef með þarf. Að lokum er rjómaostasósunni dreift yfir tortillurnar, þá salsa sósunni og að síðustu er rifna ostinum úr seinni pokanum dreift yfir. Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit. Borið fram með fersku salati, sýrðum rjóma og guacamole.
IMG_5473

Piparkökur


piparkökurPiparkökubakstur er ómissandi í jólaundirbúningnum á heimili okkar. Ég er mjög veik fyrir piparkökuformum og við eigum orðið ansi veglegt safn af þeim. Jólasveinninn er líka sniðugur stundum og laumar í skóinn skemmtilegum formum daginn áður en við bökum piparkökurnar – skemmtileg tilviljun! 🙂IMG_2183

Hluti af piparkökuformunum

Það er nauðsynlegt að setja á fóninn góða jólatónlist, kveikja á kertum og drekka malt og appelsín úr jólaglösum á meðan piparkökurnar eru bakaðar og skreyttar. 🙂

IMG_2192

Krakkarnir eru snillingar að skreyta piparkökurnar. Hér málaði Vilhjálmur eina kökuna eins og uppáhalds hundategundina sína.IMG_2282Jóhanna er líka svo hugmyndarík í skreytingum, hér málaði hún jólatré á jólasokkinn – og skreytti með ótal silfurkúlum (sem eru ætar auðvitað!).

IMG_2258Hér að neðan færi ég inn uppskrift að góðum piparkökum, uppskrift sem ég nota alltaf þegar ég útbý deigið sjálf. Reyndar kaupi ég líka stundum tilbúið deig. Það er jú langskemmtilegast að skera út piparkökurnar og mála þær og önnum kafnar mömmur þurfa að forgangsraða á annasamri aðventu. Mér finnst samt þessar piparkökur langbestar.

Uppskrift:

  • 250 g sykur
  • 2 dl ljóst síróp
  • 1 msk kanil
  • ½ msk engifer
  • ¼ msk negull
  • ¼ tsk pipar
  • 250 g smjör
  • 1 msk matarsódi
  • 2 egg
  • 650-800 g Kornax hveiti

Kalt smjör er sett í skál sem er sett til hliðar. Því næst er sykur og síróp sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Þá er kanil, engifer, negul og pipar hrært vel saman við. Því næst er matarsódanum bætt út í og öllu hrært hratt og vel saman. Á þessum tímapunkti verður blandan ljósari og bólgnar upp. Þá er blöndunni strax hellt yfir smjörið í skálinni og hrært vel þar til allt smjörið hefur bráðnað og blandan er orðin köld. Því næst er eggjunum bætt út í og þeim hrært vel saman við blönduna. Að lokum er hveitinu bætt smátt og smátt út í þar til deigið er orðið þétt og slétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Þegar nota á deigið er það hnoðað örlítið og svo flatt út með kökukefli, þá er gott að strá dálítið af hveiti á borðið svo það festist ekki við eða nota bökunarpappír undir deigið. Piparkökurnar eru mótaðar með þar til gerðum formum, það þarf að passa að þær séu um það bil jafn þykkar allar. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 5-10 mínútur, fer eftir stærð piparkakanna.


IMG_2197
IMG_2205

 

Glassúr:

  • flórsykur
  • eggjahvíta
  • sítrónusafi
  • matarlitir (Wilton eru langbestir)
  • kökuskraut eftir smekk

Flórsykur er settur í skál og örlítið af vatni er bætt út í ásamt smá sítrónusafa og eggjahvítu (ég notaði örlítið úr eggjahvítubrúsa en það er líka hægt að nota hluta af eggjahvítu úr einu eggi). Pískað vel saman þar til að blandan er slétt. Það þarf að prófa sig áfram með hlutfallið af vökva og flórsykri til að ná hæfilegri þykkt þannig að glassúrinn renni ekki en þó  þannig að það sé hægt að sprauta honum á piparkökurnar. Það er góð regla að bæta við minnna en meira af vökva því það þarf lítið til að glassúrinn verði of þunnur. Glassúrnum er svo skipt í eins margar skálar og litirnir eiga að vera og matarlit hrært út í hverja skál. Ég sett svo glassúrinn í litlu einnota sprautupokana frá Wilton (notaði bara pokana, ekki stútinn) og klippti örlítið gat, það hentaði mjög vel.

IMG_2286

IMG_2312 IMG_2260IMG_2314IMG_2263IMG_2311 IMG_2264 IMG_2271IMG_2266