Piparkökur


piparkökurPiparkökubakstur er ómissandi í jólaundirbúningnum á heimili okkar. Ég er mjög veik fyrir piparkökuformum og við eigum orðið ansi veglegt safn af þeim. Jólasveinninn er líka sniðugur stundum og laumar í skóinn skemmtilegum formum daginn áður en við bökum piparkökurnar – skemmtileg tilviljun! 🙂IMG_2183

Hluti af piparkökuformunum

Það er nauðsynlegt að setja á fóninn góða jólatónlist, kveikja á kertum og drekka malt og appelsín úr jólaglösum á meðan piparkökurnar eru bakaðar og skreyttar. 🙂

IMG_2192

Krakkarnir eru snillingar að skreyta piparkökurnar. Hér málaði Vilhjálmur eina kökuna eins og uppáhalds hundategundina sína.IMG_2282Jóhanna er líka svo hugmyndarík í skreytingum, hér málaði hún jólatré á jólasokkinn – og skreytti með ótal silfurkúlum (sem eru ætar auðvitað!).

IMG_2258Hér að neðan færi ég inn uppskrift að góðum piparkökum, uppskrift sem ég nota alltaf þegar ég útbý deigið sjálf. Reyndar kaupi ég líka stundum tilbúið deig. Það er jú langskemmtilegast að skera út piparkökurnar og mála þær og önnum kafnar mömmur þurfa að forgangsraða á annasamri aðventu. Mér finnst samt þessar piparkökur langbestar.

Uppskrift:

  • 250 g sykur
  • 2 dl ljóst síróp
  • 1 msk kanil
  • ½ msk engifer
  • ¼ msk negull
  • ¼ tsk pipar
  • 250 g smjör
  • 1 msk matarsódi
  • 2 egg
  • 650-800 g Kornax hveiti

Kalt smjör er sett í skál sem er sett til hliðar. Því næst er sykur og síróp sett í pott og suðan látin koma varlega upp. Þá er kanil, engifer, negul og pipar hrært vel saman við. Því næst er matarsódanum bætt út í og öllu hrært hratt og vel saman. Á þessum tímapunkti verður blandan ljósari og bólgnar upp. Þá er blöndunni strax hellt yfir smjörið í skálinni og hrært vel þar til allt smjörið hefur bráðnað og blandan er orðin köld. Því næst er eggjunum bætt út í og þeim hrært vel saman við blönduna. Að lokum er hveitinu bætt smátt og smátt út í þar til deigið er orðið þétt og slétt. Plastfilma er sett yfir skálina og deigið geymt í kæli í nokkra klukkustundir helst yfir nóttu.

Þegar nota á deigið er það hnoðað örlítið og svo flatt út með kökukefli, þá er gott að strá dálítið af hveiti á borðið svo það festist ekki við eða nota bökunarpappír undir deigið. Piparkökurnar eru mótaðar með þar til gerðum formum, það þarf að passa að þær séu um það bil jafn þykkar allar. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 5-10 mínútur, fer eftir stærð piparkakanna.


IMG_2197
IMG_2205

 

Glassúr:

  • flórsykur
  • eggjahvíta
  • sítrónusafi
  • matarlitir (Wilton eru langbestir)
  • kökuskraut eftir smekk

Flórsykur er settur í skál og örlítið af vatni er bætt út í ásamt smá sítrónusafa og eggjahvítu (ég notaði örlítið úr eggjahvítubrúsa en það er líka hægt að nota hluta af eggjahvítu úr einu eggi). Pískað vel saman þar til að blandan er slétt. Það þarf að prófa sig áfram með hlutfallið af vökva og flórsykri til að ná hæfilegri þykkt þannig að glassúrinn renni ekki en þó  þannig að það sé hægt að sprauta honum á piparkökurnar. Það er góð regla að bæta við minnna en meira af vökva því það þarf lítið til að glassúrinn verði of þunnur. Glassúrnum er svo skipt í eins margar skálar og litirnir eiga að vera og matarlit hrært út í hverja skál. Ég sett svo glassúrinn í litlu einnota sprautupokana frá Wilton (notaði bara pokana, ekki stútinn) og klippti örlítið gat, það hentaði mjög vel.

IMG_2286

IMG_2312 IMG_2260IMG_2314IMG_2263IMG_2311 IMG_2264 IMG_2271IMG_2266