Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
  • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
  • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Rjómalöguð fiskisúpa með chili


IMG_0110

 

Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.

IMG_0097

Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!

Uppskrift f. 4

  • ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
  • olía til steikingar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1/2 gul paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauð paprika, skorin í bita
  • 5 dl fiskisoð
  • 2 dl rjómi
  • 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 3/4 dl tómatpúrra
  • ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
  • 1/2 tsk chili-krydd
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/4 tsk cumin
  • 1 msk sykur (má sleppa)
  • 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
  • salt & pipar

IMG_0113

Aðferð:

Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.

IMG_0115

Fiskisúpa með kókos og karrí


IMG_6710Á milli jóla og nýárs voru tveir virkir dagar og ég var með matarboð báða dagana! Ég er búin að hlakka svo til að losna við ritgerðina af bakinu, geta átt eitthvað félagslíf aftur og boðið fólki í mat! Annað kvöldið komu bræður mínir tveir og mágkonur í mat og við spiluðum fram eftir nóttu. Ég ákvað að hafa fiskisúpu eftir þungar máltíðir jólanna. Þó ég sé ekki súpumanneskja þá var ég svo hrifin af fiskisúpunni að vestan að ég ákvað að reyna að útfæra einhverja svipaða uppskrift. Ég keypti inn hráefni sem ég taldi að pössuðu vel saman og mallaði svo súpuna. Mér fannst súpan verða rosalega góð og það hljómaði á gestunum að þeir væru sammála mér. 🙂 Ég hripaði niður það sem ég gerði, ég vona að ég geti komið því sæmilega skýru frá mér þannig að hægt sé að endurtaka leikinn. Ég notaði skötusel og lúðu en það er hægt að nota hvaða fisk sem er, helst þó fisk sem er þéttur í sér.

Talandi um fiskisúpuna að vestan þá átti ég leið framhjá veitingastað um daginn sem selur súpu og brauð í hádeginu. Í glugganum á veitingastaðnum blasti við mér þetta stóra plakat með svona líka girnilegri súpu og brauði!

súpa og brauðVeitingastaðurinn hefur greinilega ákveðið að fá myndina mína ,,lánaða“ og prenta hana á auglýsingaspjald á þess að spyrja kóng, prest né mig! Ég átta mig á að þegar myndir eru settar á netið getur hver sem er notað þær og ég hef ekkert á móti því að fólk nýti sér myndir frá síðunni minni til persónulegra nota í tengslum við uppskriftirnar. Hins vegar dreg ég mörkin við að myndirnar séu notaðar í auglýsingagerð án þess að ég sé spurð leyfis. Mér finnst slík notkun vera lélegir viðskiptahættir. Ef fyrirtæki nota ekki eigin myndir við auglýsingagerð þá er venjan að þau nýti sér myndabanka og greiði fyrir notkun mynda þaðan. Ég reikna allavega fastlega með að ég fái vel matreidda fiskusúpa að vestan á þessum veitingastað endurgjaldslaust hvenær sem er! 🙂

Uppskrift f. 8

  • 600 g skötuselur, skorin í munnbita
  • 600 g lúða, skorin í munnbita
  • 500 g rækjur
  • 1 líter fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn)
  • 2 dl hvítvín (eða Mysa)
  • 3-5 dl rjómi
  • 3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
  • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
  • smjör til steikingar
  • 1 púrrlaukur, saxaður meðalgróft
  • 1 paprika, skorin í bita
  • 3-4 gulrætur, skorin í bita
  • 1 fennika, skorin í bita
  • 3 tsk madraskarrí (eða venjulegt karrí)
  • 2 msk tómatmauk
  • fersk basilika, söxuð meðalgróft
  • ferskur graslaukur, saxaður fínt
  • ferskt kóríander, saxað gróft
  • 2 dósir kókósmjólk
  • Salt og pipar
Fiskisoði, hvítvíni og rjóma hellt í stóran pott, skarlottulauk og hvítlauk bætt út í. Suðan látin koma upp og leyft að malla í ca. 10-15 mínútur. Á meðan er smjör sett á pönnu og grænmetið steikt á pönnunni ásamt karríinu og tómatmaukinu. Grænmetinu er svo bætt út í súpupottinn ásamt kókosmjólkinni, graslauk og basiliku. Bragðbætt með salti, pipar og meira karrí ef vill, einnig er hægt að bæta út í meiri fiskikrafti ef með þarf. Leyft að malla í dálitla stund. Þá er fisknum bætt út í og hann látin malla í súpunni í örfáar mínútur eða þar til hann er soðin í gegn. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjunum bætt út í. Þegar súpan er borin fram er fersku kóríander stráð yfir súpuna.
IMG_6707