Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
  • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
  • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Rjómalöguð fiskisúpa með chili


IMG_0110

 

Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.

IMG_0097

Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!

Uppskrift f. 4

  • ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
  • olía til steikingar
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1/2 gul paprika, skorin í bita
  • 1/2 rauð paprika, skorin í bita
  • 5 dl fiskisoð
  • 2 dl rjómi
  • 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • 3/4 dl tómatpúrra
  • ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
  • 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
  • 1/2 tsk chili-krydd
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/4 tsk cumin
  • 1 msk sykur (má sleppa)
  • 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
  • salt & pipar

IMG_0113

Aðferð:

Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.

IMG_0115

Fiskisúpa að vestan


 Image

Ég elda afar sjaldan súpur, líklega af því að ég er ekki mikil súpumanneskja sjálf. Samt finnst mér öðru hvoru gott að fá súpu ef þær eru góðar og helst matarmiklar. Þessi súpa er einmitt þannig, bragðmikil, matarmikil og ljúffeng! Það er auðvelt að útbúa hana og hún er sérstaklega sniðug þegar mörgum er boðið í mat. Ég bjó hana til fyrir 12 manns á aldrinum 3ja – 84 ára og allir borðuðu af bestu lyst. Með henni bar ég fram nýbakað naan brauð, uppskriftin er hér, en ég notaði ekki indverskt krydd ofan á brauðið í þetta sinn heldur penslaði brauðið með eggi áður en ég bakaði það.

Uppskrift (fyrir 6-8):

  • 500 g langa, skorin í bita
  • 500 g þorskur, skorin í bita
  • 300 g rækjur (má sleppa)
  • 4 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt
  • 4 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • 1 stk. laukur, saxaður
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 gul eða appelsínugul paprika, skorin í bita
  • 2-3 msk tómatpúrra
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar (ekki verra að hafa þá með t.d. basilku eða chili)
  • 3 dl vatn
  • 1 teningur (eða 1 msk) fiskikraftur
  • ½ teningur (eða 1/2 msk) kjúklingakraftur
  • 1 -2 tsk tandoori masala
  • ½ -1 tsk karrí
  • salt og pipar
  • ca. 5-7 sólþurrkaðir tómatar, sneiddir smátt
  • 4 msk mango chutney
  • 1 dl sweet chilisauce
  • 1 líter matreiðslurjómi og/eða hefðbundinn rjómi (hægt að skipta út að hluta fyrir kókosmjólk)
  • steinselja til skreytingar

Aðferð: 

Image

Ein matskeið olíu hituð í potti og hvítlaukurinn steiktur í skamma stund. Áður en hann byrjar að brenna er hann tekinn upp úr og settur til hliðar. Tveimur matskeiðum af olíu bætt við í sama pott og gulrætur, laukur og paprika brúnuð. Því næst er tómatpúrru, niðursoðnu tómötum, vatni, fiskikrafti, kjúklingakrafti, tandoori masala, karríi ásamt hvítlauknum bætt út í. Strax á eftir eru sólþurrkuðu tómatarnir sneiddir niður og þeim ásamt mango chutney, sætu chilisósunni og rjómanum bætt út í. Smakkað til með salti, pipar og meira kryddi ef með þar, látið malla í um það bil fimmtán mínútur (því lengur því betra). Þá er þorsknum og löngunni bætt út í og leyft að malla í súpunni í nokkrar mínútur. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjum bætt út í. Fallegt að skreyta með steinselju. Súpan er borin fram með góðu brauði.