Fiskisúpa með karrí og eplum


IMG_3375

Mér finnst fiskisúpur með bestu súpum sem ég fæ. Alla helgina var ég búin að vera með löngun í góða fiskisúpu og ég hlakkaði mikið til að komast í fiskbúð í dag, kaupa ferskan fisk og búa til gómsæta súpu. Ég sótti innblástur frá nokkrum öðrum súpum á blogginu mínu og mér fannst útkoman satt best að segja himneskt góð … svona fer nú lítið fyrir hógværðinni hjá mér! 😉 En mér til varnar voru fjölskyldumeðlimirnir alveg sammála mér og við Elfar borðuðum gjörsamlega yfir okkur af þessari dásamlegu súpu.

IMG_3379

Uppskrift:

  • olía til steikingar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 ferskur rauður chili, fræhreinsaður og saxaður
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 30 g ferskt kóríander, stilkar og blöð saxað í sitt hvoru lagi
  • 4 tsk karrímauk, rautt eða grænt (curry paste)
  • 1 líter fiskisoð (gert úr 3 fiskiteningum)
  • 1 dós kókosmjólk (ca. 400 ml)
  • 2.5 dl rjómi eða matreiðslurjómi
  • 3 msk tómatmauk (tomato paste)
  • ca. 500 g kartöflur, flysjaðar og skornar í bita
  • 1 stórt grænt epli, flysjað og skorið í bita
  • 800 g þorskhnakkar (eða annar góður þéttur, hvítur fiskur), skorinn í bita
  • 1 ½  límóna, safinn (lime)
  • 2 tsk sykur
  • 2 tsk fiskisósa (fish sauce)
  • pipar

Olía hituð í stórum potti og hvítlauki, chili, engifer og kóríander stilkum ásamt karrímauki  bætt út í pottinn og steikt í um það bil 2 mínútur. Því næst er fiskisoði, kókosmjólk, rjóma, tómatmauki, eplum og kartöflum bætt út og soðið í 10-15 mínútur eða þar til kartöflurnar eru hér um bil soðnar í gegn. Þá er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í stutta stund þar til hann er soðinn í gegn. Að lokum er  söxuðum kóríanderlaufum bætt út í ásamt límónusafa og súpan smökkuð til með sykri, fiskisósu og pipar. Súpan er gjarnan borin fram með góðu brauði.

IMG_3380

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.