Ég er búin að komast að því að mér finnst fiskisúpur bestu súpurnar. Mér finnst líka fiskisúpur ákaflega sparilegar, eiginlega hátíðarmatur. Þar sem ég stóð í fiskbúðinni í upphafi vikunnar fannst mér ég ekki geta verið með fiskisúpu á hversdagslegum mánudegi, það væri bara alltof sparilegt. En svo áttaði ég mig á því að þetta væri algjör vitleysa í mér, auðvitað er tilvalið að njóta hátíðarmáltíðar á mánudegi! Í raun eru fiskisúpur ekki bara sparilegar heldur eru þær mjög hagkvæmar máltíðir. Það er fljótlegt að laga þær, allt er sett í einn pott og hráefnið er ódýrt því það þarf ekki jafn mikið af fiski eins og fyrir venjulegar fiskmáltíðir. Ég hef sett inn tvær aðrar uppskriftir af fiskisúpum sem ég held mikið upp á hingað á síðuna og þessi uppskrift fór umsvifalaust á sama stall.
Ekki hræðast chili-piparinn í uppskriftinni, súpan er ekkert sterk, bara bragðmikil og einstaklega bragðgóð. Annars heyrði ég einhversstaðar að þegar velja á chili-pipar væri gott að hafa í huga að því oddmjórra sem chilið væri, þeim mun sterkara. Ég veit ekki hvort það er rétt en kenningin hljómar allavega vel! Mér finnst Philadelphia osturinn með sweet chili svo góður og leita stöðugt eftir tilefni til að nota hann. Hann passaði einstaklega vel út í þessa súpu. Mér fannst súpan mikið sælgæti – ég hvet ykkur til að prófa!
Uppskrift f. 4
- ca. 800 g góður þéttur fiskur, skorin í hæfilega stóra bita (ég notaði 400 g af þorskhnakka og 400 g af blálöngu)
- olía til steikingar
- 1 rauðlaukur, saxaður smátt
- 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
- 1/2 gul paprika, skorin í bita
- 1/2 rauð paprika, skorin í bita
- 5 dl fiskisoð
- 2 dl rjómi
- 200 g Philadelphia ostur með sweet chili
- 3/4 dl tómatpúrra
- ca. 20-30 g kóríander, blöðin söxuð
- 2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
- 1/2 tsk chili-krydd
- 1/2 tsk engifer
- 1/4 tsk cumin
- 1 msk sykur (má sleppa)
- 1/2 – 1 msk kartöflumjöl (má sleppa)
- salt & pipar
Aðferð:
Laukur, chili og paprika steikt í stórum potti þar til mjúkt. Þá er rjómaostinum, fiskikraftinum, rjómanum, tómatpúrrunni, kryddunum og sykrinum bætt út í. Því næst er kóríander bætt út í súpuna og suðan látin koma upp. Hvítlauknum er svo bætt beint út í súpuna. Hrært vel og súpan látin malla í ca. 5 mínútur. Til þess að þykkja súpuna er hægt að hræra karföflumjölið út í örlitlu vatni og bæta svo út í súpuna. Að lokum er fisknum bætt út í súpuna og hún látin malla í nokkrar mínútur í viðbót þar til fiskurinn er soðin í gegn. Súpan er smökkuð til með salti og pipar og jafnvel bætt við meira af kryddunum af hráefnalistanum. Súpan er borin fram með góðu brauði.