Hægeldað lambalæri


IMG_7414Í gær var ég með hægeldað lambalæri í sunnudagsmatinn. Það var dásamlega meyrt og gott, hreinlega bráðnaði í munni! Að auki var fyrirhöfnin næstum engin. Ég setti lærið ásamt kartöflum og grænmeti í steikarpott á hádegi. Því næst fórum við  fjölskyldan Íkea og skelltum okkur í sund á meðan maturinn mallaði á lágum hita í ofninum. Ósk var reyndar heima, ég hefði líklega verið hálfstressuð að skilja matinn eftir í ofninum annars. En mikið var gott að koma heim svangur úr sundi rétt fyrir matmálstíma og taka tilbúinn út úr ofninum þennan dásamlegan mat með engri fyrirhöfn! Það eina sem ég þurfti að gera var að búa til sósu og salat. Við kláruðum hér um bil heilt læri sem var 2.7 kíló! Reyndar kom Inga frænka til okkur í mat (hún er nú samt matgrönn! 😉 ). En það sem kom mest á óvart var að Jóhanna borðaði kjöt og sósu eins og enginn væri morgundagurinn! Hún sem venjulega borðar ekki lambakjöt, fékk sér fjórum eða fimm sinnum á diskinn, henni fannst kjötið svo gott! Það kom mér líka á óvart að grænmetið sem ég setti með lærinu í steikarpottinn var alveg mátulega eldað, ég hélt að það yrði ofeldað eftir allan þennan tíma í vökva í ofninum. En bæði kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar og góðar. Þetta er frábær og einföld aðferð til þess að fá lungamjúkt og gott lambalæri, mæli með því! 🙂

IMG_7403

Uppskrift:

 • 1 lambalæri, ca. 3 kíló
 • ólífuolía
 • lambakjötskrydd
 • salt og pipar
 • 2 sætar kartöflur
 • 12 kartöflur
 • 6 gulrætur
 • 1 paprika
 • 2 rauðlaukar
 • 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
 • piparkorn
 • 600 ml vatn

Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

IMG_7407

Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.

Sósa:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

 • 40 g smjör
 • 40 g hveiti
 • 3 dl rjómi
 • 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
 • 2 tsk rifsberjahlaup
 • 1 msk sojasósa
 • sósulitur
 • salt og pipar

Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

00135Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir eindregið með spænska rauðvíninu Campo Viejo Reserva með lambalærinu.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, krydd, vanilla.

IMG_7416

50 hugrenningar um “Hægeldað lambalæri

 1. Prófuðum þetta í dag, eftir sjö tíma var grænmetið hrátt sem var pínu panic með gesti mætta í mat en kjötið var himneskt….

  Kv Bryndís

  • Æ, það var leiðinlegt en gott að kjötið var gott! Grænmetið var einmitt alveg passlegt hjá mér. Þú getur prófað næst að hafa hitann 100 gráður (ofnar geta verið svo misjafnir) og/eða skera kartöflurnar í minni bita. Eins er lítið mál, eftir að lærið er komið úr ofninum og er að jafna sig, að setja grænmetið í ofnskúffu og aftur inn í ofn á 200-220 gráður. Það ætti ekki að þurfa nema kannski 10 mínútur til að verða alveg tilbúið.

 2. Bakvísun: Hægeldaður lambahryggur með rauðvínssósu og hunangsgljáðu grænmeti | Eldhússögur

 3. Bakvísun: Maður þarf víst að næra sig … « Ullarsokkurinn

 4. Bakvísun: Blogg um blogg og matarblogg « Ullarsokkurinn

 5. Prufaði þetta í dag,, og ó mæ ,, ég hef aldrei borðað svona mjúkt kjöt, 5 ára dóttir mín sagði „mamma það þarf ekki einu sinni að tyggja þetta kjöt“. Nàði Meira að segja að fara í tvær heimsóknir, eina til RVK og hina á Álftanesið, á meðan lærði mallaði og ég býmá Akranesi 🙂 takk fyrir mig .

  • Frábært Þórdís Alda! Ég er alveg sammála, þetta er frábær leið til að elda lambalærið hér um bil fyrirhafnarlaust! 🙂 Takk fyrir kveðjuna!

 6. Þetta læri er dásamlegt 🙂 Vorum 3 og kláruðum 1,5 kg læri, er mjög fegin að ég gerði ekki eftirrétt. Takk fyrir okkur

 7. Jæja búinn að prufa að elda læri eftir þessari uppskrift og útkoman var dásamlega mjúkt kjöt og roslega bragðgott grænmeti, held að framvegis veri lærið eldað á þennan máta, líka svo þæglegt að þurfa ekkert að skipta sér að þessu 🙂

 8. Hvað á kjötið að vera lengi í ofninum á 80° og hve lengi á 100°ca ?

  • Ég hef haft kjötið í sjö tíma á 80 gráðum og í sjö tíma á 100 gráðum og fann ekki mikinn mun. Ég notaði í dag 100 gráður, aðallega þess vegna að mér finnst það betra fyrir grænmetið. Ég skrifa líka 80-100 gráður af þvi að ofnar geta verið svo misjafnir.

 9. Bakvísun: Snickerskaka | Eldhússögur

 10. Hæhæ 🙂 Skiptir stærðin á lærinu engu máli ? Btw ég elska síðuna þina, takk æðislega fyrir að halda henni uppi, nota hana mjög mikið 🙂

  • Sæl Bylgja og takk fyrir góða kveðju! 🙂 Ég myndi segja að þessi tími væri miðaður við læri sem væri 2.7-3 kíló. Minna læri þarf minni tíma. En í raun er auðvitað best að vera með kjöthitamæli. Það er hægt að miða við að þegar kjarnhitinn er kominn upp í 60-65 gráður þá er kjötið tilbúið.

 11. Bakvísun: Tíu tillögur af páskamat | Eldhússögur

 12. Vá hvað þetta er girnilegt! Ætla að prófa þetta á föstudaginn.
  Hvað notarðu mikið magn af soðinu í sósuna?

  • Sæl Úlfhildur. Eins og kannski sést á myndinni þar sem lærið er tilbúið þá er þetta soðið sem varð til, það nær ekki alveg upp fyrir grænmetið. Ég átta mig ekki alveg á hvað þetta er mikið, kannski 5-600 ml. En ég sem sagt nota allt soðið sem fellur til. Gangi þér vel! 🙂

 13. Bakvísun: Beikonvafinn kjúklingur í balsamik- og oreganosósu | Eldhússögur

 14. Bakvísun: Snickerskaka | UPPSKRIFTIR

 15. Bakvísun: Hakkpanna með eggjum – Uova al Purgatorio bolognese | Eldhússögur

 16. Ég var með svona í kvöld. Var með 1,8 kg og byrjaði að hafa 50 gráður og hækkaði svo með deginum. Kjötið var inni í 6 tíma allt í allt, kjötið bráðnaði í munninum….mmmm. Þú ert bara snillingur Dröfn:)

 17. Bakvísun: Súkkulaðipannacotta með karamellu | Eldhússögur

 18. Bakvísun: Hátíðarmatur og nýjung á Eldhússögum | Eldhússögur

 19. Bakvísun: Vinsælustu uppskriftirnar 2013 | Eldhússögur

 20. Á a vera blástur á ofninum (alltaf talið að það hækkaði hitann) er að gera þetta núna ekki blástur á 100 gráðum 2 tímar eftir ?

  • Æ, þetta svar er væntanlega alltof seint! 🙂 En ég miða við ca, 100 gráður við undir- og yfirhita. Blástur hækkar hitann eins og þú segir

  • I, sorry hvað ég svara seint. Það er mikilvægt að hafa lærið í steikarpotti með loki annars gæti það orðið þurrt og eins myndi vökvinn gufa upp. En þú gætir notað ofnskúffu og sett álpappír vel yfir.

 21. Þú ert alveg mögnuð. Ég fékk þína aðstoð yfir jólin, kalkúnaveislan um áramótin, og núna prófum við páskalambið… Ég er svo hugrökk með þig á skjánum, fínar lýsingar á öllu svo að ég sjálf kem út sem master chef!! 🙂 Takk æðislega fyrir mig, geri það fyrirfram núna fyrir páskamáltíðina því það klikkar aldrei neitt hjá mér af flottu síðunni þinni ❤ Keep up the good work 🙂

 22. Eldaði eftir þessari uppskrift og allt var rosa gott, græmetið hefði mátt vera aðeins meira eldað .. Man bara að henda því inn aðeins fyrr næst.

 23. Bakvísun: Tillögur að páskamáltíðum | Eldhússögur

 24. Páskamáltíðin í ár var þetta hægeldaða lambalæri. Höfum notað þessa uppskrift áður og hún klikkar ekki allt svo yndislegt 😊
  Höfðum með þessu hasselback kartöflur bæði sætar og venjulegar og eru þær svakalega góðar munum gera þær oft aftur 😋
  Ég veit ég dásemi allar uppskriftir sem ég geri hér á síðunni en þær eru allar svo góðar og greinilega spellpassa fyrir okkur fjölskylduna þúsund þakkir fyrir okkur og gleðilega páska ☺️

  • Haha…ekki hætta að dásema uppskriftirnar mínar.. það veitir mér nefnilega innblástur og gleði! 🙂 Gleðilega páska til þín og þinna og takk fyrir allar fallegu kveðjurnar! 🙂

 25. Bakvísun: DA?samlegt hA�geldaA� lambalA�ri | Hun.is

Leave a Reply

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.