Hægeldað lambalæri


IMG_7414Í gær var ég með hægeldað lambalæri í sunnudagsmatinn. Það var dásamlega meyrt og gott, hreinlega bráðnaði í munni! Að auki var fyrirhöfnin næstum engin. Ég setti lærið ásamt kartöflum og grænmeti í steikarpott á hádegi. Því næst fórum við  fjölskyldan Íkea og skelltum okkur í sund á meðan maturinn mallaði á lágum hita í ofninum. Ósk var reyndar heima, ég hefði líklega verið hálfstressuð að skilja matinn eftir í ofninum annars. En mikið var gott að koma heim svangur úr sundi rétt fyrir matmálstíma og taka tilbúinn út úr ofninum þennan dásamlegan mat með engri fyrirhöfn! Það eina sem ég þurfti að gera var að búa til sósu og salat. Við kláruðum hér um bil heilt læri sem var 2.7 kíló! Reyndar kom Inga frænka til okkur í mat (hún er nú samt matgrönn! 😉 ). En það sem kom mest á óvart var að Jóhanna borðaði kjöt og sósu eins og enginn væri morgundagurinn! Hún sem venjulega borðar ekki lambakjöt, fékk sér fjórum eða fimm sinnum á diskinn, henni fannst kjötið svo gott! Það kom mér líka á óvart að grænmetið sem ég setti með lærinu í steikarpottinn var alveg mátulega eldað, ég hélt að það yrði ofeldað eftir allan þennan tíma í vökva í ofninum. En bæði kartöflurnar og sætu kartöflurnar voru fullkomlega eldaðar, stökkar og góðar. Þetta er frábær og einföld aðferð til þess að fá lungamjúkt og gott lambalæri, mæli með því! 🙂

IMG_7403

Uppskrift:

  • 1 lambalæri, ca. 3 kíló
  • ólífuolía
  • lambakjötskrydd
  • salt og pipar
  • 2 sætar kartöflur
  • 12 kartöflur
  • 6 gulrætur
  • 1 paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 2 hvítlaukar (ég notaði solo-hvítlauka sem koma í heilu)
  • piparkorn
  • 600 ml vatn

Bakarofn hitaður í 80-100 gráður undir-og yfirhita. Lærið er snyrt, skolað og þerrað. Því næst er borið á það ólífuolía og það kryddað með lambakjötskryddi, salti og pipar. Kartöflur, sætar kartöflur og gulrætur flysjaðar og skornar í mátulega bita, passa að hafa bitana frekar litla. Laukurinn, paprikan og hvítlaukurinn sömuleiðis. Öllu raðað í botninn á steikarpotti, vatninu helt yfir, dálítið að piparkornum bætt út í og þá er lærið lagt yfir grænmetið. Steikarpottinum lokað og lærið látið steikjast í ca. sex til sjö tíma við 80-100 gráður. Best er að stinga kjöthitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Þegar steikartíminn er liðinn er gott að taka lokið af pottinum og stilla ofninn á 220 gráður og grill. Þannig er lærið grillað í ca. 10 mínútur eða þar til puran er orðin dökk og stökk. Ef mögulega grænmetið er ekki alveg tilbúið á þessum tímapunkti þá er hægt að leggja lærið á bretti og hella grænmetinu í ofnskúffu. Á meðan lærið jafnar sig áður en það er skorið niður og lokið er við sósugerð er hægt að setja grænmetið í ofnskúffunni inn í ofninn við 200-220 gráður og baka það í ca. 10 mínútur eða þar til það er alveg eldað í gegn.

IMG_7407

Lærið er svo lagt á bretti og leyft að jafna sig á meðan sósan er útbúin.

Sósa:

Vökvinn í ofnpottinum er síaður frá kartöflunum og grænmetinu. Gott er að fleyta mestu fituna ofan af vökvanum. Því næst er útbúin smjörbolla.

  • 40 g smjör
  • 40 g hveiti
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 tsk lambakraftur (eða nautakraftur)
  • 2 tsk rifsberjahlaup
  • 1 msk sojasósa
  • sósulitur
  • salt og pipar

Smjörið er brætt í potti og hveitinu þeytt saman við. Því næst er síaða vökvanum bætt út í smjörbolluna smátt og smátt á meðalhita og pískað vel á meðan. Þá er rjómanum bætt út í auk lambakrafts og sósan smökkuð til með kryddum, rifsberjahlaupi og sojasósu. Ef sósan er þunn er hægt að þykkja hana með sósujafnara.

00135Sævar Már Sveinsson vínþjónn mælir eindregið með spænska rauðvíninu Campo Viejo Reserva með lambalærinu.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra, miðlungstannín. Rauð ber, kirsuber, krydd, vanilla.

IMG_7416

Grillað lambalæri með kartöflugratíni


Það er algengt að lambalæri séu vafin inn í álpappír og þau grilluð á þann hátt en þá kemur ekki alvöru grillbragð af kjötinu. Til þess að halda grilluðu lambalæri safaríku en jafnframt að fá gott grillbragð af því er til skotheld leið, grillun við óbeinan hita! Þá eru engir logar hafðir beint undir kjötinu og bara haft kveikt á brennurum í kringum lærið. Með lærinu bar ég fram að þessu sinni kartöflugratín. Flestir eru hrifnir af kartöflugratíni en ókosturinn við það er að það tekur afar langan tíma í ofninum og verður oft of dökkt að ofan en kartöflurnar samt ekki fulleldaðar. Ég er hins vegar með mjög góða og einfalda leið til að elda stórt form af kartöflugratíni á ca 35 mínútum en samt er öruggt að kartöflurnar verða mjúkar og fulleldaðar!

Læri – uppskrift f. 6

    • 1 lambalæri, 2.5 kg, vel hangið
    • 8 hvítlauksgeirar
    • 1 msk ólífuolía
    • Kryddblandan ,,Best á lambið“ eða önnur blanda af kryddum

Aðferð:

Ég keypti lærið í versluninni Til sjávar og sveita í Ögurhvarfi. Það var ókryddað og búið að hanga vel. Ég geymdi lærið svo í ísskáp í 4 daga og þar með var ég viss um að það væri orðið meyrt og gott. Mikilvægt er að taka lærið út nokkru áður en það er grillað þannig að það nái stofuhita.

Kveikið á grillinu og hitið það vel. Fitusnyrtið lærið, gerið djúpar raufar í það á nokkrum stöðum með hnífsoddi og stingið hvítlauksgeirum inn í það. Nuddið ólífuolíu vel á lærið (til að kryddblandan festist betur) og kryddið með ,,Best á lambið“ og núið vel á allt lærið. Slökkvið á öðrum brennaranum á gasgrilli. Setjið lærið á grillið þar sem ekki er eldur undir og lokið síðan, sá sem kveikt er á er stilltur frekar lágt, ofnlokið hjá mér sýndi 120 gráður, það getur þó verið misjafnt milli grilla. Ef það eru þrír brennarar á grillinu, setjið lærið í miðjuna, slökkvið undir þeim brennara og hafið brennarana sitt hvorum megin við í gangi. Grillið lærið í 1 klst og 50 mínútur miðað við læri sem er 2.5 kíló. Það er líka hægt að stinga kjöthitamæli í vöðvann þar sem hann er þykkastur, hann sýnir 60°C fyrir meðalsteikt, 70°C fyrir gegnsteikt. Snúið lærinu tvisvar eða þrisvar en opnið grillið annars sem allra minnst. Ef óskað er eftir dekkri skorpu má færa það yfir eldinn seinustu mínúturnar og fylgjast þá vel með því. Leyfið lærinu að standa undir álpappír í minnst 15 mínútur áður en það er skorið, gjarnan lengur. Kjötið varð einstaklega meyrt og safaríkt með þessari aðferð.

Kartöflugratín f. ca. 10-12

  • ca 1,3 kíló kartöflur
  • 4 dl rjómi
  • 4 dl mjólk
  • hálfur rauðlaukur, skorin í strimla
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 grænmetisteningar
  • Töfrakrydd, salt og pipar
  • rifinn ostur

Aðferð:

Kartöflurnar skolaðar vel (ég hef þær oftast með hýðinu á) og svo skornar í skífur, sumir vilja hafa þær næfurþunnar, mér finnst best að hafa þær ca 1 cm á þykkt. Hvítlaukur og laukur skorinn niður. Mjólk og rjómi settur í stóran pott ásamt hvítlauk, lauk, grænmetisteningi og kryddi. Ég nota Töfrakrydd frá pottagöldrum, það er góð kryddjurtablanda með cheddar osti sem hentar vel en það er hægt að nota hvaða krydd sem hugurinn girnist. Sjóðið við vægan hita í 15-20 mínútur (fer svolítið eftir þykkt kartaflanna), eða þar til þær eru orðnar vel mjúkar. Hellið kartöflublöndunni í eldfast mót, dreifið rifnum osti yfir og hitið í ofni við 200 gráður í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og orðin gullinbrúnn.

Með þessu bar ég fram ofnbakað ferskt grænmeti. Það er: sætar kartöflur, gulrætur, kúrbít og brokkolí. Grænmetið skorið í bita (ég hef til dæmis sætu kartöflurnar smátt skornar þar sem þær eru lengi að bakast, en brokkolíið í stærri bitum þar sem það bakast fljótt) sett á ofnplötu, velt upp úr dálítilli ólífuolíu og kryddi, bakað í ofn í ca. hálftíma (fer eftir stærð grænmetisins). Veltið grænmetinu 2-3svar á meðan bökun stendur. Sósan sem ég notaði að þessu sinni var sveppasósa, uppskrift er að finna hér.