Sætkartöflu- og kúrbítsklattar


img_3389

Mér finnst auðveldlega henda að maður festist í sama meðlætinu með góðu grillkjöti. Mér finnst í raun fátt jafnast á við ofnbakaðar sætar kartöflur og grillað grænmeti og nota það afar oft með grillmat. En það er alltaf skemmtilegt að breyta til. Um daginn fengum við matargesti sem eru á lágkolvetnisfæði. Ég ákvað því að búa til klatta úr kúrbít og sætri kartöflu. Reyndar eru sætar kartöflur takmarkaðar í LKL mataræði en matargestirnir okkar leyfa sér þær. Þessir klattar eru ljúffengir og passa vel með ýmisskonar grillkjöti.

Uppskrift:

  • 1 kúrbítur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 1 egg
  • 1/2 msk husk
  • 1 dl rifinn parmesan
  • chiliflögur
  • salt & pipar

img_3383

Ofn hitaður í 225 gráður. Kúrbítur rifinn gróft og settur í sigti ásamt smá salti. Hrært dálítið saman og kreist létt til þess að mestur vökvinn farin úr. Sæta kartaflan er skræld og rifin gróft. Rifinn kúrbítur, rifin sæt kartafla og rifinn parmesan ostur er blandað saman ásamt eggi, huski og kryddi. Mótuð buff (fremur lítil) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 225 gráður þar til buffin hafa tekið fallegan lit og eru elduð í gegn.

img_3394

Baunaspírur


Baunaspírur

Ég má til með að deila einni snilld með ykkur. Fyrir nokkru síðan fór ég í Nettó og þar var verið að kynna svo góðar baunaspírur. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifin af alfalfaspírum og nota þær mikið ofan á brauð og í salöt. Þessar spírur fannst mér einstaklega ferskar og góðar, ég skrifaði einmitt um það í þessari bloggfærslu. Framleiðandinn er Ecospira í Hafnarfirði og ég var yfir mig spennt um daginn þegar ég sá að þeir eru farnir að selja spírurnar í áskrift.

Núna er ég sem sagt orðin áskrifandi af brakandi ferskum baunaspírum sem ég fæ einu sinni í viku. Í pakkanum er 200 gröm af blönduðum spírum, til dæmis brokkolíspírur, alfalfaspírur og radísuspírur. Allar þessar spírur er víst ofurhollar og stútfullar af vítamínum og andoxnarefnum. Núna langar mig að finna fleiri notkunarmöguleika á spírunum. Ef þið lumið á góðum uppskriftum þar sem allskonar baunaspírur eru notaðar þá endilega deilið þeim með mér! 🙂

Hér er blandan sem ég fékk í þessari viku.

Baunaspírur

  • Radísuspírur, grænar með rauðum stilk, dálítið beittar.
  • Blaðlauksspírur, grænar, langar og mjóar með svörtu á endunum.
  • Alfalfaspírur, ljósgrænar með ljósbrúnu hismi á, smágerðar og mildar.
  • Brokkólí- & smáraspírur, grænar smágerðar, milt grænmetisbragð og örlítið stökkar.
  • Blanda dagsins, blanda af mungbaunum, kjúklingabaunum, rauðum linsum og grænum ertum.

Þessi blanda kostar bara 1000 krónur sem mér finnst mjög gott verð. Ég hef líka séð að spírurnar eru til í flestum matvöruverslunum.

IMG_0735

Í dag fékk ég mér nýbakað og gómsætt gróft brauð. Ég setti fyrst á brauðið hreinan Philadelphia ost, þá alfalfaspírur og svo tómat-avokado salsa. Ég dreifi síðan yfir þetta allt örlítið af grófmöluðum svörtum pipar og smá maldon salti – ljúffengt!

IMG_0742

Núna ætla ég að einbeita mér af því að verða frísk fyrir morgundaginn en ég er að fara til Boston með saumaklúbbnum mínum, ferð sem við höfum safnað fyrir og skipulagt í nokkur ár! Það má því með sanni segja að spennan sé í hámarki núna í kvöld! 🙂 Ég nældi mér hins vegar í kvef og ljótan hósta, alveg hreint óþolandi tímasetning á veikindum. Það er ekki í boði að taka með þessi veikindi til Boston og ég ætla því að borða mikið af þessum hollu baunaspírum í kvöld og skola þeim niður með tei! 😉

Það mun væntanlega ekki gerast mikið á blogginu á næstu dögum þegar ég verð erlendis. En í næstu viku kem ég endunærð heim úr þessari menningarferð (*hóst*) og þá fer bloggið aftur á fullt, meðal annars með skemmtilegum leik þar sem þessi spennandi verðlaun munu koma við sögu.

IMG_0544

Grilluð blálanga með dillsósu og grilluðu grænmeti


Dillsósa

Það eru forréttindi að hafa aðgang að jafn góðum fiski og við höfum hér á Íslandi. Grillaður góður fiskur er einn sá besti matur sem ég fæ. Ekki er verra að slík máltíð er afar fyrirhafnarlaus. Ég nýti mér mjög mikið að kaupa fisk í tilbúnum kryddmaríneringum sem fæst í flestum fiskbúðum. Yfirleitt eru þetta góðar maríneringar og flýta mikið fyrir matargerðinni. Um daginn keypti ég blálöngu í góðum kryddlegi hjá Fiskbúð Hólmgeirs. Ég er hrifin af blálöngu á grillið, hún er svo þétt og góð. Með henni ákvað ég að gera dillsósu. Þegar við bjuggum í Svíþjóð þá fannst mér Svíar ofnota dill með fiski. Fiskur og dill virðist vera jafn mikilvæg tvenna hjá Svíum eins og ýsa og hamsatólg voru hjá okkur Íslendingum hér á árum áður. Ég hef varla fundið sænska uppskrift af hvítum fiski sem ekki í er dill. Í einhverskonar mótmælaskyni hef ég því forðast að nota dill í fiskrétti. Að þessu sinni átti ég hins vegar fersk dill sem mig langaði að nýta og ég gerði því dillsósu með fisknum. Ég verð að viðurkenna að það var alls ekki svo slæmt, satt best að segja var sósan ákaflega góð. Hún var fersk og bragðgóð og smellpassaði með fisknum, kannski vita Svíar sínu viti í þessum efnum!

Afi minn vill helst borða fisk í öll mál þannig að mér fannst upplagt að bjóða honum og ömmu í mat að njóta þessarar góðu fiskmáltíðar með okkur.

IMG_0633

Ég var svo heppin að fá gómsætar nýjar kartöflur í Nettó sem fullkomnuðu þessa einföldu og góðu máltíð. Ég hef áður skrifað hér á Eldhússögur um grillað grænmeti. Ég nota grillbakka frá Weber sem er afar sniðugur til þess að grilla grænmeti í, ætti að vera skyldueign fyrir alla grillunnendur. Þennan grillbakka hef ég fundið langódýrastan hjá Bauhaus, það á reyndar við um alla Weber fylgihluti sýnist mér.

Weber grillbakki

Þegar ég grilla grænmeti þá sker ég niður grænmetið i passlega stóra bita, oftast nota ég gulrætur, kúrbít og sveppi í grunninn. Oft bæti ég við sætum kartöflum, lauki, hnúðakáli, brokkolí, blómkáli eða bara því grænmeti sem ég á til. Þegar það er komið í grillbakkann blanda ég dálítið af ólífuolíu saman við grænmetið og krydda það með saltflögum og grófum svörtum pipar. Stundum krydda ég það líka með kryddjurtakryddi eins og til dæmis „Best á allt“ frá Pottagöldrum. Grillbakkinn er svo settur á grillið við fremur háan hita í ca. 20-30 mínútur. Mikilvægt er að „hræra í“ grænmetinu reglulega þannig að það snúist. Oft ber ég grænmetið fram með rifnum ferskum parmesan osti ef það passar við aðalréttinn.

IMG_0640

Grilluð blálanga í kryddlegi, nýjar kartöflur, dillsósa úr grískri jógúrt og grillað grænmeti – gulrætur, sveppir og kúrbítur = frábær og holl máltíð! 🙂

IMG_0639

Uppskrift, dillsósa:

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml) (líka hægt að nota sýrðan rjóma eða hvor tveggja til helminga)
  • 1 msk fljótandi hunang
  • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir eða fínsaxaðir
  • ferskt dill (ég notaði hér um bil 1/3 af  heilu 30 gramma boxi)
  • salt
  • ferskmalaður svartur pipar

Dillið er saxað niður og blandað vel við grísku jógúrtina. Hvítlauknum er bætt út í. Sósan er því næst bragðbætt með hunangi, salti og pipar. Gott er að leyfa sósunni að standa í ísskáp í 15-20 mínútur áður en hún er borin fram.

IMG_0638IMG_0658

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Kjúklingur með sinnepssósu og gulrótagratín


Kjúklingur með sinnepsósu og gulrótagratín

Mér finnst þessi árstími einn sá allra besti tími ársins, birtan er svo dásamleg! Það ligggur samt við að ég verði dálítið stressuð, tíminn líður svo hratt, áður en maður veit af þá er farið að dimma aftur. Það er því um að gera að njóta tímans vel, fara í gönguferðir á þessum fallegu maíkvöldum og njóta birtunnar. Eins langar mig alltaf svo mikið að grilla um leið og sólin fer að skína á vorin. Í kvöld grilluðum við dásamlega góðan lax sem ég ætla að gefa uppskriftina að sem fyrst. En fyrst ætla ég að gefa uppskriftina að frábærlega góðum kjúklingarétti. Gulrótagratínið er ákaflega ferskt og gott og kjúklingurinn með sinnepssósunni æðislegur, endilega prófið þennan rétt! Með þessum rétti ætlaði ég að hafa gulrótartatziki sem er afar ljúffengt og gott, mér fannst það svo sniðugt með gulrótagratíninu. En á meðan ég var að útbúa matinn þá urðu yngstu börnin svo spennt fyrir gulrótunum að þær kláruðust. Ég greip þá til fetaostasósunnar góðu enn einu sinni! Hljómar kannski eins og ég sé að ofnota hana en hún er bara svo góð! Ef þið hafið ekki prófað þá sósu enn þá verðið þið bara að prófa! Sú sósa er til dæmis frábær með öllum grillmat.

Uppskrift:

Gulrótargratín:

600 g gulrætur, skornar í skífur
salt & pipar
2 dl grófrifinn parmesan
2 msk olífuolía
timjan, ferskt eða þurrkað

IMG_9804

Kjúklingur:

700 g kjúklingabringur
salt & pipar

IMG_9808

Sinnepssósa:

2 dl vatn
2 msk grófkorna dijon sinnep
½ msk hefðbundið dijon sinnep eða annað franskt sinnep
1 kjúklingateningur

IMG_9816Ofninn stilltur á 225 gráður undir- og yfirhita. Gulrótarskífurnar eru lagðar í eldfast mót, saltaðar og pipraðar. Parmesanosti, timjan og olíu er bætt við og blandað vel saman gulræturnar. Hitað í ofni við 225 gráður í um það bil 20 mínútur. Þá eru kjúklingabringurnar skornar í tvennt á lengdina og kryddaðar með salti og pipar. Því næst eru þær steiktar á pönnu þar til þær fá fallega steikarhúð. Svo er kjúklingurinn færður af pönnunni og lagður yfir gulræturnar og eldfasta mótið er sett aftur inn í ofn í um það bil 10 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Vatnið er sett út á steikarpönnuna ásamt sinnepinu og kjúklingateningnum. Sósan er látin malla í nokkrar mínútur og borin fram með kjúklingnum.

Að auki bar ég fram fetaostasósu.

IMG_9822

Blómkáls- og brokkolígratín


Í dag kom út nýtt Séð og heyrt blað sem var með umfjöllun um áhugaverð íslensk blogg. Það var gaman að sjá að Eldhússögur voru með í þessum hópi og það á sömu blaðsíðu og meistarinn sjálfur, mér finnst ég nú tæplega verðug þess! 🙂

image

Það hefur gripið um sig mikið æði hér á landi sem snýst um lágkolvetna mataræði eða LKL-mataræði. Þetta mataræði hefur lengi verið vinsælt í Svíþjóð og þar í landi eru til eru afar mörg matarblogg sem leggja áherslu á slíkar uppskriftir. Þessi réttur sem ég gef uppskrift af í dag smellpassar inn í LKL. Ég notaði kjöt sem ég keypti hjá Mýranauti. Ég hafði nýtt mér þá þjónustu sem þau bjóða upp á, að fá snitsel úr klumpinum og flatsteikinni. Við grilluðum snitselið og með því hafði ég blómkáls- og brokkolígratín og fetaosta-jógúrtsósu. Rosalega gott! Ég segi eins og Fríða vinkona, ég er farin að nota þessa dásamlegu sósu með öllu! 🙂 Gratínið var ákaflega gott og ég mun klárlega búa það til aftur sem fyrst.

IMG_9299

Ég fór í gegnum uppskriftirnar mínar hérna á blogginu og merkti þær sem henta lágkolvetna mataræðinu. Þær eru nú að finna undir flokknum „LKL uppskriftir“. Flokkana er hægt að finna í rúllulistanum hér hægrameginn á síðunni. Það eru mögulega einhver hráefni í þessum uppskriftum sem er á bannlista fyrir LKL en ef ég hef merkt þær LKL, þá met ég sem svo að auðvelt sé að aðlaga viðkomandi uppskriftir að LKL með því að sleppa einstaka hráefni eða skipta því út fyrir annað. Ég er ekki sjálf á þessu matarræði (surprice! 😉 ) og ekki með fullkomna þekkingu á því, þó hafi lesið mér aðeins til þegar ég fór í gegnum uppskriftirnar, þið látið mig bara vita ef ykkur finnst einhver uppskrift ranglega merkt sem LKL!

En hér kemur uppskriftin af blómkáls- og brokkolígratíninu góða. Það væri líka hægt að setja út í það skinku eða beikon og þá er komin heil máltíð!

IMG_9308

Uppskrift:

  • 1 blómkálshöfuð
  • 1 brokkolíhöfuð
  • 2 egg
  • 3 dl rjómi
  • 2-3 dl rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða pressað
  • 1/2 – 1 rauður chili, fræhreinasaður og saxaður smátt
  • salt & pipar

IMG_9297

Ofn hitaður í 225 gráður, undir- og yfirhita. Blómkálið og brokkolíið eru rifin eða skorin niður í passlega stór blóm. Vatn sett í stóran pott og það léttsaltað, suðan látin koma upp. Blómkálið og brokkolíið er soðið í örfáar mínútur, þá má ekki verða mjúkt. Því næst er vatninu helt frá og grænmetið sett í eldfast mót. Egg, rjómi, 1 dl af rifna ostinum, hvílaukurinn, salt, pipar og chili hrært saman og hellt yfir grænmetið. Restinni af rifna ostinum dreift yfir. Bakað í ofni við 225 gráður í 15-20 mínútur.

IMG_9320

Fetaost- og jógúrtósa:
  • 2 dl grísk jógúrt
  • 100 g fetaostur (fetaostkubbur án olíu)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • grófmalaður pipar

Öllu blandað saman með gaffli. Fyrir þá sem vilja sósu án kekkja er hægt að keyra jógúrtina og fetaostinn saman í matvinnsluvél í stutta stund áður en restinni af hráefnunum er bætt út í. Gott er að geyma sósuna í ísskáp í stutta stund áður en hún er borin fram.

Grískur kjúklingaréttur með tzatziki jógúrtsósu


IMG_7593Mér finnst alltaf dálítið gaman að fylgjast með tölfræðinni á síðunni minni. Langvinsælustu uppskriftirnar eru djúsí kökur og eftirréttir! Fiskur er hins vegar ekki sérlega vinsæll, sama hversu góð og girnileg uppskriftin er. 🙂 Reyndar hafa margir uppgötvað þorskuppskriftina sem mér finnst hreinasta hnossgæti og á stjörnugjöfinni og ummælunum að dæma eru flestir, ef ekki allir, sammála mér! Sú uppskrift er sjöunda mest lesna uppskriftin á blogginu sem er mjög hátt sæti miðað við að þetta sé fiskuppskrift.

Stundum koma vinsældir uppskrifta mér í opna skjöldu. Sú uppskrift sem hefur verið deilt langmest hingað til og er orðin fjórða mest lesna uppskriftin hér frá upphafi er kladdkakan með karamellukremi! Frá því að ég setti hana inn fyrir 10 dögum síðan hefur hún verið mest sótta uppskriftin á síðunni minni daglega og hefur verið deilt hátt í 700 sinnum á Facebook! Það kom mér svo sem ekki á óvart að kakan yrði vinsæl því hún er afar ljúffeng. En spurningin er af hverju það varð einmitt þessi kaka því margar aðrar eru ekki síðri? Mig grunar að það séu myndirnar af karamellukreminu sem gera hana svona girnilega! 🙂 Svo eru aðrar uppskriftir sem liggja lágt en öðlast jafnt og þétt vinsældir. Ein þeirra er skúffukakan mín. Hún er þriðja mest lesna uppskriftin hér á blogginu en hefur þó aðeins verið deilt níu sinnum á Facebook. Hún hefur hins vegar fengið einna flestu stjörnurnar og flestu ummælin af öllum uppskriftum síðunnar. Ég er frekar montin af henni því uppskriftina þróaði ég sjálf.

Ég ætla nú ekki að tala meira um þennan nördalega tölfræðiáhuga minn heldur setja inn uppskrift dagsins! Þetta er einmitt uppskrift sem hefur alla burði í að vera vinsæl því hún er hrikalega góð! Hollur og bragðgóður réttur sem er auðvelt að elda. Allir á heimilinu voru afskaplega hrifnir af þessum rétti og gefa honum fullt hús stjarna! Sem minnir mig á það að Jóhanna mín litla sagði við mig um daginn: „mamma, ég fór inn á bloggið þitt og gaf öllum uppskriftinum þínum fimm stjörnur!“ 🙂 Það þarf því að gera ráð fyrir einhverri tölulegri skekkju í stjörnugjöf uppskriftanna hér á síðunni vegna hlutdrægni fjölskyldumeðlima! 😉

Uppskrift:

  • 5 kjúklingabringur
  • ca 15 kartöflur (fer eftir stærð)
  • 3-4 gulrætur
  • ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarín (eða annað gott krydd)
  • 2 rauðlaukar, skornir í báta
  • 1 askja kokteiltómatar
  • 1 gul paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 rauð paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 1 græn paprika, skorin í fremur stóra bita
  • 200 g fetaostur (kubbur án olíu)
  • svartar ólífur

IMG_7583

Marinering

  • 2 dl olía
  • 4-5 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 2 tsk sambal oelek
  • 4 msk sojasósa
  • salt og pipar

Hráefninu í marineringuna blandað saman. Hver kjúklingabringa skorin í fjóra bita á lengdina og kjötið lagt í mareneringuna. Fyrir skipulagða er hægt að gera þetta kvöldið áður en ég lét kjötið bara liggja í merineringunni í ca. klukkutíma.

Bakarofn hitaður í 200 gráður. Kartöflur skornar í báta eða í tvennt ef þær eru litlar. Gulrætur eru einnig skornar í bita. Hvor tveggja sett í ofnskúffu og blandað við dálitla ólífuolíu, kryddað með salti, pipar og rósamarín. Bakað í ofni í ca 20 mínútur. Þá er ofnskúffan tekin út og losað dálítið um kartöflurnar og gulræturnar. Paprikum, lauk og kokteiltómötum bætt út í, þá er kjúklingurinn lagður ofan á (ef afgangur er af marineringunni er henni líka dreift yfir), ólífum dreift yfir og endað á því að mylja fetaostinn yfir alltsaman. Rétturinn er settur aftur inn í ofn og eldaður í ca. 30-35 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borið fram með tzatziki jógúrtsósu.

IMG_7589

Tzatziki jógúrtsósa:

  • 350 g grísk jógúrt
  • 1 agúrka
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð mjög smátt eða pressuð
  • 1 msk ólífuolía
  • nýmalaður pipar
  • salt

Skerið agúrkuna á lengdina og hreinsið fræin innan úr henni, gott að nota teskeið til að skafa fræin úr. Rífið svo gúrkuna niður á grófustu hlið rifjárnsins. Blandað saman við grísku jógúrtina ásamt hvítlauk, engifer og ólífuolíu. Saltið, piprið og setjið sósuna í ísskáp áður en hún er borin fram.

IMG_2529

Cacciatore kjúklingaréttur


IMG_7084Það er gaman að sjá hversu mikið vinsældalistarnir hér á síðunni eru notaðir. Það kemur mér ekki á óvart að kjúklingaréttirnir eru mest skoðaðir. Kjúklingur er léttur og góður matur eftir hátíðarnar en er líka almennt alltaf vinsælasta hráefnið. Ég nota kjúkling afar mikið enda hægt að gera svo ótrúlega margt gott úr honum. Í gærkvöldi gerði ég þessa einföldu og bragðgóðu Cacciatore kjúklingauppskrift sem öllum í fjölskyldunni þótti rosalega góð. Cacciatore þýðir veiðimaður á ítölsku en í matargerð er vísað til sósu sem byggð er upp á tómatsósu, lauk og kryddjurtum, stundum líka papriku og jafnvel víni.

Ég átti svo mikið eftir af fersku rósakáli eftir hátíðarnar sem ég ákvað að nýta með kjúklingnum. Ég veit að margir eru ekki hrifnir af rósakáli en mér finnst það ofsalega gott, sérstaklega ferskt rósakál. Það er hægt að elda það á svo marga vegu. Í gær eldaði ég það í rjóma og chilisósu! Hljómar kannski undarlega en öllum fannst það afskaplega gott. Ég læt uppskriftina fylgja með hér að neðan. Að auki bar ég kjúklinginn fram með perlukúskúsi.

Uppskrift:

  • 6 kjúklingabringur
  • 5-6 skarlottulaukar, fínsaxaðir
  • 5 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • olía til steikingar
  • 2 dósir tómatar í dós (ég notaði bragðbætta með basilku)
  • 1 dós mascarpone ostur
  • 1 box basilika (30 gr), söxuð gróft
  • salt og pipar
  • kjúklingakrydd

Skarlottulaukur og hvítlaukur steiktur upp úr olíu á pönnu þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi. Þá er tómötunum bætt út í og sósan látin malla í 10-15 mínútur. Á síðustu mínútunum er mascarpone ostinum bætt út í og hann látinn bráðna í sósunni auk 2/3 af basilikunni. Á meðan eru kjúklingabringurnar kryddaðar með kjúklingakryddi (ég notaði líka basilikukrydd), salti og pipar og þær snöggsteikar örstutt á háum hita á báðum hliðum til þess að loka þeim. Bringurnar eru svo lagðar í eldfast mót, tómatsósunni hellt yfir og bakað í ofni við 210 gráður í 20-25 mínútur (fer eftir stærð kjúklingabringanna). Restinni af basilikunni stráð yfir áður en rétturinn er borinn fram. Borið fram með hrísgrjónum, kúskús eða ofnbökuðum kartöflum og salati.

IMG_7091

Rósakál í rjóma og chilisósu:

  • 1 poki ferskt rósakál
  • 2 skarlottulaukar, saxaðir smátt
  • 2 dl rjómi
  • smá svetta chilisósa
  • salt og pipar

Rósakálið skolað og hreinsað, skorið í tvennt. Rósakál og skarlottulaukur steikt á pönnu við meðalhita. Rjóma bætt út í og látið malla á vægum hita í ca 10 mínútur. Saltað og piprað eftir smekk og smá chilisósu bætt út í.

IMG_7090

Grænmetislasagna með ostrusósu, engifer og kókos


Þá er helginni að ljúka. Ég hef setið og skrifað ritgerðina mína alla helgina með þó smá hléum. Í gær var Jóhanna að dansa á danssýningu en hún er búin að vera í Hiphop dansi þessa önn. Ég, Inga frænka og mamma mættum og horfðum á, að sjálfsögðu stóð hún sig með sóma stelpan ásamt Gyðu vinkonu sinni. Pabbinn hafði öðrum hnöppum að hneppa því á sama tíma var hann að syngja með Fjallabræðrum á tónleikum í Háskólabíói. Við fórum af danssýningunni á seinni tónleikana og sáum þessa snillinga. Að sjálfsögðu fannst fjölskyldunni okkar maður bera af á sviðinu! 🙂 Við hjónin enduðum svo á bar niðri í bæ með öllum kórnum og hljómsveitinni þar sem staðurinn var tekinn yfir með söng og spili fram á rauða nótt. (myndir af Fjallabræðrum teknar af Kristjáni Söebeck)

Það var því lítið um eldamennsku í gær og deginum áður var snædd pizza. En fyrr í vikunni gerði ég nýjan rétt sem öllum fannst býsna góður. Ég fékk þá uppskrift úr íslensku blaði, aldrei þessu vant, norðlenska blaðinu Vikudagur. Mér fannst uppskriftin hljóma svo ákaflega spennandi að ég varð bara að prófa hana, þetta var ekki líkt neinu lasagna sem ég hef borðað áður! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta grænmetislasagna var ofsalega gott og það kom mér á óvart hvað það var matarmikið, mér fannst eins og í því væri mikið meira en bara grænmeti. Elfar var sérstaklega hrifinn af þessum rétti, mér skilst að hann sé búinn að auglýsa hann vel í vinnunni sinni og lofa uppskriftinni á bloggið! 🙂 Kókosflögurnar komu  afar vel út fannst mér, næst ætla ég að setja enn meira af þeim. Það lítur kannski út fyrir að vera mörg hráefni í þessum rétti en ekki láta það hræða ykkur, margt af því er eitthvað sem maður á til. Ég notaði til dæmis það grænmeti sem ég fann í ísskápnum og svo átti ég satt besta að segja allt annað hráefni til fyrir utan kókosmjólk og svo vantaði mig meiri ostrusósu. Þetta var því afar ódýr réttur að útbúa.

Uppskrift

  • 3 msk. olía
  • 1 kg blandað grænmeti, skorið í bita t.d. laukur, paprika, blómkál, spergilkál, baunir, kúrbítur, gulrætur, sætar kartöflur eða hvað sem hver vill
  • lasagneblöð
  • rifinn ostur
  • kókosflögur

Ostrusósa

  •  4 dl ostrusósa (oyster sauce)
  • ½ dl tómatssósa
  • ½ dl sætt sinnep
  • 2 msk. balsamik edik
  • 2 msk. hunang
  • 1 msk. paprikuduft
  • ½ msk karrí
  • 1 tsk. rósapipar
  • 2 msk. rifið engifer
  • 5 hvítlauksgeirar
  • ½ chili aldin

Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað vel.

Kókossósa

  • 300 ml kókosmjólk
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 tsk. múskat
  • salt
  • pipar
  • sósujafnari

Setjið allt nema sósujafnara í pott og hleypið suðunni upp. Þykkið þá sósuna með sósujafnara.

Ofn hitaður í 200 gráður. Steikið grænmetið í olíu á pönnu í ca. 2 mín. Hellið ostrusósunni á pönnuna og látið krauma í aðrar 2 mín. Leggið lasagneblöð í botnin á eldföstu móti. Setjið þunnt lag af kókossósunni yfir lasagneblöðin og dreifið hluta af grænmetinu yfir kókossósuna. Leggið lasagneblöð yfir grænmetið og endurtakið þannig að það verði 3-4 lög af grænmeti. Dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í 20 mín. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er rétturinn tekinn út og kókosflögum dreift yfir, svo aftur inn í ofninn restina af tímanum. Borið fram með góðu brauði.

Chilikjúklingur með chorizo pylsu, kirsuberjatómötum og rótargrænmeti


Um síðustu helgi buðum við foreldrum mínum í mat og ég ákvað að prófa kjúklingarétt sem ég hef haft augastað á. Í honum er chorizo pylsa en ég hef lítið sem ekkert notað slíkar pylsur. Til dæmis hef ég ekki enn fundið hjá mér hvöt til að fara í verslunina Pylsumeistarann á Hrísateigi þó svo að ég hafi heyrt að það eigi að vera ægilega mikið gourmet og hámóðins hjá öllum matgæðingum! Ég hefði auðvitað átt að fara þangað til að tryggja að ég notaði hágæða pylsu í réttinn en ég lét mér duga að kaupa chorizo pylsu frá Ali í Þinni Verslun. Og þessi pylsa kom reglulega á óvart, passaði vel við réttinn og meira að segja krakkarnir voru sólgnir í hana. Rétturinn sjálfur er afar einfaldur að útbúa og reglulega góður, jafnvel krakkarnir hámuðu hann í sig af bestu lyst. Þó svo að í réttinum væri chilimauk fannst engum rétturinn vera of bragðsterkur, hvorki foreldrum mínum né börnunum. Ég skellti í eitt svona brauð til að bera fram með réttinum, en splæsti í sunnudagsútgáfuna, notaði bara hveiti og sesamfræ! Að auki bar ég fram með réttinum ferskt salat.

Uppskrift f. 3-4:

  • 4-6 stórar kartöflur, skornar í báta
  • 2 stórar gulrætur, skornar í þykkar skífur
  • 1 sæt kartafla, skorin í fremur stóra teninga
  • 8 skarlottulaukar, skornir í tvennt
  • 2-3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • ólífuolía og smjör til steikingar
  • 4 kjúklingabringur, skornar í 3-4 bita hver
  • 1 dl hvítvín (eða kjúklingasoð)
  • 1 dós niðursoðnir kirsuberjatómatar (fást í Krónunni)
  • 1-2 tsk sambal oelek (má nota aðra tegund af chilimauki)
  • 100-150 gr chorizo pylsa, skorin í bita
  • maldonsalt og pipar
  • ferskt timjan (ég fékk það ekki og notaði þurrkað)

Stillið ofn á 225 gráður. Skrælið kartöflur, sæta kartöflu og gulrætur og skerið eins og uppskriftin segir til um. Dreifið grænmetinu í eldfast mót ásamt skarlottulauknum og hvítlauknum. Hellið yfir dálítið af ólífuolíu og kryddið með maldonsalti og pipar. Hitið í ofni við 225 gráður í 20-30 mínútur eða þar til að grænmetið er næstum því tilbúið.

Á meðan grænmetið er í ofninum er kjúklingur kryddaður með maldonsalti og pipar. Kjúklingurinn er brúnaður í smjör og ólífuolíu þar til að hann hefur fengið lit. Því næst er kjúklingurinn lagður ofan á grænmetið ásamt chorizo pylsubitunum, kokteiltómötunum (vökvinn líka notaður) og grófsöxuðu timjan.

Að lokum er hvítvíni/kjúklingasoði blandað saman við chilimaukið og því hellt yfir réttinn. Rétturinn er aftur settur inn í ofn í um það bil 15-20 mínútur eða þar til bæði kjúklingur og grænmeti er tilbúið. Borið fram með brauði og góðu salati. Ekki skemmdi rauðvínsglasið fyrir!