
Það var því lítið um eldamennsku í gær og deginum áður var snædd pizza. En fyrr í vikunni gerði ég nýjan rétt sem öllum fannst býsna góður. Ég fékk þá uppskrift úr íslensku blaði, aldrei þessu vant, norðlenska blaðinu Vikudagur. Mér fannst uppskriftin hljóma svo ákaflega spennandi að ég varð bara að prófa hana, þetta var ekki líkt neinu lasagna sem ég hef borðað áður! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta grænmetislasagna var ofsalega gott og það kom mér á óvart hvað það var matarmikið, mér fannst eins og í því væri mikið meira en bara grænmeti. Elfar var sérstaklega hrifinn af þessum rétti, mér skilst að hann sé búinn að auglýsa hann vel í vinnunni sinni og lofa uppskriftinni á bloggið! 🙂 Kókosflögurnar komu afar vel út fannst mér, næst ætla ég að setja enn meira af þeim. Það lítur kannski út fyrir að vera mörg hráefni í þessum rétti en ekki láta það hræða ykkur, margt af því er eitthvað sem maður á til. Ég notaði til dæmis það grænmeti sem ég fann í ísskápnum og svo átti ég satt besta að segja allt annað hráefni til fyrir utan kókosmjólk og svo vantaði mig meiri ostrusósu. Þetta var því afar ódýr réttur að útbúa.
Uppskrift
- 3 msk. olía
- 1 kg blandað grænmeti, skorið í bita t.d. laukur, paprika, blómkál, spergilkál, baunir, kúrbítur, gulrætur, sætar kartöflur eða hvað sem hver vill
- lasagneblöð
- rifinn ostur
- kókosflögur
Ostrusósa
- 4 dl ostrusósa (oyster sauce)
- ½ dl tómatssósa
- ½ dl sætt sinnep
- 2 msk. balsamik edik
- 2 msk. hunang
- 1 msk. paprikuduft
- ½ msk karrí
- 1 tsk. rósapipar
- 2 msk. rifið engifer
- 5 hvítlauksgeirar
- ½ chili aldin
Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað vel.
Kókossósa
- 300 ml kókosmjólk
- 2 hvítlauksgeirar
- 2 tsk. múskat
- salt
- pipar
- sósujafnari
Setjið allt nema sósujafnara í pott og hleypið suðunni upp. Þykkið þá sósuna með sósujafnara.
Ofn hitaður í 200 gráður. Steikið grænmetið í olíu á pönnu í ca. 2 mín. Hellið ostrusósunni á pönnuna og látið krauma í aðrar 2 mín. Leggið lasagneblöð í botnin á eldföstu móti. Setjið þunnt lag af kókossósunni yfir lasagneblöðin og dreifið hluta af grænmetinu yfir kókossósuna. Leggið lasagneblöð yfir grænmetið og endurtakið þannig að það verði 3-4 lög af grænmeti. Dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í 20 mín. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er rétturinn tekinn út og kókosflögum dreift yfir, svo aftur inn í ofninn restina af tímanum. Borið fram með góðu brauði.
Þessi réttur er ljúffengur. Hann minnir mig á Satay rétti á wok veitingarhúsum. Undir öllu þessu ferska grænmeti fljóta mjúk lasagne blöð í gómsætri sósu, nammi!