Grænmetislasagna með ostrusósu, engifer og kókos


Þá er helginni að ljúka. Ég hef setið og skrifað ritgerðina mína alla helgina með þó smá hléum. Í gær var Jóhanna að dansa á danssýningu en hún er búin að vera í Hiphop dansi þessa önn. Ég, Inga frænka og mamma mættum og horfðum á, að sjálfsögðu stóð hún sig með sóma stelpan ásamt Gyðu vinkonu sinni. Pabbinn hafði öðrum hnöppum að hneppa því á sama tíma var hann að syngja með Fjallabræðrum á tónleikum í Háskólabíói. Við fórum af danssýningunni á seinni tónleikana og sáum þessa snillinga. Að sjálfsögðu fannst fjölskyldunni okkar maður bera af á sviðinu! 🙂 Við hjónin enduðum svo á bar niðri í bæ með öllum kórnum og hljómsveitinni þar sem staðurinn var tekinn yfir með söng og spili fram á rauða nótt. (myndir af Fjallabræðrum teknar af Kristjáni Söebeck)

Það var því lítið um eldamennsku í gær og deginum áður var snædd pizza. En fyrr í vikunni gerði ég nýjan rétt sem öllum fannst býsna góður. Ég fékk þá uppskrift úr íslensku blaði, aldrei þessu vant, norðlenska blaðinu Vikudagur. Mér fannst uppskriftin hljóma svo ákaflega spennandi að ég varð bara að prófa hana, þetta var ekki líkt neinu lasagna sem ég hef borðað áður! Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta grænmetislasagna var ofsalega gott og það kom mér á óvart hvað það var matarmikið, mér fannst eins og í því væri mikið meira en bara grænmeti. Elfar var sérstaklega hrifinn af þessum rétti, mér skilst að hann sé búinn að auglýsa hann vel í vinnunni sinni og lofa uppskriftinni á bloggið! 🙂 Kókosflögurnar komu  afar vel út fannst mér, næst ætla ég að setja enn meira af þeim. Það lítur kannski út fyrir að vera mörg hráefni í þessum rétti en ekki láta það hræða ykkur, margt af því er eitthvað sem maður á til. Ég notaði til dæmis það grænmeti sem ég fann í ísskápnum og svo átti ég satt besta að segja allt annað hráefni til fyrir utan kókosmjólk og svo vantaði mig meiri ostrusósu. Þetta var því afar ódýr réttur að útbúa.

Uppskrift

  • 3 msk. olía
  • 1 kg blandað grænmeti, skorið í bita t.d. laukur, paprika, blómkál, spergilkál, baunir, kúrbítur, gulrætur, sætar kartöflur eða hvað sem hver vill
  • lasagneblöð
  • rifinn ostur
  • kókosflögur

Ostrusósa

  •  4 dl ostrusósa (oyster sauce)
  • ½ dl tómatssósa
  • ½ dl sætt sinnep
  • 2 msk. balsamik edik
  • 2 msk. hunang
  • 1 msk. paprikuduft
  • ½ msk karrí
  • 1 tsk. rósapipar
  • 2 msk. rifið engifer
  • 5 hvítlauksgeirar
  • ½ chili aldin

Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað vel.

Kókossósa

  • 300 ml kókosmjólk
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 tsk. múskat
  • salt
  • pipar
  • sósujafnari

Setjið allt nema sósujafnara í pott og hleypið suðunni upp. Þykkið þá sósuna með sósujafnara.

Ofn hitaður í 200 gráður. Steikið grænmetið í olíu á pönnu í ca. 2 mín. Hellið ostrusósunni á pönnuna og látið krauma í aðrar 2 mín. Leggið lasagneblöð í botnin á eldföstu móti. Setjið þunnt lag af kókossósunni yfir lasagneblöðin og dreifið hluta af grænmetinu yfir kókossósuna. Leggið lasagneblöð yfir grænmetið og endurtakið þannig að það verði 3-4 lög af grænmeti. Dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 200°C í 20 mín. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er rétturinn tekinn út og kókosflögum dreift yfir, svo aftur inn í ofninn restina af tímanum. Borið fram með góðu brauði.

Baka með sætum kartöflum


Sætar kartöflur eru í raun alls óskyldar venjulegum kartöflum. Þær eru upprunnar frá Suður Ameríku og hafa verið ræktaðar í nokkur þúsund ár. Þær eru stútfullar af C- og E-vítamíni auk beta-karótíns og eru þar með ríkar af andoxunarefnum. Að auki hafa sætar kartöflur lágan blóðsykurstuðul. En síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar og það er hægt að matreiða þær á margvíslegan hátt. Þessi ljúffenga sætukartöflubaka er það matarmikil að hana er hægt að flokka sem grænmetisrétt og hún passar afar vel sem aðalréttur með góðu salati. En við fyrsta bita þá hugsaði ég samt strax um kalkún! Auðvitað fara sætar karöflur og kalkúnn saman eins og hönd í hanska og þó svo að rétturinn sé á mörkunum að vera of matarmikill til að hægt sé að flokka hann sem meðlæti þá ætla ég samt að prófa hann með kalkún við fyrsta tækifæri. Það tækifæri kemur reyndar fyrr en varir þar sem Elfar og kollegar ásamt mökum halda kalkúnaboð árlega og í ár verður boðið hjá okkur. Þó enn séu rúmir tveir mánuðir í boðið er ég strax farin að skipuleggja í huganum forrétt, meðlæti og eftirétti! 🙂

Uppskrift:

  • 2-3 sætar kartöflur
  • 1 pakki smjördeig, afþýtt
  • 200 gr sýrður rjómi
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • 1/2 tsk salt
  • 1 krukka fetaostur
  • 2-3 msk salatblanda (hnetu- og fræblanda)
  • nýmalaður pipar
  • 4 msk parmesanostur, rifinn
  • 2 msk olía

Hitið ofninn í 200 gráður. Pakkið sætu kartöflunum í álpappír og bakið þær í 40 mínútur eða þar til þær eru næstum bakaðar í gegn. Þar sem ég er óþolinmóð og alltaf í tímaþröng þá skar ég hverja kartöflu í ca. þrjá bita og bakaði þær þannig, þá gat ég stytt bökunartímann. Ef þið notið Findus smjördeig, 5 plötur, þá eru þær afþýddar, lagðar á hveitstráð borð og samskeytin lögð ofan á hvert annað. Deigið er svo flatt út dálítið þannig að það passi í eldfast mót. Fóðrið botn og hliðar á eldfasta mótinu (20×30 cm) með smjördeiginu, látið 3 cm deigkant vera allan hringinn. Blandið sýrðum rjóma, eggi, eggjarauðu og salti saman. Smyrjið blönduna yfir deigið. Afhýðið kartöflurnar, skerið í bita og setjið ofan á blönduna. Sigtið olíuna frá fetaostinum og dreifið honum yfir kartöflurnar. Sáldrið salatblöndu, nýmöldum pipar og parmesanosti ofan á. Penslið deigkantana með olíu. Bakið í um það bil 25 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið. Berið fram með góðu salati.