Grænmetisbollur í kókoskarrísósu með mangó


IMG_6005

*í samstarfi við Hälsans kök“

Ég mun líklega seint gerast grænmetisæta en mér finnst hins vegar rosalega gott að fá mér grænmetisrétti reglulega. Þegar ég var beðin um að búa til uppskrift fyrir grænmetisrétti frá Hälsans kök varð ég mjög spennt fyrir því verkefni því ég þekki vörurnar frá Svíþjóð, þar eru þær mjög vinsælar. Ég bjó til þessa uppskrift úr grænmetisbollunum og var afar hrifin af þeim, virkilega góðar bollur, enda eru þær einna vinsælastar af öllum grænmetisréttunum þeirra. Ég var svo frökk að segja yngstu börnunum fyrst að þetta væru kjötbollur og í kjölfarið borðuðu þau matinn með bestu lyst (sem hefði pottþétt ekki gerst ef þau hefðu vitað að þetta væru grænmetisbollur! 😉 ). Þessi sósa fannst mér líka svo geggjað góð! Mér finnst kókos/karrí alltaf svo gott en þarna prófaði ég í fyrsta sinn að mauka mangó út í. Það gefur einstaklega góða fyllingu í sósuna og góðan sætan keim sem kemur vel heim og saman við kókosmjólk og karrí. Bollurnar smellpassa við þessa sósu.

IMG_5983IMG_5982

Uppskrift (f. 4-5)

  • 600 g grænmetisbollur (bullar) frá Hälsans kök
  • 3 msk ólífuolía
  • 2 msk ferskur engifer, rifinn
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður smátt
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn í sneiðar
  • 400 g brokkolí, skorið í bita
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 200 ml grænmetissoð
  • 1-4 msk rautt karrímauk (fer eftir styrkleika mauksins og smekk)
  • 300 g frosið mangó, afþýtt (eða ferskt)
  • 1 tsk túmerik krydd
  • ca. 1 msk fiskisósa (fish sauce) – má sleppa og nota dálítið salt í staðinn
  • 1 límóna (lime), safinn notaður
  • ferskt kóríander

Grænmetisbollurnar eru hitaðar í ofni eftir leiðbeiningum. Ólífuolían er hituð á pönnu. Engifer, hvítlaukur og chili er steikt upp úr olíunni í 2 mínútur. Þá er karrímaukinu bætt út á pönnuna og hrært vel við fremur háan hita í um það bil 2 mínútur. Því næst er brokkolí og rauðlauk bætt út á pönnuna (ólífuolíu bætt við eftir þörfum) og steikt í smástund. Síðan er kókosmjólk og grænmetissoði bætt við. Látið malla við meðalhita á meðan mangóið er maukað vel í matvinnsluvél. Þá er mangómaukinu bætt út á pönnuna ásamt túmerik kryddi. Látið malla við meðalhita í 10-15 mínútur og smakkað til með fiskisósu og safa úr límónu. Í lokin er grænmetisbollunum bætt út í sósuna. Borið fram með fersku kóríander og hrísgrjónum.

IMG_6002IMG_6020

Geggjuð mexíkósk ídýfa


IMG_5392

Já, ég ætla hreinlega að kalla þessa uppskift ”geggjuð mexíkósk ídýfa” því það lýsir henni langbest! Þegar ég var að undirbúa útskriftarveisluna hennar Óskar þá bauðst Anna Sif vinkona til að gera mexíkóska ídýfu sem hún hafði fengið uppskrift að hjá vinkonu sinni. Ég þáði boðið og skemmst er að segja frá því að þetta var eiginlega sá réttur sem hlaut mestu athyglina á hlaðborðinu. Þessi ídýfa er nefnilega svo geggjað góð að það hálfa væri nóg!! Það báðu eiginlega allir um uppskriftina og ég hef verið á leiðinni að setja hana hingað inn í allt sumar. Í gærkvöldi fór Anna vinkona með þessa ídýfu í boð og hún sendi mér skilaboð í dag um að ég yrði að drífa þessa uppskrift inn á alnetið því það voru allir að missa sig yfir ídýfunni og vantaði aðgang að uppskriftinni. Ég bar ídýfuna fram í Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) en það er líka rosalega gott að bera hana fram með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

Hérna kemur uppskriftin og ég segi það og skrifa, þið verðið elskuð af öllum þeim sem fá að smakka þessa sjúklega góðu ídýfu hjá ykkur! 🙂

IMG_5378

 Uppskrift:

Fyrir meðalstórt eldfast mót

  • 200 g rjómaostur
  • 1-2 dósir (fer eftir stærð mótsins) maukaðar pintóbaunir (refried beans) frá t.d. Old el paso eða Santa Maria
  • 1 krukka jalapeno (ca. 100 g án vökva), minna fyrir mildari ídýfu, saxað smátt
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1/2 bréf af taco kryddblöndu
  • 1 meðalstór rauðlaukur, skorinn smátt
  • ca 300 g rifinn ostur
  • 2 krukkur (fer eftir stærð mótsins) taco sósa
  • ca 200 g (án vökva) svartar olífur , skornar í sneiðar
  • ca. 30 g ferskt kóríander, blöðin söxuð

Rjómaosti er smurt á botn eldfasta mótsins. Þá er niðursoðnu bauninum dreift jafnt yfir rjómaostinn. Jalapeno er saxað smátt og dreift yfir baunirnar. Þá er sýrðum rjóma blandað saman við hálft bréf af taco kryddi og blöndunni dreift yfir jalapenos. Því næst er smátt söxuðum rauðlauk dreift yfir sýrða rjómablönduna. Síðan er rifna ostinum dreift yfir rauðlaukinn. Þá er rifni osturinn þakinn með taco sósu. Því næst er söxuðum svörtum ólífum dreift yfir taco sósuna og loks er söxuðum kóríander blöðum dreift yfir ólífurnar.

Borið fram í t.d. Tostitos skálum (fást yfirleitt í Hagkaup) eða með Kirkland Tortilla chips sem fást í Costco.

IMG_5393IMG_5391

 

Maís- og avókadósalsa


Maís- og avókadósalsaÞessar vikur sem við höfum dvalist í Michigan hefur ekki farið framhjá okkur að mikið er ræktað af maískorni hér í sveitunum. Gott framboð er af ferskum maísstönglum sem þarf bara að taka úr hýðinu og sjóða í örfáar mínútur og þá er komið á borð ljúffengt meðlæti. Það er með ólíkindum hversu góður maísinn er svona nýr og ferskur, hann er ákaflega sætur og bragðgóður, mjög frábrugðinn frosna maísnum sem við fáum aðallega heima á Íslandi svo ekki sé talað um úr dós.

IMG_6653 Það er þó stundum hægt að fá ferskan maís heima á Íslandi og þá mæli ég eindregið með að þið prófið þetta maís- og avókadósalsa sem er afar gott meðlæti með til dæmis öllum grillmat. Í þessari uppskrift er ferski maísinn notaður óeldaður og þá eru maískornin skemmtilega stökk og sæt. Ég held að það væri líka óskaplega gott að nota þetta salsa með góðum flögum líkt og Tostitos Scoops.

Unknown

Uppskrift: 

  • 1 stór, þroskaður avókadó, skorinn í bita
  • 2-3 msk safi af límónum (lime)
  • 2 stórir tómatar (blautasta innvolsið fjarlægt), skornir í bita
  • 2 ferskir maísstönglar
  • ca. 3 vorlaukar, hvíti og græni hlutinn saxað fremur smátt (hægt að skipta út fyrir ca. 1/4 rauðlauk, smátt söxuðum)
  • ca. 1/4 – 1/2 rauður chili, fræhreinsaður og saxaður mjög smátt
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • salt og grófmalaður svartur pipar

Avókadóbitarnir settir í skál og límónusafanum hellt yfir. Þá er tómötunum bætt út í. Hýðið er fjarlægt af maísstönglunum og kornið skorið af stönglunum. Best er að leggja stöngulinn á skurðarbretti og renna beittum hníf meðfram öllum hliðum stöngulsins. Maísinum er því næst bætt út í skálina. Að síðustu er chili bætt út í ásamt kóríander. Smakkað til með salti, pipar og meiri límónusafa ef með þarf.

IMG_6638

Fylltir sveppir


Fylltir sveppirÉg held að fáar þjóðir séu jafn þakklátar fyrir smá sólarglætu og við Íslendingar. Þegar ég bjó í Svíþjóð hneykslaðist ég oft á vanþakklæti Svía þegar kom að veðrinu. Sumrin í Svíþjóð eru dásamleg, bæði löng og hlý. Samt eru Stokkhólmsbúar stöðugt að kvarta yfir því að sumrin þeirra séu stutt, köld og blaut og þeir grínast jafnvel með að það ætti eiginlega ekki að vera byggjanlegt í svona köldu landi. Meðalhitinn í júlí í Stokkhólmi er þó nálægt 22 stiga hita! Þegar talað er um sumarveðrið í Stokkhólmi þá draga Stokkhólmsbúar gjarnan fram þá fáu daga þegar veðrið var ekki gott. Hér á Íslandi bregst það ekki, sama hversu slæmt sumarið hefur verið, alltaf má heyra okkur Íslendingana segja: „Við fengum nú rosalega góða tvo daga þarna snemma í sumar!“ eða eitthvað álíka. Ég ætla nú rétt að vona að þessir tveir dásamlegu sólardagar um helgina verði ekki þessir „tveir góðu dagar“ sem við þurfum að vitna í eftir sumarið! Reyndar munum við fjölskyldan fá okkar skerf af sól og líklega gott betur þar sem að við gerum húsaskipti í heilan mánuð í sumar og dveljum þá í Michigan í Bandaríkjunum en meðalhiti þar í júlí er hvorki meira né minna en 29 gráður.

IMG_5747

Ég átti alltaf eftir að setja inn fleiri uppskriftir frá útskriftarveislunni hennar Óskar. Ég bauð þá upp á meðal annars fyllta sveppi sem voru afar ljúffengir. Þeir eru líka mjög hentugir á smáréttahlaðborð. Ég útbjó þá kvöldið áður og setti beint á ofnplötu með plastfilmu yfir og geymdi í ísskáp. Ég hitaði sveppina svo rétt áður en veislan hófst þannig að þeir voru enn volgir en það er vel hægt að bera þá fram kalda.

Uppskrift (ca. 16 sveppir):

  • 500 g sveppir (gott að velja meðalstóra sveppi, alla svipað stóra)
  • 1.5 msk olía
  • 4 -5  hvítlauksrif, saxaður mjög fínt eða pressaður
  • 1 blaðlaukur, hvíti hlutinn saxaður mjög smátt
  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum (eða annað gott hvítlaukskrydd)
  • 1/4-1/2 tsk cayenne pipar
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • 1 box (200 g) Philadelphia rjómaostur með hvítlauki og kryddjurtum, látið ná stofuhita
  • ca. 50 g rifinn Parmesan ostur

IMG_5672

Ofn hitaður í 175 gráður og ofnplata klædd bökunarpappír. Sveppir hreinsaðir varlega með eldhúspappír og stönglarnir losaðir úr sveppunum. Sveppastönglarnir eru því næst saxaðir mjög smátt og þeir steiktir á pönnu ásamt hvítlauknum og blaðlauknum upp úr olíunni (þess skal gæta að laukurinn brenni ekki). Þegar sveppirnir hafa tekið lit er pannan er tekin af hellunni og látið kólna dálítið. Þá er rjómaosti, helmingnum af parmesan ostinum og kryddum bætt út í og blandað vel saman, smakkað til og kryddað meira eftir smekk. Sveppahöttunum er raðað á ofnplötuna. Hver sveppur er því næst fylltur vel að sveppa/ostablöndunni. Að lokum er afgangnum af rifna parmesan ostinum dreift yfir sveppina. Bakað í ofni við 175 gráður í um það bil 20 mínútur eða þar til sveppirnir byrja að mynda vökva og osturinn hefur brúnast.

IMG_5674IMG_5745

Töfrar indverskrar matargerðarlistar hjá Salti eldhúsi


IMG_0431

Þá er enn ein annasöm en skemmtileg vika þotin hjá. Reyndar var kannski aðeins of mikið að gera hjá mér, ég þurfti að vera í aukavinnunni minni á kvöldin og náði því til dæmis ekkert að blogga eins og mig langaði til. En síðastliðið fimmtudagskvöld fór ég á frábært matreiðslunámskeið hjá Salti eldhúsi. Ég valdi að fara á námskeið í indverskri matargerð og sé ekki eftir því. Kennarinn á námskeiðinu var Shabana Zaman sem á ættir sínar að rekja til Indlands. Hún er ekki bara snillingur í eldhúsinu heldur er hún líka Waldorf-kennari, sjáandi, söngkona, heilari og fleira. Til að gera langa sögu stutta átti ég frábæra kvöldstund við matargerð í góðum félagsskap.

IMG_0485Hápunktur kvöldsins var svo að snæða dásamlega indverska rétti, sem hópurinn bjó til undir handleiðslu Shabana, með góðu hvítvíni og hlusta á Shabana fræða okkur um Indland, indversk krydd og matargerð auk annars fróðleiks. Shabana hefur í mörg ár boðið upp á þá þjónustu að fara á heimili fólks og elda indverskan mat fyrir matargesti. Það er þó ekki það eina sem Shabana gerir því með heillandi persónuleika sínum færir hún matargerðina upp á annað stig með fróðleik, söng og skemmtilega nálgun á heilandi og andleg málefni, hvort sem um er að ræða lækningamátt krydda eða annað.

IMG_0457Hér er Shabana að sýna okkur ákaflega einfalt og gott indverskt brauð sem gott er að dýfa í gómsætu sósurnar.

IMG_0467

Allir að reyna að feta í fótspor Shabana!

IMG_0474 IMG_0476Gott að bera smjör á heitt brauðið

Ég hef aldrei áður farið á námskeið hjá Salti eldhúsi, bara heyrt ótrúlega góðar sögur sem fara af námskeiðunum þar. Núna er ég komin í hópinn með „frelsaða“ fólkinu og get ekki beðið eftir því að komast þangað á annað námskeið! 🙂 Eftir þessa kvöldstund þá veit ég vel hvað það er sem heillar alla sem farið hafa á Salt námskeiðin. Það er í raun ofureinföld jafna sem er samt ekki á færi allra að framkvæma, hún er eftirfarandi; Húsið sem hýsir eldhúsið er sjarmerandi og fallegt. Þar er lögð áhersla á smáatriði, hlýlegt og fallegt umhverfi en ekki síst fullkomna aðstöðu til matargerðar og allt er spikk og span!

IMG_0448Skemmtilegt matarstell sem kemur héðan og þaðan.

Auður Ögn, sem rekur eldhúsið, vakir og sefur greinilega með námskeiðunum sínum, til dæmis eru öll hráefnin sem hún kaupir inn þau bestu og þar er augljóslega hvergi til sparað.

IMG_0424

Ferskt og gott hráefni

Eitt dæmi er að þegar allra dásamlega góðu réttanna, sem matreiddir eru á námskeiðinu, er neytt þá er ekki boðið upp á eitt lítið hvítvínsglas með matnum úr ódýrustu „beljunni“ úr Ríkinu. Nei, Auður sendir inn uppskriftirnar til „sommelier“ (vínþjóns) sem finnur út hvaða vín hæfir matnum best. Á meðan námskeiðinu stendur er boðið upp á bjór og með matnum er svo boðið upp á besta vínið sem hæfir matnum hverju sinni og fyllt á glösin að vild! Vatnið er borið fram í fallegum flöskum með hindberjum og myntu. Þegar mætt er á námskeiðið er boði upp á girnilegar veitingar –  þetta eru svona smáatriði sem skipta svo miklu máli.

IMG_0488

Á meðan námskeiðinu stendur þá er Auður sjálf á staðnum, auk kennarans, og sér til þess að allt gangi vel og stjanar í kringum alla og auk þess er stúlka sem sér um allt uppvask. Ég skoðaði að gamni umsagnir útlendinga (Salt eldhús er með námskeið í íslenskri matargerð fyrir erlent ferðafólk) um Salt eldhús á Trip advisor og það kom ekki á óvart að þar gefa allir námskeiðunum fullt hús stiga og segja gjarnan að þessi kvöldstund hafi verið hápunktur Íslandsferðarinnar. Mér finnst alltaf svo magnað þegar maður hittir fyrir fólk sem tekur sér eitthvað fyrir hendur og gerir það svona 100% eins og Auður hjá Salti eldhúsi! 🙂

IMG_0497

Auður Ögn, Shabana og ég

Allir réttirnir þetta kvöld voru dásamlega góðir. Nokkrir heilluðu mig þó aðeins meira en aðrir. Það var meðal annars Korma kjúklingurinn, blómkáls- og kartöflurétturinn auk dásamlegs banana- og gúrkusalats. Ég hef einmitt oft boðið upp á niðursneidda banana og ristað kókos með indverskum mat en ekki búið til salat úr því áður en það er dásamlega gott meðlæti með svona indverskum mat. Shabana var svo góð að leyfa mér að deila þessum frábæru uppskriftum með ykkur.

IMG_0483

Nokkur atriði sem Shabana lagði áherslu á var meðal annars að þegar ferskur chili pipar er í uppskriftum þá þarf að smakka aðeins á honum til að vita styrkleikann, hann getur verið mjög misjafn (minnkar því eldri sem chili piparinn verður). Einnig er mikilvægt að nota góð krydd, til dæmis sagði hún að hægt væri að treysta gæði kryddana frá Pottagöldrum. Í þriðja lagi er mikilvægt að prófa sig áfram með magn kryddana, þó gefið sé upp ákveðið magn af kryddi er best að byrja með fremur lítið en mikið og bæta frekar við, þetta á sérstaklega við um sterk krydd eins og chili og cayanne pipar.

Korma kjúklingur:

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri eða kjúklingalundir, skornir í bita
  • olía til steikingar
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4-5 cm bútur engifer
  • 8 stórir hvítlauksgeirar
  • 2 laukar, saxaðir smátt
  • 1/2 bolli AB-mjólk
  • 4 msk kasjú-hnetur, malaðar í duft í matvinnsluvél eða í morteli
  • salt eftir smekk

Kryddblanda:

  • 2 msk kóríander duft
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk turmerik (gætið þess að liturinn í turmerik smitast og festist auðveldlega)
  • 1 tsk Garam Masala
  • 1 tsk chiliflögur eða duft
  • 1 tsk svartur pipar

Kryddunum er blandað vel saman. Sett í matvinnsluvél ásamt engifer, hvítlauk og 1 dl vatni og maukað.

Olía er hituð á pönnu og laukurinn mýktur á pönnunni við meðalhita þar til hann hefur tekið lit (ca. 10 mín). Þá er kryddblöndunni hellt út á pönnuna og henni velt saman við laukinn í ca. 5 mínútur. Gott er að bæta við góðri slettu af olíu þannig að kryddblandan brenni ekki við pönnuna. Þá er kjúklingabitunum bætt út á pönnuna og þeir brúnaðir í nokkrar mínútur. Því næst er tómötunum og AB-mjólk bætt við, öllu blandað vel saman og látið malla í ca. 20 mínútur. Þá er kókosmjólkinni og kasjú-hnetudufti bætt út í og látið malla í 20-30 mínútur þar til sósan er orðin þykk og góð, því lengri tíma sem henni er gefið því betri verður hún. Saltað eftir smekk.

Borið fram með hrísgrjónum, naanbrauðiraita sósu og banana og gúrkusalati.

IMG_0499

Banana- og gúrkusalat (Khera kachumber)

  • 3 meðalstórir vel þroskaðir bananar, skornir í tenginga
  • 1/2 stór agúrka, skorin í tenginga
  • 1/2 grænn chili pipar (eða eftir smekk), saxað smátt
  • 25 g gróft malaðar hnetur
  • 1-2 tsk kókos
  • 1/2 – 1 tsk sykur
  • 1-2 tsk sítrónusafi
  • salt eftir smekk

Banönum og gúrku blandað ásamt restinni af hráefnunum. Borið fram kalt og fallegt er að strá yfir salatið kókos áður en það er borið fram.

Ef margir eru í mat er ekki verra að hafa þennan blómkáls- og kartöflurétt með ofantöldum réttum með á borðum.

IMG_0436

Blómkáls- og kartöfluréttur: 

  • 1 lítill blómkálshaus (líka hægt að nota 1 stórt eggaldin
  • 300 g kartöflur
  • olía til steikingar
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk ristuð og mulin cummin-fræ
  • 1 msk heil cummin fræ
  • 1 tsk kóríander krydd
  • 1 tsk turmerik
  • 1/2 tsk cayennepipar (gott að byrja á minna magni og auka eftir smekk)
  • 1 grænt chilialdin, fræhreinsað og saxað fínt (hægt að nota minna magn)
  • salt og pipar eftir smekk
  • ferskt kóríander

Kartöflurnar eru soðnar (gæta þess að ofsjóða þær ekki) látnar kólna, skrældar ef þarf og svo skornar í bita. Blómkálshausinn er skorinn í meðalstóra bita.

Kryddin eru tekin til í lítinn bolla eða skál að heilu cummin fræjunum undanskildum. Ristuðu og muldu cummin fræin eru útbúin. Cummin fræin eru ristuð á þurri pönnu þar til þau byrja að dekkjast,  því næst eru þau mulin í morteli eða með hnífsskafti.

Olía er hituð á pönnu og heilu cummin fræin eru sett á pönnuna. Því næst er blómkálinu strax bætt við og steikt í nokkrar mínútur, gætið þess að hafa næga olíu þannig að blómkálið brenni ekki. Þá er öllum kryddunum bætt út í ásamt chili piparnum, saltað og piprað. Kartöflunum er bætt við, hitinn lækkaður og allt steikt saman í nokkrar mínútur til viðbótar, hrært í reglulega. Borið fram með fersku kóríander.

IMG_0482

Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósu


Lax með pecanhnetusalsa, blómkálsmús með chili og sojasmjörsósa

Mikið var nú dásamlegt að sjá aftur heiðan himinn og sól! Mér líður eins og að þetta hafi verið fyrsti sólardagurinn hér í Reykjavík í júní – sannarlega kominn tími til! Eftir vinnu í dag komst ég loksins í garðvinnuna en hún hefur setið á hakanum í rigningunni undanfarnar vikur. Á meðan ég rótaði í moldinni var ég að hugsa um kvöldmatinn. Veðrið bíður jú upp á að grilla úti. Ég ákvað því að koma við í fiskbúðinni og skoða úrvalið. Þegar þangað var komið leist mér best á laxinn. Allt í einu mundi ég eftir því að ég ætlaði alltaf að prófa að nota lax í þorskuppskriftinni með pistasíusalsanu, en það er ein af vinsælustu uppskriftunum hér á síðunni. Ég ákvað því að nota þau hráefni sem ég átti til og gera aðra útfærslu af þorskuppskriftinni góðu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að grilla laxinn en ákvað að setja hann frekar í ofn til þess að hnetusalsað myndi brúnast. Í stað þess að gera sætkartöflumús gerði ég blómkálsmús með chili og Philadelphiaosti með sweet chili, rosalega var hún góð! Sojasmjörsósan er algjört sælgæti og lyftir öllum fiski á annað plan. Í stað þess að nota pistasíur notaði ég pecanhnetur sem komu afar vel út. Ef þið hafið prófað þorskuppskriftina og líkaði vel þá hvet ég ykkur til þess að prófa þetta hnossgæti!

Blómkálsmús

  • 1 stór blómkálshaus
  • 1/2 rautt chili, fræhreinsað
  • ca. 1 msk smjör
  • 1/2 líter nýmjólk (líka hægt að nota rjóma eða blanda saman mjólk og rjóma)
  •  ca. 100 g Philadelphia ostur með sweet chili
  • salt og pipar
  • chili krydd (ég nota kryddið Chili Explosion frá Santa Maria, það er með chili, papriku og sólþurrkuðum tómötum)

IMG_0505

Blómkálið er skorið niður í passlega stór blóm. Chili er klofið í tvennt og fræhreinsað. Mjólkin er sett í pottt og blómkálið ásamt chilinu er soðið í mjólkinni við vægan hita í ca. 10 mínútur eða þar til blómkálið er orðið nægilega vel soðið til þess að hægt sé að stappa það með kartöflustöppu. Þá er mjólkinni hellt af og blómkálið  stappað fínt með smjöri, philadelphia ostinum og bragðbætt með salti, pipar og vel af chili kryddi (það gefur svo gott bragð af annars bragðmilda blómkálinu).

IMG_0508

Lax með pecanhnetusalsa:
  • ca  800 g lax
  • salt og pipar (ég notaði blóðbergs salt frá Saltverki)
  • 3-4 msk pecanhnetur, saxaðar meðalgróft
  • 2-3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu
  • 1 msk olífuolía
  • fersk kóríander eða steinselja, söxuð

Ofninn hitaður í 220 gráður. Laxinn er lagður á ofnplötu klædda bökunarpappír eða í eldfast mót. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pecanhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju eða kóríander og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.

IMG_0489

 Sojasmjörsósa

  • 150 g smjör
  • 2 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
  • 2 hvítlauksrif, söxuð fínt
  • 1 tsk rautt chili, saxað fínt
  • 4-5 msk sojasósa
  • 2 msk steinselja, söxuð smátt

IMG_0500

Svona lítur brúnað smjör út, froðuna þarf að veiða af því

Smjör brætt í potti og látið krauma fremur vægt í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt (þetta kallast brúnað smjör). Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram.

IMG_0510

IMG_0517

Njótið helst með köldu hvítvínsglasi! 🙂

IMG_0524

Quesadillas


Quesadillas

Núna er ég komin í sumarfrí frá aðalvinnunni minni en þá hittist þannig á að það er brjálað að gera í aukavinnunni minni. Síðastliðinn föstudag tók ég fjórtán tíma vinnutörn og henni er ekki lokið enn. Það dregst því að ég geti notið sumarfríisins. En um helgina var ég allavega í fríi og gerði margt skemmtilegt. Í gær fórum við í glæsilega fermingaveislu og seinna um daginn var Símon „litli“ bróðir minn með útskriftarveislu. Þessi snillingur er kominn með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði.

Simon

Klára og myndarlega verkfræðingaparið, Bryndís og Símon og girnilegar veitingar í veislunni þeirra.

Þar með erum við öll þrjú systkinin orðnir meistarar! 😉 Guðjón bróðir er nefnilega með meistaragráðu í hugbúnaðarverkfræði og ég í bókasafns- og upplýsingafræði. Ég gerði einn rétt fyrir útskriftarveisluna hjá Símoni bróður, quesadillas. Þessar fylltu mexíkósku pönnukökur eru afar sniðugar í veislur og partý. Það er hægt að gera svo margar mismunandi fyllingar, það er fljótlegt að útbúa þær og síðast en ekki síst eru þær afar bragðgóðar.

Simon1

Ég prófaði annars vegar að leggja eina pönnuköku ofan á aðra og hinsvegar að setja fyllingu öðrum megin á pönnukönuna og loka henni með því að brjóta hana saman. Hið síðarnefnda var einfaldara því þá komust fleiri pönnukökur á bökunarplötuna, eins helst fyllingin betur í pönnukökunni. Gott er að bera quesadillurnar fram á meðan þær eru enn heitar en þær eru samt ekkert síðri orðnar kaldar.

IMG_0390Það er hægt að leggja tvær tortillur saman og skera síðan í átta bita en mér fannst best að brjóta eina saman og skera hana svo í fjóra bita. 

Ég gerði nokkrar tegundir af quesadillas að þessu sinni. Sumt hafði ég skipulagt fyrirfram, annað kom að sjálfu sér útfrá því sem ég átti til í ísskápnum. Hér gef ég uppskriftir að helstu tegundunum.

IMG_0680

Quesadillur í bígerð – tekið af Instagram

Quesadillas með gullosti og mango chutney

  • Gullostur
  • mango chutney
  • tortillas pönnukökur

IMG_0382Hér setti ég fyllingu á alla pönnukökuna og svo aðra yfir

Pönnukakan er smurð með mango chutney, gott að skera mangóbitana í minni bita. Því næst er Gullosturinn skorinn í sneiðar og þeim raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Þá er henni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0427

Quesadillas með mozzarella, basiliku og tómötum

  • Mozzarellaostur (kúlan í bláu pokunum)
  • fersk basilika
  • tómatar
  • svartur grófmalaður pipar
  • tortillas pönnukökur

IMG_0466

Mozzarellakúlan er sneidd í fremur þunnar sneiðar og raðað á annan helming pönnukökunnar. Þá eru tómatarnir skornir í tvennt og kjötið hreinsað innan úr þeim (það er ekki notað, vökvinn verður of mikill). Það sem eftir verður er skorið í lita bita og dreift yfir mozzarella ostinn. Þá er basilikan söxuð og dreift yfir að lokum ásamt dálitlum pipar. Þvi næst er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

Quesadillas með steiktum sveppum, steinselju, rifnum mozzarellaosti og parmesan

  • sveppir
  • grænmetiskraftur
  • salt og svartur pipar
  • fersk blaðasteinselja, söxuð smátt
  • smjör til steikingar
  • rifinn mozzarellaostur eða gratínostur
  • ferskur parmesan ostur, rifinn
  • tortilla pönnukökur

IMG_0393IMG_0395

Sveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir upp úr smjör á pönnu, kryddaðir með salti, pipar, ferskri steinselju og grænmetiskrafti. Þegar sveppirnir eru mátulega steiktir eru þeir veiddir af pönnunni og fitan látin leka af þeim. Því næst er þeim dreift yfir annan helminginn á pönnukökunni. Rifnum mozzarellaosti og parmesan osti er dreift yfir sveppina. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0406

Quesadillas með pestó, skinku, parmesan, basiliku og rifnum mossarellaosti

  • Pestó að eigin vali, ég notaði pestó með valhnetum og papriku frá Jamie Oliver (fæst allavega í Krónunni) – má líka sleppa og nota bara neðangreint hráefni
  • reykt skinka
  • parmesan ostur, rifinn
  • rifinn mozzarella ostur eða gratínostur
  • tortilla pönnukökur
  • ferskt basilika (eða blaðasteinselja), saxað smátt

IMG_0399

Pönnukakan er smurð með pestóinu (má líka sleppa). Því næst er skinkan skorin í bita og henni raðað fremur þétt á annan helminginn á pönnukökunni. Að lokum er rifnum mozzarellaosti og rifnum parmesan osti ásamt basiliku (eða blaðasteinselju) dreift yfir skinkuna. Þá er pönnukökunni lokað og hún sett á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0403

Quesadillas með fetaosti, svörtum ólífum og chili

  • 1/2 rautt chili
  • ca 100 gr mozzarella ostur, rifinn
  • 50 g fetaostur
  • ca. 12 svartar ólífur
  • ca. 1 1/2 msk ferskt kóríander, saxað
  • 2 -3 tortillur

IMG_0387

Þar sem búið er til mauk úr þessari fyllingu gef ég upp nákvæmari mælieiningar á hráefnunum hér en fyrir hinar fyllingarnar. Fræhreinsið og saxið chili-aldinið og setjið það í matvinnsluvél ásamt mozzarella osti, fetaosti, ólífum og kóríander og látið vélina ganga þar til allt er orðið að grófgerðu mauki. Einnig má saxa allt smátt og hræra saman í skál. Ostamaukinu er skipt jafnt á tvær eða þrjár tortillur og þær lagðar saman. Tortilla pönnukökurnar eru settar á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Hitað í ofni við 200 gráður undir- og yfirhita (190 gráður blástur). Álpappír er lagður yfir pönnukökurnar fyrstu 5 mínúturnar. Þá er álpappírinn tekinn af og bakað áfram í 5-6 mínútur. Quesadillunum er síðan leyft að kólna aðeins, þá eru þær skornar í fernt.

IMG_0412

 

Kartöflusalat án kartaflna


IMG_9727

Ég skrifaði um daginn að ég hefði haldið matarboð sem hentaði fyrir þá sem eru í lágkolvetnis lífsstílnum, LKL. Mig langaði að búa til gott kartöflusalat með grillsteikinni en kartöflur eru ekki leyfilegar í LKL. Ég gerði því kartöflusalat án kartaflna, notaði kúrbít í staðinn. Það kom ákaflega vel út, kúrbíturinn er auðvitað ekki með sömu áferð og kartöflur en getur samt vel komið í stað t.d. kartaflna í kartöflusalat eða í stað lasagnaplatna í lasagnaréttinn. Það er auðvitað hægt að nota hvaða kartöflusalats uppskrift sem er og skipta bara út kartöflum fyrir kúrbít en hér er uppskriftin sem ég notaði.

Uppskrift:

  • 1 stór kúrbítur Unknown
  • 1/2 púrrlaukur
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 0,5 dl majónes
  • 0,5 msk dijon sinnep
  • 1 msk capers (kemur frá mismunandi framleiðendum en lítur um það bil svona út eins og á myndinni     →
  • Salt & svartur pipar

Kúrbíturinn er afhýddur og skorinn í teninga. Púrrlaukurinn er saxaður fínt. Hvor tveggja er því næst steikt upp úr smjöri þar til kúrbíturinn hefur mýkst dálítið, látið kólna. Capers er saxað og blandað við sýrðan rjóma, majónes og sinnep. Því næst er kúrbítsblöndunni hrært út í og smakkað til með salti og pipar.
IMG_9725

Ofnbakað eggaldin með tómötum og osti


IMG_9744

Dásamlega löng og notaleg helgi er að lokum komin. Hápunktur helgarinnar var að sjálfsögðu Euorvision keppnin þar sem Eyþór og félagar voru okkur til mikils sóma! 🙂 Við fengum matargesti og hér var Eurovision veðmál tekið mjög alvarlega. Keppt var í yngri og eldri flokki þar sem yngri flokkurinn keppti um sælgætispott en sá eldri keppti um léttvínspott!

IMG_9747

Eftirsóttur pottur! 

IMG_9750

Hluti af hópnum, allir spenntir og tilbúnir með listann (börnin mín urðu auðvitað að gretta sig framan í myndavélina)!

IMG_9752

Smá vínsopi til að kynda undir keppnisskapið!

IMG_9787

Katla var alveg með’etta og vann nammipottinn! 

IMG_9795

Sigurjón var ekki bara með topplistann á hreinu heldur giskaði hann líka rétt á í hvaða sæti Ísland myndi lenda! Ég læt hann velja lottó-tölurnar mínar næst! 🙂

Hluti af gestunum er á LKL mataræði, eða lágkolvetnis lífsstíl. Mér fannst spennandi að finna matrétti sem pössuðu inn þetta mataræði. Í aðalrétt var ég með grillaða sirloin nautasteik, beint af býli, dásamlega gott og meyrt. Meðlætið var bearnaise sósa, sveppasósa, falskt kartöflusalat (með kúrbít), ferskt salat, ofnbakað eggaldin með tómötum og osti auk kartaflna fyrir ekki LKL-ista! Í eftirrétt var súkkulaðifrauð sem passar fyrir LKL. Snakkið var grænmeti og ídýfa, saltaðar Macadamia hnetur en þær hafa lágt kolvetnisinnihald (fást í Kosti), heimatilbúið snakk úr parmesan osti og fleira. Uppskriftirnar af öllum framantöldu munu koma inn á síðuna næstu daga. Ég ætla að byrja á ofnbökuðu eggaldin með tómötum og osti. Frábærlega einfalt og gott meðlæti sem hentar fyrir alla, hvort sem þeir eru á LKL eða ekki! 🙂 Minnir dálítið á þetta meðlæti sem er dásamlega gott líka.

Uppskrift:

  • 2 eggaldin, skorin langsum í skífur
  • 1 tsk salt
  • 2-3 msk olífuolía
  • 4 þroskaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 1 knippi sléttblaða steinselja, söxuð smátt
  • 1-2 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • rifinn mozzarellaostur, ca 60 g
  • salt og nýmalaður svartur pipar

IMG_9713

Ofn hitaður í 200 gráður, undir- og yfirhita. Eggaldinskífurnar eru lagðar á bretti og saltinu dreift yfir þær. Það er látið liggja á í ca. 10 mínútur til að draga úr beiskjunni í eggaldinu. Þá er vökvinn sem myndast hefur á yfirborðinu, ásamt saltinu, þerraður með eldhúsrúllublöðum. Eggaldin skífurnar eru því næst steiktar upp úr olíu á pönnu þar til þær eru mjúkar. Svo eru þær lagðar í eldfast mót, helst sem minnst ofan á hvor aðra.  Tómatarnir eru steiktir á pönnu í olífuolíu, steinselju og hvítlauk bætt við og leyft að malla um stund. Þá er rifna ostinum bætt út í tómatblönduna og blandað saman þar til osturinn er bráðnaður. Pannan er þá tekin af hellunni og kryddað með salti og pipar. Blöndunni er svo dreift yfir eggaldinið og bakað í miðjum ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur.

IMG_9728

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati


Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati

Nú er maí runninn upp og grilltímabilið hafið. Reyndar grillum við allt árið en auðvitað sérstaklega mikið á sumrin. Við bjuggum í blokk öll þau fimmtán ár sem við bjuggum í Stokkhólmi. Svíar eru með þær reglur að það megi ekki grilla á svölum í blokkum. Svíar eru ekki bara regluglaðir heldur framfylgja þeir alltaf reglunum líka! Einu skiptin sem við grilluðum á Svíþjóðarárunum var í heimsóknum á Íslandi eða kannski í lautarferðum í Stokkhólmi á einnota grillum. Okkur datt ekki í hug að brjóta reglurnar, svoleiðis gera Svíar bara ekki! Ég finn að ég er mjög vel uppalin þegar kemur að öllum reglum, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eftir að hafa búið lungann úr fullorðinslífi mínu í Svíþjóð. Ég myndi aldrei leggja ólöglega, ganga á grasi sem ekki mætti ganga á, standa vinstra meginn í rúllustiga eða neitt þvíumlíkt! 🙂 Það er svo mikill samfélagslegur agi í Svíþjóð. Til dæmis hendir enginn rusli á gólfið í bíóum í Svíþjóð og ef einhver myndi taka upp á slíku þá myndi sá hinn sami uppskera reiðileg augnaráð og skammir annarra bíógesta. Stundum finnst mér nóg um agaleysið hér á Íslandi en oft finnst mér líka léttir að vera laus við agann … ég hendi samt aldrei rusli á gólfið í bíó! 😉

Fyrsta verk okkar þegar við fluttum til Íslands, eftir fimmtán ára sænskt grillbann, var að kaupa stórt Weber grill. Það gerðum við meira að segja áður en við fluttum inn í húsið okkar! Við grillum bæði fisk og kjöt og notum líka mikið grillgrind til þess að grilla grænmeti í. Stundum grillum við sætar kartöflur, þær eru svo ofsalega góðar! Ókosturinn við sætar kartöflur eru að þær eru svo stórar og þykkar, það tekur langan tíma að grilla þær og þá vilja þær brenna. Þetta leysi ég með því að forsjóða kartöflurnar. Þá þarf bara að grilla þær örstutt en samt kemur góða grillbragðið.

Uppskrift:

  • 2 sætar kartöflur
  • ca. 1 tsk Saltverk salt eða maldon salt
  • hýðið af einni límónu (lime) rifið fínt
  • góð olía
  • grófmalaður svartur pipar
  • klettasalat

Sætu kartöflurnar eru þvegnar og skrúbbaðar mjög vel. Því næst eru þær skornar í ca. 1.5 cm þykkar sneiðar (með hýðinu á). Vatn er sett í stóran pott og suðan látin koma upp og kartöflusneiðarnar soðnar þar til þær eru hér um bil tilbúnar, í ca. 7-10 mínútur. Það þarf að gæta þess að sjóða kartöflurnar frekar minna en meira þannig að þær verði ekki lausar í sér. Því næst eru þær snöggkældar undir köldu vatni.
Karöflurnar eru þá penslaðar með olíu og kryddaðar með salti og pipar. Svo eru þær grillaðar á meðalheitu grilli í ca. 2 mínútur á hvorri hlið eða þar til það eru komnar góðar grillrenndur á sneiðarnar. Í lokin er limehýðinu og salti dreift yfir kartöflurnar. Hluti af klettasalatinu er lagt á disk, sætu kartöflusneiðunum raðað ofan á og að lokum er restinni af klettasalatinu dreift yfir.

Grillaðar sætar kartöflur með lime og klettasalati